Mál nr. 47/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 47/2025
Miðvikudaginn 12. mars 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 21. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2024 um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 2. apríl 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. maí 2024, var samþykkt að greiða kæranda uppbót til bifreiðakaupa. Kærandi fékk greidda uppbót í júní 2024. Kærandi sótti á ný um styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 26. september 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. október 2024, var umsókn kæranda um breytingu á fyrirliggjandi hreyfihömlununarmati synjað með þeim rökstuðningi að nýtt læknisvottorð breytti ekki því mati. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir framangreindri ákvörðun þann 22. október 2024 sem var veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. október 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. janúar 2025. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2025, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. febrúar 2025. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. febrúar 2025 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 2025. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi sótt um bifreiðastyrk á árinu 2024 og hafi fengið 500.000 kr. samþykkt. Kærandi hafi farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum sem settar hafi verið, hann hafi fengið tíma hjá lækni og hafi fengið vottorð en hafi svo fengið svar frá úthlutunarnefnd að þeir tækju ekki við því vottorði þar sem að þeir hefðu annað. Skrítið að hann hafi samt þurft að eyða tíma í að sækja um það. Kæranda hafi fundist það einkennilegt og hafi því sótt um viðbótarstyrk þar sem að maður fái ekki bifreið fyrir þessa fjárhæð. Kærandi hafi sent nýtt vottorð en sagan hafi endurtekið sig og því hafi verið neitað. Kærandi hafi farið fram á rökstuðning og hafi fengið að vita að það væri ekki nóg að ganga við staf.
Um svipað leyti hafi tveir aðilar sótt um bílastyrk og hafi fengið tvær milljónir og meira. Annar aðilinn hafi farið og fengið vottorð. Sá hafi sagst nota göngustafi þegar hann væri að ganga utan vega og á fjöll. Læknirinn hafi merkt við hækjur og tvær milljónir í styrk. Þessi aðili hafi ekki notað hækjur. Hinn aðilinn hafi farið til læknis á hækjum. Hann hafi verið að koma úr aðgerð á hné og hafi nýtt sér aðstöðuna og merkt við að hann væri með hækjur. Svo hafi kærandi komið og hann noti göngustaf vegna þess að hann sé með ónýt hné. Kærandi sé með lélegt bak, sé með krabbamein í blöðru og geti gengið að hámarki 100 metra en þurfi þá að stoppa vegna verkja í hnjám og bólgu. Í vor hafi kærandi farið í aðgerð á báðum öxlum vegna slits og bólgu. Kærandi og læknir hans séu heiðarlegir. Kærandi sé mjög ósáttur við ákvörðunina því það sé eins og manni geti ekki versnað. Þess sé óskað að málið verði skoðað og honum verði veittur auka styrkur eða að hann fái að sækja aftur um. Kærandi hafi keypt bíl og skuldi í honum eina milljón og sjái ekki fram á annað en þurfa að selja hann og kaupa sér „druslu“ sem hann muni svo þurfa að eyða hundruðum þúsunda í.
Í athugasemdum kæranda frá 20. febrúar 2025 kemur fram að eftir lestur greinargerðar Tryggingastofnunar þá sé það hans mat að hann eigi rétt á meiru. Kærandi þurfi bifreið sem hann geti sest inn í en ekki niður í þar sem kærandi eigi mjög erfitt með að hífa sig upp úr bifreiðinni vegna ónýtra hnjáa. Slík bifreið kosti meira en það sem hann hafi fengið.
Farið sé fram á að litið verði lengra fram í tímann en bara einn dag í einu því ekki muni kærandi skána, undanfarin ár hafi honum versnað mikið. Ef Tryggingastofnun samþykki þetta ekki sé farið fram á að stofnunin útvegi honum búnað til að komast upp úr og ofan í bifreið sem þurfi að setjast í. Kærandi kveðst vona að það séu lærðir sérfræðingar í bæklunarlækningum sem úrskurði í máli hans.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. október 2024, um synjun umsóknar um bifreiðamál.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrksþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 3. mgr. komi fram að heimilt sé að greiða styrkt til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.
Í 4. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerðinni skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
Við matið skuli einkum litið til eftirfarandi atriða:
„1. Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.
2. Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.
3. Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttinindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.
4. Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.“
Í 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerðinni.
Í 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður.
Í 9. gr. reglugerðarinnar sé svo að finna ákvæði er varði versnun á sjúkdómsástandi. Fram komi að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót vegna 6. gr. og sjúkdómsástand hans hafi versnað þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks.
Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 2. apríl 2024, og meðfylgjandi hafi verið læknisvottorð vegna hreyfihömlunar, dags. 5. apríl 2024. Með bréfi Tryggingstofnunar, dags. 10. maí 2024, hafi verið samþykkt að veita uppbót til kaupa á bifreið. Í júní 2024 hafi kærandi fengið greidda uppbót vegna kaupa á bifreið að fjárhæð 500.000 kr.
Kærandi hafi sótt aftur uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 26. september 2024. Meðfylgjandi hafi verið nýtt læknisvottorð vegna hreyfihömlunar, dags. 9. október 2024. Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi, dags. 15. október 2024, á þeim grundvelli að í gildi væri hreyfihömlunarmat sem styðji veitingu uppbótar til kaupa á bifreið.
Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi 22. október 2024 sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 29. október 2024.
Þann 21. janúar 202 hafi ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á hreyfihömlunarmati verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Við mat á hreyfihömlun sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Með umsókn um bifreiðastyrk, dags. 26. september 2024, hafi fylgt læknisvottorð vegna hreyfihömlunar, dags. 9. október 2024. Í læknisvottorðinu komi fram að kærandi sé með Slitgit, ótilgreinda (M19.9), Chronic obstructive pulmonary disease, unspecified (J44.9) og Spinal stenosis (M48.0+). Fram komi að hann geti að jafnaði gengið minna en 400 m á jafnsléttu. Spurningu um mat á því hvort göngugeta kæranda verði óbreytt næstu tvö árin, sé svarað neitandi. Merkt sé við að kærandi noti „önnur“ hjálpartæki en hjólastól eða tvær hækjur. Fram komi í rökstuðningi að kærandi geti lítið gengið vegna verkja í hnjám og ökklum og þurfi oft að nota staf þegar hann sé á ferðinni. Þá komi fram að hann sé með þrengingu við mænu og verði fljótt móður við gang. Varðandi batahorfur, þá komi fram að honum muni versna. Í niðurstöðum vottorðsins segi:
„Með slitgigt í hnjám og ökklum. Verið sprautað. Er rætt um að skipta um hné en talin fullungur í það. Hann er með Spinal stenosis. Hann er með krónsískan bronchitis og verið að fá tíðar versnanir.“
Með bréfi, dags. 15. október 2024, hafi umsókn um bifreiðastyrk verið synjað. Fram komi að í gildi væri hreyfihömlunarmat sem styðji veitingu uppbótar til kaupa á bifreið og framlagt vottorð myndi ekki breyta því mati.
Óskað hafi verið eftir rökstuðningi vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar, dags. 22. október 2024. Fram kom í rökstuðningi Tryggingastofnunar:
„Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.
Viðbótarskilyrði vegna styrks er t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn í hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri.
Við mat á hreyfihömlun þann 15. október 2024 lá fyrir læknisvottorð B dags. 09.10.24. Fram komu upplýsingar um slitgigt í hnjám og ökklum auk hryggþröngvar. Einnig var getið um lungnasjúkdóm. Þá sagði: „þarf oft að nota staf þegar er á ferðinni.“
Á þessum forsendum hafi skilyrði um hreyfihömlun verið talin uppfyllt sem fyrr en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks.
Skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir veitingu uppbótar vegna kaupa á bifreið, á þeim forsendum að göngugeta sé undir 400 metrum, en kærandi hafi fengið greidda uppbót til kaupa á bifreið, dags. 27. júní 2024. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 5. apríl og 9. október 2024.
Með umsókn, dags. 26. september 2024, hafi kærandi sótt um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Einnig hafi verið merkt við á umsókn að óskað væri eftir endurskoðun á fyrra hreyfihömlunarmati þar sem versnun á færni sé til staðar hjá kæranda. Við yfirferð málsins hafi réttur kæranda til styrks skv. 7 gr. reglugerðarinnar verið skoðaður. Þegar veittur sé styrkur skv. 7. gr. þurfi skilyrði að vera til staðar um að umsækjandi sé verulegar hreyfihamlaður t.d. bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri. Í læknisvottorði komi fram að kærandi sé með slitgigt í hnjám og ökklum, hryggþröngvar og lungnasjúkdóm. Í gögnum með kæru hafi verið myndir af göngustöfum, staf og hækju en fram hafi komið í læknisvottorði varðandi hjálpartæki að kærandi þurfi oft að nota staf þegar hann sé á ferðinni.
Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar skv. 6. gr. reglugerðarinnar en ekki styrk skv. 7. gr. reglugerðarinnar. Eftir yfirferð á gögnum málsins sé ekki hægt að sjá að kærandi sé verulega hreyfihamlaður í þeim skilningi sem lagður sé í 7. gr. reglugerðarinnar, þ.e. sé sambærilega hreyfihamlaður og einstaklingur sem sé bundinn hjólastól eða þurfi tvær hækjur að staðaldri. Samkvæmt framangreindum upplýsingum hafi skilyrði um hreyfihömlun verið talin uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks.
Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Í gildi sé hreyfihömlunarmat sem styðji veitingu uppbótar til kaupa á bifreið. Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun um að synja kæranda um styrk til kaupa á bifreið, skv. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021, hafi verið samkvæmt gildandi reglum. Fari Tryggingastofnun því fram á staðfestingu á ákvörðun sinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
[…]
Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er líkamleg hreyfihömlun skilgreind á eftirfarandi máta:
„Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“
Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa að fyrir liggi mat sem staðfesti hreyfihömlun.
Þá er í 7. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Svohljóðandi er 1. mgr. þeirrar greinar:
„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.“
Í máli þessu liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hefur samþykkt að forsendur séu til staðar til þess að fá greidda uppbót vegna kaupa á bifreið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Til skoðunar kemur hvort skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar um að einstaklingur þurfi að vera verulega hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir af orðalagi reglugerðarákvæðisins að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrðið um að teljast verulega hreyfihamlaður beri að horfa til þess hvort viðkomandi sé bundinn hjólastól og/eða þurfi að notast við tvær hækjur að staðaldri. Upptalning á hjálpartækjum er þannig tiltekin í dæmaskyni til skýringar á því hvað átt sé við með verulegri hreyfihömlun. Sú túlkun er einnig í samræmi við orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en þar er veiting styrks til bifreiðakaupa ekki bundin því skilyrði að umsækjandi þurfi að nýta sér hjálpartæki. Það er því ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir hins vegar af orðalagi reglugerðarákvæðisins að viðkomandi verði að vera hreyfihamlaður til jafns við þá sem hafa þörf fyrir framangreind hjálpartæki að staðaldri.
Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun séu uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 9. október 2025, þar sem fram koma eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:
„Slitgigt, ótilgreind
Chronic obstructive pulmonary disease, unspecified
Spinal stenosis“
Merkt er við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu en að göngugeta verði að öllum líkindum ekki óbreytt næstu tvö árin. Merkt er við „annað“ um hjálpartæki sem kærandi noti að staðaldri og í rökstuðningi fyrir hjálpartækjanotkun segir í vottorðinu:
„Getur lítið gengið vegna verkja í hnjám og ökklum. Þarf oft að nota staf þegar er á ferðinni. Þrenginga við mænu og verður fljótt móður við gang.“
Um batahorfur segir:
„Hann mun versna.“
Í niðurstöðu segir:
„Með slitgigt í hnjám og ökklum. Verið sprautað. ER rætt um að skipta um hné en talin fullungur í það. Hann er með spinal stenosis. Hann er með króniskan bronchitis og verið að fá tíðar versnanir.“
Í mati á batahorfum kæranda segir í vottorðinu:
„ekki útlit fyrir neinn bata.“
Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 5. apríl 2024, sem er að mestu samhljóða framangreindu vottorði ef frá er talið að ekki er getið um að kærandi notist við staf þegar hann er á ferðinni.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi búi við skerta göngugetu. Af fyrrgreindu læknisvottorði B og því sem fram kemur í kæru að má ráða kærandi notist oft við staf en sé annars án hjálpartækja. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af sjúkdómsástandi kæranda að hann sé hreyfihamlaður til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um verulega hreyfihömlun.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2024 um að synja kæranda um styrk til kaupa á bifreið er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir