Mál nr. 70/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 70/2025
Fimmtudaginn 6. mars 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 31. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir maímánuð 2022.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu maí til ágúst 2022. Með greiðsluseðli, dags. 10. júní 2022, var kæranda tilkynnt um skuld við Vinnumálastofnun, að fjárhæð 250.081 kr., vegna greiðslna fyrir maímánuð 2022. Þann 27. janúar 2025 var kæranda tilkynnt að ógreidd krafa vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta hefði verið áframsend til frekari meðferðar hjá Innheimtumiðstöð.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. janúar 2025. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2025, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 10. febrúar 2025.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála fer kærandi fram á að innheimta vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði felld niður. Kærandi tekur fram að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur 26. apríl 2022 og tekið það skýrt fram að síðasti starfsdagur hennar í þáverandi vinnu yrði 31. maí 2022. Umsókn kæranda hafi verið staðfest og á samþykktri umsókn frá Vinnumálastofnum komi fram að starfslok yrðu 31. maí 2022. Samt sem áður hafi Vinnumálastofnun greitt kæranda atvinnuleysisbætur fyrir maí 2022. Kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun að hún hefði ekki átt að fá atvinnuleysisbætur greiddar fyrir maí 2022 þar sem hún hafi enn verið í fullu starfi þá. Vinnumálastofnun hafi svarað kæranda með þeim hætti að ofgreiðslan yrði dregin frá næstu úrborgun. Þann 10. júní 2022 hafi kærandi svo fengið greiðsluseðil sem hafi verið á núlli en með upphæð skuldarinnar. Þann 30. júní 2022 hafi kærandi fengið útborgað fullar atvinnuleysisbætur og engin skuld dregin frá. Það hafi ekki verið fyrr en 28. júlí 2022 sem Vinnumálastofnun hafi farið að draga af henni hluta af skuldinni. Kærandi hafi svo fengið vinnu 24. ágúst 2022 og afskráð sig í kjölfarið af atvinnuleysisskrá. Þá hafi eftirstaða skuldarinnar verið komin niður í 120.142 kr.
Kærandi hafi búist við því að fá greiðslukröfur í heimabanka næstu mánuði eftir það en hafi þó aldrei fengið neinar. Þá hafi kærandi gert ráð fyrir að skuldin yrði dregin af henni í skattframtalinu 2023. Kærandi hafi talið að það hefði verið gert þar sem hún hafi þurft að greiða skattinum sambærilega upphæð sem hún hafi látið skipta niður á nokkra mánuði, eða tímabilið september til desember 2023.
Að mati kærandi sé fáránlegt að koma með innheimtukröfu tveimur og hálfu ári frá síðustu útborgun. Afsökun Vinnumálastofnunar eigi ekki við rök að styðjast þar sem að ofgreiðslan hafi átt sér stað þegar Covid faraldurinn hafi verið á hraðri niðurleið og búið hafi verið að aflétta öllum samkomubönnum. Einnig hafi verið greinilegt að stofnunin hefði dregið mánaðarlega af atvinnuleysisbótum hennar vegna skuldarinnar. Um sé að ræða mistök Vinnumálastofnunar frá byrjun til enda á kostnað kæranda. Vinnumálastofnun þurfi greinilega að endurskoða sitt launakerfi ef stofnunin geti ekki auðveldlega séð hverjir hafi fengið ofgreitt og hverjir séu í skuld. Einnig finnist kæranda athugunarvert að stofnunin skoði ekki betur stöðu mála hvers og eins þegar um afskráningu sé að ræða. Það séu ekki góðir verkferlar að staðfesta umsóknir og uppsagnir blindandi og rukka svo þremur áramótum seinna fyrir eitthvað sem sé klárlega mistök Vinnumálastofnunar.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir maímánuð 2022.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Ákvörðun um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir maímánuð 2022 var tilkynnt kæranda með greiðsluseðli, dags. 10. júní 2022. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. janúar 2025. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst meira en ári eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir