Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 571/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 571/2021

Miðvikudaginn 9. febrúar 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2021 um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2020 skyldi standa óbreyttur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 318.982 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021. Kærandi andmælti niðurstöðu endurreikningsins með ódagsettu bréfi og með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. september 2021, var kæranda tilkynnt um að endurreikningurinn skyldi standa óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. desember 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að Tryggingastofnun ríkisins hafi krafist 318.982 kr. í endurgreiðslu vegna ársins 2020. Krafan sé byggð á því að kærandi hafi annars vegar í janúar 2020 ekki sinnt því að breyta tekjuáætlun fyrir árið sem stofnunin hafi sent út og hins vegar að kærandi hafi fengið 553.006 kr. í „óskilgreindar skattskyldar“ tekjur.

Samkvæmt eigin dagbókarfærslum kæranda í janúar 2020 hafi hann sent inn leiðréttingu á heimasíðu Tryggingastofnunar um húsaleigutekjur fyrir árið þar sem fyrir hafi verið þinglýstur húsaleigusamningur sem hafi tekið gildi 8. desember 2019 fram til 8. október 2020. Kærandi undri sig því á því að þetta hafi ekki verið skráð hjá stofnuninni, hann hafi ekki fengið tilkynningu um móttöku frá Tryggingastofnun, enda sé það alvanalegt að slíkar tilkynningar berist ekki.

Framangreind krafa hafi komið kæranda mjög á óvart. Í fyrsta lagi sé krafa um endurgreiðslu á 180.443 kr. tilkomin þar sem skráning hans á húsaleigutekjum fyrir árið 2020 hafi ekki verið móttekin af Tryggingastofnun. Kærandi hafi verið í góðri trú um að skráningin hefði verið útfærð samkvæmt reglum. Jafn mikið og það sé ábyrgð kæranda að senda inn rétta tekjuáætlun sé það ábyrgð Tryggingastofnunar að móttaka og skrá mótteknar upplýsingar og upplýsa um móttöku þeirra.

Í öðru lagi hafi verið krafa um endurgreiðslu á 138.539 kr. vegna sjúkradagpeninga vegna óhapps sem kærandi hafi lent í árið 2018 sem hafi verið tilkynnt til vátryggingafélagsins í ágúst 2018. Tryggingastofnun skilgreini þessa sjúkradagpeninga sem „óskilgreindar skattskyldar tekjur“. Kærandi hafi spurt skattstjóra um þessa skilgreiningu og fengið þau svör að samkvæmt skattalögum séu þetta skattskyldar tekjur, enda sé greiddur fullur skattur af þessum dagpeningum samkvæmt skattalögum.

Í bréfi, dags. 4. september 2020, hafi Tryggingastofnun upplýst kæranda um reglubundið eftirlit þar sem gerður hafi verið samanburður á milli tekjuáætlunar og upplýsinga frá Skattinum. Kærandi vilji benda á að kærandi og eiginkona hans hafi verið með þinglýstan leigusamning við leigutaka. Það hefði verið auðvelt fyrir Tryggingastofnun að finna út úr þessu misræmi sem hafi verið á milli skráðra upplýsinga í tekjuáætlun og greiðslum sem inntar hafi verið af hendi vegna húsaleigu á eign þeirra hjóna.

Kærandi fari fram á að þessar kröfur til endurgreiðslu verði felldar niður og þær greiðslur sem hann hafi þegar innt af hendi verði endurgreiddar. Krafan sé byggð á því að Tryggingastofnun hafi ekki tekið við upplýsingum um húsaleigu á eign þeirra hjóna. Það sé augljóst að um fálæti af hendi stofnunarinnar hafi verið ræða þar sem gengið hafi verið frá nefndum samningi í október 2019. Því hafi hann verið „inn á upplýsingum“ sem aðgengilegar hafi verið fyrir Tryggingastofnun og þá hafi kærandi sent inn upplýsingar í lok janúar sem stofnunin hafi glatað.

Kærandi fari einnig fram á að ef skilgreining Skattsins á sjúkradagpeningum verði látin ráða þá eigi þær að falla undir frítekjumark sem lífeyrisþegar hafi samkvæmt lögum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2020.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 99/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt lll. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt ll. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Um áhrif tekna á ellilífeyri sé vísað til 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi því ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Í 11. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar komi fram að fjármagnstekjur séu tekjur samkvæmt C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Þar á meðal séu vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur.

Í 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar komi fram að atvinnutekjur séu endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds.

Í 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar komi fram að ellilífeyrisþegi skuli hafa 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Þegar í ljós komi við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi notið ellilífeyris og tengdra bóta frá miðju ári 2019.

Tryggingastofnun hafi gert tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2020 sem hafi verið kynnt með bréfi þann 17. janúar 2020. Athygli kæranda hafi verið vakin á ábyrgð hans á að upplýsa stofnunina ef áætlunin væri ekki rétt og einnig ef forsendur myndu breytast á árinu þar sem tekjuáætlunin sé grundvöllur útreiknings bóta. Tillaga Tryggingastofnunar hafi gert ráð fyrir því að kærandi hefði 713.904 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 7.620. kr. í vexti og verðbætur sameiginlegar með maka. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda og því hafi verið greitt samkvæmt tekjuáætluninni frá 1. janúar 2020 til 31. ágúst 2020.

Þann 29. júlí 2020 hafi maki kæranda sent inn tekjuáætlun á Mínar síður þar sem gert hafi verið ráð fyrir leigutekjum að fjárhæð 2.160.000 kr. sem ekki hafi áður komið fram. Þann 11. ágúst 2020 hafi kæranda því verið sent bréf um breytingu á tekjuáætlun hans þar sem tekið hafi verið tillit til nýrra upplýsinga. Í þeirri áætlun hafi því verið gert ráð fyrir að tekjur kæranda væru 713.904 kr. í lífeyrissjóðstekjur og að hluti kæranda í sameiginlegum fjármagnstekjum þeirra hjóna væri 1.080.000 kr. Greitt hafi verið í samræmi við þá tekjuáætlun frá 1. september 2020 til 31. desember 2020.

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 beri Tryggingastofnun að líta til tekna við útreikning bóta. Þá sé stofnuninni skylt að endurreikna greiðslur á grundvelli tekna eins og þær séu skráðar á skattframtali þegar það liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda. Við þann endurreikning hafi komið í ljós mismunur á milli þeirra tekna sem gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun og þeirra tekna sem hafi komið fram á skattframtali. Samkvæmt skattframtali kæranda hafi hann verið með 200.000 kr. í launatekjur, 701.599 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 553.006 kr. í aðrar skattskyldar tekjur og 2.161.555 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. 

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi því verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 2.352.796 kr. en hefði átt að fá greitt 1.861.754 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 318.982 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Í kæru geri kærandi fyrst og fremst athugasemdir við tvö atriði.

Í fyrsta lagi haldi kærandi því fram að hann hafi skilað inn tekjuáætlun í byrjun árs 2020 þar sem fram komi upplýsingar um þær leigutekjur sem hann hafi verið með árið 2020. Tryggingastofnun hafi farið yfir gögn málsins og geti ekki séð að slík tekjuáætlun hafi borist. Rétt sé að taka sérstaklega fram að Tryggingastofnun geti ekki séð fjármagnstekjur í staðgreiðsluskrá eða öðrum samtímaupplýsingum frá Skattinum. Tryggingastofnun hafi einnig ekki aðgang að upplýsingum um þinglýsta húsaleigusamninga hjá sýslumönnum eða annars staðar.

Í öðru lagi geri kærandi athugasemdir við að meðferð Skattsins og Tryggingastofnunar á sjúkradagpeningum sem kærandi hafi fengið greidda á tímabilinu sé ólík. Sú fullyrðing kæranda sé ekki rétt. Þessar tvær stofnanir skilgreini báðar þessar tekjur kæranda sem skattskyldar tekjur. Sjúkradagpeningar falli hins vegar ekki undir skilgreiningu 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar á atvinnutekjum en þær séu þar skilgreindar sem endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds.

Í 7. gr. tekjuskattslaga sé að finna almennt ákvæði um skilgreiningu á skattskyldum tekjum. Þeim sé þar skipt í þrjá meginflokka, þ.e. A, B og C. Í A-lið séu svo taldir upp fjórir undirflokkar tekna. Fyrstu tveir flokkarnir í A-lið séu annars vegar 1) atvinnutekjur og aðrar sambærilegar eða tengdar tekjur, með mun ítarlegri upptalningu og hins vegar 2) tryggingabætur, meðlög og styrkir, skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur. Slysadagpeningar sem kærandi hafi fengið greidda á árinu 2020 teljast til tekna sem falla undir 2. tölul. A-liðar laga um tekjuskatt.

Þá komi til skoðunar hvort tekjurnar geti fallið undir síðari hluta skilgreiningarinnar í 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar, þ.e. „greiðslur sem koma í stað slíks endurgjalds”. Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 88/2015 þar sem skilgreining á hugtakinu atvinnutekjur hafi komið inn í lögin, segi meðal annars um þetta atriði að „undir greiðslur sem komi í stað atvinnutekna” teljist til dæmis atvinnuleysisbætur og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.

Sjúkradagpeningum sé ætlað að standa að einhverju leyti straum af framfærslu einstaklinga á meðan þeir séu óvinnufærir og því sé ekki fallist á að þær tekjur geti talist til greiðslna sem komi í stað endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem innt sé af hendi fyrir annan aðila. Sérstakt frítekjumark 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar eigi því ekki við um sjúkradagpeninga. Tryggingastofnun hafi farið yfir öll gögn málsins og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun stofnunarinnar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta. Tryggingabætur eru tekjustofn sem hafa einnig áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótum, sbr. 2. tölul. A-liðar laga um tekjuskatt.

Í 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um útreikning ellilífeyris en þar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns lífeyririnn fellur niður. Ellilífeyrisþegi skal hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris. Þá skal ellilífeyrisþegi hafa 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. janúar 2020, var kæranda send tekjuáætlun vegna ársins 2020 þar sem gert var ráð fyrir 713.904 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 7.620 kr. í vexti og verðbætur og 33.096 DKK í grunnlífeyri. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar í samræmi við þær tekjuforsendur frá janúar til ágúst 2020. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar vegna tekjuáætlunar frá eiginkonu kæranda í ágúst 2020 kom í ljós að þau hjónin höfðu verið með leigutekjur á árinu. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun, dags. 11. ágúst 2020, þar sem gert var ráð fyrir að fjármagnstekjur kæranda væru 1.080.000 kr. í leigutekjur, ásamt óbreyttum lífeyrissjóðstekjum og engum öðrum tekjum. Kærandi var upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 180.443 kr. sem ekki yrði innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins. Kærandi gerði ekki athugsemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar í samræmi við þær tekjuforsendur út árið 2020.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2020 reyndist kærandi hafa verið með á árinu 200.000 kr. í launatekjur, 701.599 kr. í lífeyrisjóðstekjur, 533.006 kr. í svokallaðar aðrar tekjur og 2.161.555 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka, nánar til tekið 1.555 kr. í vexti og verðbætur og 2.160.000 kr. í leigutekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 318.982 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Samkvæmt endurreikningnum fékk kærandi ofgreitt í bótaflokkunum ellilífeyrir og orlofs- og desemberuppbætur.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að fjármagnstekjur og svokallaðar aðrar tekjur voru vanáætlaðar í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Ágreiningur málsins varðar þá tekjuliði í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um leigutekjur og aðrar tekjur.

Varðandi leigutekjur byggir kærandi á því að hann hafi skilað inn upplýsingum um þær tekjur í janúar 2020 sem Tryggingastofnun hafi ekki afgreitt og að stofnunin hefði átt að kanna þessar tekjur hjá Skattinum og/eða sýslumanni þar sem fyrir hafi legið þinglýstur húsaleigusamningur. Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar virðist stofnuninni ekki hafa borist framangreind breyting á tekjuáætlun. Það er á ábyrgð greiðsluþega, sem nýtur tekjutengdra bóta, að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Hvað varðar þá athugasemd kæranda að Tryggingastofnun hefði átt að afla upplýsinga frá Skattinum eða sýslumanni um þinglýstan húsaleigusamning, ítrekar úrskurðarnefndin að greiðsluþega er skylt að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Kærandi gerir einnig athugasemd við meðhöndlun Tryggingastofnunar á slysadagpeningum frá vátryggingafélagi og telur að rétt væri að þær væru flokkaðar eins og atvinnutekjur með tilheyrandi frítekjumarki. Atvinnutekjur eru skilgreindar í 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar sem endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds. Sem slíkar njóta þær 1.200.000 kr. frítekjumarks samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Skilgreining á skattskyldum tekjum er að finna í 7. gr. tekjuskattslaga og er þeim skipt í þrjá meginflokka, þ.e. A, B og C. Í 1. tölul. 7. gr. tekjuskattslaga eru meðal annars tilgreindar atvinnutekjur og aðrar sambærilegar eða tengdar tekjur. Í 2. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga er talið upp tryggingabætur, meðlög og styrkir, skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur.

Slysadagpeningar þeir sem kærandi fékk á árinu 2020 flokkast sem tekjur sem falla undir 2. tölul. A-liðar laga um tekjuskatt og njóta því ekki 1.200.000 kr. frítekjumarks sem getið er um í 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, en þar er eingöngu vísað til 1. tölul. A-liðar og B-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslna sem koma í stað slíks endurgjalds.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2020 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira