Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 662/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 662/2024

Fimmtudaginn 20. mars 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. desember 2024, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun á árinu 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. júní 2022, voru greiðslur til kæranda stöðvaðar á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sótti á ný um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 18. nóvember 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. desember 2024, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hann hefði fullnýtt bótatímabil sitt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. desember 2024. Með bréfi, dags. 3. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 28. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. febrúar 2025 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 2025.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun en umsókn hans hafi verið synjað þar sem hann hefði ekki fengið greidd næg laun til að eiga rétt á nýju bótatímabili.

Fyrir um það bil tveimur árum hafi kærandi haft samband við Skattinn og spurt hvort kærandi gæti sett lágmarkslaun vegna mánaðarlegra uppgjara þar sem hann þyrfti að gefa upp einhver laun á meðan hann ræki fyrirtækið B. Kærandi hafi ekki getað greitt sér meira en 10.000 til 30.000 kr. mánaðarlega. Kæranda hafi verið tjáð að það væri í lagi en að það væri einnig gott ef hann gæti greitt tryggingagjald til að vera tryggður ef hann þyrfti á atvinnuleysisbótum að halda, sem hann hafi gert. Nú rúmlega tveimur árum síðar hafi kærandi fengið svar frá Vinnumálastofnun um að stofnunin noti launaupphæð sem viðmið fyrir atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum. Kærandi hafi ekki kafað ofan í þau lög en Skatturinn túlki það svo að greiðslur tryggingagjalds tryggi bótarétt. Eins og fram komi í gögnum málsins séu nægjanlegar greiðslur fyrir hendi sem samsvari nægjanlegum launum og fullt bótatímabil sé til staðar.

Kærandi hafi greint Vinnumálastofnun frá því að hann hefði greitt tryggingagjald eins og honum hefði verið ráðlagt að gera. Stofnunin hafi óskað eftir skriflegu áliti frá Skattinum en í því áliti komi fram að tryggingagjald sé greitt til að tryggja rétt til atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi greitt tryggingagjaldið og telji sig því eiga rétt á bótum.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar bendir hann á að stofnunin viðurkenni í greinargerð sinni að greitt hafi verið af launum til Skattsins, auk tryggingagjalds, eins og kæranda hafi verið ráðlagt að gera frá október 2022. Samkvæmt símtali kæranda við Vinnumálastofnun og Skattinn, skömmu eftir stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga á fyrra bótatímabili, ætti kærandi að greiða eins mikil laun og hann sæi sér fært að gera, en greiða fullt tryggingagjald. Nú þegar á reyni vilji Vinnumálastofnun hirða tryggingagreiðslur kæranda án þess að taka ábyrgð í málinu. Kæranda hefði aldrei dottið í hug að greiða umrætt tryggingagjald hefði hann ekki verið beðinn um það.

Það sé alveg skýrt að launagreiðslur og starfstímabil hafi verið fyrir hendi frá október 2022 til nóvember 2024 og kærandi hafi þannig áunnið sér bótarétt á þeim grundvelli. Ágreiningur málsins snúist um hvort greitt tryggingagjald sé nægjanlegt og hvort upplýsingar frá Skattinum og Vinnumálastofnun, fengnar fyrir tveimur árum, eigi að virða.

Einn starfsmaður hafi starfað hjá fyrirtækinu B síðustu 12 ár, sem sé kærandi. Það styðji allar lagalegar skyldur félagsins, eins og mánaðarleg skil á öllum gjöldum fyrir unnin störf, virðisaukaskattur, launauppgjör, launaseðlar, endurskoðun og greiðslukvittanir fyrir leiguhúsnæði sem kærandi hafi greitt fyrir úr eigin vasa með einhverri innkomu til félagsins og sölu á eignum sínum. Félagið skuldi kæranda einnig talsvert lánsfé svo að enginn vafi leiki á um áunnin störf og tímabil.

Þá komi fram á heimasíðu Vinnumálastofnunar að greiðsla tryggingagjalds samfellt síðustu 12 mánuði sé fullnægjandi fyrir rétti til atvinnuleysisbóta. Kærandi fari því fram á að Vinnumálastofnun greiði honum atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar sinnar þann 18. nóvember 2024.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun á árinu 2022. Með ákvörðun, dags. 10. júní 2022, hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið stöðvaðar á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ástæða fyrir viðurlögum hafi verið að kærandi hefði ekki mætt á námskeið á vegum stofnunarinnar. Þar sem kærandi hefði þegið atvinnuleysistryggingar í tæplega 30 mánuði þegar ákvörðun hafi verið tekin hafi greiðslur til kæranda verið stöðvaðar og hann upplýstur um að hann ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefði starfað á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hefði síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 18. nóvember 2024. Kærandi hafi frá þeim tíma sem hann hefði síðast fengið greiddar atvinnuleysistryggingar verið við störf hjá eigin fyrirtæki, B, en greiddur staðgreiðsluskattur af launum kæranda hafi ekki náð 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þar sem kærandi hefði ekki áunnið sér rétt á nýju bótatímabili með starfi sínu hafi umsókn hans verið synjað þann 2. desember 2024.

Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun þann 3. desember 2024 og lýst óánægju sinni með ákvörðun stofnunarinnar og að hann hefði talið að nægjanlegt væri að greiða tryggingagjald til þess að vinna sér inn rétt til atvinnuleysistrygginga og að hann hefði greitt mun hærra tryggingagjald en þau laun sem hann hefði gefið upp. Vinnumálastofnun hafi einnig borist gögn frá kæranda sem hafi innihaldið samskipti hans við Skattinn og sundurliðun á staðgreiðslu B.

Með erindi, dags. 17. desember 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að Vinnumálastofnun teldi ekki ástæðu til að taka mál hans fyrir að nýju á grundvelli nýrra gagna enda hafi ný gögn ekki bent til þess að ákvörðun stofnunarinnar væri byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðanefndar velferðarmála sama dag. Í kæru til nefndarinnar komi meðal annars fram að kæranda hafi verið tjáð, fyrir tveimur árum, að ef hann gæti ekki greitt sér laun ætti fyrirtækið að greiða tryggingagjald til að hann gæti talist tryggður í atvinnuleysistryggingakerfinu. Kærandi sé óviss um hvort þær leiðbeiningar hafi verið veittar af Vinnumálastofnun eða Skattinum. Kærandi virðist gera þá kröfu að útreikningur á bótarétti skuli taka mið af skilum fyrirtækis hans á tryggingagjaldi einungis, en ekki staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi eða þeim launum sem hann hafi greitt sér á tímabilinu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í 3. gr. laganna sé að finna skilgreiningu á launamönnum annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklingum hins vegar. Þar segi að launamaður teljist hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt sé tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Kærandi hafi starfað hjá eigin fyrirtæki, B, frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysistryggingar árið 2022 þar til hann hafi sótt aftur um greiðslur atvinnuleysistrygginga í nóvember 2024.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að þegar um sé að ræða launamann sem starfi hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi, skuli miða við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald við mat á bótarétti einstaklinga. Með ákvæðinu sé kveðið skýrt á um að þegar um sé að ræða umsækjendur um atvinnuleysisbætur sem hafi starfað hjá eigin félagi á ávinnslutímabilinu, skuli miða við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

Um útreikning bótaréttar þeirra sem starfi hjá eigin fyrirtækjum eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingar gildir því 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið geri ráð fyrir því að tryggingarhlutfall umsækjenda ákvarðist af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiði staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum sem séu lægri en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein kunni því að eiga hlutfallslegan rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kærandi geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta sé reiknað endurgjald lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Í 4. mgr. 19. gr. laganna segi hins vegar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra sbr. b-lið 3. gr. í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu beri Vinnumálastofnun að reikna starfstíma og bótarétt kæranda út frá þeim launum sem hann hafi greitt staðgreiðsluskatt af í hverjum mánuði vegna vinnu sinnar. Samkvæmt skilgreiningu a-liðar 3. gr. á launamanni og b-liðar 3. gr. á sjálfstætt starfandi einstaklingi, sbr. einnig 4. mgr. 19. gr., geti störf, bæði launamanna og sjálfstætt starfandi, í minna hlutfalli en 25% ekki komið til ávinnslu bótaréttar eða starfstímabils samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Ekki nægi að greiða tryggingagjald til að teljast tryggður samkvæmt lögunum enda tilgreini ákvæðið sérstaklega að staðgreiðsla á reiknuðu endurgjaldi sé lögð til grundvallar útreikningi á bótarétti umsækjenda. Að öðrum kosti væri sjálfstætt starfandi einstaklingum og launamönnum sem starfa hjá eigin fyrirtækjum unnt að greiða lágmarks tryggingagjald til að teljast tryggðir án þess þó að raunverulegar launagreiðslur hafi verið inntar af hendi eða staðgreiðsla af þeim.

Starf kæranda hafi verið fellt undir tekjuflokk E9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Til flokks E teljist menn sem vinni í störfum sem ekki krefjist fagmenntunar en geti þurft að hafa réttindapróf til að sinna starfinu, svo sem réttindi til að stjórna bifreiðum eða vinnuvélum. Viðmiðunartekjur ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk E9 vegna ársins 2024 hafi verið 413.000 kr. á mánuði. Á árinu 2023 hafi viðmiðunartekjur í flokknum numið 372.000 kr. á mánuði og 345.000 kr. á árinu 2022.

Vinnumálastofnun hafi leitað eftir upplýsingum frá Skattinum um staðgreiðsluskil kæranda á ávinnslutímabili þegar umsókn hafi borist stofnuninni. Samkvæmt þeim upplýsingum hafi laun kæranda á tímabilinu, vegna starfa hans hjá eigin félagi, numið jafnan 20.000 kr. eða 30.000 kr. á mánuði. Suma mánuði hafi heildarlaun kæranda numið 5.000 kr. á mánuði. Í október 2024 hafi kærandi greitt sér laun sem hafi numið rúmlega viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokkinn. Að undanskildum október 2024 hafi kærandi alltaf greitt sér laun sem hafi verið lægri en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra. Hlutfall launa kæranda og viðmiðunarfjárhæðar hafi jafnan verið 1% til 12% á tímabilinu.

Í þeim mánuðum sem laun kæranda hafi verið lægri en 25% af lágmarks viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra sé Vinnumálastofnun ekki heimilt að ákvarða tryggingahlutfall kæranda af vinnu hans, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi einungis greitt sér laun sem hafi numið viðmiðunarfjárhæð í einum mánuði á árunum 2022 til 2024 sé einungis unnt að horfa til þess mánaðar við mat á rétti kæranda. Taka beri fram að útreikningur á ávinnslu launamanns í sambærilegri stöðu myndi fela í sér sömu niðurstöðu enda myndi starf viðkomandi ekki fela í sér 25% vinnu ef tekið yrði mið af staðgreiðslu kæranda og lágmarkslaunum í viðkomandi starfsstétt.

Líkt og fyrr greini hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann 10. júní 2022. Ákvörðun hafi falið í sér að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga að nýju á grundvelli 31. gr. laganna.

Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að skilyrði fyrir ávinnslu á nýju bótatímabili sé að viðkomandi atvinnuleitandi hafi starfað í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysistryggingar. Í ákvæðinu segi:

„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu og því sem ofar greini hafi kærandi, frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, starfað hjá eigin fyrirtæki í einn mánuð í október 2024. Störf kæranda á tímabilinu dugi því ekki til ávinnslu á nýju bótatímabili samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til þess að hann hefði fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b. liður 3. gr. laganna.

Í 19. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um ávinnslutímabil. Þar segir í 1. mgr. að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Í 4. mgr. 19. gr. segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum.

Fyrir liggur að kærandi starfaði hjá eigin fyrirtæki frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur árið 2022 þar til hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur í nóvember 2024. Að undanskildum október 2024 hefur kærandi á því tímabili greitt sér laun sem hafa verið lægri en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra. Störf launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga í minna hlutfalli en 25% geta ekki komið til ávinnslu bótaréttar eða starfstímabils samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og því er einungis unnt að horfa til októbermánaðar 2024 við mat á rétti kæranda.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. júní 2022, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006. Ákvæði 4. mgr. 58. gr. er svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 18. nóvember 2024, starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur og hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. desember 2024, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta