Mál nr. 98/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 98/2025
Miðvikudaginn 2. apríl 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 17. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. janúar 2025, um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi óskaði eftir að fá greiddan endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins 1. ágúst 2024 til 31. október 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. janúar 2025, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi hefði verið búsettur erlendis á því tímabili sem um ræði og Þjóðskrá hafi hafnað beiðni um tímabundið aðsetur erlendis vegna veikinda. Í kjölfar kæru samþykkti Tryggingastofnun með bréfi, dags. 4. mars 2025, að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri vegna umbeðins tímabils.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. febrúar 2025. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2025, var óskað eftir greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins ásamt gögnum málsins. Með greinargerð, dags. 4. mars 2025, óskaði Tryggingastofnun eftir því að kæru yrði vísað frá með þeim rökstuðningi að stofnunin hefði tekið nýja ákvörðun í máli kæranda. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 5. mars 2025, sem ítrekað var með tölvupósti 20. mars 2025. Engin svör bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi vilji kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins ágúst til október 2024. Í ágúst 2024 hafi kærandi verið á biðlista eftir að hefja endurhæfingu á Íslandi sem hafi byrjað 12. september 2024.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að stofnunin hafi yfirfarið gögn málsins og tekið nýja ákvörðun, dags. 4. mars 2025, þar sem samþykkt hafi verið að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins 1. ágúst 2024 til 31. október 2024. Því sé farið fram á frávísun málsins.
IV. Niðurstaða
Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. janúar 2025, um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins 1. ágúst 2024 til 31. október 2024. Í kjölfar kæru samþykkti Tryggingastofnun með bréfi, dags. 4. mars 2025, að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri vegna umbeðins tímabils. Með bréfi, dags. 5. mars 2025, sem var ítrekað 20. mars 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til nýrrar ákvörðunar stofnunarinnar en engin svör bárust frá kæranda.
Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála og um hækkun bóta. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur fallist á að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri vegna tímabilsins 1. ágúst 2024 til 31. október 2024 líkt og óskað er eftir í kæru. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir