Mál nr. 588/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 588/2024
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2024, um eftirstöðvar bótatímabils.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 15. ágúst 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt með 100% bótarétti og að eftirstöðvar bótatímabils væru 11,3 mánuðir.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 20. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 10. desember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hún hafi misst starf sitt í bankahruninu árið 2009. Kærandi hafi verið ráðin í tímabundið starf hjá B í 13 mánuði en sé nú atvinnulaus. Vinnumálastofnun hafi ákvarðað sem svo að hún yrði sett á gamlan bótarétt frá árinu 2009. Kærandi bendi á að réttur til skaðabóta fyrnist á 10 árum. Einnig bendi hún á að veikindaréttur endurnýist á skömmum tíma og það fari eftir kjarasamningum. Kærandi óski því eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði úrskurðaður nýr bótaréttur án tillits til fyrri bóta sem hún hafi fengið fyrir tæpum 16 árum.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 16. janúar 2009. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn til lok ágúst 2010.
Kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 15. ágúst 2024 og umsókn hennar hafi verið samþykkt þann 5. september 2024 með 100% bótarétti. Kærandi hafi mestmegnis starfað erlendis síðastliðinn áratug og starf hennar á Íslandi hafi ekki nægt til að hún hefði unnið sér inn rétt til nýs bótatímabils. Eldra bótatímabil kæranda frá árinu 2009 hafi því haldið áfram að líða þegar hún hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í ágúst 2024. Í ákvörðun Vinnumálstofnunar hafi kæranda verið tilkynnt að hún ætti eftir rúmlega 11 mánuði af yfirstandandi bótatímabili.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Kærandi krefjist þess að ákvörðun Vinnumálstofnunar frá 5. september 2024 verði felld úr gildi. Kærandi geri kröfu um að hún eigi rétt á nýju bótatímabili frá umsóknardegi 15. ágúst 2024.
Eins og fyrr segi hafi kærandi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur árið 2009 og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Árið 2010 hafi kærandi hafið störf í Bandaríkjunum og starfað þar til ársins 2023. Kærandi hafi snúið aftur til Íslands á árinu 2023 og hafið störf hjá B í ágúst það ár. Kærandi hafi starfað þar til í lok ágúst 2024 og þá sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun.
Í VI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það tímabil sem atvinuleysisbætur séu greiddar. Í 1. mgr. 29. gr. segi að atvinnuleitandi geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Þá segi í 4. mgr. 29. gr. laganna:
„Tímabilið skv. 1. mgr. heldur áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.“
Ákvæðið geri ráð fyrir því að atvinnuleitendi haldi áfram að nýta rétt sinn á grundvelli eldra bótatímabils í þeim tilfellum sem viðkomandi hafi ekki áunnið sér rétt á nýju tímabili þegar hann sæki um atvinnuleysisbætur að nýju. Engin tímamörk séu tilgreind í ákvæðinu varðandi hversu langt sé liðið frá því að atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þess í stað sé það gert að skilyrði fyrir ávinnslu á nýju bótatímabili að viðkomandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur.
Nánar sé fjallað um það hvernig nýtt bótaímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu í 31. gr. laganna. Þar segi einnig að nýtt tímabil skuli hefjast þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur.
Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í ágúst 2024 hafi hún starfað á innlendum vinnumarkaði í 12 mánuði frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur árið 2010. Bótatímabil kæranda frá árinu 2009 hafi því haldið áfram að líða, sbr. 4. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við mat á því hvort kærandi eigi rétt á nýju bótatímabili komi ekki til skoðunar hversu langur tími hafi liðið frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur heldur hve lengi kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði frá þeim tíma.
Með vísan til 4. mgr. 29. gr. og 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi kærandi því ekki rétt á endurnýjun bótatímabils. Eldra bótatímabil kæranda frá árinu 2009 hafi því átt að halda áfram að líða þegar hún hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í ágúst 2024.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki átt rétt á endurnýjun á bótatímabili sínu þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur í ágúst 2024.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að eftirstöðvar bótatímabils kæranda væru 11,3 mánuðir.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í 4. mgr. 29. segir að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.
Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í ágúst 2024 hafði hún starfað á innlendum vinnumarkaði frá ágúst 2023, eða í 12 mánuði. Þar á undan hafði kærandi mestmegnis starfað erlendis, eða frá árinu 2010 og fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur á árunum 2009 og 2010. Þar sem kærandi hafði starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafði hún ekki unnið sér inn rétt til nýs bótatímabils í ágúst 2024, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Eldra bótatímabil kæranda frá árinu 2009 hélt því áfram að líða og eftirstöðvar þess voru 11,3 mánuðir. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2024, um eftirstöðar bótatímabils A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir