Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 678/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 678/2024

Fimmtudaginn 3. apríl 2025.

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. desember 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. janúar 2025, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. desember 2024. Með bréfi til kæranda, dags. 2. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð 16. janúar 2025. Svar barst ekki. Með erindi til Vinnumálastofnunar, dags. 4. febrúar 2025, var óskað eftir afriti af ákvörðun stofnunarinnar vegna kærunnar. Gögn bárust 6. febrúar 2025. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 6. mars 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa fengið tveggja mánaða refsingu hjá Vinnumálastofnun fyrir þremur mánuðum síðan. Kærandi hafi í nóvember 2024 byrjað að vinna á kaffihúsi en staðurinn hafi lokað í sama mánuði. Nú eigi kærandi ekki peninga til að borga fyrir leigu, mat eða neitt og lendi brátt á götunni. Að sögn Vinnumálastofnunar fái kærandi ekki aðstoð vegna þess að vinnustaðurinn hafi greinilega einnig fengið hjálp frá stofnuninni. Vegna þessa þurfi kærandi að vera í einn auka mánuð án aðstoðar. Þannig muni þessi tveggja mánaða refsing enda sem fjórir mánuðir sem kærandi skilji ekki. Kærandi hafi nú þegar tekið út þessa tvo mánuði og hafi unnið í einn mánuð. Vinnustaðnum hafi verið lokað sem sé ekki hans sök. Kærandi sé nú án tekna og atvinnulaus.  

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að upphaf þessa máls megi rekja til þess að þann 30. september 2024 hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði sökum þess að hann hafi ekki mætt á boðaðan upplýsingafund sem hafi verið haldinn á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 10. september 2024. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggi að sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 481/2024. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þann 1. nóvember 2024 hafi kærandi verið afskráður af atvinnuleysisbótum þar sem hann hafi hafið störf á nýjum vinnustað. Starf kæranda hafi verið styrkt með vinnumarkaðsúrræði í gegnum Vinnumálastofnun á grundvelli 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og reglugerðar nr. 918/2020 hjá fyrirtæki að nafni B. frá og með 1. nóvember 2024. Kærandi hafi aftur orðið atvinnulaus þann 1. desember 2024 og því sótt að nýju um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn til Vinnumálastofnunar samdægurs.

Með erindi, dags. 15. janúar 2025, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til ótekins biðtíma kæranda, sem honum hafi verið gert að sæta með ákvörðun stofnunarinnar frá 30. september 2024, yrðu bætur til hans hins vegar ekki greiddar fyrr en eftir tæpan mánuð sem eftir væri af biðtímanum. Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. janúar 2025, hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 28. desember 2024.

Í kæru greinir kærandi frá því að honum þyki það óréttlát að hann þurfi að sæta eftirstöðvum biðtíma frá því í september 2024. Kærandi telji sig hafa verið í góðri trú og farið í vinnu á ráðningarstyrk en fyrirtækið hafi hætt starfsemi einungis einum mánuði eftir að hann hafi hafið störf.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skuli sæta eftirstöðvum viðurlaga þegar hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju þann 1. desember 2024. Eins og að framan hafi verið rakið hafi kærandi með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. september 2024, verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki mætt á boðaðan kynningarfund. Fyrir liggi að sú ákvörðun hafi verið staðfest af úrskurðarnefndinni í máli nr. 481/2024. Kærandi hafi síðar verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann  1. nóvember 2024 þar sem hann hafi hafið störf á ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun. Í máli þessu komi því til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 3. mgr. 58. gr. laganna en þar segi:

„Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.“

Fyrir liggi að starf kæranda á tímabilinu 1.-30. nóvember 2024 hafi verið vinnumarkaðsaðgerð í skilningi 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Framangreint ákvæði eigi því ekki við í máli kæranda, enda sé skýrt tekið fram að viðurlagatími falli niður ef það starf sem atvinnuleitandi taki að sér sé „ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum“.

Kærandi hafi ekki unnið af sér biðtíma sem honum hafi verið gert að sæta með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. september 2024. Kæranda hafi því borið að sæta eftirstöðvum viðurlaga þegar hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 1. desember 2024.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að eftirstöðvar biðtíma hans skuli halda áfram að líða frá síðasta umsóknardegi kæranda, dags. 1. desember 2024.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. september 2024 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann mætti ekki á boðaðan kynningarfund hjá stofnuninni. Kærandi var afskráður af atvinnuleysisskrá 1. nóvember 2024 þar sem hann hóf störf á nýjum vinnustað með ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020. Kærandi var því ekki búinn að taka út allan viðurlagatímann við afskráninguna.

Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. desember 2024. Umsókn kæranda var samþykkt 15. janúar 2025 en tekið var fram að bætur yrðu ekki greiddar fyrr en ótekinn biðtími frá fyrri umsókn væri liðinn.

Í 3. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að taki hinn tryggði starfi sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma samkvæmt 1. mgr. standi falli viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Þá segir í 3. mgr. að ef starfið vari í skemmri tíma, hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á haldi viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur.

Fyrir liggur að kærandi var í starfi á tímabilinu 1.-30. nóvember 2024 og að það starf var hluti af vinnumarkaðsaðgerð Vinnumálastofnunar. Skilyrði 3. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 til niðurfellingar viðurlaga frá 30. september 2024 var því ekki uppfyllt og hélt þá allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar kærandi skráði sig atvinnulausan að nýju 1. desember 2024. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. janúar 2025, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til A, á bið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta