Mál nr. 620/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 620/2024
Fimmtudaginn 20. febrúar 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 28. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2024, um að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. september 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt með 100% bótarétti.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 3. desember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 22. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. janúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hún hafi skyndilega misst starf sitt 20. september 2024. Kærandi hafi skráð sig hjá Vinnumálastofnun og beðið róleg eftir staðfestingu þar sem hún hafi verið búin að vinna óslitið í mörg ár. Það hafi komið kæranda á óvart þegar hún hafi fengið mjög litla greiðslu í þremur greiðslum í stað þeirrar háu upphæðar sem hún hafi átt rétt á fyrstu þrjá mánuðina þar sem hún hafi verið að vinna óslitið frá 15. desember 2021.
Kærandi tekur fram að hún hafi fyrst nýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta í janúar 2020 og þegið þær þar til í lok marsmánaðar 2021. Frá apríl 2021 hafi kærandi unnið hjá B á sumarsamningi til októberloka 2021. Eftir það tímabil hafi kærandi fljótt fundið nýtt starf og frá desembermánuði hafi hún unnið hjá C til 15. júní 2022. Í millitíðinni hafi kærandi byrjað að vinna hjá D, eða í maí 2022 og það starf hafi staðið til loka janúar 2024. Þar hafi kærandi orðið fyrir vinnuslysi sem hún hafi ekki tilkynnt. Síðar hafi verkir ágerst og vegna líkamlegrar vinnu hafi kærandi þurft að fara í aðgerð á hné. Frá 17. febrúar 2023 til maíloka hafi kærandi fengið greiðslur frá Sameyki og frá 1. júní 2023 til loka apríl 2024 frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi hafi hins vegar átt að snúa aftur til vinnu í febrúar 2024. Hún hafi enn verið starfsmaður fyrirtækisins á meðan hún hafi þegið greiðslur frá Tryggingastofnun, með möguleika á að snúa aftur til vinnu. Kærandi hafi ekki sagt upp vinnu sinni, hún hafi einungis verið í tímabundnu veikindaleyfi á batatímabilinu. Frá apríl 2024 hafi kærandi farið að starfa hjá E og síðan F. til loka september 2024.
Kærandi óski eftir því að viðurkennt verði að hún hafi unnið nógu marga mánuði til þess að ná fullum atvinnuleysisbótum, eða 360.000 kr. fyrstu þrjá mánuðina. Kærandi hafi ekki oft þurft að nýta sér þjónustu Vinnumálastofnunar, aðeins á Covid tímabilinu og þegar hún hafi verið á milli starfa. Kærandi hafi ekki komið hingað til lands til þess að misnota félagslega stuðningskerfið. Kærandi hafi búið á Íslandi í næstum átta ár og hér sé hennar heimili. Hún vilji lifa hér og starfa eðlilega. Atvinnuleysi kæranda hafi ekki verið skipulagt og það sé algjörlega óæskilegt í hennar lífi. Kærandi biðji um viðurkenningu á því að þeir mánuðir sem hún hafi verið í starfi, eða frá 15. desember 2021 til 30. janúar 2024, sem séu yfir 24 mánuðir, gefi henni tækifæri til að lifa og starfa eðlilega. Að auki hafi kærandi starfað í sex mánuði hjá F.
Kæranda langi mikið að finna sér nýja vinnu og vonist til þess að það gerist fljótt. Kærandi óski þess að henni verði ekki refsað fyrir það að taka veikindaleyfi sem hún hafi ekki getað gert að. Kærandi sé heiðarleg manneskja og hafi alltaf verið heiðarleg gagnvart stofnunum og lögum á Íslandi. Kærandi telji sig eiga rétt á fullum bótum þar sem hún hafi enn verið starfsmaður D í veikindaleyfinu. Kærandi vonist eftir jákvæðri niðurstöðu og samþykki fyrir því að hún eigi rétt á hærri greiðslum fyrstu þrjá mánuði bótagreiðslnanna.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni þann 11. júní 2019. Bótahlutfall hennar hafi þá verið reiknað 100% af grunnatvinnuleysisbótum. Útreikningur á bótarétti kæranda hafi verið byggður á vottorði frá fyrrum vinnuveitendum.
Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 21. desember 2019 og með bréfi, dags. 29. janúar 2020, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hefði verið samþykkt frá 1. janúar 2020 og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Samtals hafi verið greiddir 15,31 mánuðir til kæranda á tímabilinu 1. janúar 2020 til 14. desember 2021.
Kærandi hafi síðast sótt um um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. september 2024. Þann 9. október 2024 hafi kærandi fengið bréf þess efnis að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Vinnusaga kæranda frá síðustu greiðslum í desember 2021 til umsóknardags 22. september 2024 hafi ekki numið þeim 24 mánuðum sem til þurfi til ávinnslu nýs bótaréttar og kærandi hafi því verið samþykkt á sama tímabil sem hafi hafist 31. júlí 2019.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Ákvæði 1. mgr. kveði á um það að atvinnuleitandi geti átt rétt á greiðslum í allt að 30 mánuði.
Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um upphaf nýs bótatímabils áður en fyrra tímabili ljúki að fullu: Í ákvæðinu segi:
„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“
Kærandi hafi ekki fullnýtt eldra tímabil sitt þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur í september 2024. Því hafi komið til skoðunar hvort 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ætti við í máli hennar og hvort hún ætti rétt á nýju bótatímabili á grundvelli ákvæðisins.
Samkvæmt vottorðum vinnuveitanda hafi kærandi verið við störf hjá C frá 1. janúar 2022 til 30. júní 2022, eða í 6 mánuði. Þá hafi kærandi verið við störf hjá D ehf. frá 15. maí 2022 til 28. febrúar 2023 í 100% starfshlutfalli, frá 1. apríl 2023 til 5. maí 2023 í 40% starfi og frá 1. janúar 2024 til 31. janúar 2024 í 100% starfshlutfalli, eða samtals í 11,5 mánuði. Þá hafi kærandi starfað hjá E. frá 1. apríl 2024 til 9. apríl sama ár, í sjö daga, 0,267 mánuð. Að lokum hafi starf verið skráð hjá kæranda hjá F ehf. frá 16. apríl 2024 til 30. september 2024 í 100% starfshlutfalli, eða samtals í 5,5 mánuði. Þar sem skörun sé á vottorðum vinnuveitanda reiknist starfstímabil kæranda frá 1. janúar 2022 til 28. febrúar 2023, frá 1. apríl 2023 til 5. maí sama ár og frá 1. apríl 2024 til umsóknardags. 22. september 2024.
Ljóst sé af gögnum málsins að frá því að kærandi hafi fengið síðast greiddar atvinnuleysisbætur og þar til hún hafi sótt um að nýju í september 2024 hafi starfstímabil hennar náð 23,23 mánuðum við ítrustu útreikninga, en með tilliti til skörunar tímabila sé raunfjöldi mánaða 21,73.
Í ljósi framangreindra sjónarmiða telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 31. gr. laganna. Eldra tímabil hafi því haldið áfram að líða þegar kærandi hafi sótt að nýju um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hún eigi því ekki rétt á greiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sbr. 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að umsókn kæranda sé rétt heimfærð undir fyrra tímabil þar sem vinnusaga hennar nái ekki 24 mánuðum samfellt frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur og að hafna beri kröfum kæranda um greiðslur tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafði unnið sér inn rétt til nýs bótatímabils þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í september 2024 og hvort hún hefði átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í 4. mgr. 29. segir að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 54/2006 öðlast hinn tryggði rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð, nema annað leiði af lögunum. Þá segir í 8. mgr. 32. gr. að þegar tímabil samkvæmt 29. gr. haldi áfram að líða er hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu, enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn samkvæmt 1. mgr.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi síðast greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun í desember 2021. Kærandi starfaði hjá nokkrum fyrirtækjum frá þeim tíma og þar til hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. september 2024. Þá fékk kærandi greiðslur frá Styrktar- og sjúkrasjóði Sameykis, Sjúkratryggingum Íslands og Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt ítrustu útreikningum Vinnumálastofnunar náði starfstímabil kæranda á innlendum vinnumarkaði 23,23 mánuðum. Kærandi hafði því ekki, þegar umsókn hennar barst Vinnumálastofnun þann 22. september 2024, starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur og því ekki unnið sér inn rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Eldra tímabil kæranda hélt því áfram að líða og því átti hún ekki rétt á greiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sbr. 8. mgr. 32. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2024, í máli A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir