Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál 677/2024-Endurupptökubeiðni

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 677/2024

Föstudaginn 16. maí 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með erindi, dags. 4. maí 2025, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 677/2024 þar sem staðfest var ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um nauðsynlegar upplýsingar sem hefðu áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 23. desember 2024 vegna þeirrar ákvörðunar. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 3. apríl 2025. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála hina kærðu ákvörðun.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann vilji kæra á ný ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans í tvo mánuði. Kærandi sé ekki sammála hinni kærðu ákvörðun né ákvörðun úrskurðarnefndar velferðarmála. Hann hafi lagt fram veikindavottorð til að réttlæta fjarveru hans frá fundi Vinnumálastofnunar. Kannski hafi kærandi gert það í rangri röð því hann hafi ekki áður lent í svona aðstæðum. Kærandi viti að hann hefði átt að tilkynna fjarveru sínu fyrr en skyndileg veikindi hafi komið í veg fyrir að hann gæti haft samband við umheiminn. Á þeim tíma hafi kærandi verið einn og enginn úr fjölskyldunni hafi getað hjálpað honum. Þegar kærandi hafi farið að sofa um kvöldið hafi hann ekki haft neina hugmynd um að hann myndi ekki geta notað síma eða tölvu morguninn eftir. Mjög slæmt heilsufar kæranda, sem hann hafi áður lýsti, hafi staðið yfir í nokkra daga og gert það að verkum að hann hafi ekki getað fylgt reglum Vinnumálastofnunar, ekki notað síma eða tölvu og því ekki getað notað neinar samskiptaleiðir. Allt veikindatímabilið, þ.e. frá 7. til 11. desember 2024, hafi kærandi verið með mjög háan hita, háan blóðþrýsting og hjartsláttartruflanir. Kærandi hafi sofið eða verið í dái, ekki getað farið úr rúminu, hvorki gengið né hugsað rökrétt. Kærandi hafi lýst aðstæðum sínum margoft í öllum skýringum til Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála.

Þann 12. desember 2024 hafi kærandi persónulega, þrátt fyrir mjög slæmt heilsufar og líðan, lagt fram veikindavottorð, eða um leið og hann hafi haft getu til þess. Þar með hafi kærandi staðfest vilja sinn til að vinna. Tveggja mánaða refsingin sem hafi verið lögð á kæranda hafi sett hann í alvarleg fjárhags- og heilsuvandræði. Kærandi þjáist af of háum blóðþrýstingi, svefnrofi og hjartsláttartruflunum, sem þýði tíðar heimsóknir til sérfræðinga og kaup á lyfjum. Því miður, vegna skorts á fjármunum sem kærandi hafi verið sviptur, hafi hann þurft að hætta að heimsækja lækna, bæði  heimilislækni og hjartalækni, og kaupa nauðsynleg lyf. Þau lyf sem kærandi sé með séu að klárast og samkvæmt lækni hans séu þau örugglega of veik. Því miður hafi kærandi ekki keypt nýju og sterkari lyfin sem honum hafi verið ávísað þar sem hann eigi enga peninga. Vegna hjartsláttartruflana og hás blóðþrýstings hafi kærandi verið á sjúkrahúsi margoft og ætti að fara í hvert skipti sem blóðþrýstingurinn rjúki upp og hann fái hjartsláttartruflanir. Það gerist oft og þá þurfi kærandi að fara á bráðamóttöku og til hjartalæknis en því miður geri hann það ekki þar sem hann hafi ekki efni á því. Kærandi hafi einnig þurft að hætta að nota öndunargrímu á nóttunni, tæki sem hann þurfi að nota og sem hafi hjálpað honum að anda. Því miður þurfi kærandi að borga fyrir það sem hann hafi ekki efni á vegna þess að hann hafi verið sviptur bótum. Kærandi hafi einnig hætt að heimsækja hjartalækni sinn sem hann ætti að fara til einu sinni í mánuði í skoðun, en það kosti allt of mikið. Þá hafi kærandi þurft að taka lán hjá vinum til að borga reikninga og kaupa mat. Eiginkona kæranda sé á endurhæfingarlífeyri vegna slyss en hún fái aðeins 297.000 kr. sem sé klárlega ekki nóg til að framfleyta þeim báðum. Þau greiði 290.000 kr. fyrir húsnæði og 70.000 kr. fyrir önnur nauðsynleg gjöld, eða samtals 360.000 kr. Þá sé ekki talinn með kostnaður vegna matar, lyfja og læknisheimsókna.

Kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála um að staðfesta refsingu, og þar með svipta hann lífsviðurværi á versta tíma þegar hann hafi þurft peninga til að viðhalda heilsu sinni, óskiljanlega. Það sé ekki val að veikjast eða hvenær það gerist. Eftir samtal við starfsmann Vinnumálastofnunar þann 16. apríl 2025 hafi kærandi ákveðið að skrifa Greiðslustofu til að vera tekin alvarlega og fá peningana sína til baka fyrir tímabilið frá 18. desember 2024 til 17. febrúar 2025, sem myndi örugglega bæta heilsufar hans því kærandi telji að refsingin sem hafi verið lögð á hann sé ósanngjörn og óréttmæt. Enn og aftur kæri kærandi til úrskurðarnefndar velferðarmála til að fá mál hans endurskoðað. Kærandi voni að þar sé fólk sem skilji aðstæður hans og mun breyta ákvörðuninni kæranda í hag.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 3. apríl 2025. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2024, um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli, rangri túlkun lagaákvæða eða röngu mati.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur meðal annars fram að hann sé óssammála ákvörðun Vinnumálastofnunar og staðfestingu úrskurðarnefndarinnar. Kærandi lýsir ítarlega veikindum sínum og aðstæðum í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar og óskar eftir endurskoðun málsins.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til athugasemda kæranda. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, enda eru athugasemdir kæranda í endurupptökubeiðni efnislega samhljóða þeim sem fram komu í kæru til nefndarinnar. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 677/2024 synjað.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 677/2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta