Mál nr. 547/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 547/2024
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 25. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2024, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 29. ágúst 2024 og var umsóknin samþykkt með ákvörðun stofnunarinnar 25. september 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar sama dag var kæranda tilkynnt að beiðni hennar um afturvirka umsókn væri hafnað. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun frá 25. september 2024 hefði verið afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið synjað þar sem hún hefði sjálf ákveðið að minnka starfshlutfall sitt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. október 2024. Með bréfi, dags. 29. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 4. desember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 27. janúar 2025.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi lagt fram umsókn um atvinnuleysisbætur vegna sérstakra aðstæðna með bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 29. ágúst 2024. Umsóknin hafi verið lögð fram á þeim grundvelli að kærandi hefði misst starf sitt hjá B, að hluta vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Í umsókninni hafi komið fram að kærandi hefði ekki getað sinnt 100% starfi samkvæmt ráðningarsamningi að loknu fæðingarorlofi og ljóst væri að barn hennar fengi ekki dagvistunarpláss. Í umsókn kæranda hafi komið orðrétt fram að: „Með vísan til ofangreinds er óskað eftir því að undirrituð fái greiddar 43% atvinnuleysisbætur frá 1. maí 2024.“
Í fyrstu ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2024, hafi umsókn hennar verið samþykkt. Síðar þann sama dag hafi komið ný ákvörðun þar sem beiðni um afturvirka umsókn hafi verið hafnað. Að öðru leyti hefðu ekki verið gerðar neinar breytingar á fyrri ákvörðun. Einum degi síðar, eða þann 26. september 2024, hafi komið fram þriðja ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu. Í þeirri ákvörðun hafi komið fram að á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri fyrri ákvörðun frá 25. september 2024 afturkölluð. Þá hafi komið fram ný ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 27. september 2024, hafi kærandi bent Vinnumálastofnun á að ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt og því hafi stofnuninni ekki verið heimilt að afturkalla fyrstu ákvörðun sína, dags. 25. september 2024, sem hafi verið birt kæranda. Í bréfinu hafi kærandi krafist þess að Vinnumálastofnun myndi staðfesta að fyrsta ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. september 2024, myndi standa óhögguð. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. október 2024, hafi komið fram að ákvörðun um afturköllun fyrri ákvörðunar og synjun umsóknar hefði verið byggð á 2. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðunin hafi verið haldin alvarlegum ógildingarannmarka. Einnig hafi komið fram að það væri mat stofnunarinnar að rétt hefði verið að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.
Að mati kæranda eigi fyrsta ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2024, að standa óhögguð, enda hafi skilyrði fyrir afturköllun á þeirri ákvörðun ekki verið uppfyllt. Kærandi vísi til 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram komi að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem hafi verið tilkynnt aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila. Óumdeilt sé að sú breyting á ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið íþyngjandi breyting á fyrri stjórnvaldsákvörðun stofnunarinnar. Því sé ljóst að umrædd breytinga hafi verið til tjóns fyrir kæranda og ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna því ekki uppfyllt þegar fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið afturkölluð með bréfi, dags. 26. september 2024.
Í ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna komi fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem hafi verið tilkynnt aðila máls, þegar ákvörðun sé ógildanleg. Í frumvarpi til laganna sé að finna skýringu á ákvæðinu, en þar komi eftirfarandi fram:
„Í 2. tölul. kemur fram heimild sem almennt hefur ekki verið talin til afturköllunar í stjórnsýslurétti en er þó það skyld afturköllun að rétt þykir að taka hana með í 25. gr. Samkvæmt þessu ákvæði er stjórnvaldi veitt heimild til að taka aftur ákvörðun sína að eigin frumkvæði í þeim tilvikum þar sem ákvörðun verður að teljast ógildanleg. Leysa ber úr því hvort ákvörðun er haldin ógildingarannmarka eftir sömu sjónarmiðum og dómstólar gera.“
Vinnumálastofnun hafi verið með umsókn kæranda, ásamt fylgigögnum, undir höndum þegar allar þrjár ákvarðanir hafi verið teknar í máli kæranda. Þá verði ekki annað séð en að stofnunin hafi haft öll gögn undir höndum til þess að taka upplýsta ákvörðun í málinu. Það að Vinnumálastofnun hafi „breytt um skoðun“ eftir að ákvörðun hafi verið birt kæranda, á grundvelli gagna sem hafi þegar legið fyrir þegar tvær fyrri ákvarðanir hafi verið teknar, verði stofnunin að bera hallann af. Þá sé ekki að sjá að neitt í umsókn kæranda, né í gögnum málsins, sé þess eðlis að hún sé haldin ógildingarannmarka og því hafi engin ógildingarástæða komið upp sem réttlæti að Vinnumálastofnun afturkalli ákvörðun sína á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga.
Með vísan til þess sé ljóst að ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga sé ekki uppfyllt í málinu og að Vinnumálastofnun hafi því ekki verið heimilt að breyta þeirri ákvörðun sem stofnunin hafi birt kæranda í bréfi, dags. 25. september 2024.
Í athugasemdum kæranda ítreki hún aðalkröfu sína sem snúi að því að Vinnumálastofnun hafi ekki verið heimilt að afturkalla ákvörðun sína í máli kæranda þar sem ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ef ákvörðun sé ógildanleg. Samkvæmt lögskýringargögnum sé markmið umrædds ákvæðis að tryggja réttaröryggi og stöðuleika innan stjórnsýslunnar þannig að aðili máls geti treyst því að birt ákvörðun stjórnvalds verði ekki breytt. Vinnumálastofnun hafi verið með umsókn kæranda, ásamt öllum fylgigögnum, undir höndum þegar allar þrjár ákvarðanir stofnunarinnar hafi verið teknar í máli kæranda. Með vísan til framangreinds sé ekki að sjá að það sé neitt í gögnum málsins sem sé þess eðlis að umsókn kæranda sé haldinn ógildingarannmarka sem réttlæti að Vinnumálastofnun afturkalli ákvörðun sína á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi kærandi haft réttmætar væntingar til þess að sú niðurstaða sem hafi verið birt kæranda þann 25. september 2024 væri endanleg.
Ef úrskurðarnefnd velferðarmála fallist ekki á aðalkröfu kæranda krefjist kærandi þess til vara að nefndin fallist á að ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé uppfyllt í máli kæranda. Í greinargerð Vinnumálastofnunar sé byggt á því að ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geri það að verkum að kærandi eigi ekki rétt á tryggingu, en í ákvæðinu komi fram að launamaður sem missi starf sitt að hluta teljist ekki tryggður ef launamaður hafi sjálfur ákveðið að draga úr starfshlutfalli sínu. Máli sínu til stuðnings hafi Vinnumálastofnun vísað til svars mannauðsdeildar B. Rétt þyki að nefna að Vinnumálastofnun hafi sent villandi og leiðandi spurningu á mannauðsdeild B þar sem orðrétt hafi komið fram að: „Óska eftir upplýsingum um það hvort A óskaði sjálf eftir að snúa aftur til starfa í 57% starf hjá ykkur eftir fæðingarorlof. Eða var henni gert að koma í 57% hlutastarf hjá stofnuninni“. Það gefi auga leið að kærandi hafi ekki getað ákveðið sjálf að draga úr starfshlutfalli sínu hjá B. Eins og gögn málsins beri með sér hafi átt sér stað samtal milli kæranda og B þar sem embættinu hafi verið tilkynnt um stöðu kæranda og vegna þeirrar stöðu hafi B ákveðið að draga tímabundið úr starfsfalli kæranda. Þar sem það hafi verið endanleg ákvörðun B að draga úr starfshlutfalli kæranda sé ljóst að ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 sé uppfyllt í máli kæranda.
Það sé einlæg von kæranda að úrskurðarnefnd velferðarmála líti heildstætt á mál hennar og þeirrar sérstöku stöðu sem kærandi hafi verið í, að geta ekki sinnt starfi sínu samkvæmt ráðningasamningi og verða því fyrir tekjuskerðingu. Þess megi geta að barn kæranda hafi síðan fengið leikskólapláss og kærandi hafi sinnt 100% starfi frá 1. nóvember 2024.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 29. ágúst 2024. Umsókn kæranda hafi fylgt beiðni um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsóknardag, eða frá og með 1. maí 2024. Með erindi, dags. 25. september 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að beiðni hennar um afturvirkar greiðslur atvinnuleysistryggingar væri hafnað. Sama dag hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar um að hafna beiðni hennar um greiðslur frá 1. maí 2024.
Þann 26. september 2024 hafi kæranda verið tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar um að samþykkja umsóknar hennar væri afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga en gögn sem hafi verið aflað frá vinnuveitanda hefðu ekki verið höfð til hliðsjónar á ákvörðun um samþykki umsóknar. Umsókn kæranda hafi verið synjað. Kærandi hafi þann 27. september 2024 óskað eftir rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og krafist þess að stofnunin skyldi standa við fyrri ákvörðun. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju þann 10. október 2024 og kæranda tilkynnt um niðurstöðu með bréfi sama dag. Í bréfi stofnunarinnar hafi verið veittur rökstuðningur á ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um greiðslur á grundvelli 2. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í 17. gr sé fjallað um rétt til atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Í 1. mgr. segi orðrétt:
„Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.“
Í 2. mgr. sé svo kveðið á um að ákvæðinu megi ekki beita ákveði launarmaður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu:
„Ákvæði þetta á ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um atvinnuleysistryggingu launamannsins, þar á meðal skilyrðið um að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr.“
Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar segi um ákvæði þetta:
„Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 6. gr. a gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er þó til að skýrt verði tekið fram að ákvæðið eigi ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu. Í ljósi mikilvægi þess að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði er fallið frá 24 mánaða tímamarki gildandi laga en þess í stað lögð áhersla á að miðað verði við að hinn tryggði uppfylli skilyrði frumvarpsins. Þar á meðal þarf hinn tryggði að uppfylla það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit en í því felst meðal annars að hann sé reiðubúinn að taka störfum sem bjóðast og fela í sér hærra starfshlutfall en starf það sem hann gegnir eða hlutastörf á móti starfi hans.“
Í umsókn kærandi komi fram að hún sé í 57% hlutastarfi hjá B og hafi starfað sem X þar frá 1. ágúst 2018 til 29. ágúst 2024. Jafnframt segi að lok uppsagnarfrests hjá fyrrum vinnuveitanda sé 28. ágúst 2024. Í bréfi sem kærandi hafi sent með umsókn sinni, dags. 29. ágúst 2024, kveðist kærandi vera að sækja um vegna sérstakra aðstæðna og að hún hafi „missti rétt til þess að sinna fullu starfi hjá B vegna skorts á úrræðum í dagvistunarmálum enda gat umsækjandi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi.“ Vinnumálastofnun hafi farið þess á leit við B að þeir gerðu grein fyrir með hvaða hætti minnkun á starfshlutfalli hafi borið að hjá kæranda og það svar hafi borist 23. september 2024. Orðrétt segi þar:
„A óskaði sjálf eftir því að sinna 57% starfi hjá stofnuninni þar sem hún hafði ekki fengið vistun fyrir barnið (fætt í X). Stofnunin ákvað að koma á móts við A tímabundið vegna slæms ástands í vistunarmálum og ljóst var að hún gat ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi. Gert er ráð fyrir að A komi til baka í 100% starf um leið og mögulegt er.“
Það sé mat stofnunarinnar að ekki verði litið fram hjá þeirri staðreynd að kærandi hafi sjálf minnkað starfshlutfall. Hvaða ástæður sem séu að baki slíkri ákvörðun kæranda sé málinu óviðkomandi þar sem ekki sé rúm til matskenndrar beitingar á ákvæði 2. mgr. 17. um að einstaklingur sem sjálfur minnki starfshlutfall sitt eigi ekki rétt til hlutabóta samkvæmt lögunum.
Fram komi í kæru til úrskurðarnefndar að kærandi telji að stofnuninni hafi verið óheimilt að afturkalla samþykki á umsókn hennar um atvinnuleysistryggingar. Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um afturköllun stjórnvalds á eigin ákvörðunum sem hafi verið tilkynntar aðila máls. Í ákvæðinu segi að stjórnvald geti afturkallað ákvarðanir sínar þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðun sé ógildanleg. Augljóslega eigi fyrra skilyrðið ekki við í máli kæranda og því komi til álita hvort upprunaleg ákvörðun stofnunarinnar hafi verið ógildanleg í skilningi 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á því hvort ákvörðun sé ógildanleg hafi í framkvæmd verið lagt til grundvallar hvort ákvörðun sé haldin verulegum form- eða efnisannmarka að lögum, enda mæli veigamikil rök ekki gegn afturköllun ákvörðunar.
Fyrir liggi að annmarki hafi verið á upprunalegu ákvörðun Vinnumálstofnunar sem hafi leitt til rangrar niðurstöðu í máli kæranda. Sú ákvörðun sem hafi verið birt kæranda með erindi, dags. 25. september 2024, sé í beinni andstöðu við 2. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það hafi því verið niðurstaða stofnunarinnar að sá annmarki hafi verið það verulegur að heimilt væri að afturkalla ákvörðun.
Jafnvel þótt afgreiðsla máls sé haldin verulegum annmarka geti ákveðin sjónarmið mælt gegn því að ógilda stjórnvaldsákvörðun. Það kunni t.d. að eiga við þegar málsaðilar eigi réttmætar væntingar til að nýta sér ívilnandi ákvarðanir stjórnvalda eða séu í góðri trú um niðurstöðu máls. Augljóslega þurfi meira að koma til en birting ákvörðunar svo að góð trú eða réttmætar væntingar málsaðila standi í vegi fyrir afturköllun. Ef sú væri raunin myndi það leiða til þess að óheimilt væri í öllum tilfellum að afturkalla ákvarðanir sem þegar væru kunnugar málsaðilum. Við mat á því kunni að vera rétt að líta til þess hvort málsaðili sé byrjaður að nýta sér ákvörðunina og hversu lengi það ástand hafi varað. Ívilnandi ákvörðun sem málsaðili hafi byggt á lengi verði þannig síður talin ógildanleg í skilningi 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga en nýlega birtar ákvarðanir. Í tilfelli kæranda hafi ákvörðun verið afturkölluð og ný tekin í staðinn einungis degi eftir að röng niðurstaða hafi verið birt kæranda. Þá hafi kærandi ekki fengið greiddar atvinnuleysistryggingar á grundvelli umsóknar sinnar þegar niðurstaða stofnunarinnar hafi verið afturkölluð. Sjónarmið um réttmætar væntingar eða þann tíma sem kærandi hafi byggt rétt á rangri ákvörðun eigi því ekki við í máli kæranda.
Í ljósi þessa telji Vinnumálastofnun að skilyrðum fyrir afturköllun ákvörðunar hafi verið fullnægt í máli kæranda og að rétt hafi verið að hafna umsókn hennar um greiðslur atvinnuleysisbóta á grundvelli 2. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt 17 gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Með þeirri ákvörðun var fyrri ákvörðun stofnunarinnar um samþykkt á umsókn kæranda afturkölluð. Með afturköllun er í stjórnsýslurétti átt við þegar stjórnvald tekur að eigin frumkvæði til baka lögmæta ákvörðun þess sem þegar hefur verið birt málsaðila. Ákvörðun stjórnvalds, sem komin er til aðila máls, verður ekki tekin til baka nema skilyrði afturköllunar séu fyrir hendi. Ýmis sjónarmið ráða niðurstöðu um það hvort afturköllun sé lögmæt. Takast þar einkum á ástæður stjórnvalds til afturköllunar og þýðing ákvörðunarinnar fyrir þann sem hún beinist að.
Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er stjórnvaldi í tveimur tilvikum veitt heimild til að afturkalla ákvörðun sem tilkynnt hefur verið aðila máls. Í fyrsta lagi þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, sbr. 1. tölul. greinarinnar, eða þegar ákvörðun er ógildanleg, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Ljóst er að afturköllun Vinnumálastofnunar á samþykkt umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur var til tjóns fyrir kæranda og því er skilyrði 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt.
Kemur þá til skoðunar hvort skilyrði 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt í máli þessu. Ákvörðun er talin ógildanleg ef hún er haldin annmarka að lögum sem talist getur verulegur, enda mæli veigamikil rök ekki gegn því að ógilda ákvörðunina.
Vinnumálastofnun hefur vísað til þess annmarki hafi verið á ákvörðun stofnunarinnar um að samþykkja umsókn kæranda. Samþykkið hafi verið í beinni andstöðu við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Um verulegan annmarka hafi verið að ræða og því hafi verið heimilt að afturkalla fyrri ákvörðun um samþykkt umsóknar.
Í 17. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þar segir í 1. mgr.:
„Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.“
Í 2. mgr. 17. gr. segir að ákvæðið eigi ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu. Þá segir einnig að ákvæði laganna um atvinnuleysistryggingu launamannsins gildi að öðru leyti, þar á meðal skilyrðið um að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggur ljóst fyrir að kærandi hafði kost á því að snúa til baka í starf sitt hjá B að loknu fæðingarorlofi og þá í 100% starfshlutfall. Vegna skorts á úrræðum í dagvistunarmálum gat kærandi hins vegar ekki sinnt starfsskyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. 100% starfshlutfalli. Vinnuveitandi kæranda kom því til móts við hana og samþykkti að hún myndi starfa í 57% starfshlutfalli þar til hún hefði fengið dagvistun fyrir barn sitt. Verður því ekki fallist á að það hafi verið ákvörðun vinnuveitanda kæranda að draga úr starfshlutfalli hennar.
Framangreindar upplýsingar lágu fyrir þegar Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að samþykkja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Þar sem sú ákvörðun var í andstöðu við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 var hún ógildanleg. Vinnumálastofnun brást strax við þegar þessi mistök urðu ljós, eða daginn eftir að kæranda hafði verið tilkynnt um samþykkt umsóknar. Þá hafði kærandi ekki verið búin að fá neinar greiðslur frá stofnuninni. Með vísan til framangreinds var Vinnumálastofnun því heimilt að afturkalla fyrri samþykki á umsókn kæranda. Þá var Vinnumálastofnun rétt að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 17. gr. laga nr. 54/2006 og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2024, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir