Mál nr. 32/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 32/2025
Miðvikudaginn 12. mars 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 16. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. janúar 2025, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með rafrænni umsókn 18. júlí 2024 sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá 1. janúar 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. janúar 2025, var umsókn kæranda samþykkt fyrir tímabilið 1. febrúar 2025 til 31. júlí 2025. Umsókn kæranda um greiðslur frá 1. janúar 2024 var synjað á þeim grundvelli að HAM námskeið hófst 24. janúar 2025 og viðtöl hjá sálfræðingi í febrúar 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. janúar 2025. Með bréfi, dags. 21. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. febrúar 2025, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri fyrir nokkrum mánuðum en umsóknin hafi ekki komist í gang fyrr en í lok nóvember 2024. Í endurhæfingaráætlun kæranda sé gert ráð fyrir HAM námskeiði sem muni hefjast í febrúar 2025 og þá hafi hún byrjað í hreyfistjórnun hjá sjúkraþjálfara 8. desember 2024.
Kærandi hafi því byrjað í endurhæfingu 8. desember 2024 en Tryggingastofnun vilji ekki greiða endurhæfingarlífeyri fyrr en í febrúar 2025.
Kærandi hafi óskað eftir vottorði hjá sjúkraþjálfara sem muni væntanlega senda það annað hvort til Tryggingastofnunar eða kæranda. Það sé ekki réttlátt að Tryggingastofnun telji hreyfistjórnun hjá sjúkraþjálfara ekki sem hluta af endurhæfingu kæranda þar sem það sé greinilega tekið fram á endurhæfingaráætluninni. Samkvæmt þessu ætti kærandi að fá greiddan endurhæfingarlífeyri fyrir desember og janúar einnig.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæra varði upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
Kærandi hafi fengið endurhæfingarlífeyri samþykktan vegna tímabilsins 1. febrúar 2025 til 31. júlí 2025. Kærandi telji að hún hefði einnig átt að fá tímabilið frá 1. desember 2024 samþykkt.
Ágreiningur málsins lúti að upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
Kveðið sé á um endurhæfingarlífeyri í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segi:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Í 2. mgr. 7. gr. sé að finna heimild til að framlengja greiðslutímabil að vissu skilyrði uppfylltu:
„Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“
Nánar sé kveðið á um endurhæfingarlífeyri í reglugerð nr. 661/2020, þar sem segi t.d. í 3. gr. varðandi mat á líklegum árangri endurhæfingar:
„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað um í reglugerðinni. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skýrt kveðið á um að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð segi að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Í 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að réttur til greiðslna stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til greiðslna og skulu greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur sé fyrir hendi. Greiðslur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.
Kærandi hafi lokið 20 mánuðum á endurhæfingarlífeyri á tímabilinu 1. júní 2022 til 1. febrúar 2024.
Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 18. júlí 2024, frá 1. janúar 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. júlí 2024, hafi verið óskað eftir gögnum vegna umsóknarinnar, n.t.t. hafi verið óskað eftir endurhæfingaráætlun, læknisvottorði og staðfestingu frá sjúkrasjóði stéttarfélags. Athygli hafi verið vakin á því í bréfinu að ekki væri hægt að afgreiða umsóknina nema umbeðin gögn myndu berast.
Kærandi hafi sent inn læknisvottorð, dags. 21. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 18. desember 2024, hafi Tryggingastofnun óskað eftir því að fá staðfestingu frá sálfræðingi og frá heilsugæslu á því hvenær HAM-námskeið myndu hefjast og tímalengd þess. Staðfestingar hafi borist þann 19. desember 2024.
Með bréfi, dags. 10. janúar 2025, hafi endurhæfingarlífeyrir verið samþykktur vegna tímabilsins 1. febrúar 2025 til 31. júlí 2025.
Þann 17. janúar 2025 hafi kærandi sent inn mótmæli vegna ákvörðunarinnar og hafi tilkynnt að búið væri að kæra hana til úrskurðarnefndar velferðarmála. Meðfylgjandi hafi verið yfirlit hreyfistjórnunar. Þar sem búið hafi verið að kæra ákvörðunina hafi mótmælunum ekki verið svarað af hálfu Tryggingastofnunar.
Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri hafi fyrirliggjandi gögn verið skoðuð. Með umsókn, dags. 19. júlí 2024, hafi borist læknisvottorð, dags. 21. nóvember 2024, og staðfesting sálfræðings, dags. 19. desember 2024, og staðfesting heilsugæslu á HAM-námskeiði.
Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði B, dags. 21. nóvember 2024, varðandi sjúkdómsgreiningar, sjúkrasögu kæranda og samantekt læknis um vinnufærni kæranda.
Þá segi að endurhæfingaráætlun sé eftirfarandi:
„Endurhæfingaráætlun: - Sálfræðimeðferð: hún hefur hitt C sálfræðing á Heilsugæslunni D í eitt skipti og búið er að biðja um áframhaldandi samtalsmeðferð - Lyfjameðferð: mun vera fylgt eftir af undirritaðri, lyfjabreyfingar hafa verið gerðar nýlega - Hreyfistjóri: hún fær nú hreyfiseðil og mun hitta hreyfistjóra til að auka hreyfingu, og þannig vonandi andlega líðan einnig - HAM námskeið: sótt hefur verið um HAM námskeið á vegum HH.“
Í staðfestingu frá heilsugæslunni um HAM-námskeið komi fram að námskeiðið muni hefjist 24. janúar 2025 og að námskeiðið sé fimm skipti. Í staðfestingu sálfræðings segi að kærandi hafi komið í matsviðtal hjá sálfræðingi 31. maí 2024. Hún hafi átt annað viðtal bókað 10. júní 2024 en hafi afboðað sig í það og talið sig ekki hafa þörf fyrir frekari viðtöl að sinni. Sálfræðingurinn hafi síðan fengið nýja tilvísun frá lækni kæranda. Fram hafi komið að búast mætti við að kærandi kæmist að í febrúar 2025 vegna biðlista.
Með bréfi, dags. 10. janúar 2025, hafi umsókn um endurhæfingarlífeyri verið samþykkt vegna tímabilsins 1. febrúar 2025 til 31. júlí 2025. Í bréfinu komi fram að samkvæmt staðfestingu frá heilsugæslu hefjist HAM-námskeið 24. janúar 2024 og að samkvæmt staðfestingu frá sálfræðingi hefjist viðtöl í febrúar 2025. Það sé heimilt að veita greiðslur frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að öll skilyrði séu uppfyllt og hafi því mat verið samþykkt frá 1. febrúar 2025. Samþykkt hafi verið endurhæfingartímabil í sex mánuði út frá fyrirliggjandi gögnum.
Afgreiðsla umsókna um endurhæfingarlífeyri sé byggð á 7. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
Í 3. gr. reglugerðar nr. 661/2020 segi að Tryggingastofnun skuli meta hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt sé upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segi að skilyrði greiðslna sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Í 5. gr. reglugerðar 661/2020 komi fram að endurhæfingaráætlun skuli byggja á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Fram komi að Tryggingastofnun skuli meta heildstætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi, né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Endurhæfingarlífeyrir taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í virkri skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til endurhæfingarlífeyris.
Við mat á umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris sé tekið mið að því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem tekið sé á heildarvanda umsækjanda, þ.e. andlegum og líkamlegum vanda eftir því sem við eigi hverju sinni. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði, dags. 21. nóvember 2024, sé vandi umsækjanda andlegur þ.e. þunglyndi og kvíði. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá sálfræðingi, dags. 19. desember 2024, muni viðtöl hefjast í febrúar 2025. Auk þess liggi fyrir staðfesting frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 19. desember 2024, að HAM námskeið muni hefjast þann 24. janúar 2025. Í ljósi þessa hafi skilyrði endurhæfingarlífeyris verið uppfyllt fyrsta dag næsta mánaðar, eða 1. febrúar 2025. Í 32. gr. laga um almannatryggingar segi að réttur til greiðslna stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til greiðslna og skuli greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur sé fyrir hendi.
Það sé mat stofnunarinnar að sú endurhæfing sem hafi falist í hreyfingu á vegum hreyfistjóra, sem hafi verið lögð upp með á tímabilinu 1. desember 2024 til 23. janúar 2025, hafi ekki talist fullnægjandi í ljósi heildarvanda og ekki til þess fallin að stuðla að auknu starfshlutfalli hjá kæranda.
Með framangreindum rökstuðningi telji Tryggingastofnun að ekki séu forsendur til að breyta ákvörðun sinni um endurhæfingarlífeyri. Tryggingastofnu fari því fram á að ákvörðun, dags. 10. janúar 2025, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris á tímabilinu 1. desember 2024 til 31. janúar 2025, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í . mgr. ákvæðisins segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur Tryggingastofnun ríkisins eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð hefur verið sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:
„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“
Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar segir um upphaf greiðslna:
„Grundvöllur greiðslna er að endurhæfingaráætlun liggi fyrir og er heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi hafi formlega hafið endurhæfingu hjá viðurkenndum umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar, sbr. 6. gr.“
Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:
„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heildstætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt.“
Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu bundin ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur séu heimilar. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði hafi verið uppfyllt á umdeildu tímabili.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að réttur til greiðslna stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til greiðslna og að greiðslur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur sé fyrir hendi.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð B, dags. 21. nóvember 2024, þar sem fram koma eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:
„Mixed anxiety and depressive disorder
Attention deficit hyperactivity disorder”
Um sjúkrasögu segir:
„A er X ára kvk sem hefur langa sögu um þunglyndi, kvíða og áföll. Greind með PTSD af sálfræðingi f. nokkrum árum í kjölfar ofbeldissambands. Hún hefur verið meira og minna óvinnufær frá X. Fór í endurhæfingu í VIRK á síðasta ári, fannst það gera mjög mikið og hún fór í hlutastarf í lok síðasta árs. Gekk þó ekki upp á þeim tímapunkti, fór í þunglyndi. Mikið álag einnig vegna […] sem þarnast umönnunar […]. Hún hefur nú verið í eftirliti á Heilsugæslunni D vegna þunglyndi/kvíða/PTSD. Komin á ný lyf og finns þau hjálpa. Hún telur sig nú tilbúna í endurhæfingu að nýju.“
Í samantekt og rök segir:
„Núverandi vinnufærni: Ein og staðan er í dag tel ég hana óvinnufæra vegna andlegra vandamála og álags vegna umönnunar […]. Prófaði hlutastarf í byrjun árs en þurfti að hætta vegna versnunar á líðan
Framtíðar vinnufærni: Með endurhæfingu á hún möguleika á að komast aftur út á vinnumarkaðinn.
Samantekt: X ára kvk msu þunglyndi, kvíða, PTSD sem hefur verið óvinnufær vegna andlegrar vanlíðan. Hún hefur áður náð árangri í endurhæfingu. Vonir standa nú til að með endurhæfingu komist hún aftur út á vinnumarkaðinn“
Í tillögu að meðferð sem er áætlað að standi yfir í sex mánuði segir:
„Endurhæfingaráætlun: - Sálfræðimeðferð: hún hefur hitt C sálfræðing á Heilsugæslunni D í eitt skipti og búið er að biðja um áframhaldandi samtalsmeðferð - Lyfjameðferð: mun vera fylgt eftir af undirritaðri, lyfjabreytingar hafa verið gerðar nýlega - Hreyfistjóri: hún fær nú hreyfiseðil og mun hitta hreyfistjóra til að auka hreyfingu, og þannig vonandi andlega líðan einnig - HAM námskeið: sótt hefur verið um HAM námskeið á vegum HH“
Í áætlun E hreyfistjóra, dags. 10. desember 2024, segir um ráðlagða hreyfingu:
„Þolþjálfun af meðalákefð í a.m.k. 20-50 mín (samtals 150 mín/viku), 3-7x/viku, 12-13 á Borgskala.
Þolþjálfun af mikilli ákefð í a.m.k. 15-25 mín (samtals 75 mín/viku), 3-5x/viku, 14-17 á Borgskala.
Styrktarþjálfun 2-3x/viku 2-3 sett 8-10 æfingar 8-12 endurtekningar.
Rannsóknar upplýsingar
Hreyfing minnkar þunglyndiseinkenni og eykur lífsgæði. Hreyfing hefur sýnt sömu áhrif og hugræn meðferð eða lyfjameðferð.
Úrræði
Dagleg þjálfun
• Ganga
Þolþjálfun
• Rösk ganga
• Sund
Styrktarþjálfun
• Með eigin líkamsþyngd sem mótstöðu“
Einnig liggur fyrir vottorð C sálfræðings, dags. 19. desember 2024, þar sem segir:
„Það vottast hér með að AA , kom í matsviðtal hjá undirritaðri 31.5.2024. Hún átti bókað annað viðtal 10.6.2024 en afboðaði og taldi sig ekki hafa þörf fyrir frekari viðtöl að sinni. Máli hennar var því lokað.
Undirrituð fékk svo nýja tilvísun frá lækni A dagsetta 13.11.2024. Biðlisti sálfræðiþjónustu er ca 3 mánuðir svo búast má við að hún komist að í febrúar 2025.“
Meðal gagna málsins er staðfesting frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þess efnis að kærandi hafi skráð sig á námskeiðið „Ham við kvíða og þunglyndi“ sem hefjist 24. janúar 2025 og muni vera í fimm skipti einu sinni í viku.
Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris frá 1. desember 2024. Tryggingastofnun ríkisins telur að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi ekki verið uppfyllt fyrr en 1. febrúar 2025, n.t.t. fyrsta degi næsta mánaðar eftir að HAM námskeið hófst í janúar 2024 samkvæmt endurhæfingaráætlun B læknis.
Við mat á upphafstíma greiðslu endurhæfingarlífeyris lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að skýrt er kveðið á um það í 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð að endurhæfingarlífeyrir greiðist á grundvelli endurhæfingaráætlunar og tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í fullnægjandi endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Það er mat úrskurðarnefndar, sem meðal annars er skipuð lækni, að kærandi hafi ekki byrjað í virkri endurhæfingu fyrr en í janúar 2025. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllti kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris fyrr en 1. febrúar 2025, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 1. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyrisgreiðslna til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir