Mál nr. 581/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 581/2024
Fimmtudaginn 6. mars 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. nóvember 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 30. maí 2024 og var umsóknin samþykkt 14. júní 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um tilfallandi tekjur eða vinnu. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 560.028 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 10. febrúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. febrúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að mál hans sé byggt á misskilningi af hans hálfu. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur vegna verkefnaskorts í fyrirtæki sem hann reki og hafi fengið samþykktar 60% bætur. Kærandi hafi þá reiknað með að hann þyrfti sjálfur að útvega þau 40% sem upp á hafi vantað þar sem það sé ekki nokkur leið fyrir hann að ætla að framfleyta fjölskyldu og heimili á 60% atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi því unnið 40% á móti atvinnuleysisbótunum en hann sé með ADHD og vegna hans fötlunar hafi hann gert ráð fyrir því að þetta ætti að vera svona í stað þess að kynna sér það nákvæmlega. Kærandi hafi ekki vitað að hann væri að gera eitthvað rangt en í stað þess að koma til móts við hann vegna fáfræðinnar hafi fótunum verið kippt undan honum rétt fyrir jól þegar fjárhagslegt óöryggi sé hvað mest. Vinnumálastofnun ætlist til þess að kærandi greiði himinháar upphæðir til baka vegna brots á reglum sem hann hafi ekki haft hugmynd um að hann væri að brjóta.
Líkt og fram komi í útskýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar hafi hann vonast til þess að það væri hægt að koma til móts við hann og að vandamálið yrði leyst án þess að farið yrði í einhverjar róttækar aðgerðir þar sem fjárhagslegt ástand kæranda og fjölskyldu hans sé fremur sorglegt þessi misserin. Kærandi viti það núna að hann hefði átt að kynna sér þetta betur áður en hann hafi ákveðið að vinna með atvinnuleysisbótunum en hann hafi talið að hann væri ekki að gera nokkuð rangt. Kærandi hafi borgaði fullan skatt af þeim tekjum sem hann hafi greitt sér á móti bótunum. Kærandi hafi spurt Vinnumálastofnun hvort það væri hægt að endurskoða bótarétt hans gaumgæfilega því hann sjái ekki hvernig það dæmi eigi að ganga upp að maður sem hafi fengið um 340.000 kr. útborgaðar tekjur á mánuði eigi allt í einu að geta framfleytt fjögurra barna fjölskyldu og heimili á 60% bótum, eða 228.100 kr. Kærandi hafi verið í sömu vinnunni með fastar tekjur í 12 ár og seinast þegar hann hafi sótt um tímabundnar atvinnuleysisbætur vegna verkefnaskorts hafi hann fengið þær samþykktar upp á 92%. Þetta sé óskiljanlega mikill munur.
Kærandi ítreki að hann hafi misskilið forsendur 60% bótanna vegna hans fötlunar (ADHD) og hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann mætti ekki vinna þau 40% sem upp á vantaði svo hann gæti greitt af lánum, tryggingum, meðlag, skóla/leikskólagjöld, framfleytt heimili og svo framvegis. Kæranda finnist þetta ömurlegt og hann sé búinn að vera gjörsamlega miður sín yfir þessu. Hann hafi ekki ætlað að svinda eða vera óheiðarlegur á nokkurn hátt og hann hafi beðið um að tekið yrði tillit til hans aðstæðna. Að mati kæranda sé það ómannúðlegt að stofnun sem eigi að aðstoða fólk í atvinnuleysi geti tekið ákvarðanir um líf fólks án þess að taka tillit til aðstæðna. Kærandi hefði ekki sóst eftir atvinnuleysisbótum nema vegna þess að hann hafi nauðsynlega þurft á aðstoðinni að halda. Kærandi sé ósammála hinni kærðu ákvörðun, hún sé ósanngjörn. Þá sé kærandi ekki sammála 60% bótahlutfalli og myndi vilja að það yrði gaumgæfilega endurskoðað með tilliti til þriggja barna á framfæri, að hann greiði fullt meðlag með einu barni og að hann sé búinn að vera í sömu vinnuni í meira en 12 ár. Kærandi vilji að það sé tekið tillit til þess að hann sé ekki óheiðarleg manneskja og hafi ekki vísvitandi brotið reglur Vinnumálastofnunar. Ef í ljós komi að bótaréttur kæranda sé mögulega hærri en 60% myndi hann vilja að það yrði komið til móts við hann og jafnvel lagfært aftur í tímann þannig að hann hafi verið í 40% vinnu með bótunum. Kærandi gæti þá endurgreitt það sem eftir standi og viti þá betur í framtíðinni eftir þessa ömurlegu lífsreynslu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 30. maí 2024. Með erindi, dags. 14. júní 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 60%.
Með erindi, dags. 21. október 2024, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir upplýsingum frá kæranda um störf hans hjá B. Kærandi hafi verið inntur eftir skriflegri ástæðu þess að hafa ekki upplýst stofnunina um störf sín. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi hafið störf hjá fyrirtækinu í ágúst 2024. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um störf kæranda. Kæranda hafi verið veittur sjö daga frestur til að svara erindinu. Svör hafi borist frá kæranda þann 6. nóvember 2024.
Með bréfi Vinnumálastofnunar þann 6. nóvember 2024 hafi kæranda verið tjáð að réttur hans til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans, að fjárhæð 560.028 kr. að meðtöldu álagi, yrðu innheimtar í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með skuldajöfnuði við síðar tilkomnar atvinnuleysisbætur.
Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Atvinnuleitanda beri þannig meðal annars að tilkynna stofnuninni um allar breytingar á aðstæðum sem gætu haft áhrif á rétt viðkomandi til greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Í 3. mgr. 9. gr. sé sérstaklega kveðið á um skyldu atvinnuleitanda til að tilkynna stofnuninni um tekjur vegna tilfallandi vinnu. Þar segi orðrétt:
„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“
Vinnumálastofnun árétti að upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar séu atvinnuleitendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar á meðal upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði. Jafnframt sé á heimasíðu Vinnumálastofnunar meðal annars að finna ítarlegar upplýsingar til handa atvinnuleitendum um skyldur þeirra sem hafi þegið tekjur samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og hvernig eigi að skrá slíkar tekjur.
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. hafi kæranda borið að tilkynna Vinnumálastofnun um umræddar tekjur. Vinnumálastofnun þyki rétt að ítreka að öll þau samskipti sem starfsmenn stofnunarinnar eigi við atvinnuleitendur séu skráð í kerfum stofnunarinnar af viðkomandi starfsmanni, þar á meðal öll símtöl. Í gögnum málsins sé hvergi að sjá að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun að eigin frumkvæði vegna vinnu sinnar.
Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.
Kærandi hafi ekki tilkynnt um vinnu sína til Vinnumálastofunnar þegar stofnunin hafi leitað eftir upplýsingum frá kæranda. Tilefni fyrirspurnar stofnunarinnar hafi verið vegna upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins en þær hafi bent til þess að kærandi hefði byrjað að vinna í ágúst 2024 hjá B. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sjálfum sé hann eigandi B. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi hann upplýst um eignarhald á fyrirtækinu. Kærandi hafi starfað hjá eigin fyrirtæki en hafi sótt um atvinnuleysisbætur vegna verkefnaskorts.
Samkvæmt skýringum kæranda hafi hann þurft að vinna samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta þar sem hann hafi einungis átt rétt á 60% af fullum atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun fallist ekki á skýringar kæranda. Kærandi hafi hafið störf hjá eigin fyrirtæki án þess að tilkynna um vinnu sína til stofnunarinnar. Það hafi haft bein áhrif á rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta og hafi leitt til ofgreiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu.
Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þeirri ástæðu hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. sömu laga en ákvæðið hljóði svo:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði. Að auki hafi verið innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 560.028 kr. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að innheimta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar segi orðrétt:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. júní 2024 til 30. september 2024.
Heildarskuld kæranda standi í 560.028 kr., að meðtöldu álagi. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar. Ekki verðir séð að tilefni sé til þess að beita þeirri undanþágu í tilfelli kæranda þar sem engar tilkynningar um störf hans hafi borist, eða um tekjur á bótatímabilinu.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar vegna ótilkynntrar vinnu samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 560.028 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var með tekjur á tímabilinu júní til september 2024 frá félagi sínu, B, samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Þær upplýsingar bárust Vinnumálastofnun í kjölfar reglulegs eftirlits innan stofnunarinnar í nóvember 2024.
Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi misskilið reglur Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi gert ráð fyrir að hann þyrfti sjálfur að vinna 40% starf þar sem hann hafi einungis fengið samþykktar 60% atvinnuleysisbætur.
Þann 30. maí 2024 var kæranda send staðfesting á móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur þar sem tilgreint var að upplýsa þyrfti um allar tekjur, hlutastarf, tilfallandi vinnu, tekjur eða fjármagnstekjur á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar. Kæranda var bent á að ítarlegri upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ á vefsíðu stofnunarinnar.
Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna starfs síns og tekna eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi. Að því virtu og í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður því fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti stofnuninni ekki fyrir fram um þær tekjur sem hann fékk framangreinda mánuði. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti.
Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur vegna framangreindra tekna. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem kærandi tilkynnti ekki fyrir fram um framangreindar tekjur fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um tekjur sínar er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Hvað varðar athugasemdir kæranda um að hann hafi einungis verið metinn með 60% bótarétt bendir úrskurðarnefndin á að kærandi getur óskað eftir endurupptöku hjá Vinnumálastofnun á þeirri ákvörðun á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. nóvember 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir