Hoppa yfir valmynd

Mál nr.19 /2020 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 19/2020

Þriðjudaginn 5. maí 2020

A

gegn

Fjölskyldunefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.

Með kæru, dags. 15. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun barnaverndarmálafundar fjölskyldusviðs B, dags. 21. ágúst 2019, sem staðfest var af Fjölskyldunefnd B, dags. X, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, C.

Fjölskyldunefnd B fer með málefni barnaverndarnefndar sveitarfélagsins.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er X ára en hún er dóttir kæranda og D. Foreldrar stúlkunnar fara með sameiginlega forsjá hennar.

Mál stúlkunnar hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum í B frá því í X en þá var ákveðið að hefja könnun máls samkvæmt 21. gr. bvl. í kjölfar tilkynninga frá móður stúlkunnar, X sálfræðistofu og X. Barnaverndarmálafundur fjölskyldusviðs B samþykkti hinn X þriðju meðferðaráætlunina í barnaverndarmáli stúlkunnar. Í henni var kveðið á um að veita stúlkunni persónulega ráðgjöf, áframhaldandi greiðslu sérfræðiviðtala fyrir foreldra stúlkunnar og að starfsmenn barnaverndar myndu fylgja eftir tilvísun um þjónustu fyrir stúlkuna á X. Meðferðaráætlunin var áætluð til þriggja mánaða, eða til X9.

Á 619. fundi fjölskyldusviðs B hinn 21. ágúst 2019 voru tekin fyrir málefni C þar sem eftirfarandi bókun var gerð:

Barnaverndarmál 10.5

Barnaverndarmál, mál tekið fyrir.

Sjá bókun barnaverndarmálafundar, dags. 21. 08. 19. Fyrir liggja upplýsingar um að barnið hafi flust búferlum ásamt móður til X. Ekki er talin ástæða til frekari afskipta af hálfu barnaverndar B og málið þar með ekki flutt á grundvelli 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

Með bréfi, dags. X, óskaði faðir stúlkunnar eftir því að málinu yrði áfrýjað til Fjölskyldunefndar B. Málið var tekið fyrir á 289. fundi Fjölskyldunefndar B hinn X þar sem svohljóðandi bókun var gerð:

Fjölskyldunefnd B tekur til umfjöllunar bréf A dags. X þar sem hann óskar eftir því að fjölskyldunefnd taki fyrir ákvörðun 619. barnaverndarmálafundar þess efnis að loka máli dóttur hans C. Í bréfinu kemur fram að hann telur að ekki hafi legið fyrir þeirri ákvörðun, eins og honum var kynnt hún með tölvupósti X og bréfi með bókun fundarins 21. ágúst 2019, málefnaleg né gild rök.

Í minnisblaði framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs sem liggur fyrir fundinum kemur fram að ekkert hafði komið fram við vinnslu málsins sem gaf ástæðu til þess að efast um forsjárhæfni foreldra. Vandi barnsins var fyrst og fremst litaður af samskiptadeilum foreldra og forsjárdeilu þeirra. Stuðningur sem barnaverndarmálafundur hafði samþykkt var til septemberloka miðað við áætlun sem gilti frá X og beðið var aðkomu X að máli barnsins. Í því ljósi var ekki talin ástæða til þess að flytja mál barnsins í annað sveitarfélag, enda er það á ábyrgð foreldra barnsins að veita því þann stuðning sem barnið þarf á að halda.

Fjölskyldunefnd telur ekki tilefni til að endurskoða ákvörðun 619. barnaverndarmálafundar um lokun máls barnsins og þá hafi ekki verið forsenda til að flytja málið til barnaverndaryfirvalda í því sveitarfélagi sem barnið flutti til.“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fjölskyldunefndar B um að loka barnarverndarmáli vegna dóttur kæranda í stað þess að flytja það til Barnaverndarnefndar X, sbr. 2. mgr. 15. gr. bvl., við flutning móður og dóttur kæranda til X frá B, verði dæmd ógild og að nefndinni verði gerð viðeigandi áminning eða refsing fyrir ranga málsmeðferð þar sem brot gagnvart kæranda og dóttur hans verði staðfest. Jafnframt óski kærandi eftir því að málsmeðferð við móttöku á kæru hans til æðra stjórnsýslustigs verði rannsökuð sem hugsanlegt brot á stjórnsýslulögum og að málsmeðferð Fjölskyldunefndar B á barnaverndarmáli dóttur hans verði endurskoðuð í heild sinni.

Kærandi telur að málið sé sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að þegar Barnaverndarnefnd X hafi kannað málið mörgum mánuðum síðar hafi þótt full ástæða til að hefja inngrip í málefni málsaðila og fjarlægja barn af heimili móður vegna ofbeldis, vanrækslu og foreldraútilokunar. Það sé því ljóst að tafir sem hlutust af rangri málsmeðferð hafi tafið nauðsynlega úrlausn um marga mánuði og aukið á það tjón sem kærandi og dóttir hans hafa orðið fyrir. Auk þess beri að geta þess að við að loka máli þvert á ákvæði barnaverndarlaga, hafi orðið verulegar tafir á afhendingu gagna til Barnaverndarnefndar X þegar nefndin hafi óskað þeirra. Erindið hafi verið talið afgreitt án þess að nokkuð hafi verið gert í því að afhenda gögn eða svara Barnaverndarnefnd X og þannig hafi afhending gagna tafist í tæpa tvo mánuði.

Þá bendir kærandi á málsmeðferð fjölskyldunefndarinnar við mótttöku á kæru hans til æðra stjórnsýslustigs, sem hafi hvorki verið skilað til formanns nefndarinnar né umboðsmanns hans, þó svo að erindið hafi verið sérstaklega stílað á hann og jafnframt kvittað fyrir móttöku. Þetta verði rannsakað sem hugsanlegt brot á stjórnsýslulögum. Erindið hafi verið sett á rangan stað og látið afskiptalaust um tveggja mánaða skeið líkt og starfsmaður nefndarinnar lýsi í minnisblaði með hinum kærða úrskurði.

Þá óskar kærandi eftir því að málsmeðferð Fjölskyldunefndar B verði skoðuð í heild sinni þar sem fjölmargar kærur vegna aðstæðna barnsins hafi ekki verið teknar til greina og jafnvel ekki bókaðar. Þannig hafi brot og vanræksla á dóttur kæranda ekki fengið tilætlaða málsmeðferð. Einnig hafi málsmeðferð á þeim atriðum sem nefndin hafi tekið til skoðunar ekki verið samkvæmt skilgreindum stigvaxandi þrepum til þess að leysa úr viðkomandi atriðum. Síðast en ekki síst er bent á að starfsmaður málsins hafi ráðið sjálfan sig sem tilsjónarmann með barnsmóður kæranda án þess að upplýsa kæranda um slíkt og hafi þar að auki neitað að svara spurningum um hver væri skipaður tilsjónarmaður. Á sama tíma hafi hann haldið áfram að stýra málinu og átt trúnaðarsamtöl við kæranda og sérstaklega sóst eftir upplýsingum frá honum og afstöðu hans til viðkvæmra atriða sem ætla megi að starfsmaðurinn hafi komið til móður, enda hafi hún fljótt tekið afstöðu með móður og gegn föður í málinu eins og staðfestist í skýrslum tilsjónarmanns. Þannig hafi starfsmaður ekki gætt hlutleysis og valið að horfa fram hjá meintum brotum móður gegn barni og föður og lagt trúnað á einhliða sögu móður, þrátt fyrir að ítrekaðar staðfestingar sérfræðinga á tilhæfuleysi aðdróttana og falsra ásakana móður gagnvart föður.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Fjölskyldunefndar B kemur fram að efnisleg atriði málsins er lúti að eftirliti Barnaverndarstofu verði kærð þangað eða leitað til dómstóla eftir því sem við eigi, nema úrskurðarnefnd velferðarmála telji það hlutverk sitt að fjalla um málið í heild sinni. Kærandi óski eftir því að leiðbeiningarskyldu stjórnvalds verði beitt, sjái úrskurðarnefnd velferðarmála þörf á slíku.

Kærandi greinir frá því að ákvörðun um lokun máls hafi verið tekin af nýráðnum starfsmanni nefndarinnar sem hafi ákveðið að flytja ekki málið til X líkt og lög kveði á um, en ekki hafi verið haldinn fundur hjá nefndinni til að taka slíka ákvörðun eins og haldið sé fram í greinargerð fjölskyldunefndar. Einnig sé athyglisvert að í tölvupósti starfsmannsins til kæranda hinn X staðfesti hún að bókun um lokun málsins sé þá óyfirfarin af deildarstjóra, rúmum tveimur vikum eftir meintan fund. Allt þetta bendi til ófaglegra vinnubragða og handahófskenndrar málsmeðferðar og jafnvel eftirávinnslu. Kærandi telji líkur á því að ákvörðunin hafi ekki fengið eðlilega efnislega meðferð og lagalegir þættir hafi ekki verið ígrundaðir á formlegum fundi. Eins og sjáist í tölvupóstum hafi á þessum tímapunkti verið ófrágengið að fá móður til að undirrita þriðju áætlun nefndarinnar í málinu. Eðli málsins samkvæmt séu áætlanir barnaverndarnefnda ekki tilefnislausar og því ljóst að þörf hafi verið á aðgerðum í málinu. Þetta staðfesti um leið að full ástæða hafi verið til þess að flytja málið til X þegar í ljós kom að móðir flutti lögheimili sitt þangað. Aðgerðum hafi ekki verið lokið og því ekki rétt ákvörðun að loka málinu. Þá hafi aðstæður barnsins síður en svo batnað, heldur þvert á móti. Skólasókn sé engin þrátt fyrir tilsjón og tilhæfulausar ásakanir móður á hendur öllum vinkonum barnsins í bekknum um einelti sem séu búnar að eyðileggja öll vinasambönd barnsins og barnið sé því hætt í tómstundum.

Tilfinning föður sé sú að máli dóttur hans hafi þrátt fyrir þetta verið sópað undir teppi um leið og tækifæri gafst og því verið lokað án umhugsunar. Þegar hann hafi áfrýjað ákvörðuninni sé eins og gögnum hafi vísvitandi verið stungið undir stól. Í þessu samhengi beri þess að geta að áfrýjun hafi verið afhent á skrifstofu B þar sem starfsmaður hafi sérstaklega verið fenginn til að kvitta fyrir móttöku og skýr skilaboð gefin, bæði í titli erindisins og með munnlegri athugasemd, um það hver ætti að fá erindið. Samt sem áður hafi bréfið „týnst“ og ekki tekið fyrir fyrr en eftir skriflega athugasemd tæpum tveimur mánuðum síðar. Þá hafi kærandi bæði sent tölvupósta og átt nokkur símtöl við framkvæmdastjóra nefndarinnar um áfrýjunina, formið á henni og hvert skyldi beina henni. Sama dag hafi hún verið afhent skrifstofu B. Framkvæmdastjóri hafi því verið vel meðvituð um kæruna þegar hún hafi borist. Þegar kærandi hafi grennslast fyrir um málið X hafi hann fengið þau svör að áfrýjunin yrði ekki tekin til efnislegrar meðferðar fyrr en X. Nefndin hafi hins vegar haldið fund X. Hefði að mati kæranda mátt taka málið fyrir á þessum fundi í ljósi „mistakanna“.

Í öðrum hluta greinargerðar fjölskyldunefndar undir fyrirsögninni „Varðandi að barn hafi verið fjarlægt af heimili móður“ sé væntanlega verið að reyna að grafa undan ábendingum föður um mikilvægi þess að mál dóttur hans hafi verið og sé alvarlegt og að full ástæða hafi verið til flutnings frekar en lokunar málsins. Þess beri að geta að á þessum tímapunkti hafi legið fyrir tillögur Barnaverndarnefndar X um að fjarlægja dóttur hans af heimili móður og á þetta hafi kærandi bent í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Síðar, meðal annars vegna athugasemda kæranda um að óheppilegt gæti verið að færa dóttur hans til ókunnugra á einhvers konar áfangaheimili og vegna frekari skoðunar, meðal annars hjá lögfræðingum Barnaverndarnefndar X, hafi verið ákveðið að byrja á mildari úrræðum, ekki síst vegna þess hve þau úrræði voru illa framkvæmd hjá B. Í gildi sé skilgreind áætlun hjá Barnaverndarnefnd X um að bregðast við óviðunandi aðstæðum á heimili móður og framkvæmd þeirrar áætlunar sé hafin. Ef sú áætlun beri ekki árangur sé búið að boða stigmögnun í úrræðum, ólíkt ferlinu hjá Fjölskyldunefnd Br. Tilraunir í greinargerð fjölskyldunefndar til að gera málið léttvægt og fullyrðingar um að málið sé í eðlilegum samfelldum farvegi sé því vísað á bug sem lélegri tilraun til yfirbóta á slæmum vinnubrögðum nefndarinnar. Orðalagið í öðrum hluta greinargerðarinnar sé sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að nefndin hafi ekki séð ástæðu til að flytja málið eða tilkynna það til Barnaverndarnefndar X. Látið sé að því liggja að móðir hafi opnað mál í X sem sé mjög ónákvæmt og staðfesti á engan hátt eðlilegan framgang eins og nefndin reyni að lýsa í málsatvikum. Það hafi verið kærandi sem hafi tilkynnt málið til Barnaverndarnefndar X um leið og honum hafi verið tjáð að því yrði lokið í B.

Í fjórða hluta greinargerðar Fjölskyldunefndar B undir fyrirsögninni „Varðandi það að tilkynningar hafi verið teknar til greina“ sé á einhvern undarlegan hátt látið í veðri vaka að kærandi hafi ætlast til þess að hvert mál væri tekið fyrir sérstaklega. Um það hafi ekki verið að ræða heldur hafi kærandi bent á að fjölmargar tilkynningar til nefndarinnar hafi ekki fengið það vægi sem efni þeirra hafi gefið tilefni til. Þetta staðfestist bersýnilega þegar bornar séu saman skýrslur Fjölskyldunefndar B og Barnaverndarnefndar X. Þar hafi birst átakanlegt misræmi í tilgreindum fjölda tilkynninga og skilgreindu vægi þeirra. Einnig sé áberandi hversu ófagleg og handahófskennd málaskráning fjölskyldunefndarinnar sé. Á köflum séu léttvæg símtöl og tölvupóstar skráð í dagál en síðan séu mikilvæg símtöl, tölvupóstar, fundir og heilu erindin hvorki skráð í dagálana né séu þau aðgengileg í gögnum málsins og jafnvel endursend með þeim skilaboðum að þau eigi ekki við í málinu. Þannig hafi til dæmis verið með aðra tilkynningu kæranda í málinu sem hafi verið afhent kæranda í sérstöku umslagi ásamt ýmsum tölvupóstum sem óviðeigandi gögn þegar hann hafi fyrst óskað eftir aftritum gagna í málinu. Einnig hafi síðari tilkynning sálfræðings í málinu, dags. X, ekki verið skilgreind sem tilkynning heldur kallað bréf og reyndar látið liggja á milli hluta að nefna að það hefði ekki borist þegar spurt hafi verið út í málið. Ekki hafi verið haft fyrir því að nefna það að tilkynningin hefði verið skilgreind sem „bréf“ heldur beinlínis reynt að leyna tilkynningunni og faðir ekki fengið afrit af henni fyrr en X. Þá hafi þriðja tilkynningin borist frá X sem hafi ekki heldur verið tekið tillit til þó að um formlegar tilkynningar hafi verið um að ræða.

Í greinargerð sé vísað til þess að kærandi hafi ekki undirritað aðra áætlun í málinu, dags. X. Mikilvægt sé að hér komi fram að faðir hafi ítrekað spurt á fyrstu mánuðum ársins X hvort ekki ætti að koma fram ný áætlun þar sem sú eldri hafi verið útrunnin og það væri skylda nefndarinnar að koma fram með nýja áætlun. Svörin hafi alltaf verið á þá leið að hún væri í vinnslu. Það hafi ekki verið fyrr en í X að áætlunin hafi komið fram og þá enn dagsett X. Þetta staðfesti aftur verulega ófagleg vinnubrögð og sé um leið sterk vísbending um eftirávinnslu. Þar að auki hafi áætlunin verið nánast samhljóða fyrstu tveimur áætlununum, þrátt fyrir að bæði skólasókn og líðan barnsins hafi verið óviðunandi. Í greinargerð fjölskyldunefndar sé ítrekað reynt að draga fram þá mynd að vanlíðan barnsins sé vegna „áreitis“ föður en ekki í einu orði minnst á óviðunandi uppeldisaðstæður, tálmun eða foreldraútilokun ásamt öðrum vafasömum atriðum í hegðun móður. Allt málið sé á þessa vegu og aldrei hlustað á föður eða horft til aðstæðna dóttur hans. Ítrekað skýli starfsmenn sér á bak við það að um einhvers konar alvarlega deilu á milli foreldra sé að ræða, sem þó hafi aldrei verið í beinum samskiptum, og kærandi hafi alltaf vísað því á bug og sýnt og staðfest fullan samstarfsvilja og eftirgjöf til að miðla málum gegn einhliða aðgerðum móður. Kæranda hafi ítrekað verið sagt að málið væri erfitt og að það hlyti að taka á hann en ekkert hafi verið hugað að líðan eða aðstæðum barnsins. Það hafi meira að segja gengið svo langt að starfsmaður nefndarinnar hafi fullyrt að nefndinni bæri samkvæmt tilmælum frá Barnaverndarstofu að „loka dyrunum“ þegar foreldrar nefndu foreldraútilokun og því sé ekki horft til slíkra ásakana.

Kærandi segir að starfsmaður nefndarinnar hafi viðurkennt í símtölum að tilvísun nefndarinnar til X hefði verið dregin til baka og seinna hafi hún staðfest að það hefðu verið mistök eða misskilningur. Aldrei hafi komið til þess að viðtal fengist hjá X á því eina og hálfa ári sem nefndin hafi farið með málið. Tilvísun hafi að vísu verið endurnýjuð að frumkvæði sálfræðings heilsugæslunnar í síðasta tíma barnsins hjá henni en áður en sálfræðingurinn hafi lokið störfum þar og tjáð nefndinni að hún réði ekki við málið. Undir lok málsins hjá nefndinni þegar kærandi hafi ítrekað viljað láta ýta við því að dóttir hans kæmist að hjá X, hafi það verið hlutverk foreldranna að tryggja aðkomu X. Slíkt verði að teljast afar sérstakt í ljósi þeirrar staðreyndar að móðir hafi ítrekað slitið sálfræðimeðferðum og einnig hefði X staðfest að meðferð fengist aðeins með tilvísun frá barnaverndarnefnd eða heilbrigðisstofnun. Þetta staðfesti enn og aftur mjög óeðlileg vinnubrögð í málinu.

Í fimmta hluta greinargerðar nefndarinnar undir fyrirsögninni „Varðandi tilsjónaraðila“ séu sett fram hrein ósannindi um það að tilsjónaraðili hafi ekki einnig verið umsjónarmaður málsins. Vísar kærandi til þess að gögn máls staðfesti að sami starfsmaður hafi verið ábyrgðaraðili málsins og tilsjónarmaður á heimili móður. Umræddur starfsmaður hafi setið alla fundi sem kærandi hafi átt með nefndinni. Að lokum vísar kærandi til skýrslna tilsjónaraðila málsins þar sem komi skýrt fram hvernig starfsmaður nefndarinnar hafi tekið afstöðu með móður gegn kæranda. Þar hafi verið fullyrt að ekkert kæmi fram í málinu sem hafi fengið nefndina til að efast um forsjárhæfni foreldra. Hér hafi verið horft fram hjá þeirri staðreynd að barnið væri með óviðunandi skólasókn allt upp í 80% skóladaga á stakri önn og 50% og 75% hinar annirnar. Þá hafi ekki verið horft til þess að móðir hafi virt að vettugi rétt barnsins samkvæmt barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einnig að ásakanir kæranda og tilkynning sálfræðings gefi vísbendingar um brot, bæði á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum. Ekkert af þessu sé tekið til skoðunar, þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og ábendingar.

Ef litið sé til nýlegra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu vegna slíkrar málsmeðferðar og þeir skoðaðir, megi sjá að ríki fá dóm fyrir að:

„1. Rannsaka ekki nægilega fljótt og vel ástæður þess að barn neitar að hitta foreldri sitt og hvort eðlilegar skýringar séu þar að baki, eða hvort óvild hins foreldrisins sé þar um að kenna.

2. Að dómstólar og yfirvöld bergðist ekki skjótt við sé talið að barni hafi verið innrætt óvild í garð foreldris síns (alienated, indoctrinated) áður en skaðinn varð svo mikill að það missti alfarið tengsl við foreldri sitt.“

Af öllu framangreindu megi vera ljóst að málsmeðferð Fjölskyldunefndar B hafi ekki verið í samræmi við vandað vinnulag, margar brotalamir í málsmeðferðinni og úrvinnslan fari gegn dómum og tilmælum Mannréttindadómstóls Evrópu. Málinu sé síðan lokað fyrirvaralaust, án þess að gætt sé að lögbundinni skyldu að flytja málið eða tilkynna fyrirhugaða lokun máls til Barnaverndar X. Hér sé því um að ræða alvarlegt brot á ólögráða umbjóðanda og föðurfjölskyldu með þeim afleiðingum að þjáningar þeirra hafi verið dregnar á langinn og auknar með ófyrirséðum sálrænum áhrifum fyrir barnið sérstaklega þegar hlutverk nefndarinnar sé einmitt að koma í veg fyrir slíkt.

III.  Sjónarmið Fjölskyldunefndar B

Í greinargerð Fjölskyldunefndar B kemur fram að málið hafi verið lagt fyrir á 289. fund nefndarinnar hinn X. Þar hafi verið lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs. Þar komi meðal annars fram:

„Á 619. fundi barnaverndarmálafundar 21. ágúst 2019 var tekið fyrir mál barnsins C og svohljóðandi bókun var gerð:

Fyrir liggja upplýsingar um að barnið hafi flust búferlum ásamt móður til X. Ekki er talin ástæða til frekari afskipta af hálfu barnaverndar B og málið þar með ekki flutt á grundvelli 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

Foreldum barnsins, sem fari bæði með forsjá þess, hafi verið tilkynnt um afgreiðslu fjölskyldunefndar með bréfi sem hafi innihaldið bókun fundarins.

Í bréfi kæranda til formanns fjölskyldunefndar, dags. X, hafi verið óskað eftir því að fjölskyldunefnd tæki afstöðu til fyrrgreindrar ákvörðunar barnaverndarmálafundar sem hann hafi talið að byggði ekki á málefnalegum rökum. Ljóst sé á minnisblaði framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs að ekkert hafi verið talið koma fram við vinnslu málsins sem hafi gefið ástæðu til þess að efast um forsjárhæfni foreldra. Vandi barnsins hafi fyrst og fremst verið tengdur erfiðleikum í samskiptum foreldra og forsjárdeilu þeirra. Stuðningur, sem barnaverndarmálafundur hefði samþykkt, hafi verið til X miðað við áætlun um meðferð máls sem hafi gilt til X og beðið hafi verið aðkomu X að máli barnsins og í því ljósi hafi ekki verið talin ástæða til að flytja mál barnsins í annað sveitarfélag.

Fjölskyldunefnd B hafi bókað á fundinum vegna málsins:

Fjölskyldunefnd B tekur til umfjöllunar bréf A dags. X þar sem hann óskar eftir því að fjölskyldunefnd taki fyrir ákvörðun 619. Barnaverndarmálafundar þess efnis að loka máli dóttur hans C. Í bréfinu kemur fram að hann telur að ekki hafi legið fyrir þeirri ákvörðun, eins og honum var kynnt hún með tölvupósti X og bréfi með bókun fundarins X, málefnaleg né gild rök.

Í minnisblaði framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs sem liggur fyrir fundinum kemur fram að ekkert hafði komið fram við vinnslu málsins sem gaf ástæðu til þess að efast um forsjárhæfni foreldra. Vandi barnsins var fyrst og fremst litaður af samskiptadeildum foreldra og forsjárdeildu. Stuðningur sem barnaverndarmálafundur hafði samþykkt var til septemberloka miðað við áætlun sem gilti frá X og beðið var aðkomu X að máli barnsins. Í því ljósi var ekki talin ástæða til þess að flytja mál barnsins í annað sveitarfélag, enda er það á ábyrgð foreldra barnsins að veita því þann stuðning sem barnið þarf á að halda.

Fjölskyldunefnd telur ekki tilefni til að endurskoða ákvörðun 619. barnaverndarmálafundar um lokun máls barnsins og þá hafi ekki verið forsenda til að flytja málið til barnaverndaryfirvalda í því sveitarfélagi sem barnið flutti til.“

Málið sé nú komið til meðferðar í öðru sveitarfélagi, enda hafi móðir tilkynnt það sjálf vegna gruns hennar um ofbeldi af hálfu kæranda.

Varðandi það að barnið hafi verið fjarlægt af heimili móður, liggi ekkert fyrir um að stúlkan hafi verið fjarlægð af heimili móður. Fram komi hins vegar í niðurstöðu könnunar máls frá Barnavernd X í X að í ljósi alvarlegrar vanrækslu á stúlkunni sé rétt að horft verði til vistunar á hlutlausum stað. Enn fremur hafi komið í ljós í X að ekkert bendi til þess að kærandi hafi beitt stúlkuna kynferðisofbeldi og nauðsynlegt sé að ná sáttum á milli foreldra. Komi í ljós að móðir sé að útiloka kæranda úr lífi barnsins, fái hún leiðbeiningar um skaðsemi þess. Allt séu þetta hugmyndir í niðurstöðu könnunar um eðlilegan framgang málsins, komi þessi atriði fram með afgerandi hætti á einhverju stigi máls.

Varðandi tafir á afgreiðslu málsins kemur fram að í minnisblaði framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs komi fram skýringar á þessum töfum. Þar segi eftirfarandi:

„Ábyrgðarmaður málsins hafði látið af störfum þegar umrætt erindi var móttekið, vistað í máli barnsins og öðrum starfsmönnum sviðsins var því ekki kunnugt um að það biði afgreiðslu nefndarinnar, en ábyrgðarmaður fær tilkynningu með tölvupósti þegar nýtt skjal berst í mál sem hans. Mistökin eru að við skráningu erindisins í málið er nýr ábyrgðarmaður ekki settur yfir málið og er það eina skýring þess að erindið fór ekki í eðlilegan farveg í kjölfar þess að erindið barst. Í kjölfar þess að faðir ítrekaði að fá svar við erindi sínu X kannaði undirrituð feril málsins og kom þá fyrrgreint í ljós. Verkferlar slíkra mála hafa verið endurskoðaðir og er það von undirritaðrar að slík mistök geti ekki átt sér stað framvegis.“

Varðandi það atriði að tilkynningar hafi ekki verið teknar til greina þá virðist sem þar sé um misskilning að ræða. Öll málefni barnsins sem komið hafa til kasta barnaverndarnefndar til þess tíma sé talið eitt heildstætt mál, enda nátengd og lúti að sömu atriðum og atvikum. Inn í málið berist síðan tilkynningar sem farið sé yfir hverju sinni og brugðist við. Vísað er í því sambandi til minnisblaðs framkvæmdastjóra varðandi meðferð málsins.

Varðandi tilsjónaraðila kemur fram að sá tilsjónaraðili, sem kærandi minnist á í kæru sinni og hafi sinnt máli stúlkunnar, sé ekki sami aðili og sinnti málsmeðferð hjá B. Starfsmaður, sem hafi verið í hlutastarfi á skrifstofu fjölskyldusviðs, hafi jafnframt verið í hlutastarfi sem tilsjónaraðili á þessum tíma. Sá aðili hafi verið ráðinn sem tilsjónaraðili í málið af hálfu fjölskyldusviðs, en hafi að öðru leyti ekki komið að vinnslu eða meðferð málsins.

Fjölskyldunefnd B hafi fjallað um málið í heild sinni með þeim tilkynningum og öðrum gögnum sem þar lágu fyrir.


VI.  Niðurstaða

Stúlkan C er X ára gömul og fara foreldrar hennar með sameiginlega forsjá. Kærandi er faðir stúlkunnar. Með hinni kærðu ákvörðun Fjölskyldunefndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli stúlkunnar og flytja það ekki til Barnaverndar X með vísan til 15. gr. bvl.

Kærandi gerir athugasemdir við meðferð málsins. Hann krefst þess að Fjölskyldunefnd B verði gerð viðeigandi áminning eða refsing fyrir ranga málsmeðferð í máli dóttur hans þegar tekin var ákvörðun um að loka máli stúlkunnar og flytja það ekki til Barnaverndar X.

Samkvæmt 6. gr. bvl. er heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt 8. gr. bvl. er það hlutverk Barnaverndarstofu að hafa eftirlit með málsmeðferð barnaverndarnefnda og eftir atvikum veita áminningu, sé talið tilefni til slíks. Það er utan valdsviðs úrskurðarnefndar velferðarmála að veita barnaverndarnefndum áminningu eða refsingu og því er kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin veiti Fjölskyldunefnd B áminningu eða refsingu fyrir ranga málsmeðferð vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kærandi krefst þess jafnframt að ákvörðun Fjölskyldunefndar B um að loka barnaverndarmáli vegna dóttur hans í stað þess að flytja það til Barnaverndarnefndar X, sbr. 2. mgr. 15. gr. bvl., við flutning móður og dóttur kæranda til X frá B, verði dæmd ógild.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Samkvæmt 23. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd taka saman greinargerð þegar mál hefur að mati nefndarinnar verið kannað nægilega. Í greinargerð skal lýst niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta er þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Ef könnun leiðir í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt bvl., skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Hafa skal samráð við börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áætlun skal gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndanna séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn, sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð.

Í málinu liggur fyrir að fjölskyldusviði B barst fjöldi tilkynninga vegna líðanar stúlkunnar og óviðunandi aðstæðna í lífi hennar. Barnaverndarmálafundur fjölskyldusviðs B tók fyrir málefni stúlkunnar 21. ágúst 2019 þar sem tekin var sú ákvörðun að loka barnaverndarmáli vegna stúlkunnar og flytja málið ekki til Barnaverndarnefndar X á grundvelli 15. gr. bvl. þar sem ekki væri talin ástæða til frekari afskipta af hálfu barnaverndar. Eftir að málinu var lokað bárust Barnavernd X tvær tilkynningar vegna stúlkunnar og var ákveðið að hefja könnun máls. Niðurstaða könnunar Barnaverndarnefndar X, dags. X, var sú að staða stúlkunnar væri alvarleg og að umhverfi á heimili móður væri stúlkunni skaðlegt. Var það niðurstaða nefndarinnar að það þjónaði hagsmunum stúlkunnar að vera í hlutlausu umhverfi og því ætti að huga að vistun stúlkunnar utan heimilis foreldra.

Í 2. mgr. 15. gr. bvl. kemur að ef barn flyst úr umdæmi barnaverndarnefndar á meðan hún hefur mál til meðferðar, skal nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í því umdæmi sem barnið flytur í og upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta þeirri nefnd í té öll nauðsynleg gögn málsins. Samkvæmt gögnum þess máls, sem hér um ræðir, var í gildi meðferðaráætlun vegna stúlkunnar til 10. september 2019. Sú meðferðaráætlun var því í gildi þegar barnaverndarmálafundur fjölskyldusviðs B tók þá ákvörðun þann 21. ágúst 2019 að loka máli stúlkunnar og flytja það ekki til Barnaverndar X.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður einnig ráðið af gögnum málsins að staða stúlkunnar hafi verið alvarleg og þörf væri á frekari aðgerðum í málefnum hennar. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að í gildi var meðferðaráætlun vegna stúlkunnar, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki hafi verið tilefni til þess að loka máli vegna stúlkunnar og að Fjölskyldunefnd B hafi borið skylda til þess að flytja málið til Barnaverndarnefndar X, sbr. 2. mgr. 15. gr. bvl. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun um að loka máli stúlkunnar felld úr gildi.

Í ljósi framangreindrar niðurstöður telur úrskurðarnefndin ástæðu til að benda Fjölskyldunefnd B á að gæta að málsmeðferðarreglum bvl. og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í máli þessu liggja fyrir skýr gögn sem hefðu ekki átt að leiða til lokunar málsins á þessu stigi og er í því sambandi bent á að fyrir lágu upplýsingar frá sálfræðingum og skóla sem báru með sér að staða stúlkunnar væri alvarleg og nauðsyn væri á frekari aðkomu barnaverndaryfirvalda. Þá er ástæða til að vekja athygli á ákvæði 41. gr. bvl. þar sem kveðið er á um að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé næjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda um að Fjölskyldunefnd B verði veitt áminning eða refsing er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Ákvörðun Fjölskyldunefndar B, um að loka máli vegna C, er felld úr gildi.

 

 

Kári Gunndórsson

 

                           Björn Jóhannesson                                                     Helgi Viborg                                           

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira