Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 677/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 677/2024

Fimmtudaginn 3. apríl 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. mars 2024 og var umsóknin samþykkt 8. apríl 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um nauðsynlegar upplýsingar sem hefðu áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. desember 2024. Með bréfi, dags. 22. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. febrúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi veikst illa dagana 7.-11. desember 2024 og hvorki getað notað síma né tölvu meðan á veikindum stóð. Hann hafi verið einn á þessu tímabili og ekki getað notið aðstoðar fjölskyldu sinnar meðan á veikindunum stóð. Þann 11. desember 2024 hafi hann leitað til læknis og fengið læknisvottorð vegna veikindanna sem hann hafi skilað til Vinnumálastofnunar daginn eftir en stofnunin hafi hafnað læknisvottorðinu. Kærandi hafi því verið sviptur atvinnuleysisbótum vegna veikinda.

Kærandi greinir frá veikindum sínum og alvarleika þeirra sem og fyrri veikindum og heilsufari. Þá kemur fram að kærandi hafi litla íslensku og ensku kunnáttu sem valdi honum erfiðleikum í samskiptum við Vinnumálastofnun. Þjónustufulltrúi Vinnumálastofnunar hafi tekið við læknisvottorði og upplýst kæranda um að hann skyldi bíða eftir svari stofnunarinnar en þyrfti ekki að aðhafast frekar.

Kærandi byggir kæru sína á því að Vinnumálastofnun hafi ekki haft upplýsingar eða leitað upplýsinga um stöðu kæranda eða gefið honum tækifæri til að leggja fram skýringar á fjarveru sinni.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 1. mars 2024. Með erindi, dags. 8. apríl 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Í greinargerð er rakið að með erindi, dags. 9. desember 2024, hafi kærandi verið boðaður í viðtal við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Viðtalið hafi átt að fara fram á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 10. desember 2024, klukkan 13:50. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að um skyldumætingu væri að ræða og að ótilkynnt forföll og forföll án gildra ástæðna gætu valdið stöðvun greiðslna atvinnuleysisbóta. Umrædd boðun hafi verið send þann 9. desember 2024, klukkan 10:36, á „Mínar síður“ atvinnuleitanda. Ásamt því hafi verið send tilkynning um ný skilaboð á „Mínum síðum“ á uppgefið netfang, ásamt skilaboðum í uppgefið farsímanúmer kæranda. Samkvæmt samskiptaskráningu Vinnumálastofnunar hafi skilaboðin verið móttekin í símtæki kæranda þann 9. desember 2024, klukkan 10:36.

Þann 11. desember 2024 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist tilkynning þess efnis að kærandi hefði ekki mætt í boðað viðtal og jafnframt að engin forföll hefðu verið boðuð af hálfu kæranda. Með erindi þann 11. desember 2024 hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt í umrætt viðtal. Áréttað hafi verið að ef kærandi hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Jafnframt hafi verið vakin athygli á því að ef kærandi hefði látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum gæti það leitt til viðurlaga í formi biðtíma á greiðslu atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun hafi í kjölfarið borist læknisvottorð, dags. 11. desember 2024. Í læknisvottorðinu komi fram að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms daginn sem viðtalið hafi átt að fara fram þann 10. desember 2024.

Með erindi, dags. 18. desember 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að í ljósi þess að hann hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun tafarlaust um veikindi sín væri það niðurstaða stofnunarinnar að bótaréttur kæranda skyldi felldur niður í tvo mánuði. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 19. desember 2024 hafi borist frekari skýringar frá kæranda þar sem fram komi að kærandi hafi verið veikur á tímabilinu 7.-11. desember 2024, með mikinn hita og háan blóðþrýsting. Af þeim sökum hafi kærandi verið alls ófær um að taka við og skilja boðanir frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi því ekki getað tilkynnt veikindi fyrr en honum hafi liðið ögn betur þann 11. desember 2024. Hann hafi leitað á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og leitað aðstoðar. Kærandi telji að hann hafi fengið rangar upplýsingar af hálfu starfsmanns sem hafi tekið við læknisvottorði.

Þann 7. janúar 2025 hafi mál kæranda verið tekið til endurskoðunar. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að staðfesta fyrri ákvörðun, dags. 18. desember 2024, þrátt fyrir að frekari skýringar frá kæranda hafi borist.

Þann 16. janúar 2025 hafi nýtt læknisvottorð borist frá kæranda, dags. 13. janúar 2025, þar sem fram hafi komið að hann hefði verið óvinnufær með öllu, ótímabundið frá 7. desember 2024. Umrætt læknisvottorð hafi borið með sér að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 7. desember 2024 og teldist því ekki hafa verið í virkri atvinnuleit. Þann 16. janúar 2025 hafi Vinnumálastofnun óskað eftir að kærandi myndi skila inn læknisvottorði sem staðfesti starfsgetu og einnig skýringum á ástæðum þess að hann hefði ekki tilkynnt fyrr um óvinnufærni sína. Þann 20. janúar 2025 hafi borist frekari skýringar frá kæranda þar sem fram hafi komið að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilinu 7.-10. desember 2024. Kærandi hafi ítrekað að hann hafi verið út úr heiminum vegna veikinda á umræddu tímabili og því ekki getað tilkynnt um forföll vegna veikinda.

Þann 27. janúar 2025 hafi Vinnumálastofnun fallist á að kærandi væri í virkri atvinnuleit frá 11. desember 2024 að telja. Stofnunin hafi þó vakið athygli á að viðurlög sem kæranda hafi verið birt þann 18. desember 2024 stæðu.

Framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar frá. 18. desember 2024 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 23. desember 2024.

Um lagarök segir í greinargerð Vinnumálastofnunar að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt í viðtal sem hann hafi verið boðaður til. Kærandi hafi veitt skýringar á fjarveru sinni, sem lúti að því að hann hafi ekki mætt sökum veikinda. Meðal gagna í málinu sé læknisvottorð, útgefið 11. desember 2024, þar sem fram komi að kærandi hafi verið með öllu óvinnufær daginn sem viðtal hafi átt að fara fram, þ.e. 10. desember 2024. Þá liggi jafnframt fyrir annað læknisvottorð, útgefið 13. janúar 2025, þar sem fram komi að kærandi hafi verið óvinnufær frá 7. desember 2024 til óvissrar dagsetningar. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um veikindi sín án ástæðulausrar tafar hafi honum með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 18. desember 2024, verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem sé svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Sé þannig meðal annars í 3. mgr. 9. gr. laganna kveðið á um að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar sé atvinnuleitendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar á meðal um upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum þeirra að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segi í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi sín fyrr en eftir að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir skýringum á fjarveru hans í boðað viðtal við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Í skýringum beri kærandi við ómöguleika við að tilkynna Vinnumálastofnun um veikindi sín sökum alvarlegra veikinda. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna um veikindi sín sem hafi hafist 7. desember 2024. Ekki verði séð á innsendum gögnum að kærandi hafi verið ófær um að tilkynna Vinnumálastofnun um veikindi sín sökum alvarleika veikinda. Vinnumálstofnun telji að kærandi hafi ekki uppfyllt áskilnað 2. mgr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að tilkynna veikindi sín án ástæðulausrar tafar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segir meðal annars í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá lokum veikindanna óski Vinnumálastofnun eftir því.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki á boðaðan fund hjá Vinnumálastofnun þann 10. desember 2024 vegna veikinda. Þá liggur fyrir að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um veikindin fyrr en 12. desember 2024 eftir að stofnunin hafði leitað eftir skýringum á því hvers vegna hann hefði ekki mætt á fundinn.

Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr., 2. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti stofnuninni ekki strax um veikindi sín og hafa ekki verið lögð fram viðunandi gögn eða skýringar af hálfu kæranda um að honum hafi verið ófært að boða forföll á boðaðan fund hjá Vinnumálastofnun þann 10. desember 2024. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta