Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 570/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 570/2024

Miðvikudaginn 2. apríl 2025

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 11. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. október 2024, um að stöðva umönnunargreiðslur til kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 9. október 2024, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að þar sem sonur hennar væri ekki lengur með skráð lögheimili hjá henni yrðu greiðslur stöðvaðar frá 1. september 2024. Í kjölfar kæru sendi Tryggingastofnun kæranda bréf, dags. 25. nóvember 2024, þar sem henni var leiðbeint um að hún gæti sótt um að skipta greiðslu vegna umönnunar barns jafnt á milli hennar og barnsföður hennar. Með bréfi, dags. 13. febrúar 2025, samþykkti Tryggingastofnun að skipta umönnunargreiðslum jafnt til helminga milli kæranda og barnsföður hennar frá 1. september 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2024, var óskað eftir greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins ásamt gögnum málsins. Með greinargerð, dags. 27. nóvember 2024, óskaði Tryggingastofnun eftir því að kæru yrði vísað frá með þeim rökstuðningi að málið væri komið á ný í skoðun hjá stofnuninni. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 4. desember 2024. Engin svör bárust frá kæranda. Með bréfi, dags. 13. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin á ný eftir greinargerð frá Tryggingastofnun. Með bréfi, dags. 17. febrúar, óskaði Tryggingastofnun á ný eftir því að kæru yrði vísað frá með þeim rökstuðningi að stofnunin hefði tekið nýja ákvörðun í máli kæranda. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 18. febrúar 2025, sem var ítrekað 18. mars 2025. Engin svör bárust frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að sonur kæranda sé með skipta búsetu og búi því jafn mikið á báðum heimilum foreldra sinna. Vegna hömlunar sonar kæranda hafi þau þurft að grípa til þess úrræðis að skipta um grunnskóla en ekkert annað hafi breyst í umönnun hans. Kærandi hafi séð um að finna og greiða námskeið og ýmislegt sem foreldrarnir hafi nýtt styrkinn í og þau vilji ekki breyta því fyrirkomulagi. Auðvitað ætti styrknum að vera skipt til helminga eins og barnabótum til foreldra sem noti úrræðið um skipta búsetu. Báðir foreldrar eigi jafnan rétt á að fá opinberan stuðning og samkvæmt samtali við fulltrúa frá Tryggingastofnun ríkisins eigi það einnig við um umönnunargreiðslur, en kerfið þeirra bjóði ekki upp á það. Kerfi eigi að vinna eftir lögum. Kærandi telji því að hún eigi rétt á að fá þessar bætur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. nóvember 2024 kemur fram að í kjölfar kæru hafi mál kæranda verið skoðað og kæranda hafi nú verið sent bréf þar sem fram komi að hún geti sótt um skiptar umönnunargreiðslur vegna umönnunar barns, jafnt á milli hennar og barnsföður. Fram komi í bréfinu að óskað sé eftir því að útgefinn samningur frá sýslumanni berist um skipta búsetu og ný umsókn um umönnunargreiðslur þar sem hlutfall skiptingar á greiðslum sé tilgreint. 

Þá hafi Tryggingastofnun sent kæranda nýja umsókn með tölvupósti á netfang kæranda og óskað eftir því að samningi um skipta búsetu og nýrri umsókn yrði skilað í gegnum „Mínar síður“. Þar sem málið sé komið í skoðun á ný hjá Tryggingastofnun sé farið fram á að málinu verði vísað frá. 

Í greinargerð Tryggingastofnunar frá 17. febrúar 2025 segir að í kjölfar kæru hafi mál kæranda verið skoðað og kæranda verið sent bréf þar sem fram hafi komið að hún gæti sótt um skiptar umönnunargreiðslur vegna umönnunar barns, jafnt milli hennar og barnsföður. Í kjölfar umsóknar hafi Tryggingastofnun samþykkt jafnar greiðslur vegna skiptrar búsetu barns með bréfi, dags. 13. febrúar 2025. Þar sem málið hafi fengið nýja afgreiðslu hjá Tryggingastofnun sé farið fram á að málinu verði vísað frá. 

IV.  Niðurstaða

Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. október 2024, um að stöðva umönnunargreiðslur til kæranda. Í kjölfar kæru og frekari gagnaöflunar samþykkti Tryggingastofnun með bréfi, dags. 13. febrúar 2025, að skipta umönnunargreiðslum jafnt til helminga milli kæranda og barnsföður hennar frá 1. september 2024. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2025, sem var ítrekað 18. mars 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til nýrrar ákvörðunar stofnunarinnar en engin svör bárust frá kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála og um hækkun bóta. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur fallist á að skipta umönnunargreiðslum jafnt til helminga milli kæranda og barnsföður hennar frá 1. september 2024 líkt og óskað er eftir í kæru. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta