Mál nr. 124/205-Endurupptaka
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 124/2025
Föstudaginn 16. maí 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 25. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2025, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 27. desember 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. janúar 2025, var umsókn hans samþykkt en bótaréttur felldur niður í tvo mánuði með vísan til ótekinna viðurlaga, sbr. ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. ágúst 2024, um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar skýringa kæranda var mál hans tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar 2025, var kæranda tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. ágúst 2024, væri staðfest. Þann 17. febrúar 2025 fór kærandi fram á endurupptöku málsins og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2025, var þeirri beiðni synjað.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. febrúar 2025. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 24. mars 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2025. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. apríl 2025 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2025. Athugasemdir bárust frá Vinnumálastofnun 15. apríl 2025 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. apríl 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hafa verið boðaður í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjavík þann 14. ágúst 2024 með tveggja daga fyrirvara. Kærandi hafi þá verið í óðaönn að undirbúa tveggja mánaða dvöl í B til að vinna sem [...]. Sú dvöl hafi hafist 16. ágúst 2024. Því miður hafi það orðið útundan í undirbúningnum að láta Vinnumálastofnun vita af ráðningunni og að ástæðan fyrir boðun í umrætt viðtal væri þar með ekki lengur fyrir hendi. Auk þessa tiltekna verkefnis hafi kærandi séð fram á að hafa næg verkefni út árið.
Það hafi ekki reynst auðvelt að fá tækifæri til bréfaskrifta í B. Vinnudagurinn hafi að jafnaði verið 14 til 16 klukkustundir og tökustaðir yfirleitt úti í náttúrunni hér og þar um eyjarnar. Kærandi telji rétt að taka fram að hann sé óvanur bréfaskriftum af þessu tagi. Niðurstaða hans hafi verið sú að það myndi nægja að láta vera að staðfesta atvinnuleit fyrir ágústlok. Það hafi einnig nægt til þess að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Hann hafi því engar bætur fengið fyrir ágústmánuð og hafi síðast fengið greiðslu frá Vinnumálastofnun í lok júlí 2024. Um hafi verið að ræða eftirágreiðslu fyrir þann mánuð.
Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju í lok desember 2024 í kjölfar þess að hann hefði óvænt lent í verkefnaskorti. Þá hafi honum verið tjáð að hann ætti ótekin viðurlög. Kærandi sætti sig ekki við þessa afstöðu Vinnumálastofnunar og telji hana ekki í samræmi við lög. Heimild stofnunarinnar til refsingar fyrir að mæta ekki í boðað viðtal hljóti að takmarkast við þann tíma sem viðkomandi sé atvinnulaus og þiggi bætur frá stofnuninni. Vissulega hefði verið heppilegra hefði kærandi látið vita af ráðningunni bréflega með nokkrum fyrirvara en að teknu tilliti til gildandi laga og aðstæðna telji kærandi það ekki geta verið refsivert að hafa gert það litlu síðar með óformlegri hætti. Það sem mestu skipti sé að kærandi hafi ekki þegið neinar óréttmætar greiðslur frá stofnuninni.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar bendir kærandi á að það hafi verið afar óheppilegt að hann hafi ekki svarað umræddu fundarboði og öðrum tilskrifum stofnunarinnar vegna fundarins. Það breyti þó ekki því mati kæranda að stofnuninni skorti lagalega heimild til að beita refsingu vegna fjarveru á fundi sem hafi átt sér stað á meðan hann hafi verið í fullri vinnu án þess að þiggja atvinnuleysisbætur. Refsivald Vinnumálastofnunar hljóti að falla niður um leið og réttur kæranda til atvinnuleysisbóta. Hann hafi ekki formlega sagt bótunum upp en þó gert það í reynd með því að staðfesta ekki atvinnuleit. Stofnunin hafi jafnframt í reynd staðfest þessa túlkun kæranda með því að hætta að greiða honum bætur.
Mikilvægt sé að stofnanir hafi ekki sjálfdæmi um vald sitt og því treysti kærandi á að úrskurðarnefndin vegi og meti sjálfstætt hin lagalegu rök í málinu.
Kærandi veki sérstaka athygli á því að fullyrðing Vinnumálastofnunar í greinargerð sinni sé röng og stangist á við þær upplýsingar sem hún hafi þó undir höndum. Fullyrðingin sé svohljóðandi:
„Kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 58 gr. um niðurfellingu biðtíma, enda hafði hann ekki starfað á vinnumarkaði áður en hann sótti aftur um greiðslu atvinnuleysisbóta.“
Kærandi hafi þvert á móti verið í fullri vinnu sem verktaki frá því um miðjan ágúst 2024 og þar til skömmu áður en hann hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að upphaf málsins megi rekja til ákvörðunar stofnunarinnar þann 30. ágúst 2024. Með ákvörðuninni hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum fjarveru hans í boðað viðtal þann 14. ágúst 2024. Bótaréttur kæranda hafi með umræddri ákvörðun verið felldur niður í tvo mánuði. Kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit í ágúst 2024 og hafi því verið afskráður af atvinnuleysisskrá.
Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju með umsókn, dags. 27. desember 2024. Með erindi, dags. 15. janúar 2025, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans væri samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 45%. Með vísan til ótekinna viðurlaga hans yrðu bætur til hans hins vegar ekki greiddar fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.
Þann 3. febrúar 2025 hafi borist erindi frá kæranda þar sem hann hafi farið fram á að tveggja mánaða biðtími frá því í ágúst 2024 yrði felldur niður. Í erindi kæranda hafi hann bent á að í ágúst 2024 þegar umrætt viðtal hefði farið fram hefði hann ekki verið í virkri atvinnuleit. Hann hafi ennfremur sagt að hann hefði verið við störf erlendis. Af þeim sökum hafi hann ekki mætt í boðað viðtal í ágúst 2024. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju 6. febrúar 2025. Kæranda hafi í kjölfarið verið tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. ágúst 2024, skyldi standa þrátt fyrir skýringar hans.
Þann 17. febrúar 2025 hafi borist frekari skýringar frá kæranda. Í skýringum sínum hafi hann áréttað að hann hafi ekki talið sig hafa þurft að afskrá sig af atvinnuleysisbótum í ágúst 2024 þegar hann hafi verið kominn með vinnu erlendis. Kærandi hafi talið sig vera í góðri trú um að nóg væri að staðfesta ekki atvinnuleit sína í ágúst 2024. Í ljósi þess að hann hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur í ágúst 2024 telji kærandi að hann eigi ekki að þurfa að sæta viðurlögum vegna fjarveru í boðað viðtal til Vinnumálastofnunar í ágúst 2024.
Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2025, hafi kæranda verið tilkynnt að ný gögn gæfu ekki tilefni til að taka mál hans til skoðunar að nýju.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Mál þetta varði í grunninn ákvörðun Vinnumálastofnunar frá ágúst 2024 og þá ákvörðun stofnunarinnar að kærandi skuli sæta eftirstöðvum viðurlaga sinna þegar hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 27. desember 2024.
Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju með umsókn, dags. 27. desember 2024, hafi eftirstöðvar biðtíma enn verið tveir mánuðir, enda hefði biðtími hans aldrei byrjað að líða þar sem hann hefði verið afskráður þann 4. september 2024, frá og með 1. ágúst 2024 þar sem hann hefði ekki staðfest atvinnuleit.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um nokkur tilvik þar sem biðtími eða viðurlög samkvæmt lögunum falli niður eða frestist. Í 3. mgr. 58. gr. laganna komi fram að taki hinn tryggði starfi sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma samkvæmt 1. mgr. standi falli biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Þá segi í 3. mgr. að vari starfið í skemmri tíma, hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á haldi biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur.
Kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 58. gr. um niðurfellingu biðtíma, enda hafi hann ekki starfað á vinnumarkaði áður en hann hafi aftur sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta. Þar af leiðandi hafi biðtími hans haldið áfram að líða þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju þann 27. desember 2024.
Þær skýringar sem kærandi hafi veitt á fjarveru sinni í boðað viðtal þann 14. ágúst 2024 snúi einkum að því að hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit á þeim tíma. Hann hafi verið kominn í vinnu á þeim tímapunkti í verktöku í B. Hann hafi staðið í þeirri trú að það væri engin sérstök ástæða af sinni hálfu til að afskrá sig af atvinnuleysisbótum eða tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum á þeim tímapunkti. Hann hafi talið nóg að staðfesta ekki atvinnuleit í ágúst 2024. Vinnumálastofnun meti skýringar kæranda ekki gildar. Í því samhengi vísi stofnunin til þess að kærandi hafi verið skráður í virkri atvinnuleit í ágúst 2024. Hann hafi fengið boð frá Vinnumálastofnun með sannarlegum hætti um að hann ætti að mæta í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 14. ágúst 2024. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt í boðað viðtal og ekki tilkynnt um forföll. Vinnumálastofnun hafi á þeim tíma ekki borist tilkynning frá kæranda um að hann væri staddur erlendis. Þá hafi kærandi ekki afskráð sig af atvinnuleysisskrá. Ekki verði fallist á að atvinnuleitendur geti komið sér hjá lögbundinni skyldu til að sinna vinnumarkaðsúrræðum með því að staðfesta ekki atvinnuleit sína í þeim mánuði sem þeir hafi verið fjarverandi á námskeiði eða í viðtali hjá stofnuninni. Rétt sé að benda á að kærandi hafi ekki upplýst um forföll og að engin boðun á námskeið sé send til atvinnuleitenda sem hafi tilkynnt um afskráningu af atvinnuleysisskrá.
Kæranda hafi því borið að sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að eftirstöðvar biðtíma hans skuli halda áfram að líða frá síðasta umsóknardegi kæranda, dags. 27. desember 2024.
Í svari Vinnumálastofnunar við athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi hafi ekki skráð sig af atvinnuleysisbótum þegar fundarboð hafi átt sér stað, líkt og fram komi í málatilbúnaði kæranda. Hvað varði fullyrðingar kæranda um að hann hafi verið við vinnu frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin og að hugsanlega kunni að vera tilefni til að fella niður biðtíma vegna starfa hans sé rétt að ítreka að engin gögn hafi borist frá kæranda sem beri með sér að hann hafi starfað á umræddu tímabili. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum í umsóknargrunni kæranda hjá Vinnumálastofnun og frá Skattinum hafi kærandi ekki starfað á vinnumarkaði frá því að honum hafi verið birt ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 30. ágúst 2024 og þar til hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju þann 27. desember 2024. Hvorki sé að sjá af staðgreiðsluskrá Skattsins né upplýsingum um skil á reiknuðu endurgjaldi kæranda að hann hafi verið við störf á umræddu tímabili.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2025, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 30. ágúst 2024 um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:
- ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.
Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds eða ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2024, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda felldar niður á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafði ekki mætt í boðað viðtal þann 14. ágúst 2024. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi verið að undirbúa dvöl í B vegna vinnu sem hann hafi fengið þar. Hann hafi ekki náð að tilkynna Vinnumálastofnun um ráðninguna og að ástæða fyrir boðun í umrætt viðtal væri þar með ekki lengur fyrir hendi. Hann hafi látið nægja að staðfesta ekki atvinnuleit fyrir ágúst 2024. Þá hafi kærandi verið í fullri vinnu sem verktaki frá því um miðjan ágúst 2024 og þar til skömmu áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju.
Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.
Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. ágúst 2024 um tveggja mánaða viðurlög á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en fyrir liggur að kærandi var enn á atvinnuleysisskrá þegar hann var boðaður í viðtal til stofnunarinnar. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Auk þess verður ekki ráðið af gögnum málsins að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2025, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir