Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 482/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 482/2022

Fimmtudaginn 15. desember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. september 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2022, um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 9. febrúar 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 17. desember 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað þar sem þau gögn sem óskað hafi verið eftir þann 20. janúar 2022 hefðu ekki enn borist stofnuninni. Í kjölfar skýringa kæranda sem bárust Vinnumálastofnun 13. maí 2022 var mál hans tekið til umfjöllunar á ný og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 29. júní 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun frá 9. febrúar 2022 væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn í máli hans hefðu borist.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. september 2022. Með bréfi, dags. 28. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. nóvember 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. nóvember 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá samskiptum sínum við Vinnumálastofnun vegna umsóknar hans um atvinnuleysisbætur frá 17. desember 2021.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 17. desember 2021. Kærandi hafi starfað hjá B áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Á vottorði vinnuveitanda komi fram að kærandi hafi sjálfur sagt upp störfum. Að auki hafi borist skýringar frá vinnuveitenda þess efnis að kærandi hefði sjálfur sagt upp starfi sínu þar sem hann hygðist fara til C og vera þar. Starfslok hafi því komið til vegna þessa. Þá segi vinnuveitandi að kærandi hafi tjáð honum að hann og fleiri í sömu stöðu ætli sér að dvelja í C á fullum bótum og hafi ekki hug á vinnu á Íslandi. Jafnframt hafi komið fram að kærandi vissi að hann þyrfti að vera á landinu í mánuð og svo fengi hann bara greiddar bætur inn á sinn reikning. Fyrrum vinnuveitandi kæranda hafi jafnframt sagt að kærandi hefði óskað eftir því að hann segði þeim upp sem hann hafi ekki fallist á.

Þann 14. janúar 2022 hafi kærandi skilað inn skýringum á því hvers vegna hann hafi ekki mætt í boðað viðtal. Að sögn kæranda hafi hann séð umrædda boðun of seint og skrifstofan hafi verið lokuð. Kærandi segi: „Ég bankaði á dyrnar en enginn opnar, ég hef farið þangað á hverjum degi í þrjá daga en enginn opnar. Ég er búinn að panta tíma hjá D starfsmann en fyrsti dagurinn er 29. Janúar. Get ég fengið nýjan dagsetningu? Ég get komið hvenær sem er. Viltu hjálpa mér hvað er gott að gera núna?“ Þann 20. janúar 2022 hafi verið óskað eftir frekari skýringum kæranda á starfslokum. Jafnframt hafi stofnunin óskað eftir skýringum vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Kæranda hafi verið veittur frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Í kjölfar skýringa frá atvinnurekanda hafi kærandi verið boðaður í viðtal sem hann hafi ekki mætt í og því hafi stofnunin auk þess óskað eftir skriflegri afstöðu frá kæranda á ástæðum þess að hafa ekki mætt í viðtal þann 11. janúar [2022].

Þann 31. janúar [2022] hafi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verið hafnað á þeim grundvelli að þau gögn sem hafi verið óskað eftir hefðu ekki enn borist Vinnumálastofnun. Sú ákvörðun hafi verið byggð á fyrirliggjandi gögnum. Þar sem nauðsynleg gögn hefðu ekki borist, þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir þeim hafi umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar verið ófullnægjandi. Ekki hafi verið ljóst hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, væri uppfyllt.

Þann 2. febrúar 2022 hafi kærandi skilað skýringum á ástæðum starfsloka sinna hjá B þar sem fram komi að hann hafi ekki getað umgengist yfirmann sinn. Hann hafi fundið betri vinnu með 100% samning sem bílstjóri en síðar hafi komið í ljós að hann væri ekki góður í því. Kærandi hefði enga reynslu og hafi því ekki getað unnið þar lengur. Kærandi segist hafa fengið tíma hjá Vinnumálastofnun og segi í skýringarbréfinu ,,meðan var hurðinni lokað.“ Kærandi hafi skrifað þá skýringu að hann væri að biðja um nýja dagsetningu og að hann gæti komið hvenær sem væri. Þann 9. febrúar 2022 hafi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verið hafnað á þeim grundvelli að þau gögn sem hafi verið óskað eftir þann 20. janúar 2022 hefðu enn ekki borist Vinnumálastofnun. Sú ákvörðun hafi verið byggð á fyrirliggjandi gögnum. Þar sem nauðsynleg gögn hefðu ekki borist þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir þeim hafi umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar verið ófullnægjandi. Ekki hafi verið ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þann 9. febrúar 2022 hafi kærandi verið boðaður í vegabréfseftirlit hjá stofnuninni þann 10. febrúar klukkan 10:20 en hann hafi ekki mætt þar sem hann kvaðst hafa séð boðunina of seint. Kærandi hafi mætt 14. febrúar 2022 á þjónustuskrifstofuna.

Þann 13. maí 2022 hafi borist tölvupóstur frá kæranda þar sem fram komi að hann hafi þegar skilað skýringum til stofnunarinnar og að hann skilji ekki hvernig hann eigi að skila inn flugmiðum þar sem hann hafi ekki farið frá Íslandi. Þann 29. júní 2022 hafi mál kæranda verið tekið upp að nýju með tilliti til nýrra gagna. Kærandi segi í skýringum til stofnunarinnar að hann hafi ekki verið erlendis. Kona hans borgi allt því að hann sé svo blankur og geti þess vegna ekki sýnt fram á heimabankafærslur sem staðfesti að hann hafi verið á landinu. Samkvæmt læknisvottorði sem hafi einnig borist stofnuninni hafi kærandi sagst hafa verið með hitavellu og öndunarfæraeinkenni og að það væri ástæða þess að hann hafi misst af viðtalstíma hjá stofnuninni í janúar 2022. Það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli kæranda frá 9. febrúar 2022.

Þann 10. júlí 2022 hafi kærandi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Umsókn kæranda hafi verið frestað þar til Vinnumálastofnun myndi berast afrit af flugfarseðlum þar sem brottfarar- og komutími væru tilgreindir. Jafnframt hafi komið fram að ef kærandi hefði ekki verið erlendis á umræddum tíma væri óskað eftir skriflegri afstöðu þar að lútandi.

Þann 10. ágúst 2022 hafi mál kæranda verið tekið upp að nýju með tilliti til nýrra gagna vegna fyrri umsóknar kæranda. Stofnuninni hafi borist læknisvottorð og skýringarbréf. Vinnumálastofnun hafi talið að beiðni kæranda gæfi ekki tilefni til endurupptöku á máli hans, enda hefðu ekki komið fram upplýsingar sem gætu haft þýðingu í málinu. Kæranda hafi verið tilkynnt að ekki væri séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 29. júní 2022 væri byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og því hafi beiðni kæranda um endurupptöku verið hafnað. Það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli kæranda frá 29. júní 2022. Seinni umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta hafi jafnframt verið hafnað sama dag þar sem talið hafi verið að kærandi væri ekki í virki atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysisbætur.

Ljóst sé að mistök hafi átt sér stað í máli kæranda og af þeim sökum hafi Vinnumálastofnun tekið nýja ákvörðun í máli kæranda þann 27. október 2022.  Vinnumálastofnun telji að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda. Fallist sé á kröfur kæranda um að samþykkja umsókn hans frá 17. desember 2021. Það tímabil sem kærandi teljist atvinnulaus sé 18. desember 2021 til 1. júní 2022 og 11. júlí 2022 til 16. júlí 2022 og greiðslur til hans skuli leiðréttar í samræmi við það. Kærandi hafi verið kominn í vinnu 17. júlí 2022 og hafi því verið afskráður frá og með þeim degi. Hins vegar hafi kæranda verið tilkynnt sama dag að með vísan til þess að kærandi hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði væri réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður frá og með 27. október 2022 í tvo mánuði sem annars hefðu verið greiddar bætur fyrir. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem hann hafi ekki sinnt boðuðu eftirliti hjá Vinnumálastofnun.

Samkvæmt a-lið 13. gr. og  g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða.  Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi svo:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið eigi einnig við ef atvinnuleitandi mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki mætt í boðað viðtal þann 11. janúar 2022 en honum hafi verið send boðun í viðtal með tölvupósti og í uppgefið símanúmer hans þann 10. janúar 2022. Þann 14. janúar 2022 hafi kærandi skilað skýringum á því hvers vegna hann hafi ekki mætt í boðað viðtal. Kærandi hafi sagst hafa séð umrædda boðun of seint og skrifstofan hafi verið lokuð. Kærandi hafi sagt: „Ég bankaði á dyrnar en enginn opnar, ég hef farið þangað á hverjum degi í þrjá daga en enginn opnar. Ég er búinn að panta tíma hjá D starfsmann en fyrsti dagurinn er 29. Janúar. Get ég fengið nýjan dagsetningu? Ég get komið hvenær sem er. Viltu hjálpa mér hvað er gott að gera núna?“ Síðar hafi kærandi komið með þær skýringar að hann hafi verið með hitavellu og öndunarfæraeinkenni og það væri ástæða þess að hann hafi misst af viðtalstíma hjá stofnuninni í janúar 2022. Í læknisvottorði sem kærandi hafi skilað til stofnunarinnar, dags. 28. júní 2022, komi fram: ,,Viðkomandi, A óskar eftir læknisvottorði vegna veikinda dags 11. janúar 2022. Kveðst hafa haft hitavellu og öndunarfæraeinkenni og vegna Covid-19 faraldrar ekki treyst sér í vinnu/námskeið.“ Stofnunin telji að umrætt vottorð hafi enga þýðingu í máli kæranda en vottorðið lýsi frásögn kæranda við læknisheimsókn sem virðist beint tekið upp í vottorði hálfu ári eftir að atvik hafi átt sér stað. Ljóst sé að ekki sé samræmi í skýringum kæranda á því af hverju hann hafi ekki mætt í umrætt viðtal og því telji stofnunin skýringar kæranda ótrúverðugar.

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra er það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að með því að mæta ekki á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar hafi hann brugðist skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, enda hafi hann ekki tilkynnt um forföll sín þegar hann hafi verið boðaður til fundar hjá stofnuninni.

Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að staðfesta ákvörðun frá 9. febrúar 2022 þar sem umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að mistök hafi átt sér stað í máli kæranda og því hafi stofnunin tekið nýja ákvörðun 27. október 2022. Tekið er fram að umsókn kæranda hafi verið samþykkt frá 17. desember 2021. Það tímabil sem kærandi teljist atvinnulaus sé 18. desember 2021 til 1. júní 2022 og 11. til 16. júlí 2022 og greiðslur til hans verði leiðréttar í samræmi við það. Í ákvörðun frá 27. október 2022 var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Þar sem Vinnumálastofnun kom á framfæri afstöðu sinni til þeirrar ákvörðunar í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar og þar sem það er til hagræðis fyrir kæranda mun úrskurðarnefndin fjalla um þá ákvörðun stofnunarinnar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 17. desember 2021 og var boðaður í viðtal hjá stofnuninni 10. janúar 2022 sem fara átti fram daginn eftir. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða og að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til sviptingar atvinnuleysisbóta. Kærandi mætti ekki á boðaðan fund og var af þeim sökum beittur viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006.

Ljóst er að kærandi hafði ekki verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur þegar hann mætti ekki á framangreindan fund hjá Vinnumálastofnun. Að því virtu var Vinnumálastofnun ekki heimilt að beita hann viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. október 2022 um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði er felld úr gildi.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum