Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 437/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 437/2024

Miðvikudaginn 6. nóvember 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. júlí 2024 að synja umsókn hans um greiðslu barnalífeyris vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 12. júlí 2024, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna náms. Með bréfi, dags. 24. júlí 2024, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að greiða barnalífeyri vegna náms þar sem að hann væri á greiðslum endurhæfingarlífeyris.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. september 2024. Með bréfi, dags. 17. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. október 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í fylgigagni með kæru frá móður kæranda kemur fram að kærð sé synjun barnalífeyris vegna náms.

Heimilisaðstæður kæranda séu þær að frá árinu 2018 hafi móðir hans verið með 75% örorku. Kærandi glími við einhverfu ásamt margvíslegum taugaröskunum, „transgender“, kvíða og þunglyndi. Móðir hans búi í eigin húsnæði sem á hvíli um 27 milljóna króna húsnæðislán. Rekstur ökutækis, með styrk frá Tryggingastofnun, sem gagnist báðum aðilum, sé nauðsynlegur móður vegna hreyfihömlunar og kæranda vegna skertrar getu hans að svo stöddu til að stunda nauðsynleg úrræði. Móðir kæranda sjái um öll gjöld tengd nauðsynlegum rekstri heimilis, s.s. tryggingar, internet, síma, rafmagn, hita, hússjóð, viðhald o.fl. Það sé ekkert aflögu til að sjá fyrir kæranda.

Kærandi hafi ávallt þurft sálfræðimeðferð. Sökum sérstöðu hafi kærandi verið hjá BUGL síðan 2020 (greitt af ríkinu vegna aldurs), nú hjá Barnahúsi vegna kynferðisofbeldis í æsku (greitt af ríkinu uns meðferð líkur innan skamms) og þar áður hjá Sól (greitt að fullu). Sökum aldurs muni kærandi í framtíðinni þurfa að greiða fyrir sambærilega þjónustu. Hann þarfnist lyfjameðferðar, nú sertral, melatónín, rítalín, mycrogin og á næstunni testósterón hormónagjöf. Auk þess bíði hann eftir að komast í brjóstnám. Hann muni þurfa áframhaldandi stuðning. Hann hafi einnig þurft á sjúkraþjálfun að halda og muni þurfa áfram, en ekki hafi alltaf verið hægt að koma því við.

Fyrir utan sálfræðiþjónustu hafi kærandi þurft liðveislu og verið á ýmsum námskeiðum.

Auk þess hafi kærandi tekið þátt í öðrum úrræðum til að takast á við sértæka erfiðleika. Tilgangurinn hafi verið að hvetja hann til félagslegrar virkni, þátttöku í ungmennastarfi og vinnuskóla, styrkingu á sérstökum hæfileikum (myndlist) með því að fjárfesta í viðeigandi tölvubúnaði, litum, málningu og öðru því sem efli og styrki hann. Taka þurfi tillit til sérstöðu í mataræði, passa að koma honum alltaf í sérstök úrræði og keyra hann á milli staða þar sem hann treysti sér ekki sjálfur til þess.

Varðandi námsframvindu eigi kærandi í erfiðleikum með nám, hann sé með skólaforðun og hafi hætt í skóla X ára þar sem hann hafi ekki fengið úrræði við hæfi. Hann hafi fengið inni í námsveri í 9. bekk, hafi klárað 10. bekk og sé núna búinn með X ár á B með mjög góðum árangri. Framfarir hans séu því að þakka að hann hafi fengið þjónustu og að þörfum hans og umönnun hafi verið sinnt.

Synjun Tryggingastofnunar hafi verið byggð á því að ekki sé heimilt að greiða einstaklingum barnalífeyri vegna náms ef þeir séu á endurhæfingarlífeyri. Móðir kæranda geti ekki fundið neitt um það.

Endurhæfingarlífeyrir kæranda sé ætlaður til þess að viðhalda nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, skólagöngu og að vera þátttakandi í uppbyggilegu félagslífi, sérstöðu sem fylgi því að vera einhverfur og þurfa sérstaka hluti, sérstaka fæðu o.þ.h., en ekki til þess að sjá fyrir heimilinu. Sá róður hafi verið þungur en mögulegur með umönnunarbótum, barnalífeyri og barnabótagreiðslum ríkisins. Þetta hafi allt fallið niður við 18 ára aldur. Kærandi verði núna að sjá sjálfur um kostnað við nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, lyf, endurhæfingu, nám, ferðakostnað og félagsleg úrræði, sem séu honum lífsnauðsynleg. Frá árinu 2020 hafi kærandi tekið stöðugum framförum til betri andlegrar heilsu og aukins sjálfstæðis vegna þeirra úrræða sem hann hafi þörf á og hafi fengið.

Kærandi geti ekki unnið með skóla og/eða stundað 100% nám. Hann sé þó að taka sífelldum framförum og standi sig vel. Eðlilega finni hann fyrir því að þau mæðginin búi við kröpp kjör og að þau geti ekki leyft sér það sem mörgum öðrum finnist eðlilegt í lífinu. Hann standi ekki jafnfætis jafnöldrum sínum.

Á þessum forsendum sé beðið um endurskoðun og/eða útskýringu á því hvers vegna honum hafi verið neitað um barnalífeyri á þeim forsendum að fyrir utan húsnæðisliðinn þurfi hann, sökum fjárhagsstöðu móður, að sjá um allan kostnað sem snúi að honum ásamt fæðiskostnaði. Spurt er hvernig kærandi geti verið of „tekjuhár“.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun á greiðslu barnalífeyris vegna náms til kæranda á þeim grundvelli á því að hann væri með samþykkt tímabil endurhæfingarlífeyris.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir, enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.

Í 2. mgr. 3. gr. laga um félagslega aðstoð sé reglugerðarheimild. Í reglugerð nr. 140/2006, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, segi í 8. gr. að greiðslur barnalífeyris falli niður ef ungmenni hætti námi, við flutning lögheimilis frá Íslandi, ef ungmenni verður lífeyrisþegi eða skilyrðum þessarar reglugerðar sé að öðru leyti ekki lengur fullnægt.

Endurhæfingarlífeyrir sé greiddur samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 13. gr. laganna segi að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að réttur til greiðslna samkvæmt lögum stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til greiðslna og skuli greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur sé fyrir hendi.

Þann 12. júlí 2024 hafi kærandi sótt um barnalífeyri vegna náms. Í umsókn komi fram að ástæða umsóknar sé að foreldri sé lífeyrisþegi.

Þann 24. júlí 2024 hafi kæranda verið synjað um barnalífeyri vegna náms þar sem ekki sé heimilt að greiða einstaklingum barnalífeyri vegna náms ef þeir séu sjálfir á lífeyrisgreiðslum hjá Tryggingastofnun. Kærandi hafi með bréfi, dags. 4. júlí 2024, fengið samþykkt endurhæfingartímabil frá 1. ágúst 2024 til 30. nóvember 2024.

Bent hafi verið á í bréfinu að ef breytingar verði á högum kæranda þurfi að sækja um greiðslur að nýju.

Kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum þann 1. ágúst 2024 en þar sem kærandi sé með samþykkt endurhæfingartímabil frá 1. ágúst 2024 til 30. nóvember 2024, þá eigi hann ekki rétt á barnalífeyri vegna náms fyrir sama tímabil.

Af þeim sökum fari Tryggingastofnun fram á að úrskurðarnefndin staðfesti kærða ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. júlí 2024, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms var synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði greiðslna þar sem að hann væri á greiðslum endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að synja um greiðslu barnalífeyris vegna náms á framangreindum grundvelli.

Um barnalífeyri vegna menntunar er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Ákvæðið hljóðar svo:

„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Tryggingastofnun metur sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði er að námið og þjálfunin taki a.m.k. sex mánuði hvert ár. Ef um er að ræða óreglulegt nám eða námskeið skal námstími reiknaður í kennslustundafjölda á almanaksárinu og telst þá sex mánaða nám samsvara 624 kennslustundum. Brot úr mánuði telst heill mánuður. Ungmennið sjálft sækir um barnalífeyri samkvæmt þessari málsgrein. Tryggingastofnun getur frestað afgreiðslu barnalífeyris þar til sex mánaða námstíma er náð. Nú verður úrskurði skv. 2. mgr. 62. gr. barnalaga eigi við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því og er þá heimilt að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám, í samræmi við þessa málsgrein. Tryggingastofnun getur krafist framlagningar skattframtala með umsóknum um barnalífeyri. Heimilt er að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám ef ljóst er að ungmenninu er ókleift að innheimta greiðslur samkvæmt úrskurði á grundvelli 2. mgr. 62. gr. barnalaga. Við ákvörðun á rétti til barnalífeyris samkvæmt framansögðu er heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hefur.

Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.“

Með stoð í 2. mgr. 3. gr. laga um félagslega aðstoð hefur ráðherra sett reglugerð nr. 140/2006 um heimild til Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára. Svohljóðandi er 8. gr. reglugerðarinnar:

„Heimild til greiðslu barnalífeyris fellur niður ef ungmenni hættir námi, við flutning lögheimilis frá Íslandi, ef ungmenni verður lífeyrisþegi eða skilyrðum þessarar reglugerðar er að öðru leyti ekki lengur fullnægt.“

Byggt er á því í fylgiskjali með kæru að fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda og móður hans séu erfiðar. Í 3. gr. laga um félagslega aðstoð segir meðal annars að við ákvörðun á rétti til barnalífeyris sé heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hafi. Þá kemur fram í 8. gr. reglugerðarinnar að heimild til greiðslu barnalífeyris falli meðal annars niður ef ungmenni verði lífeyrisþegi. Kærandi er lífeyrisþegi með samþykktan endurhæfingarlífeyri frá 1. ágúst 2024. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllir hann því ekki skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris vegna náms.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. júlí 2024, um synjun á umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um greiðslu barnalífeyris vegna náms, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta