Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 650/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 650/2024

Fimmtudaginn 3. apríl 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, um að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 30. ágúst 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt með 100% bótarétti. Með erindi, dags. 2. desember 2024, óskaði kærandi eftir endurskoðun á ákvörðun Vinnumálastofnunar hvað varðaði tekjutengdar greiðslur. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. desember 2024, var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að ákvörðun stofnunarinnar frá 16. september 2024 væri ekki byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. desember 2024. Með bréfi, dags. 17. desember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 17. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. janúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála óskar kærandi eftir því að tekjutenging launa á núverandi bótatímabili verði endurskoðuð í ljósi aðstæðna. Kærandi hafi lenti í uppsögn hjá B og orðið atvinnulaus 1. október 2024. Kærandi hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur með tekjutengingu þegar að C hafi farið á hausinn 2019. Einu „mistökin“ sem kærandi hafi gert hafi verið að sækja um bætur í lok árs 2023 þegar hann hafi verið án vinnu að bíða eftir þjálfun hjá B og fengið 0 kr. greiddar frá Vinnumálastofnun. Þar fyrir utan hafi kærandi verið á vinnumarkaði síðan 2020 og uppfylli því 24 mánaða reglu. Kærandi vonist til að hægt verði að verða við beiðni hans, þ.e. að hann fái að njóta tekjutengingar á þessu bótatímabili. Framundan séu erfiðir mánuðir en vonandi verði kærandi kominn aftur til starfa sem fyrst.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 21. nóvember 2023. Kærandi hafi verið með rúmlega tveggja ára vinnusögu hjá D og E og hafi því áunnið sér rétt á nýju bótatímabil á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt 15. desember 2023 en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrverandi vinnuveitanda hafi honum verið gert að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta í tvo mánuði. Kærandi hafi því ekki fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur.  Kærandi hafi verið afskráður þegar hann hafi hafið störf á nýjum vinnustað í byrjun janúar 2024. Kærandi hafi því ekki lokið við að taka út biðtíma og því ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur vegna umsóknar hans frá nóvember 2023. 

Kærandi hafi aftur sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 30. ágúst 2024 og umsókn hans hafi verið samþykkt með 100% bótarétti. Ákvörðun hafi verið birt kæranda 16. september 2024. Kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, enda hafi hann síðast verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni í lok árs 2023. Kærandi hafi því ekki átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Með erindi, dags. 2. desember 2024, hafi kærandi óskað eftir því að stofnunin myndi endurskoða ákvörðun sína varðandi tekjutengingu á bótatímabilinu. Kærandi hafi sagst hafa gert mistök með því að sækja um í lok árs 2023 og að hann hefði ekki fengið greiddar neinar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil. Vinnumálastofnun hafi fjallað um beiðni kæranda og hafi tilkynnt honum með erindi, dags. 5. desember 2024, að stofnunin teldi ekki tilefni til að taka mál hans til endurskoðunar, enda hefðu engin ný gögn borist sem bentu til þess að ákvörðun stofnunarinnar væri byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Mál þetta varðar kröfu kæranda um að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur á grundvelli 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum.

Í 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi:

„Þegar tímabil skv. 29. gr. heldur áfram að líða er hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.“

Í athugasemdum við 32. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar segi orðrétt að „eingöngu er gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegan rétt hans til atvinnuleysistrygginga skv. 15. eða 19. gr. frumvarpsins.“

Líkt og fram hafi komið hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur í lok árs 2023. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt með 100% bótarétt og úrskurðað um nýtt bótatímabil samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi þó ekki fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur sökum þess að honum hafi verið gert að sæta biðtíma vegna starfsloka. Í 9. mgr. 32. gr. komi fram að sá sem sæti biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðum X. kafla laganna skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi hafið störf á nýjum vinnustað og verið afskráður áður en hann hafi tekið út tveggja mánaða biðtíma samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar.

Þegar kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í lok ágúst 2024 hafi kærandi ekki áunnið sér rétt á nýju bótatímabil. Þar sem einungis hálft ár hafi verið liðið frá því að kærandi hafi síðast verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni hafi bótatímabil frá nóvember 2023 haldið áfram að líða, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 8. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að 32. gr. laganna sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti eingöngu átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers bótatímabils. Tekjutenging kæranda hafi verið felld niður á grundvelli 9. mgr. 32. gr. vegna starfsloka hans í upphafi bótatímabils. Af þeim sökum hafi kærandi ekki getað átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar hann hafi sótt um að nýju þann 30. ágúst 2024. Auk framangreindra sjónarmiða vísi stofnunin til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 24. september 2015 í máli nr. 42/2015 er varði sambærilegt álitaefni.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í ágúst 2024.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi átt rétt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum vegna umsóknar hans frá 30. ágúst 2024.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. segir að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 32. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Þar segir í 1. mgr. að hinn tryggði öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð, nema annað leiði af lögunum. Samkvæmt 9. mgr. 32. gr. skal hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla laganna ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Þá segir í 8. mgr. 32. gr. að þegar tímabil samkvæmt 29. gr. haldi áfram að líða er hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu, enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn samkvæmt 1. mgr.

Í athugasemdum við ákvæði 32. gr. í frumvarpi til laga nr. 54/2026 segir m.a. annars svo:

„Eingöngu er gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegan rétt hans til atvinnuleysistrygginga skv. 15. eða 19. gr. frumvarpsins.“

Fyrir liggur að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 21. nóvember 2023. Umsókn kæranda var samþykkt 15. desember 2023 en þó með tveggja mánaða biðtíma vegna starfsloka, sbr. 54. gr. laga nr. 54/2006 og átti hann því ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum á þeim tíma, sbr. framangreinda 9. mgr. 32. gr. laganna. Kærandi var afskráður af atvinnuleysisskrá 2. janúar 2024 þar sem hann var kominn með vinnu og tók því ekki út tveggja mánaða biðtímann. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur 30. ágúst 2024 og hélt þá bótatímabil hans frá nóvember 2023 áfram að líða, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi átti því ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum vegna umsóknar sinnar frá 30. ágúst 2024, sbr. 8. mgr. 32. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.   

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta