Mál nr. 54/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 54/2025
Miðvikudaginn 2. apríl 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 22. janúar 2025, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. október 2024 þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2023. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 531.500 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar kröfu 29. ágúst 2024. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. október 2024, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað á þeim forsendum að krafan væri réttmæt og að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki fyrir hendi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. janúar 2025. Með bréfi, dags. 28. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. febrúar 2025, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. febrúar 2025. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 24. febrúar 2025, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2025. Með bréfi, dags. 4. mars 2025, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. mars 2025. Með bréfi, dags. 25. mars 2025, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. mars 2025.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingarstofnunar ríkisins, dags. 22. október 2024, um synjun á niðurfellingu ofgreiðslukröfu.
Þess sé aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að beiðni kæranda um niðurfellingu verði samþykkt. Til vara sé þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Tryggingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar á ný.
Vísað sé til ákvörðunar Tryggingastofnunar, dags. 22. október 2024, um synjun á niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Kærandi hafi sótt um niðurfellingu ofgreiðslukröfu sem hafi myndast við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2023. Krafan sé að langstærstum hluta tilkomin vegna söluhagnaðar maka kæranda […]. Kærandi hafi ekki verið með neinar launatekjur á árinu. Lífeyrissjóðstekjur kæranda í framtalinu hafi verið 38.636 kr. hærri en í tekjuáætlun og aðrar fjármagnstekjur, vextir og verðbætur hafi verið 80.114 kr. Þessar tekjur hafi því haft mjög takmörkuð áhrif til tekjuskerðinga. Söluhagnaður sem tilgreindur sé í uppgjörinu sé allur vegna sölu maka kæranda á fyrrnefndum […]. Í uppgjörinu hafi Tryggingastofnun ákvarðað að fjármagnstekjur kæranda, að teknu tilliti til söluhagnaðarins væru samtals 3.843.114 kr., þar af sé 3.763.000 kr. vegna söluhagnaðar til maka kæranda.
Maki kæranda hafi erft […] sem hann hafi selt í lok árs 2023. Í beiðni kæranda um niðurfellingu komi fram að kærandi hafi ekki haft vitneskju um að samsköttun myndi hafa áhrif á tekjur hennar og þar af leiðandi hafi hún ekki vitað að sala […] sem eiginmaður hennar hafi erft frá […] myndi hafa áhrif á tekjur hennar. Fjárhæð ofgreiðslukröfunnar við uppgjör ársins 2023 hafi verið 531.500 kr. Auk þess séu bæði kærandi og maki hennar að greiða fjármagnstekjuskatt vegna sölunnar sem hljóði upp á 900.000 kr. og séu þau að greiða um 100.000 kr. á mánuði vegna þess.
Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu sé rökstudd með því að krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður séu ekki talin hafa verið fyrir hendi. Í beiðninni hafi kærandi lýst fjárhagsstöðu sinni og eiginmannsins og áhrifum þeirra. Kærandi hafi greitt inn á kröfuna frá nóvember 2024, samtals 33.219 kr. (11.073 kr. á mánuði). Heildargreiðslur kæranda að teknu tilliti til uppgjörskröfunnar hafi lækkað um tæpan þriðjung. Kærandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Greiðsluáætlun hennar allt árið 2023 hafi verið mjög nærri lagi, en fyrr á árinu hafði myndast krafa að fjárhæð 25.797 kr. Kærandi hefði ekki getað sett upplýsingar um söluhagnaðinn inn á tekjuáætlun ársins 2023, þar sem salan hafi verið framkvæmd í desember og þá hafi verið búið að loka fyrir breytingar á tekjuáætlun og greiða fyrir alla mánuði ársins. Dagsetning kaupsamnings sé 10. desember 2023.
Kærandi byggi á því að fallast beri á beiðni hennar vegna sérstakra aðstæðna samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Einnig sé vísað til fjárhagslegrar stöðu kæranda og þess að hún hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Þá telji kærandi að meðalhófs hafi ekki verið gætt við meðferð á beiðni hennar.
Kærandi hafi ekki verið upplýst hjá Tryggingastofnunar um þann möguleika að nýta sér heimild samkvæmt 8. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar til að dreifa eigin tekjum sem stafi af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að tíu ár. Kærandi hafi sent fyrirspurn til Tryggingstofnunar um hvernig það kæmi út í hennar tilviki ef hún óskaði eftir að nýta sér heimildina, eftir að hafa fengið upplýsingar um þennan möguleika í viðtali hjá félagsráðgjafa ÖBÍ. Í svari Tryggingastofnunar, dags. 17. desember 2024, við fyrirspurn kæranda segi að farið hafi verið yfir málið og kæranda tjáð að það muni ekki koma betur út fyrir hana að láta dreifa fjármagnstekjunum vegna söluhagnaðarins. Þá sé vísað til þess að við innleiðingu nýs greiðslukerfis örorkulífeyri 1. september 2025 muni sérstakt frítekjumark vegna fjármagnstekna falla niður og einungis eitt almennt frítekjumark taka við sem geri dreifinguna „enn minna fýsilega“. Í svari Tryggingastofnunar komi fram að ákvæðið um heimild til að dreifa eigin tekjum sem stafi af fjármagnstekjum fram í tímann falli í raun um sjálft sig með breytingum á greiðslukerfi örorkulífeyris sem taki gildi 1. september 2025. Kærandi byggi á því að vegna þessara breytinga á örorkulífeyriskerfinu sem séu að eiga sér stað um þessar mundir séu sérstakar aðstæður sem séu fyrir hendi, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Ólíkt lífeyristökum fram til þessa gagnist heimild 8. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar kæranda ekki.
Sem fyrr segi hafi kærandi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Hún hafi ekki vitað um áhrif fjármagnstekna maka á lífeyri sinn samkvæmt lögum fyrr en henni hafi borist endurkrafan. Auk þess hafi hún sem fyrr segi ekki fengið leiðbeiningar um réttarstöðu sína frá stjórnvöldum. Þekking á ákvæði 2. málsl. 6. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar og áhrif þess sé ekki almenn á meðal lífeyristaka. Segja megi að um sé að ræða sérlega íþyngjandi og illskiljanlegt ákvæði þar sem það feli í sér skerðingu á lífeyri vegna tekna annars einstaklings en þess sem eigi rétt á lífeyrinum.
Grundvallarmunur sé gerður á meðferð fjármagnstekna maka annars vegar og hins vegar annarra tekna maka, s.s. launatekna, þegar komi að tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu. Eins og fram komi í séráliti Karls Axelssonar við dóm Hæstaréttar nr. 795/2017, dags. 15. nóvember 2018, verði hvorki leitt af lagareglunni sjálfri né lögskýringargögnum hvað réði þeim greinarmun sem gerður sé á eðli tekna maka. Munur sem gerður sé á þessum tekjutegundum sé óútskýrður. ÖBÍ réttindasamtök og fleiri félagasamtök hafa verið mjög gagnrýnin á 6. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar og framkvæmd ákvæðisins. Samtökin telji það skerða einstaklingsfrelsi örorkulífeyristaka sem séu í hjúskap. Við framkvæmd ákvæðisins sé því nauðsynlegt að gætt sé ítrasta meðalhófs og neikvæð áhrif ákvæðisins á lífeyristaka lágmörkuð í lengstu lög.
Að öllu framangreindu virtu sé þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og beiðni kæranda verði samþykkt eða Tryggingastofnun verði gert að taka beiðnina til meðferðar á ný.
Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 24. febrúar 2025, kemur fram að kærandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Lítill munur hafi verið á fjárhæðum í greiðsluáætlun kæranda fyrir árið 2023 og framtali fyrir sama ár ef undan sé skilin áætlun um fjármagnstekjur. Kærandi hafi ekki getað sett upplýsingar um söluhagnaðinn inn í tekjuáætlun ársins 2023 þar sem salan hafi verið framkvæmd í desember, n.t.t. 10. desember 2023, en þá hafi verið búið að loka fyrir breytingar á tekjuáætlun og greiða fyrir alla mánuði ársins.
Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 10. febrúar 2025, komi fram:
„Samráðsnefnd TR leit til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna kæranda í samræmi við fyrirmæli 11. gr. á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hefur aðgang að, m.a. var horft til eignastöðu kæranda og tekna. Hafa verður í huga að 11. gr. á einungis við um „alveg sérstakar aðstæður“ og slíkar undantekningar frá almennri reglu verður að túlka þröngt.“
Ekki sé ljóst hvað átt sé við með eignastöðu kæranda. Hvorki eignir né eignastaða lífeyristaka hafi áhrif við útreikning lífeyrisgreiðslna. Tryggingastofnun hafi því ekki aðgang að upplýsingum um eignir lífeyristaka, ef einhverjar séu. Ef horft sé á eignastöðu ætti samhliða að horfa á skuldastöðu, en eins og fram komi í rökstuðningi kæranda í umsókn um niðurfellingu hafi andvirði söluhagnaðarins sem eiginmaður kæranda hafi fengið farið í skuldir. Í greinargerð sé vísað í þennan rökstuðning og þar komi enn fremur fram að kærandi hafi nú þegar takmarkaðar tekjur og eigi erfitt með að ná endum saman og þurfi oft að taka yfirdrátt til að geta lifað út mánuðinn. Árstekjur kæranda, lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, eftir lækkun vegna uppgjörskröfunnar, hafi verið 4.524.346 kr. á ári eða rúmar 370.000 kr. á mánuði fyrir skatt.
Kærandi sé ekki sammála þeirri túlkun Tryggingastofnunar að túlka verði 11. gr. þröngt. Að mati kæranda beri fyrst og fremst að leggja heildstætt mat á stöðuna og haga ákvörðun um greiðslur og ívilnanir í samræmi við það mat. Megi í því sambandi vísa til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 45. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu beri stjórnvöldum að tryggja lágmarksframfærslu sem verði ekki gert án heildarmats á stöðu þeirra sem þarfnist greiðslna úr almannatryggingum. Krafan um heildarmat komi enn fremur fram í síðarnefnda ákvæðinu. Þá beri við túlkun í stjórnsýslurétti að horfa til þess hvort um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun stjórnvalda á hendur borgurum. Krafa um endurgreiðslu örorkulífeyris teljist vera íþyngjandi ákvörðun stjórnvalds. Réttara sé því að túlka undanþágu frá slíkri íþyngjandi ákvörðun vítt.
Í kærunni hafi verið raktar sérstakar aðstæður í máli kæranda og að kærandi telji að meðalhófs hafi ekki verið gætt við meðferð á beiðni hennar. Í greinargerð Tryggingastofnunar sé ekki komið inn á rök kærunnar fyrir sérstökum aðstæðum. Einungis komi fram að samráðsnefnd Tryggingastofnunar hafi tekið umsókn um niðurfellingu fyrir og synjað þar sem krafan hafi verið réttmæt og skilyrðum 11. gr. um sérstakar aðstæður hafi ekki verið taldar hafa verið fyrir hendi. Málið virðist því ekki hafa verið tekið upp aftur eftir að ákvörðunin hafi verið kærð.
Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 25. mars 2025, kemur fram að samkvæmt ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Í ákvæðinu segi að litið skuli til fjárhagslegra aðstæðna bótaþega, þ.e. kæranda. Meðaltekjur kæranda á árinu 2024 hafi verið 365.880 kr. eftir skatt. Hérna sé um að ræða útgjöld sem kærandi þurfi að standa straum af. Útgjöld kæranda og maka séu mun hærri, sbr. yfirlit yfir mánaðarlegar greiðslur sem hafi fylgt umsókn kæranda um niðurfellingu kröfunnar. Föst mánaðarleg útgjöld kæranda á árinu 2024 hafi verið 415.935 kr. á mánuði. Útgjöld kæranda séu um 50.000 kr. hærri en ráðstöfunartekjur. Kærandi hafi því ekki fjárhagslegt bolmagn til að endurgreiða kröfuna hjá Tryggingastofnun, sem sé tilkomin vegna fjármagnstekna maka.
Gerðar séu athugasemdir við að í greinargerð og viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar hafi ekki verið litið til greiðslubyrði kæranda, þ.e. fastra mánaðarlegra útgjalda og ráðstöfunartekna og þar með getu kæranda til endurgreiðslu kröfunnar. Tryggingastofnun líti hins vegar einungis til eigna- og skuldastöðu kæranda og maka kæranda á árinu 2023 og sé ekki gerður greinarmunur á eignum og skuldum kæranda annars vegar og maka kæranda hins vegar.
Eins og áður hafi komið fram hafi framfærslutekjur kæranda lækkað vegna fjármagnstekna maka. Kærandi þurfi að nota hluta af framfærslutekjum sínum til að endurgreiða kröfu hjá Tryggingastofnun vegna fjármagnstekna maka. Ákvæðið sem tekjuskerðing hafi verið byggð á, þ.e. 6. mgr. 30. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, geti skapað valdaójafnvægi á milli lífeyristaka og maka lífeyristaka sem hafi fjármagnstekjurnar og dragi úr sjálfstæði lífeyristaka. Það að maki lífeyristaka fái greiddar fjármagnstekjur feli ekki í sér neina tryggingu fyrir því að lífeyristakinn hafi nokkurn tímann aðgang að þeim fjármunum en hins vegar sé víst að framfærsla hans geti skerst vegna fjármagnsteknanna og eða myndað skuld við Tryggingastofnun eins og í máli kæranda.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 22. október 2024, um að synja umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu sem hafi myndast í kjölfar endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2023.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um niðurfellingu endurkröfu að fullu eða hluta við sérstakar aðstæður.
Um útreikning örorkulífeyris sé fjallað í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Í 30. gr. laganna sé kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun beri að standa að útreikningi bóta. Í 6. mgr. komi fram að tekjur maka greiðsluþega hafi ekki áhrif á útreikning greiðslna. Þó skuli fjármagnstekjur skiptast til helminga milli hjóna við útreikning greiðslna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.
Í 33. gr. laganna sé kveðið á um útreikning og endurreikning og um ofgreiðslu og vangreiðslu fer eftir 34. gr. laganna. Í 47. gr. laganna sé kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega. Þar segi að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingstofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.
Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segi að umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita Tryggingstofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.
Í 4. gr. reglugerðarinnar segi að Tryggingastofnun skuli áætla væntanlegar tekjur umsækjanda og bótaþega á bótagreiðsluári. Tekjuáætlun skuli byggjast á nýjustu upplýsingum um tekjur sem fengnar séu frá þeim aðilum sem greini í 1. mgr. 3. gr. Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattayfirvalda á opinberum gjöldum skuli endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga.
Þá segi í 9. gr. reglugerðarinnar að komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli það sem ofgreitt sé dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta eigi eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar séu til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun samkvæmt 4. gr. hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Í lok 9. gr. sé tekið fram að Tryggingastofnun eigi einnig endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.
Samkvæmt ákvæðinu skuli Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, sama hvernig þær séu til komnar, en skuldajöfnun bóta sé einungis heimil ef ofgreiðslan eigi rætur í því að viðskiptavinur hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukningu í tæka tíð.
Í 11. gr. reglugerðarinnar sé að finna ákvæði um undanþágu frá endurkröfu en þar segi:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“
Með bréfi, dags. 28. maí 2024, hafi Tryggingstofnun sent kæranda niðurstöður endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2023. Niðurstaðan hafi verið skuld kæranda við Tryggingastofnun að upphæð 531.500 kr. Ástæða kröfunnar hafi aðallega verið sú að ekki hafi verið gert ráð fyrir söluhagnaði á tekjuáætlun, en einnig hafi vextir og verðbætur verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir, lífeyrissjóðstekjur hafi verið sambærilegar en þó aðeins lægri á tekjuáætlun en samkvæmt skattframtali. Veittur hafi verið frestur til að andmæla skuldinni til 9. ágúst 2024. Kærandi hafi ekki andmælt uppgjörinu en hafi skilað inn umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, dags. 29. ágúst 2024.
Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í umsókn kæranda um ástæður og rökstuðning á umsókn um niðurfellingu ofgreiddra bóta.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. október 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að samráðsnefnd stofnunarinnar hafi tekið umsóknina fyrir á fundi. Samráðsnefndin hafi ekki talið ástæðu fyrir því að samþykkja kröfu um niðurfellingu, þar sem sérstakar aðstæður hafi ekki verið taldar vera fyrir hendi. Við mat á því hvað geti talist sérstakar aðstæður sé einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.
Eftirstöðvar krafna kæranda hafi verið 531.500 kr. og ákveðið hafi verið að endurgreiðslu yrði dreift þannig að 11.073 kr. yrðu dregnar af mánaðarlegum greiðslum kæranda þar til krafan yrði að fullu greidd.
Líkt og fram hafi komið hafi skattskyldar tekjur kæranda árið 2023 verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir á tekjuáætlun. Stærsti hluti kröfunnar hafi myndast vegna söluhagnaðar maka en fjármagnstekjur skiptist til helminga milli hjóna við útreikningi greiðslna, sbr. 6. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattayfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali kæranda, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.
Tryggingastofnunar hafi yfirfarið kröfuna og telji hana rétta og telji 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 ekki eiga við í þessu tiltekna máli. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar hafi farið vandlega yfir umsóknina en hafi synjað umsókn um niðurfellingu kröfunnar, þar sem krafan væri réttmæt og skilyrðum 11. gr. um sérstakar aðstæður hafi ekki verið taldar vera fyrir hendi.
Samráðsnefnd Tryggingastofnunar hafi litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna kæranda í samræmi við fyrirmæli 11. gr. á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að, m.a. hafi verið horft til eignastöðu kæranda og tekna. Hafa verði í huga að 11. gr. eigi einungis við um „alveg sérstakar aðstæður“ og slíkar undantekningar frá almennri reglu verði að túlka þröngt.
Tryggingastofnun hafi komið til móts við kæranda með því að dreifa eftirstöðvum kröfunnar svo mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af kröfunni væri sem minnst. Kröfunni hafi verið dreift á 48 mánuði þannig að mánaðargreiðsla kröfunnar sé 11.073 kr.
Í ljósi framangreinds sé það mat Tryggingastofnunar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglugerðir. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun, dags. 22. október 2024, um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu skuldar verði staðfest.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. mars 2025, kemur fram að samkvæmt 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur, ákvæðið sé ekki heimildarákvæði. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali greiðsluþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig af dómstólum.
Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild sem skuli skýra þröngt.
Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli innsendra gagna sem og upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Samráðsnefnd hafi bæði horft á eigna- og skuldastöðu lífeyrisþega. Af gögnum málsins verði ráðið að eignastaða kæranda hafi verið umfram skuldir á árinu 2023 og meðaltekjur hennar árið 2023 hafi verið 355.239 kr., samkvæmt staðgreiðsluskrá.
Ofgreiðsla kæranda hafi verið 531.500 kr. Stofnunin hafi komið til móts við kæranda með því að dreifa eftirstöðvum kröfunnar svo mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af kröfunni væri sem minnst. Kröfunni hafi verið dreift á 48 mánuði þannig að mánaðargreiðsla kröfunnar sé 11.073 kr. Tryggingastofnun hafi metið aðstæður svo að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi.
Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi umræddar fjármagnstekjur stofnast í desember og hafi kærandi greint frá því að ekki hafi verið möguleiki á að gera ráð fyrir þeim á tekjuáætlun fyrr á árinu. Kærandi geti af þeim sökum talist hafa verið í góðri trú. Það leiði þó eitt og sér ekki sjálfkrafa til þess að krafan sé felld niður heldur þurfi að meta aðstæður heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind séu í 11. gr. reglugerðarinnar.
Að öðru leyti sé vísað til fyrri greinargerðar Tryggingastofnunar í máli þessu.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. október 2024, á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2023.
Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 48. gr. laga um almannatryggingar.
Í 30. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 3. mgr. 33. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri á árinu 2023. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2023 með bréfi, dags. 28. maí 2024. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 531.500 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi fyrst og fremst rekja til þess að fjármagnstekjur voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins.
Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 34. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“
Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.
Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta ársins 2023.
Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að tekjutengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 1. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins má fyrst og fremst rekja kröfu vegna tekjuársins 2023 til vanáætlaðra fjármagnstekna. Kærandi byggir á því að hún hafi verið í góðri trú þar sem söluhagnaður hafi komið til í desember 2023 og Tryggingastofnun telur að hún geti af þeim sökum talist í góðri trú. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir það eitt og sér aftur á móti ekki sjálfkrafa til þess að krafan sé felld niður heldur þurfi að meta aðstæður kæranda heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind eru í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Í beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu kemur fram að ástæða beiðninnar sé sú að hún hafi ekki vitað að samsköttun hefði áhrif á greiðslur hennar en eiginmaður hennar hafi selt eign sem hann hafi erft. Kærandi sé með takmarkaðar tekjur og eigi erfitt með að ná endum saman og söluhagnaður eiginmanns hennar hafi farið upp í skuldir. Meðaltekjur kæranda á árinu 2024 voru samkvæmt staðgreiðsluskrá 441.053 kr. á mánuði. Þá verður ráðið af gögnum málsins að eignastaða kæranda og eiginmanns hennar hafi verið jákvæð á árinu 2023. Jafnframt lítur úrskurðarnefndin til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum kröfunnar á 48 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á 12 mánuðum, eins og meginregla 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar kveður á um, þannig að mánaðarleg greiðslubyrði af kröfunni nemur 11.073 kr. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til erfiðra félagslegra aðstæðna kæranda. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Einnig lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.
Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. október 2024 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir