Mál nr. 25/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 25/2025
Fimmtudaginn 3. apríl 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. sama dag, um innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 9. mars 2024 og var umsóknin samþykkt 11. apríl 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. janúar 2025, var kæranda tilkynnt að þar sem hann hefði ekki uppfyllt skilyrði um greiðslur atvinnuleysisbóta á sama tíma og greiðslur sjúkradagpeninga stóðu hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 1.538.770 kr., án álags.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. janúar 2025. Með bréfi, dags. 14. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. febrúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi gert mistök og hann hafi ekki vitað að ekki mætti þiggja samtímis atvinnuleysisbætur og sjúkradagpeninga. Hann gerir í fyrsta lagi kröfu um að upphæð skuldar verði endurskoðuð, í öðru lagi að einungis 10% verði skuldajafnað við síðar tilkomnar atvinnuleysisbætur í stað 25% þannig að hann geti stjórnað fjárhagslegum skuldbindingum sínum og í þriðja lagi að engin skuldajöfnun fari fram fyrr en hann finni fasta vinnu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysistryggingar þann 9. mars 2024. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hafi verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 89%.
Í kjölfar samkeyrslu við Skattinn hafi komið í ljós að kærandi var með ótilkynntar tekjur frá mars 2024 til júní 2024 án þess þó að tilkynningar hefðu borist frá kæranda um tilfallandi vinnu eða aðrar tekjur á umræddu tímabili.
Með erindi, dags. 8. janúar 2025, hafi kærandi verið inntur eftir gögnum vegna þeirra greiðslna sem um ræddi á tímabilinu. Óskað hafi verið eftir launaseðlum, greiðsluseðlum og greiðsluáætlunum sem skila yrði innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Kærandi hafi skilað skýringum og gögnum um laun frá B vegna tímabilsins 25. mars 2024 til 7. apríl 2024, gögnum vegna launagreiðslna frá honum sjálfum vegna verktakavinnu frá 1. apríl til 15. apríl 2024, auk greiðsluseðlum frá Sjúkrasjóði VR fyrir tímabilið 15. mars 2024 til 30. júní 2024 vegna sjúkradagpeninga á öllu því tímabili.
Þann 13. janúar 2025 hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hann hefði ekki uppfyllt skilyrði um greiðslur atvinnuleysisbóta á sama tíma og greiðslur sjúkradagpeninga stóðu hefði hann ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta og því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 1.538.770 kr. Því bæri honum að endurgreiða þá upphæð og boðað hafi verið að skuld yrði skuldajafnað við síðar tilkomnar greiðslur þar til krafa væri að fullu greidd. Ekki hafi verið lagt álag á skuld kæranda.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 13. janúar 2025. Í kæru sinni til nefndarinnar geri kærandi í fyrsta lagi kröfu um að upphæð skuldar verði endurskoðuð, í öðru lagi að einungis verði skuldajafnað við 10% í stað 25% af síðari tilkomnum atvinnuleysistryggingum eða að engin skuldajöfnun fari fram á meðan hann sé að leita sér að vinnu.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 15. mars 2024 til 30. júní 2024 þar sem kærandi hafi verið að þiggja greiðslur sjúkradagpeninga samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi þegið sjúkradagpeningagreiðslur úr Sjúkrasjóði VR frá 15. mars 2024 til 30. júní 2024. Greiðsla sjúkradagpeninga kæranda girði fyrir rétt til atvinnuleysisbóta, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem hljóði svo:
„Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.“
Ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að innheimta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 15. mars 2024 til 30. júní 2024. Skuld kæranda hafi verið innheimt án 15% álags þar sem mat stofnunarinnar hafi verið að kærandi félli undir undanþágutilvik það sem fram komi í 2. mgr. Heildarskuld kæranda hafi numið 1.538.770 kr. við ákvörðun en standi í dag í 1.468.767 kr. að teknu tilliti til skuldajöfnuðar sem hafi átt sér stað í febrúar byrjun 2025.
Hvað varði kröfu kæranda um að fella niður alla skuldajöfnun á meðan hann sé skráður atvinnulaus hjá stofnuninni eða að lækka hlutfall skuldajöfnunar í 10% af síðari tilkomnum atvinnuleysistryggingum, bendi Vinnumálastofnun á að samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði. Kærandi hafi ekki fært rök fyrir því að önnur sjónarmið eigi við í hans máli en almennt eigi við um atvinnuleitendur sem hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og séu í sambærilegri stöðu og hann. Ekki sé fallist á að kærandi skuli sæta annarri málsmeðferð en ákvæði 3. mgr. 39. gr. kveði á um.
Með vísan til alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 15. mars 2024 til 30. júní 2024, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, án álags, samtals 1.538.770 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna, sem innheimtar verði með skuldajöfnuði á móti 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 15. mars til 30. júní 2024 þar sem kærandi hafi á sama tíma þegið greiðslur sjúkradagpeninga úr Sjúkrasjóði VR.
Í 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 1. mgr. 51. gr. kemur fram að hver sá sem njóti slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem komi til vegna óvinnufærni að fullu teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili.
Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir svo:
„Ákvæði þetta fjallar um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kann að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og eru ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Verður því að teljast eðlilegt að litið verði á þær sem ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum sem ætlað er sama hlutverk enda verður að ætla að atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrðið um virka atvinnuleit á þeim tíma sem hann á rétt á þeim greiðslum sem taldar eru upp í 1.–3. mgr. ákvæðisins. Ekki er um að ræða breytingar frá því sem gildir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar er sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er þannig fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segir meðal annars í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá lokum veikindanna óski Vinnumálastofnun eftir því.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda dagpeninga frá Sjúkrasjóði VR á tímabilinu 15. mars til 30. júní 2024 á grundvelli læknisvottorðs, þ.e. á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar tekur til. Af fyrirliggjandi gögnum er því ljóst að kærandi var óvinnufær á tímabili því sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar tekur til og var þannig ekki fær um að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum á því tímabili, eins og skylt er samkvæmt a. og b. lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi getur ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og hann nýtur sjúkradagpeninga og er því um ósamrýmanlega greiðslu að ræða skv. 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laganna. Ber kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 15. mars 2024 til 30. júní 2024.
Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í því ákvæði kemur fram að heimilt sé að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings, en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði. Fyrir liggur að ákvörðun Vinnumálastofnunar er í samræmi við þá reglu. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og er því ekki ágreiningur um það atriði.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. janúar 2025, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir