Mál nr. 516/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 516/2024
Fimmtudaginn 9. janúar 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 16. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júlí 2024, um að synja beiðni hans um endurupptöku ákvörðunar frá 3. apríl 2023.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið mars til ágúst 2021 vegna fjármagnstekna á því ári. Með bréfi, dags. 24. júní 2024, óskaði kærandi eftir endurupptöku þeirrar ákvörðunar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júlí 2024, var þeirri beiðni kæranda synjað.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. október 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Þann 28. október 2024 bárust viðbótargögn frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Greinargerð Vinnumálastofnun barst 1. desember 2024 ásamt gögnum málsins og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að Vinnumálastofnun hafi farið fram á endurgreiðslu atvinnuleysisbóta vegna fjármagnstekna á því tímabili sem hann hafi þegið atvinnuleysisbætur. Það sé rangt eins og hann hafi bent stofnuninni á. Kærandi sé samskattaður með eiginkonu sinni en í árslok 2021 hafi verið gerð uppskipti á hlutabréfaeignum innan fjölskyldu hennar á tveimur félögum. Nánar tiltekið hafi eiginkona kæranda afhent öll sín bréf í öðru félaginu upp í kaupverð þeirra hjóna á bréfum sem félagið hafi átt fyrir í hinu félaginu. Fyrir mismun á andvirði seldra og keyptra bréfa hafi þau tekið lán sem hafi komið til greiðslu á árunum 2022 og 2023. Kaupverð bréfanna sem þau hafi keypt hafi verið töluvert hærri fjárhæð en verð bréfanna í hinu félaginu. Við þessi uppskipti hafi engir peningar komið í þeirra hendur. Þessi viðskipti hafi því ekki haft áhrif á þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar fyrr á árinu 2021. Bréfin sem hafi verið látin af hendi hafi verið metin á töluvert hærra verði en nafnverð þeirra hafi verið. Því hafi komið til skattlagningar söluhagnaðar vegna þeirra bréfa, sbr. sá fjármagnstekjuskattur sem hafi verið greiddur á árinu 2022. Því fari kærandi fram á að horft verði fram hjá þeim fjármagnstekjum sem hafi stafað af þessum viðskiptum og að atvinnuleysisbætur verði látnar standa óbreyttar eins og þær hafi verið greiddar út á árinu 2021. Bæturnar hafi sannanlega verið einu tekjurnar og þau hafi ekki fengið neinar greiðslur með fjármagnstekjum.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 10. nóvember 2020. Með erindi, dags. 14. desember 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 94%. Kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga til 23. ágúst 2021.
Í kjölfar reglulegs eftirlits innan Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að kærandi hafi fengið greiddar fjármagnstekjur, samtals að fjárhæð 14.881.636 kr., vegna ársins 2021. Með erindi, dags. 24. janúar 2023, hafi þess verið óskað að kærandi afhenti stofnuninni skattframtal vegna tekjuskattsársins 2021 ásamt fylgigögnum. Kærandi hafi ekki brugðist við erindi stofnunarinnar þrátt fyrir að hafa fengið send erindi með tölvupósti og SMS sendingu með tilkynningu um að hans biðu samskipti á „Mínum síðum“. Með erindi, dags. 13. mars 2023, hafi kæranda verið greint frá því að þar sem hann hefði verið með fjármagnstekjur árið 2021 bæri honum að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 1.671.901 kr., auk 15% álags samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið upplýstur um að heildarskuld hans við stofnunina næmi 1.922.686 kr. Með erindi, dags. 3. apríl 2023, hafi kæranda verið greint frá því að áður tilkynnt fjárhæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta, 1.671.901 kr., auk 15% álags, hefði verið ranglega tilgreind og hann upplýstur um að heildarskuld hans við stofnunina næmi 1.856.634 kr., auk 15% álags samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið upplýstur um að heildarskuld hans við stofnunina næmi því 2.135.128 kr.
Þann 19. júní 2024 hafi krafa verið áframsend til Innheimtumiðstöðvar og þann 24. júní 2024 hafi kærandi hringt í stofnunina og fengið upplýsingar um tilurð skuldarinnar. Kærandi hafi verið upplýstur um að hann hefði ekki svarað erindi stofnunarinnar á sínum tíma og alllangt væri um liðið. Hann gæti samt sem áður sent gögn og farið fram á endurupptöku á málinu. Þann sama dag hafi borist beiðni um endurupptöku á máli hans og endurútreikning á kröfu. Hvorki umbeðin gögn um fjármagnstekjur frá árinu 2021 né önnur gögn um mál kæranda hafi fylgt erindinu.
Með erindi, dags. 5. júlí 2024, hafi Vinnumálastofnun upplýst kæranda um að ekki væri tilefni til að afturkalla innheimtu á kröfunni og að ekki hefðu borist gögn sem gætu haft áhrif á afgreiðslu málsins frá árinu 2023. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann [16. október 2024]. Í kæru geri kærandi þær kröfur að horft verði fram hjá viðskiptum með hlutabréf á árinu og fallið frá skerðingum að stórum eða öllum hluta. Kærandi byggi þessa kröfur á því að um viðskipti hafi verið að ræða sem hafi varðað hlutafjáreign í eigu eiginkonu hans og ekki hafi verið um að ræða eiginleg viðskipti heldur „uppskiptingu félaga“ sem ekki eigi að koma til skerðingar atvinnuleysisbótum hans.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Kærð sé sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júlí 2024, að synja kæranda um endurupptöku á máli frá 3. apríl 2023 þess efnis að kærandi skuli endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 2.135.128 kr., að meðtöldu 15% álagi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Skuld kæranda eigi rætur sínar að rekja til fjármagnstekna sem kærandi hafi haft á árinu 2021.
Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um frádrátt vegna tekna. Ákvæði 1. mgr. 36. gr. hljóði svo:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Af framangreindu ákvæði sé ljóst að fjármagnstekjur séu á meðal þeirra tekna sem komi til frádráttar atvinnuleysisbótum. Fyrir liggi að kærandi hafi aflað fjármagnstekna á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Tekjur kæranda komi því til frádráttar atvinnuleysisbótum hans í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1296/2020, settri með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi frítekjumark verið 73.827 kr. á mánuði vegna ársins 2021. Þar sem kærandi hafi verið í hjúskap á þeim tíma sem um ræði hafi fjármagnstekjum hans verið deilt til helminga og mánaðarlegar greiðslur sem hafi fallið í hans hlut við afgreiðslu málsins hafi numið 620.068 kr. Kærandi hafi þegið greiðslur á árinu 2021 frá 1. janúar til 23. ágúst. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnunar um fjármagnstekjur, hvorki söluhagnað né vaxtatekjur. Því hafi kærandi myndað skuld við Vinnumálastofnun. Í 2. mgr. 39. gr. sé kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Í framangreindu ákvæði sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða ofgreidda fjárhæð. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé þannig fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.
Kærandi hafi einkum gert þær kröfur að Vinnumálastofnun falli frá skerðingu atvinnuleysisbóta sem sé tilkomin vegna fjármagnstekna sem hafi orðið til fyrir tilstuðlan gernings eiginkonu hans og hennar fjölskyldu. Kærandi hafi ekki gert tilraunir til þess að skýra þetta nánar undir rekstri málsins hjá stofnuninni að öðru leyti en með sendingu tölvupósts í júní 2024. Ekki hafi verið lögð fram gögn sem hafi verið beðið um árið 2023, þar með talið skattframtal sem gæti skýrt nánar tilurð og eðli þeirra fjármagnstekna sem sannarlega séu lagðar til grundvallar uppgjörs Skattsins á árinu 2021 í tilfelli kæranda. Með kæru til úrskurðarnefndar hafi fylgt samningur um kaup á 25% hlut í fyrirtæki sem eiginkona kæranda hafi átt fyrir 25% hlut í og greiðslur sem hún inni af hendi við undirritun samnings. Þá hafi einnig fylgt ómerkt og ódagsett skjal er viðkomi söluhagnaði „framteljenda“. Vinnumálastofnun hafi ekki getað merkt tengingu við skýringar kæranda fram að þessu, við þær fjárhæðir sem Skatturinn sannarlega hafi lagt til grundvallar uppgjöri á skattskyldu kæranda á árinu 2021.
Með vísan til framangreinds þyki ljóst að mati Vinnumálastofnunar að þær fjármagnstekjur sem kærandi hafi aflað á árinu 2021, á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta, skuli koma til skerðingar í samræmi við ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Skuld kæranda vegna þeirra fjármagnstekna sem hann hafi verið með árið 2021 og sú skuld er hin kærða ákvörðun varði, nemi 1.856.634 kr., auk 15% álags samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið upplýstur um að heildarskuld hans við stofnunina næmi því 2.135.128 kr. í apríl 2023. Kærandi hafi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður 15% álag á skuld hans. Nú standi eftir 1.709.056 kr., að virtum þeim greiðslum sem hafi borist frá Innheimtumiðstöð og að meðtöldu álagi.
Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 2.135.128 kr. samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun standi nú í 1.709.056 kr., að meðtöldu álagi.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júlí 2024, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 3. apríl 2023.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. júlí 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 16. október 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Svar vegna þess barst ekki. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir