Mál nr. 129/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 129/2025
Fimmtudaginn 3. apríl 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 26. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2022, að fjárhæð 494.616 kr., að meðtöldu 15% álagi. Þann 27. janúar 2025 var kæranda tilkynnt að ógreidd krafa vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta hefði verið áframsend til frekari meðferðar hjá Innheimtumiðstöð.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. febrúar 2025. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2025, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 7. mars 2025.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hafa verið á atvinnuleysisbótum árin 2021 og 2022 og stundað nám. Kærandi hafi verið einstæð móðir bæði í vinnu og skóla þegar hún hafi misst starf sitt og sótt um atvinnuleysisbætur til að ná endum saman. Kærandi hafi ekki haft vitneskju um að hún mætti ekki vera bæði á opinberum stuðningi og í skóla sem henni þyki miður. Greiðslur frá Vinnumálastofnun hafi virkilega hjálpað kæranda og syni hennar.
Kærandi tekur fram að nú sé hún fyrirmyndar borgari sem gefi til baka til samfélagsins. Hún sé einstæð móðir í 80% starfi og hafi ekki efni á að greiða kröfu Vinnumálastofnunar þar sem hún hafi rétt nóg til framfærslu. Kærandi hafi gert mistök fyrir fjórum árum síðan og það sé krefjandi að fá svo háa endurkröfu með þau lágu laun sem hún þéni í dag. Kærandi óski því eftir niðurfellingu kröfunnar og skilningi á sínum aðstæðum.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2022.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022, var kæranda tilkynnt um skuld við stofnunina vegna tímabilsins 1. janúar til 31. mars 2002. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. febrúar 2025. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst meira en ári eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir