Mál nr. 580/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 580/2024
Fimmtudaginn 20. febrúar 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 12. júní 2024 og var umsóknin samþykkt 12. júlí 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar nýrra gagna. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 7. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir ný gögn í málinu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 10. desember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki. Þann 24. janúar 2025 barst umboð vegna máls kæranda þar sem hún veitti B umboð til að sjá um mál sitt. Umboðsmanni kæranda var veittur frestur til 30. janúar 2025 til að fara yfir gögn málsins og taka afstöðu til þeirra. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hafa þann 15. október 2024 fengið mjög skæða flensu og verið rúmliggjandi í þrjá sólarhringa og slöpp í nokkra daga til viðbótar. Hún hafi því ekki getað boðað forföll samdægurs. Hefði kærandi vitað að tekið yrði svo harkalega á málinu hefði hún mögulega látið dætur sínar hringja fyrir sig. Hún sé þó ekki viss um að það hefði verið leyfilegt.
Kærandi hafi aldrei mótmælt því að mæta á fundi á vegum Vinnumálastofnunar og hefði alltaf mætt ef aðstæður hefðu verið öðruvísi, það er ef kærandi hefði verið nógu heilsuhraust. Kæranda hafi láðst að fylgjast með pósthólfi sínu þessa daga og hún sé miður sín yfir því. Kærandi hafi ekki kynnt sér viðurlögin almennilega og ekki grunað að refsingin yrði svo þungbær.
Kærandi sé X ára fimm barna móðir og eigi sex barnabörn. Hún hafi orðið fyrir ýmsum stórum áföllum á lífsleiðinni, þar á meðal [...]. Hún hafi þó ávallt reynt að sjá sér og sínum farboða. Kærandi hafi unnið fjölbreytt störf frá unglingsaldri og finnist erfitt að vera ekki með vinnu. Það hafi tekið mjög á andlegu hliðina. Kærandi vilji finna sér starf sem allra fyrst því hún telji sig hafa margt að gefa til vinnumarkaðarins. Kennitala hennar hjálpi þó lítið við atvinnuleitina. Kærandi og sambýlismaður hennar til sjö ára hafi skilið árið 2023 sem hafi verið mikið áfall fyrir hana. Í kjölfarið hafi hún hafið nám við C. Kærandi hafi verið í atvinnuleit frá því að hún hafi komið til Reykjavíkur síðasta vor. Hún búi hjá elstu dóttur sinni sem sé einstæð tveggja barna móðir að klára hjúkrunarfræði.
Nóvember sé að hefjast og jólamánuðurinn gangi fljótlega í garð, skammdegið aukist og útgjöld hækki. Kærandi hafi þungar áhyggjur af aðstæðum sínum og hafi verið algjörlega miður sín síðustu daga. Kærandi þurfi að standa skil á reikningum og útgjöldum í hverjum mánuði eins og flestir og vilji ekki lenda í vanskilum. Auk þess þurfi hún að lifa af eins og aðrir. Að mati kæranda séu viðurlögin harðneskjuleg og enginn gluggi fyrir mannleg mistök. Kærandi sé ekki sú tæknilegasta og sjái nú að mikilvægt sé að kynna sér allt sem snerti lög og reglur, svo og viðurlög hjá stofnuninni. Dætur kæranda muni aðstoða hana eftir fremsta megni í framtíðinni með þessi mál og vonandi þurfi kærandi aðeins tímabundið á aðstoð Vinnumálastofnunar að halda. Kærandi óski því eftir að rökstuðningur hennar verði metinn gildur og tillit verði tekið til hennar og hennar sögu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 12. júní 2024. Með erindi, dags. 12. júlí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Þann 23. september 2024 hafi kærandi verið boðuð á upplýsingafund á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 24. september 2024, klukkan 14:15. Kærandi hafi verið upplýst um að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Kæranda hafi sömuleiðis verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar yrðu stöðvaðar. Boðun þessi hafi verið birt á „Mínum síðum“ kæranda. Ásamt því hafi athygli verið vakin á nýjum samskiptum með tölvupósti á netfang kæranda og með smáskilaboðum í skráð símanúmer hennar, X. Samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar hafi smáskilaboðin borist í símtæki kæranda þann 23. september 2024, klukkan 11:25. Kærandi hafi hvorki mætt á boðaðan kynningarfund né boðað forföll.
Þann 14. október 2024 hafi kærandi aftur verið boðuð á upplýsingafund á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 15. október 2024, klukkan 14:15. Kærandi hafi verið upplýst um að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Kæranda hafi sömuleiðis verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar yrðu stöðvaðar. Boðun þessi hafi veirð birt á „Mínum síðum“ kæranda undir yfirskriftinni „Kynningarfundur 15.10.24 kl. 14:15 ATH Síðasta boðun.“ Ásamt því hafi athygli verið vakin á nýjum samskiptum með tölvupósti á netfang kæranda og með smáskilaboðum í skráð símanúmer hennar, X. Samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar hafi smáskilaboðin borist í símtæki kæranda þann 14. október 2024, klukkan 14:04. Kærandi hafi heldur ekki mætt á seinni kynningarfundinn né boðað forföll.
Með erindi, dags. 18. október 2024, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á fjarveru hennar á upplýsingafund þann 15. október 2024. Áréttað hafi verið að hefði hún hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð án gildra ástæðna gæti hún þurft að sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þann 18. október 2024 hafi stofnunni borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hafi sagt:
„Sæl.
Ég fékk bréf um að ég hefði ekki mætt á námskeið hjá stofnunni í vikunni ( 15 okt) Því miður þá voru veikindi hjá mér þennan dag.
Byð afsökunnar að að láta ykkur ekki vita.“
Þann 21. október 2024 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar frá kæranda í símtali þar sem fram hafi komið að kærandi hefði misst af skilaboðum varðandi fyrri fundinn á „Mínum síðum“ og í tölvupósti. Þá hafi kærandi ennfremur sagt að hún hafi verið veik þegar seinni fundurinn hafi verið haldinn og að hún hafi boðað forföll eftir á með tölvupósti á netfangið [email protected].
Með erindi, dags. 24. október 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um tveggja mánaða stöðvun á greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar vegna fjarveru á boðaðan kynningarfund þann 15. október 2024. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með erindi, dags. 29. október 2024, hafi kærandi óskað eftir endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar frá 21. október 2024. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir þann 7. nóvember 2024 og ákvörðun í málinu staðfest þar sem ekki hefðu borist gögn eða skýringar sem áhrif hefðu á niðurstöðu í máli hennar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. Í 14. gr. laganna sé kveðið á um hvað felist í virkri atvinnuleit, en samkvæmt [h. lið] 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði.
Ákvæði 13. gr. sé svohljóðandi:
„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“
Þá sé í 1. mgr. 14. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar skuli hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum.
Af framangreindum lagaákvæðum sé ljóst að heimildir Vinnumálastofnunar til að boða til sín atvinnuleitendur, og sömuleiðis skyldur atvinnuleitenda til að verða við slíkri boðun, séu ríkar. Þá sé það fortakslaust skilyrði svo unnt sé að aðstoða atvinnuleitendur við að fá starf við hæfi og gefa þeim kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitendur sinni þeim boðunum sem þeim séu send. Í skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki þegar þeir sæki um greiðslur atvinnuleysistrygginga komi fram að umsækjendum sé skylt að mæta í viðtöl, fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði til.
Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt á boðaða kynningarfundi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar dagana 24. september 2024 og 15. október 2024. Áður hafi kærandi fengið sendar tilkynningar um boðun á umrædda kynningarfundi í tölvupósti, farsíma og á „Mínum síðum“. Kærandi hafi fengið rúmlega sólarhringsfyrirvara til að bregðast við boðunum stofnunarinnar.
Þá segi í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“
Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Skýringar kæranda á fjarveru sinni á fyrri kynningarfundi hafi verið þær að henni hafi yfirsést boðun á „Mínum síðum“ og í tölvupósti. Þá hafi kærandi sagt að hún hafi verið veik þegar seinni fundur hafi verið haldinn og af þeim sökum ekki getað mætt í boðað vinnumarkaðsúrræði.
Kærandi hafi valið að vera í rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun þegar hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta. Þegar umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi henni verið tilkynnt að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma skilaboðum til hennar með tölvupósti, skilaboðum inn á „Mínum síðum“ og með smáskilaboðum. Kærandi hafi því verið upplýst með fullnægjandi hætti um hvernig henni yrðu send mikilvæg skilaboð og tilkynningar. Fyrir liggi að kæranda hafi verið send tilkynning í farsíma og tölvupósti þar sem henni hafi verið tjáð að skilaboð biðu á „Mínum síðum“. Í samskiptasögu kæranda komi fram að henni hafi sannarlega verið sendur tölvupóstur á uppgefið tölvupóstfang, X, og með textaskilaboðum í skráð farsímanúmer, X, þann 23. september 2024, klukkan 11:25, og 14. október 2024, klukkan 14:04. Boðun til umræddra funda hafi því borist kæranda með sannanlegum hætti, sbr. lokamálslið 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þá sé Vinnumálastofnun samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar heimilt að boða atvinnuleitendur til stofnunarinnar. Atvinnuleitendur skuli þá vera reiðubúnir að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Ákvæði 3. mgr. 13. gr. hafi komið inn í lög um atvinnuleysitryggingar með 4. gr. laga nr. 134/2009 en í athugasemdum með 4. gr. segi að gert sé ráð fyrir að stofnunin geti boðað atvinnuleitanda með allt að sólarhringsfyrirvara á þá skrifstofu sína sem næst sé lögheimili viðkomandi.
Að mati Vinnumálastofnunar geti framangreindar skýringar kæranda ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið boðaður á fundi hjá stofnuninni með nægum fyrirvara með réttum samskiptaleiðum. Kærandi hafi í upphafi umsóknar verið upplýst með fullnægjandi hætti um hvernig henni yrðu send mikilvæg skilaboð og tilkynningar. Boðun til umrædds fundar hafi borist kæranda með sannanlegum hætti, sbr. lokamálslið 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Auk þess hafi sérstaklega verið tekið fram að tilkynningar um forföll skyldu berast án ástæðulausrar tafar. Kærandi hafi hvorki tilkynnt um veikindi eða fjarveru fyrr en stofnunin hafi leitað eftir skýringum hennar. Í ljósi framangreinds og þeirrar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 13. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 3. mgr. 13. gr. sömu laga og beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í tvo mánuði.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.
Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við því að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:
„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“
Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.
Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.
Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var tvívegis boðuð á kynningarfund hjá Vinnumálastofnun sem áttu að fara fram annars vegar 24. september 2024 og hins vegar 15. október 2024. Kæranda var greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Jafnframt var athygli kæranda vakin á því að ótilkynnt forföll og forföll án gildrar ástæðu gætu valdið stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Fyrir seinni kynningarfundinn var athygli kæranda vakin á því að ekki væri hægt að fá nýja boðun á fund en ástæður forfalla yrðu sendar á Greiðslustofu til skoðunar þar sem afstaða yrði tekin til mögulegra viðurlaga í formi tímabundinnar eða varanlegrar greiðslustöðvunar. Boðanir voru sendar kæranda með sannanlegum hætti, þ.e. með tilkynningu á „Mínar síður“, í skráð tölvupóstfang og farsíma. Kærandi hvorki boðaði forföll né mætti á fundina.
Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi verið rúmliggjandi með skæða flensu og hafi því ekki getað boðað forföll samdægurs. Þá hafi kæranda láðst að fylgjast með pósthólfi sínu þessa daga.
Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins og hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta fjarveru á boðaða fundi hjá Vinnumálastofnun.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir