Mál nr. 654/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 654/2024
Fimmtudaginn 20. mars 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2024 og 13. desember 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar bætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 29. júlí 2022 og var umsóknin samþykkt 16. ágúst 2022. Við samkeyrslu gagna við menntastofnanir kom í ljós að kærandi var skráður í 16 eininga nám við Háskóla Íslands á haustönn 2024. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 9. október 2024, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og ástæðu þess að hann hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Í skýringum kæranda kom fram að hann hefði gleymt að skrá sig úr náminu. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2024, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 30. september 2024, að fjárhæð 328.287 kr. að meðtöldu 15% álagi. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju í kjölfar gagna um að kærandi hefði skráð sig úr námi 23. október 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri afturkölluð að hluta og umsókn hans samþykkt en ofgreiðslukrafa að fjárhæð 328.287 kr. vegna tímabilsins 1. til 30. september 2024 var áréttuð. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2024, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði verið með opna launagreiðendaskrá frá 1. desember 2024 og hefði ekki stöðvað rekstur.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. desember 2024. Með bréfi, dags. 18. desember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. janúar 2025, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. febrúar 2025 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að málið varði annars vegar meint háskólanám sem hafi aldrei átt sér stað og hins vegar opna launagreiðendaskrá þar sem kærandi hafi verið skráður í úrræðið „Frumkvæði“ og markmið þess sé að stofna fyrirtæki. Kærandi óski eftir því að skuld hans verði felld niður og að hann fái þá fjárhæð endurgreidda sem hann hafi þegar greitt. Hann óski einnig eftir því að verða skráður á atvinnuleysisskrá að nýju.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar greinir kærandi frá því að stofnunin haldi því fram að hann sé ekki lengur skráður í verkefni Vinnumálastofnunar, „Frumkvæði“ og því beri honum að loka launagreiðendaskrá sem hann hafi gert. Þrátt fyrir að hafa lokað launagreiðendaskrá og tvívegis sent gögn frá ríkisskattstjóra til Vinnumálastofnunar hafi kærandi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir janúar og febrúar 2025. Kærandi hafi sent fyrri tilkynninguna fyrir áramót og fengið þau svör í janúar að hann væri enn með opna launagreiðendaskrá. Meðfylgjandi séu tölvupóstsamskipti á milli kæranda og sérfræðings hjá Vinnumálastofnun. Á fundi hafi verið ákveðið að lokafundur vegna „Frumkvæðis“ yrði 29. janúar 2025 en kærandi hafi ekki fengið fundarboð. Ástæðu þess viti hann ekki. Kærandi hafi síðast fengið fullar bætur frá stofnuninni þann 30. september 2024.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags 29. júlí 2022. Með erindi, dags. 16. ágúst 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Við samkeyrslu gagna við menntastofnanir vegna haustannar 2024 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráður í 16 eininga nám við Háskóla Íslands. Með erindi, dags. 9. október 2024, hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði skólavottorði þar sem umfang náms hans væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hann hefði ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að veita stofnuninni umbeðin gögn.
Kærandi hafi skilað skýringum samdægurs. Í bréfi kæranda hafi hann kveðist hafa skráð sig í nám en ekki stundað það og að hann hefði gleymt að afskrá sig. Þá hafi kærandi einnig upplýst að hann væri skráður í 14 einingar á vorönn og jafnframt innt eftir samþykki Vinnumálastofnunar fyrir því að ljúka 10 einingum á haustönn.
Með erindi, dags. 22. október 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hann hefði stundað nám á sama tíma og hann hefði þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. til 30. september 2024, samtals 328.287 kr. að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt um að greiðslur til hans væru stöðvaðar á grundvelli 52. gr. laganna.
Kærandi hafi skilað frekari skýringum ásamt skólavottorði frá Háskóla Íslands þann 30. október 2024. Í vottorði frá Háskóla Íslands hafi komið fram að kærandi hefði skráð sig úr námi þann 23. október 2024. Í kjölfar skýringa og gagna frá kæranda hafi málið því verið tekið fyrir að nýju. Kæranda hafi verið sent bréf þann 30. október 2024 þar sem honum hafi verið tilkynnt að fyrri ákvörðun frá 22. október 2024 hefði verið afturkölluð að hluta þar sem ný gögn hefðu breytt niðurstöðu í máli hans. Kærandi hafi verið upplýstur um að synjun væri afturkölluð og umsókn hans samþykkt. Þá hafi hann einnig verið upplýstur um að þar sem hann hefði sannarlega verið skráður í nám þar til 23. október 2024, eins og fram komi í skólavottorði frá Háskóla Íslands, ætti hann ekki rétt á greiðslum fyrir þann tíma sem hann hafi stundað nám. Áður tilkynnt ofgreiðslukrafa upp á 328.287 kr. vegna tímabilsins 1. til 30. september 2024 hafi verið áréttuð.
Kærandi hafi samtals sent þrjú erindi til stofnunarinnar frá 30. október til 7. nóvember 2024 sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 11. nóvember 2024, þar sem endurupptöku á máli kæranda hafi verið hafnað, enda hafi hann ekki fært fram nein haldbær rök né frekari gögn sem hefðu getað breytt niðurstöðu í máli hans. Kærandi hafi svarað því bréfi stofnunarinnar samdægurs og sent tvö erindi til viðbótar sem hafi verið móttekin 11. nóvember 2024 og verið skráð sem beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun, dags. 30. október 2024. Kæranda hafi verið veittur sá rökstuðningur með bréfi, dags. 5. desember 2024.
Þann 5. desember 2024 hafi kæranda einnig verið sent erindi þar sem hann hafi verið inntur eftir skýringum á opnun launagreiðendaskrár án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Kærandi hafi verið upplýstur um að ekki væri heimild til þess að starfa á eigin kennitölu án undanfarandi tilkynningar til stofnunarinnar.
Kærandi hafi brugðist við erindi stofnunarinnar með sama hætti og fyrr og sent inn skýringar og athugasemdir sínar til stofnunarinnar þann sama dag, 5. desember 2024. Kærandi hafi talið að hann hefði verið skráður í vinnumarkaðsaðgerðina „Frumkvæði“ og að hluti hennar væri að stofna fyrirtæki og hefja rekstur. Þá hafi fylgt með skjáskot úr skráningu kæranda á launagreiðendaskrá og þar komið fram að kærandi hefði opnað hana 24. nóvember 2024. Fyrir liggi að kærandi hafi sannarlega verið skráður í vinnumarkaðsaðgerðina „Frumkvæði“ með þar til gerðum samningi þann 23. nóvember 2023 og sá samningur hafi gilt til 23. maí 2024. Kærandi hafi staðfest þann samning með rafrænni undirritun 28. nóvember 2023.
Með erindi, dags. 13. desember 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hann hefði ekki stöðvað rekstur væru greiðslur til hans stöðvaðar á grundvelli 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi svarað því bréfi stofnunarinnar sama dag.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í c. lið 3. gr. laganna sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:
„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Í 1. mgr. 52. gr. segi orðrétt:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“
Ljóst sé af ákvæði 1. mgr. 52. gr. að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi skráð sig í 16 eininga nám við Háskóla Íslands á haustmisseri 2024 á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi svo skráð sig úr námi þann 23. október 2024. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um þessa tilhögun.
Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé því ljóst að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. til 30. september 2024. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. til 30. september 2024, samtals að fjárhæð 285.467 kr. auk 15% álags, enda liggi fyrir að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda með álagi nemi 328.287 kr.
Hvað varði ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2024, um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga til kæranda skuli tekið fram að atvinnuleitendur sem hefji rekstur á eigin kennitölu teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi [b. liðar] 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.“
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi opnað launagreiðendaskrá á eigin kennitölu í nóvember 2024. Tilkynning um opnun hafi verið skráð af Skattinum 22. nóvember 2024 og kærandi hafi í skráningu til Skattsins boðað fyrstu launagreiðslu þann 1. desember 2024.
Samkvæmt f. og g. lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur, sbr. 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 20 gr. laganna sé nánar tilgreint hvenær sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stöðvar rekstur. Í 1. mgr. 20. gr. laganna segi:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.“
Þá sé 21. gr. laganna svohljóðandi:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., skal leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur skv. 20. gr. Staðfestingin skal fela í sér:
a. yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og
b. afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.“
Af fyrirliggjandi gögnum í máli þessu sé ljóst að kærandi hafi opnað launagreiðendaskrá Skattsins eftir að hann hafi sótt um og fengið samþykkta umsókn sína um atvinnuleysisbætur. Í umsókn atvinnuleitenda um atvinnuleysisbætur séu umsækjendur spurðir um hvort þeir hafi verið með atvinnurekstur á síðustu 36 mánuðum. Þá sé umsækjendum í kjölfar umsóknar tilkynnt um helstu réttindi og skyldur ásamt því að þeim sé bent á að ítarlegri upplýsingar megi finna á heimasíðu stofnunarinnar. Ein af þeim skyldum sem sé ítrekuð til umsækjenda sé skylda þeirra til að tilkynna um alla þá vinnu sem atvinnuleitandi kunni að taka að sér degi áður en vinna hefjist. Kæranda hafi því átt að vera ljóst að honum hefði borið að tilkynna stofnunninni um þá vinnu sem hann hafi tekið að sér á eigin kennitölu. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnti um þá vinnu hafi stofnunin ekki verið meðvituð um vinnuna.
Kærandi hafi verið skráður í vinnumarkaðsúrræðið „Frumkvæði“ á árinu 2023 sem hafi falið í sér heimild hans til að vinna að þróun eigin viðskiptahugmyndar, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Sá samningur hafi gilt í sex mánuði frá 23. nóvember 2023 til 23. maí 2024. Skýringar kæranda á því hvers vegna hann hafi opnað rekstur á eigin kennitölu í nóvember 2024 varði mál þetta því ekki og breyti í engu skýrum skilyrðum 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. september til 23. október 2024, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að meðtöldu álagi, samtals 328.287 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.
Þá sé það einning niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga frá tímabilinu 22. nóvember 2024, sbr. 18., 20. og 21. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 30. september 2024 með vísan til þess að kærandi hefði stundað nám. Einnig er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda með vísan til þess að kærandi hefði verið með opna launagreiðendaskrá frá 1. desember 2024. Verður fyrst vikið að ákvörðun stofnunarinnar frá 30. október 2024.
Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 er það meginregla að námsmenn eru ekki tryggðir á sama tímabili og þeir stunda nám, enda sé það ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Frá þeirri meginreglu eru gerðar tilteknar undantekningar er fram koma í 2.-5. mgr. ákvæðisins.
Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.
Almennt er það svo að þeir sem eru skráðir í ákveðið nám teljast stunda námið samkvæmt almennum skilningi þess orðs. Hins vegar getur þurft að meta sérstaklega hvort um raunverulega ástundun náms er að ræða ef einstaklingur kveðst ekki hafa stundað nám þrátt fyrir skráningur þar um, líkt og á við í máli kæranda. Í fyrirliggjandi gögnum frá Háskóla Íslands kemur fram að kærandi hafi verið skráður nemandi við skólann en skráð sig úr námi 23. október 2024.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi lagt fram gögn sem benda til þess að hann hafi ekki stundað nám á haustönn 2024. Var þar komin ástæða fyrir Vinnumálastofnun að rannsaka málið betur, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. að leggja sérstakt mat á hvort kærandi hafi sannanlega ekki stundað námið.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur til kæranda er því felld úr gildi og þeim hluta málsins vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2024, var kæranda tilkynnt að þar sem hann væri með opna launagreiðendaskrá og hefði ekki stöðvað rekstur væru greiðslur til hans stöðvaðar á grundvelli 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Sama skilyrði á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:
- er fær til flestra almennra starfa,
- hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
- hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
- hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
- er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
- er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
- á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
- hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
- er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
Eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga er að hafa stöðvað rekstur og leggja fram staðfestingu um slíka stöðvun, sbr. f. og g. liði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006. Í 20. gr. laganna kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sjálfstætt starfandi einstaklingur leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur og skal staðfestingin fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá 22. nóvember 2024 og hafði ekki stöðvað rekstur þegar ákvörðun Vinnumálastofnunar var tilkynnt honum þann 13. desember 2024. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á því tímabili. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur til A, er felld úr gildi og þeim hluta málsins vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir