Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 647/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 647/2024

Fimmtudaginn 3. apríl 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2024, um upphafsdag umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 25. október 2024. Með erindi, dags. 26. nóvember 2024, óskaði kærandi eftir því að umsókn hennar myndi gilda frá 19. september 2024 í stað umsóknardags. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt með 100% bótarétti en beiðni hennar um breytingu á dagsetningu umsóknar væri hafnað. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. desember 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.   

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. desember 2024. Með bréfi, dags. 11. desember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 23. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. janúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé ekki sammála ákvörðun Vinnumálastofnunar. Hún hafi sent Vinnumálastofnun öll gögn og sannanir varðandi fyrrum vinnu sína en síðasti vinnudagurinn hafi verið 19. september 2024. Kærandi hafi verið meðvituð um tveggja mánaða biðtíma og því ekki sótt um atvinnuleysisbætur strax. Kærandi hafi aldrei áður sótt um atvinnuleysisbætur og því gert þau mistök að sækja ekki um strax. Þá tekur kærandi fram að hún hafi verið virk í atvinnuleit frá 20. september 2024.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 25. október 2024. Samkvæmt upplýsingum í umsókn kæranda hafi hún sjálf sagt upp störfum hjá B. Samhliða umsókn sinni hafi kærandi veitt skýringar á starfslokum sínum þess efnis að hún hafi hætt störfum þar sem hún hefði upplifað sig staðnaða í starfi og að yfirstjórn hefði lítinn áhuga á starfsfólki sínu. Kæranda hafi verið sent erindi, dags. 25. nóvember 2024, þar sem óskað hafi verið eftir frekari skýringum á starfslokum hennar og henni bent á að hún gæti skilað gögnum, meðal annars frá stéttarfélagi sínu máli sínu til skýringar. Kærandi hafi skilað inn áþekkum skýringum og hefðu borist 25. október 2024 sem hafi verið mótteknar 25. nóvember 2024. Þann 26. nóvember 2024 hafi kærandi einnig sent inn beiðni þess efnis að umsókn hennar yrði látin gilda frá 19. september 2024 en ekki 25. október 2024 þar sem hún hefði vegna misskilnings gert mistök í umsóknarferlinu.

Með erindi þann 28. nóvember 2024 hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til starfsloka hafi var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar verið felldur niður í tvo mánuði. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Beiðni kæranda um að umsókn hennar yrði látin gilda frá 19. september 2024 hafi einnig verið hafnað.

Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á þeirri ákvörðun að synja um breytingu á gildistíma umsóknar með erindi, mótteknu dags. 2. desember 2024, sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 4. desember 2024, þar sem fyrri ákvörðun hafi verið staðfest.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna beiðni kæranda um að umsókn hennar taki gildi aftur fyrir umsóknardag. Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum.“

Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun taki við umsókn um atvinnuleysisbætur. Eðli máls samkvæmt sé það grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt með umsókn til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun telji sér almennt ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsókn atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur.

Fyrir liggi að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 25. október 2024. Kærandi geri kröfu um það fyrir úrskurðarnefnd að umsókn hennar um atvinnuleysistryggingar taki mið af síðasta starfsdegi hennar og gildi frá 20. september 2024.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsóknardag hafi stofnunin kannað hvort kærandi hefði, áður en hún hafi sótt um greiðslur hjá stofnuninni, gert tilraun til að sækja um atvinnuleysisbætur, verið í sambandi við stofnunina eða fengið leiðbeiningar um upphafsdag umsóknar.

Almennar leiðbeiningar Vinnumálastofnunar til atvinnuleitenda um það hvenær skuli sækja um atvinnuleysibætur séu þær að unnt sé að sækja um hjá stofnuninni allt að mánuði áður en viðkomandi verði atvinnulaus að fullu eða hluta. Umsækjendur geti þó í fyrsta lagi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem þeir geti hafið störf, þ.e. séu atvinnulausir. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar sé sérstaklega vakin athygli á því að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar afturvirkt. Einnig séu þar ítarlegar leiðbeiningar um hvernig skuli haga umsókn um atvinnuleysistryggingar. Þá séu einnig greinargóðar leiðbeiningar í umsóknarferli um skyldu atvinnuleitenda til að staðfesta atvinnuleit eftir að umsókn sé fullkláruð. Ástæður þess að kærandi hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysistryggingar frá 19. eða 20. september 2024 séu tilkomnar vegna athafnaleysis kæranda. Hvorki mistök né villur í kerfum stofnunarinnar hafi valdið því að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um greiðslur atvinnuleysisbóta fyrr.

Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri beiðni kæranda um tilfærslu á upphafsdegi umsóknar hennar, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að umsókn kæranda skuli taka mið af þeirri dagsetningu sem hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur, eða þann 25. október 2024.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Fyrir liggur að Vinnumálastofnun tók við umsókn kæranda 25. október 2024 og átti hún því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Framangreind skilyrði laganna eru ströng og engar undantekningar á þeim þar að finna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2024, um að synja beiðni A, um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta