Mál nr. 528/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 528/2024
Miðvikudaginn 22. janúar 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 21. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. október 2024 um að samþykkja greiðslur heimilisuppbótar frá 1. september 2024.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn 14. nóvember 2023 sótti kærandi um heimilisuppbót frá 1. september 2023. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2023, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá væri hún gift. Kærandi sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn 4. apríl 2024. Með bréfi, dags. 19. apríl 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að aðrir einstaklingar væru skráðir með henni á sama lögheimili. Með umsókn 8. ágúst 2024 sótti kærandi um heimilisuppbót á ný frá 1. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 4. október 2024, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. september 2024. Með bréfi, dags. 6. nóvember 2024, samþykkti Tryggingastofnun að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. apríl 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. október 2024. Með bréfi, dags. 22. október 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með greinargerð, dags. 6. nóvember 2024, fór Tryggingastofnun fram á að málinu yrði vísað frá. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar. Athugasemdir bárust frá kæranda sama dag. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda sama dag og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 12. desember 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um heimilisuppbót aftur í tímann frá því að hún hafi skilið við barnsföður sinn í nóvember 2023. Þrátt fyrir að fjárhæðin sé ekki mikil í hverjum mánuði þá safnist þetta saman og kærandi hafi ekki náð endum saman.
Í athugasemdum kæranda frá 7. nóvember 2024 segir að kærandi og fyrrum sambýlismaður hennar hafi slitið samvistun í byrjun október 2023. Kærandi hafi í kjölfarið sótt um heimilisuppbót en fengið synjun þar sem sýslumaður hafi átt að færa lögheimili mannsins samkvæmt pappírum en hafi ekki staðið við það. Kærandi hafi orðið fyrir miklum skerðingum fjárhagslega og hafi þurft að taka lán frá lánastofnunum. Kærandi hafi biðlað til fólks í kringum sig um aðstoð vegna þessarar synjunar og nú sé komin sú staða að hún þurfi að greiða til baka. Að því sögðu verði kærandi að standa fast á því að óska eftir heimilisuppbót frá samvistarslitum.
Í athugasemdum kæranda frá 26. nóvember 2024 segir að eftir að kærandi hafi slitið samvistum við eiginmann sinni hafi hún hvorki verið í sambúð né með manninum lengur. Frá þeim tíma hafi kærandi verið einstæð með tvö börn á framfæri á almennum leigumarkaði og reynt að komast af án þess að vanrækja börnin. Kærandi hafi þurft að kyngja stoltinu og leita til Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar, banka, fjölskyldu og vina.
Nú sé komið að skuldadögum. Kæranda finnist hún ekki vera ósanngjörn eða vera með óraunhæfar kröfur. Kærandi hafi hringt til Tryggingastofnunar stuttu eftir að hún hafi slitið samvistum til þess að reyna að fá skilning en hafi verið mætt með hroka og stælum sem sé ástæðan fyrir því í hvaða stöðu hún sé núna.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. nóvember 2024 segir að í kjölfar kæru hafi verið ákveðið að skoða mál kæranda að nýju. Tryggingastofnun hafi ákveðið að samþykkja að greiða heimilisuppbót afturvirkt frá 1. apríl 2024. Ákveðið hafi verið að miða við þá dagsetningu þar sem að lögskilnaður kæranda hafi verið skráður 19. mars 2024 samkvæmt þjóðskrá og þar sem samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Þar sem mál kæranda hafi fengið nýja afgreiðslu hjá Tryggingastofnun sé farið fram á að málinu verði vísað frá.
Í greinargerð Tryggingastofnunar frá 25. nóvember 2024 er rakið fyrrgreint ákvæði 8. gr. laga nr. 99/2007. Í 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur laganna. Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1200/2018.
Í 1. mgr. 32. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 segi að réttur til greiðslna samkvæmt lögunum stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til greiðslna og skuli greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur sé fyrir hendi. Greiðslur falli niður í lok þess mánaðar er greiðslurétti ljúki.
Í 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 segi að hjón beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar. Til framfærslu teljist það sem með sanngirni verði krafist til sameiginlegs heimilishalds og annarra sameiginlegra þarfa, uppeldis og menntunar barna og sérþarfa hvors hjóna. Um framfærsluskyldu gagnvart börnum gildi að öðru leyti ákvæði barnalaga.
Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót 8. ágúst 2024 afturvirkt frá 1. nóvember 2023. Þann 22. september 2024 hafi Tryggingastofnun sent bréf til kæranda þar sem fram hafi komið að aðrir einstaklingar væru skráðir með kæranda á sama lögheimili og/eða íbúðarnúmeri. Kæranda hafi verið bent á að hægt væri að hafa samband við Þjóðskrá Íslands og skila inn staðfestingu um að tilkynning hefði borist Þjóðskrá svo hægt væri að afgreiða erindið. Í kjölfarið hafi kærandi sent inn staðfestingu frá Þjóðskrá Íslands um að búið væri að óska eftir flutningi þriðja aðila frá lögheimili kæranda. Í kjölfarið hafi heimilisuppbót verið samþykkt frá 1. september 2024. Kærandi hafi áður, með eldri umsókn um heimilisuppbót, skilað inn til Tryggingastofnunar afriti af hjónaskilnaðarbók, dags. 1. nóvember 2023, þar sem fram komi að kærandi og fyrrum eiginmaður hafi slitið samvistum 1. október 2023.
Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 21. október 2024. Í kjölfar kærunnar hafi verið ákveðið að skoða mál kæranda frekar. Ákveðið hafi verið að samþykkja greiðslur afturvirkt til 1. apríl 2024. Sú ákvörðun hafi byggt á því að kærandi og fyrrum eiginmaður hennar hefðu skilið að lögum X 2024, samkvæmt skráningu í þjóðskrá. Þá hafi fyrrum eiginmaður kæranda breytt lögheimili sínu þann 23. ágúst 2024. Í kjölfarið hafi verið send beiðni um frávísun kærumálsins til úrskurðarnefndarinnar þar sem málinu hafi talist lokið af hálfu Tryggingastofnunar. Eftir að beiðni um frávísun hafi verið send frá Tryggingastofnun hafi kærandi óskaði eftir því að fá heimilisuppbót samþykkta frá sambúðarslitum.
Á meðan kærandi sé skráð í hjónaband teljist hún ekki vera einhleyp. Samkvæmt hjónaskilnaðarbók frá sýslumanni hafi kærandi og fyrrum eiginmaður slitið samvistum 1. október 2023. Lögskilnaður sé skráður frá X 2024 og þau hafi verið skráð með sama lögheimili fram að 28. ágúst 2024.
Í athugasemdum kæranda komi fram að sýslumaður hefði átt að færa lögheimili fyrrum eiginmannsins samkvæmt pappírum en hefði ekki staðið við það. Í hjónaskilnaðarbók komi fram að þegar skilnaðarleyfi sé gefið út sendi sýslumaður uppgefið heimilisfang og íbúðarnúmer til Þjóðskrár og tilkynni þannig um breytt lögheimili. Svo virðist sem það hafi ekki verið gert, þar sem kærandi og fyrrum eiginmaður hafi verið með sama lögheimili fram í ágúst. Hins vegar hafi Tryggingastofnun samþykkt heimilisuppbót frá þeim tíma sem skilnaðarleyfi hafi verið gefið út, þ.e. frá 1. apríl 2024. Því sé búið sé að samþykkja tímabil heimilisuppbótar frá þeim tíma sem heimilt hafi verið að samþykkja frá, þar sem sýslumaður hefði ekki sent breytingartilkynningu vegna lögheimilisskráningar til Þjóðskrár fyrr en frá X 2024.
Telja verði að Tryggingastofnun hafi litið til raunverulegra aðstæðna kæranda, sbr. Hæstaréttardóm í máli nr. 30/2023, en það mál hafi snúist um óvígða sambúð. Ekki verði talið að í máli kæranda sé um að ræða sambærilegar aðstæður og hafi verið til staðar í framangreindu máli Hæstaréttar, þar sem sérstaklega hafi þurft að líta til aðstæðna og áfrýjanda í málinu sem hafi verið ókleift að leiðrétta skráningu á sambúðarstöðu sinni í þjóðskrá, vegna atvika sem hún hafi ekki getað haft stjórn á. Kærandi hafi verið í skilnaðarferli, en á meðan á því ferli hafi staðið sé kærandi ekki einhleyp líkt og krafa sé gerð um samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Það verði ekki talið að tafir hafi orðið á skilnaðarferli, en á meðan einstaklingar séu í hjúskap hvíli framfærsluskylda á þeim samkvæmt 46. gr. hjúskaparlaga. Því hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð fyrr en eftir lögskilnað 19. mars 2024, þar sem hún teljist ekki hafa verið einhleyp og hafi notið fjárhagslegs hagræðis af því að vera skráð í hjónaband. Kærandi hafi fengið samþykktar greiðslur heimilisuppbótar frá því að lögskilnaður hafi verið skráður hjá Þjóðskrá Íslands.
Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun, dags. 6. nóvember 2024, verði staðfest. Með nýrri ákvörðun hafi verið ákveðið að samþykkja að greiða heimilisuppbót afturvirkt frá lögskilnaði.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar til kæranda. Tryggingastofnun hefur samþykkt greiðslur heimilisuppbótar frá 1. apríl 2024 en kærandi óskar eftir greiðslum frá 1. nóvember 2023.
Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli IV. kafla A, V og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 32. gr. almannatryggingalaga kemur fram að réttur til greiðslna stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til greiðslna og að greiðslur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur sé fyrir hendi.
Ágreiningur málsins lýtur að upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráð í hjúskap til X 2024 þegar lögskilnaður er skráður í þjóðskrá. Þá var eiginmaður kæranda skráður með sama lögheimili og kærandi fram að 28. ágúst 2024. Tryggingastofnun hefur fallist á að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. apríl 2024, þ.e. frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir lögskilnað. Kærandi óskar aftur á móti eftir greiðslum frá 1. nóvember 2023 á þeim grundvelli að þau hjónin hafi slitið samvistum 1. október 2023.
Í málinu liggur fyrir endurrit úr hjónaskilnaðarbók frá 1. nóvember 2023, þar sem fram kemur meðal annars að hjónin hafi slitið samvistum 1. október 2023 og að málinu sé frestað til framlagningar fjárskiptasamnings.
Það er skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð að umsækjandi sé einhleypur. Kærandi hefur ekki byggt á því að skráning á lögskilnaði sé röng í þjóðskrá heldur telur að miða skuli við samvistarslit. Að mati úrskurðarnefndar var kærandi ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð á meðan hún var skráð í hjúskap. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi verið þess eðlis að einhver ómöguleiki hafi verið til staðar, svo sem óeðlilegar tafir á skilnaðarferlinu. Því telur úrskurðarnefndin rétt að miða upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar við 1. apríl 2024, þ.e. fyrsta dags næsta mánaðar eftir lögskilnað, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir