Mál nr. 574/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 574/2024
Miðvikudaginn 5. mars 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 11. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. október 2024 um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbótar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn 27. september 2024 sótti kærandi um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. október 2024. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2024, var umsókninni synjað með þeim rökum að samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá sé aðeins um eina íbúð að ræða en margir einstaklingar væru skráðir með lögheimili þar samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Í kjölfar upplýsinga í kæru um nýtt lögheimili kæranda tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun í málinu með bréfi, dags. 2. desember 2024, og synjaði kæranda með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslu heimilisuppbótar um að búa ein þar sem leigusali væri skráður með lögheimili sitt á og sama stað og samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá væri aðeins um eina íbúð að ræða.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2024, fór Tryggingastofnun fram á frávísun málsins þar sem að nýjar upplýsingar voru komnar fram um heimilisfang kæranda. Með bréfi, dags. 4. desember 2024, óskað úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar. Með bréfi, dags. 19. desember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 30. desember 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2025. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2025, veitti úrskurðarnefnd velferðarmála kæranda kost á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að eigandi íbúðarinnar sem hún leigi dveljist erlendis. Engin svör bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að lögheimili kæranda sé að B, hún hafi flutt 2. október 2024. Kærandi hafi leigt á C frá 1. mars og út september en hafi fengið að fara fyrr þar sem hún hafi fengið íbúð í D en eigandinn sé staddur erlendis í vetur. Kærandi hafi íbúðina annað hvort út maí eða júní.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 2. desember 2024, kemur fram að kærð sé ákvörðun um að synja kæranda um heimilisuppbót.
Með fyrri greinargerð stofnunarinnar, dags. 29. nóvember 2024, hafi verið óskað eftir frávísun málsins vegna breyttra forsenda en kærandi hafði kært ákvörðun um synjun heimilisuppbótar, dags. 29. október 2024. Ný stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin út frá breyttu lögheimili kæranda, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 2. desember 2024.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum, komi fram að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo sé ástatt um sem hér segi:
„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“
Samkvæmt 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Samkvæmt 46. gr. laga um almannatryggingar hvíli sú rannsóknarskylda á Tryggingastofnun að stofnunin skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt sé tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé kærandi skráð til lögheimils að B Eins og segi í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, þá teljast einstaklingar sem skráðir séu með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára, að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.
Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót sé byggð á þeim grunni að kærandi sé ekki skráð ein til lögheimilis á fyrrnefndu heimilisfangi en leigusali kæranda sé einnig skráður til lögheimilis að B. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi leigusali kæranda verið skráður með lögheimili þar síðan 26. júní 2015.
Fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2024, um að synja kæranda um greiðslu heimilisuppbótar hafi einnig verið kærð en stofnunin hafi óskað frávísunar á því máli þar sem forsendur kæranda höfðu breyst. Kærandi hafi þá verið skráð til lögheimilis að C. Ástæða þeirrar synjunar hafi verið sú að margir einstaklingar hafi verið skráðir með sama lögheimili á umræddu heimilisfangi samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá og hafi kærandi því ekki uppfyllt skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð.
Af framangreindu sé ljóst að kærandi sé nú skráð til lögheimilis að B og þar sé leigusali kæranda einnig skráður með lögheimili. Það sé því mat stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð er varði heimilisuppbót. Á þeim grundvelli telji stofnunin að ákvarðanir um að synja kæranda um greiðslur heimilisuppbótar, séu réttar, miðað við fyrirliggjandi gögn.
Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvarðana sinna frá 29. október og 2. desember 2024, um synjun á greiðslu heimilisuppbótar.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur heimilisuppbótar.
Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1200/2018, með síðari breytingum, var sett með stoð í þágildandi 6. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 7. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð og þar segir í 1. mgr.:
„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.“
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera uppfyllt. Umsókn kæranda frá 27. september 2024 um heimilisuppbót var synjað á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá og fasteignaskrá væru margir einstaklingar skráðir í sömu íbúð. Umsókn kæranda frá 2. desember 2024 um heimilisuppbót var synjað á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá væri leigusali skráður með lögheimili á sama stað.
Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi skráð með lögheimili að B , ásamt einum öðrum einstaklingi. Í kæru greinir kærandi frá því að leigusali hennar sé búsettur erlendis í vetur en hún hefur ekki lagt fram nein gögn um slíkt þrátt fyrir að hafa verið veittur kostur á því.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 teljast einstaklingar sem skráðir eru með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu ekki fullnægjandi til þess að sýna fram á að kærandi búi ein og sé ein um heimilisrekstur. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um heimilisuppbót, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir