Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 16/2025-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 16/2025

Fimmtudaginn 3. apríl 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. nóvember 2024, um 42% bótarétt.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 21. október 2024 og var umsóknin samþykkt 5. nóvember 2024 með 42% bótarétti. Þann 30. janúar 2025 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að bótaréttur hefði verið hækkaður í 59%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. janúar 2025. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. mars 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi með kæru kemur fram að kærandi mótmæli harðlega ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi 42% hlutfall bóta og telji sig eiga rétt á 100% bótum. Þá kemur fram að kærandi hafi ítrekað sótt um vinnu án árangurs og hann geti ekki lifað af þeim bótum sem Vinnumálastofnun hafi ákveðið.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun á árunum 2020 til 2022 en í október 2022 hafi kærandi fullnýtt bótarétt sinn.

Kærandi hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur þann 18. september 2024. Með umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi m.a. fylgt staðfesting á starfstímabili þar sem fram hafi komið að kærandi hafi starfað hjá B í 100% starfi á tímabilinu 1. september 2023 til 1. janúar 2024. Við úrvinnslu umsóknar kæranda hafi einnig verið skráð starfstímabil til ávinnslu bótaréttar hjá C á tímabilinu 1. ágúst 2023 til 31. ágúst 2023 í samræmi við upplýsingar frá Skattinum.

Með erindi, dags. 8. október 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið synjað með vísan til þess að hann hefði fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Í erindi Vinnumálastofnunar hafi verið tilgreint að kærandi hefði fullnýtt 30 mánaða bótatímabil sitt þann 17. október 2022. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 29. og 30. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju þann 21. október 2024. Með erindi dags. 5. nóvember 2024 hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 42%. Upphafsdagur bótatímabils hafi verið 21. október 2024.

Þann 28. janúar 2025 hafi borist staðfesting frá stéttarfélagi kæranda, Bárunni stéttarfélagi, þar sem fram hafi komið að kærandi hefði ekki fengið greidd laun frá fyrrverandi atvinnurekanda sínum, D. Samkvæmt staðfestingu stéttarfélagsins hafi verið send krafa af hálfu lögmannsstofu á hendur fyrirtækinu um að greiða kæranda vangreidd laun. Mál kæranda vegna vangreiddra launa væri enn óleyst. Þann 28. janúar 2025 hafi jafnframt borist tölvupóstur frá stéttarfélagi kæranda þar sem staðfest hafi verið að stéttarfélagið væri með kröfu um vangreidd laun, samtals 197 tíma á tímabilinu maí 2024 og 156,5 tíma í júní 2024. Stéttarfélagið hafi staðfest að starfstími kæranda á tímabilinu maí til júní 2024 væri 95,14%. Þegar báðir mánuðirnir væru teknir saman væri starfshlutfall kæranda 100% á tímabilinu maí 2024 til júní 2024.

Með erindi, dags. 30. janúar 2025, hafi málið verið tekið fyrir að nýju og bótaréttur kæranda reiknaður upp á nýtt með tilliti til gagna frá stéttarfélaginu. Kæranda hafi verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur væri 59%.

Ákvörðun stofnunarinnar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 8. janúar 2025. Í kæru geri kærandi kröfu um 100% bótarétt. Kærandi beri við að hann geti ekki lifað á þeirri fjárhæð sem útreiknaður bótaréttur veiti honum. Kærandi fari fram á að þegar greiddar atvinnuleysisbætur séu leiðréttar til samræmis.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. 1. mgr. kveði á um það að atvinnuleitandi geti átt rétt á greiðslum í allt að 30 mánuði.

Í 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um endurnýjun á bótatímabili. Í ákvæðinu segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði skv. 29. gr. getur áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Hefst þá nýtt tímabil skv. 29. gr. en að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Í greinargerð er rakið að kærandi hafi fullnýtt eldra tímabil sitt þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í október 2024. Því hafi komið til skoðunar hvort 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ætti við í máli hans og hvort hann ætti rétt á nýju bótatímabili á grundvelli ákvæðisins. Þá hafi jafnframt komið til skoðunar hver ávinnsla bótaréttar kæranda væri.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Skattinum hafi kærandi verið við störf hjá C á tímabilinu 1.-31. ágúst 2023 í 43% starfi og hjá B á tímabilinu 1. ágúst 2023 til 31. desember 2023 í 100% starfi. Samkvæmt gögnum frá stéttarfélagi kæranda hafi kærandi verið í 100% starfshlutfalli hjá D á tímabilinu 1. maí 2024 til 30. júní 2024. Ljóst sé af gögnum málsins að kærandi hafi starfað að lágmarki í sex mánuði að loknu fyrra bótatímabili og uppfylli því skilyrði 30. gr. laganna um endurnýjun á bótatímabili. Eftir standi þá að reikna bótahlutfall kæranda í samræmi við vinnusögu hans á ávinnslutímabili.

Samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist launamaður að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur. Launamaður sem hafi starfað skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma. Þá segi í 5. mgr. ákvæðisins að tryggingarhlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skuli miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Að teknu tilliti til framangreindrar reiknireglu og fyrirliggjandi gagna um vinnusögu kæranda á ávinnslutímabili sé útreikningur á bótarétti kæranda 59%. Vinnumálastofnun bendi á að samkvæmt greiðslusögu kæranda hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til hans verið leiðréttar til samræmis við 59% bótarétt hans. Engin frekari gögn hafi borist frá kæranda sem gefi tilefni til hækkunar á bótaútreikningi.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða telji Vinnumálastofnun að rétt hafi verið staðið að máli kæranda og að staðfesta beri ákvörðun, dags. 30. janúar 2025.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 42% bótarétt kæranda, dags. 5. nóvember 2024. Eftir að kæra barst úrskurðarnefnd tók Vinnumálastofnun mál kæranda upp að nýju og var bótaréttur reiknaður upp á nýtt þann 30. janúar 2025 og ákveðinn 59%. Kærandi gerir í kæru sinni kröfu um 100% bótarétt.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a. lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 telst launamaður, sbr. a. lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 5. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

Í 5. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. geti tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skuli miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Í athugasemdum með 15. gr. laga nr. 54/2006 segir svo:

„Ákvæði þetta fjallar um þann tíma sem launamaður þarf að vera virkur á vinnumarkaði til að teljast vera að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt frumvarpinu. Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar öðlast launamaður rétt til hámarksbóta eftir að hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði áður en hann verður atvinnulaus, sbr. 8. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að ávinnslutímabilið sé það sama og áður þannig að það miðist við síðustu tólf mánuðina áður en umsækjandi sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Það liggur fyrir að margir sækja ekki um atvinnuleysisbætur um leið og þeir missa vinnu sína. Getur þá liðið einhver tími frá því að þeir misstu vinnu sína þar til þeir sækja um atvinnuleysisbætur. Má því gera ráð fyrir að reglur um geymdan bótarétt skv. V. kafla frumvarpsins komi til álita þegar nokkur tími líður milli þess að sótt er um atvinnuleysisbætur og umsækjandi missti vinnu sína. Sú breyting er lögð til að starfshlutfall launamanns hefur ekki áhrif á lengd þess tíma sem tekur hann að ávinna sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins eins og verið hefur. Síðan er gert ráð fyrir í [5]. mgr. að starfshlutfall launamannsins komi til með að hafa áhrif á það tryggingarhlutfall sem hann getur átt rétt á.

Má því segja að um tvær reglur sé að ræða sem spila saman. Annars vegar er litið til starfstíma og hins vegar til starfshlutfalls. Þessi breyting hefur þau áhrif að það tekur launamenn jafnlangan tíma að ávinna sér rétt til lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins óháð starfshlutfalli eða samtals þrjá mánuði á ávinnslutímabilinu. Sem dæmi má nefna launamann í 50% starfshlutfalli. Samkvæmt gildandi kerfi þarf hann að starfa í samtals 20 vikur á síðustu tólf mánuðum til að öðlast lágmarksatvinnuleysisbætur og allt tímabilið eða tólf mánuði til að öðlast rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Það fyrirkomulag sem lagt er til með ákvæði þessu gerir hins vegar ráð fyrir að launamaður í 50% starfshlutfalli sem starfar samtals í þrjá mánuði öðlist rétt til lágmarks grunnatvinnuleysisbóta á sama hátt og sá sem er í 25% eða 100% starfshlutfalli. Enn fremur öðlast þessi launamaður rétt til helmings réttar til atvinnuleysistrygginga eftir starf í 50% starfshlutfalli í sex mánuði á sama hátt og sá sem er í 100% starfi. Hafi sá hinn sami starfað í níu mánuði á ávinnslutímabilinu á hann rétt á 75% tryggingarhlutfalli samkvæmt fyrri reglunni. Þá kemur síðari reglan til með að hafa áhrif þannig að sá hinn sami kemur ekki til með að eiga meiri rétt en sem nemur 50% tryggingarhlutfalli í samræmi við starfshlutfallið á ávinnslutímabilinu. Þannig getur hann ekki öðlast betri rétt innan kerfisins enda þótt hann hafi starfað í lengri tíma en sex mánuði á ávinnslutímabilinu þar sem starfshlutfallið hefur áhrif á tryggingarhlutfallið sem slíkt. Hafi umsækjandi ekki verið í sama starfshlutfalli á ávinnslutímabilinu skal taka mið af meðalstarfshlutfalli hans á tímabilinu. Með þessu nýja fyrirkomulagi er leitast við að draga úr áhrifum starfshlutfalls á atvinnuleysistryggingar launamanna. Síðan er gert ráð fyrir að eigi undanþága [5]. mgr. 14. gr. frumvarpsins við um launamanninn þannig að hann getur talist í virkri atvinnuleit enda þótt hann óski eftir hlutastarfi getur hann ekki fengið hærra tryggingarhlutfall en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig í. Hlutfallslegur réttur innan kerfisins hefur síðan áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 32. og 33. gr. frumvarpsins.“

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var bótaréttur kæranda reiknaður út frá 100% starfshlutfalli á tímabilinu ágúst til desember 2023 og 100% starfshlutfalli í maí og júní 2024. Fyrir úrskurðarnefnd hafa ekki verið lögð fram gögn sem benda til þess að sá útreikningur sé rangur. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 59% bótarétt kæranda staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. janúar 2025, um 59% bótarétt A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta