Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 509/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 509/2023

Mánudaginn 22. janúar 2023

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 6. október 2023 sem barst úrskurðarnefndinni 18. október 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmiráðs B frá 19. september 2023 vegna umgengni kæranda við syni hennar, D og E. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er X ára gamall og drengurinn E er X ára gamall. B fer með forsjá drengjanna sem eru í varanlegu fóstri hjá fósturforeldri sínu. Drengirnir voru vistaðir utan heimilis í tímabundnu fóstri frá 21. apríl 2020 og síðan í varanlegu fóstri frá 1. október 2021. Kærandi er móðir drengjanna. Faðir drengjanna er látinn.

Mál drengjanna hafa verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) frá fæðingu þeirra. Kærandi var svipt forsjá drengjanna með dómi Héraðsdóms B 12. maí 2021 og var sú niðurstaða staðfest með dómi Landsréttar 1. október 2021.   

Mál drengjanna var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs B þann 19. september 2023. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna B, dags. 5. júlí 2023, sem lögðu til umgengni fjórum sinnum á ári í 2 klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði B eða á stað sem aðilar koma sér saman um. Kærandi var ekki samþykkur tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurða af umdæmisráði B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„D, og E, skulu eiga umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári, undir eftirliti starfsmanna og í húsnæði á vegum B, eða á stað sem aðilar koma sér saman um, í allt að tvær klst. í senn. Umgengni verði einu sinni í sitthvoru lagi, þ.e. ein umgengni verði með D og ein með E, og í tvö skipti verði þeir saman í umgengni. Móðir á því umgengni í fjögur skipti alls en drengirnir þrisvar sinnum við móður.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. október 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 26. október 2023, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni þann 7. nóvember 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. nóvember 2023, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi óskað eftir að fá aukna umgengni með drengjunum sínum. Umdæmiráð úrskurðaði að umgengni skyldi vera fjórum sinnum á ári undir eftirliti. Slík umgengni sé án nokkurs rökstuðnings og engin grundvöllur fyrir slíkri umgengni. 

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð B kemur fram að um sé að ræða úrskurð um umgengni móður við syni sína sem séu í varanlegu fóstri á vegum B.

Um sé að ræða tvo bræður sem lúta forsjá B eftir að Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóm B þann 1. október 2021 um forsjársviptingu á hendur kæranda. Varðandi forsögu málsins sé í vísað í úrskurð umdæmisráðs þann 19. september 2023 og greinargerð starfsmanna, dags. 5. júlí 2023.

Í kæru lögmanns kæranda til úrskurðarnefndar sé vísað til þess að umdæmisráð hafi úrskurðað um umgengni drengjanna í fjögur skipti undir eftirliti og að sá úrskurður sé án nokkurs rökstuðnings og engin grundvöllur fyrir slíkri umgengni. Engar frekari athugasemdir eða röksemdafærslur hafi verið að finna í kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Þann 28. júní 2022 úrskurðaði barnaverndarnefnd B um umgengni kæranda við drengina. Þá hafi verið úrskurðað um að umgengni væri alls sex sinnum á ári, annan hvern mánuð. Í fimm skipti skyldi umgengni drengjanna vera í sitthvoru lagi í allt að sex klukkustundir í senn. Í sjöttu og síðustu umgengni ársins skyldi kærandi eiga umgengni við drengina saman, í allt að tvær klst. í húsnæði B. Málefni drengjanna hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 14. júní 2023. Þá hafði borist afar ítarleg tilkynning frá leikskóla eldri drengsins þann 12. maí 2023. Í bókun kom fram að mikil afturför hafi verið með drengina frá úrskurði barnaverndarnefndar í júní 2022. Mat starfsmanna hafi verið að sá stöðugleiki og það öryggi sem hafði áunnist í fóstrinu væri í hættu. Lögðu starfsmenn því til að móðir ætti umgengni við drengina alls fjórum sinnum á ári.

Í greinargerð starfsmanna, dags. 5. júlí 2023 kom fram það mat starfsmanna að ekki væru forsendur fyrir umgengni með þeim hætti sem kærandi óskaði eftir. Drengirnir hafa verið í fóstri frá apríl 2020, fyrst tímabundnu og í varanlegu fóstri frá 1. október 2021. Miklar framfarir hafi verið á þroska drengjanna og hegðun en á fósturheimilinu fái þeir mikinn stuðning og örvun. Frá því að úrskurður barnaverndarnefndar B hafi verið kveðin upp þann 28. júní 2022 um að kærandi ætti umgengni fimm sinnum á ári við hvorn dreng án eftirlits hafi orðið mikil afturför hjá drengjunum. Fram hefur komið hjá fósturmóður og teymi sem vinnur að málefnum drengjanna í leikskóla að líðan og hegðun drengjanna hafa farið síversnandi eftir hverja umgengni sem hefur verið án eftirlits hjá móður. Gögn málsins sýna að umgengni sem móðir átti við drengina saman undir eftirliti í desember 2022 gekk vel og að líðan drengjanna hafi verið betri eftir umgengni. Það hafi því verið mat starfsmanna B að til þess að tryggja stöðugleika og ró í lífi drengjanna verði umgengni að vera undir eftirliti starfsmanna B og í húsnæði barnaverndar eða á öðrum stað sem aðilar koma sér saman um. Drengirnir hafi verið að sýna óstöðugleika undanfarið sem rekja megi til umgengni án eftirlits. Eldri drengurinn sé að byrja í grunnskóla í haust og fram hafi komið að drengurinn mun þurfa fullan stuðning í grunnskóla. Mikilvægt sé því að tryggja stöðugleika hjá drengnum í breyttu skólaumhverfi til að tryggja ró hans og öryggi. Töldu starfsmenn nauðsynlegt að tryggja stöðugleika, öryggi og ró í lífi þeirra enda séu það fyrst og fremst þeirra hagsmunir.

Lögmaður vísar til þess að úrskurðað hafi verið hjá umdæmisráði án nokkurs rökstuðnings. Þessu sé hafnað enda sé úrskurður ráðsins sem kveðinn var upp þann 19. september 2023 rökstuddur eins og má sjá nánar í úrskurði.

Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga sé kveðið á um þá meginreglu að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá sé einnig vísað til 3. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem mælir fyrir um að í lögum skuli börnum tryggð sú vernd og umönnun sem þau þarfnast. Um sé að ræða eina mannréttindaákvæðið stjórnarskrárinnar sem tilteknum þjóðfélagshópi sé veitt sérstök vernd og sé það í samræmi við alþjóðlega þróun á sviði barnaverndar.

Með vísan til alls framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengjanna að leiðarljósi sé fyrir  gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barna

Í gögnum málsins liggja fyrir þrjár skýrslur talsmanns drengjanna. D var skipaður talsmaður 22. júní 2023 og liggja fyrir tvær skýrslur talsmanns, dags. 26. júní 2023 og 4. júlí 2023, um afstöðu drengsins til umgengni við kæranda. Í fyrri skýrslunni kemur fram að drengnum þætti gaman í umgengni hjá kæranda. Aðspurður um hvernig honum líði þegar hann kæmi aftur heim frá kæranda sagði drengurinn að honum liði vel en þegar hann kæmi heim liði honum rosalega vel. Drengurinn sagðist fara hitta kæranda eftir tvær vikur en sagðist ekki vilja þurfa bíða svo lengi. Spurði hann talsmann hvort hún gæti breytt þessu að hann væri ekki svona stutt í einu hjá kæranda. Sagðist drengurinn vilja fara til kæranda oftar því það væri skemmtilegra hjá kæranda núna en áður. Bað drengurinn talsmann að segja barnavernd þetta. Í síðari skýrslu talsmanns kemur fram að drengurinn hafi hitt kæranda og þau farið í sund saman. Hann sagðist hafa farið heim eftir kvöldmat þar sem hann mætti ekki gista hjá henni, þó svo hann væri alveg til í það, en það væri alls ekki hægt þar sem mamma hans kynni ekki reglurnar. Aðspurður út í reglurnar sagði drengurinn að það væru reglur eins og að fara sofa á réttum tíma, fá að borða og vakna á réttum tíma til að mæta í leikskólann og missa ekki af.

E var skipaður talsmaður 30. ágúst 2023 og liggur fyrir ein skýrsla talsmanns, dags. 1. september 2023, um afstöðu drengsins til umgengni við kæranda. Drengurinn er með skertan málþroska og notaðist talsmaður við teikningar til að auðvelda samskiptin. Aðspurður um hvort hann hefði hitt kæranda sagðist hann hafa hitt hana í sumar og að hann saknaði hennar. Þá sagðist drengurinn bara eiga eina mömmu og hún héti F. Hann sagðist elska eina mömmu en sagði ekki hvort það væri kærandi eða fósturmóðir. Aðspurður um hvað hann vildi gera ef hann réði öllu, hvort hann vildi hitta kæranda aftur, svaraði hann neitandi. Sagðist hann vilja eiga heima „í þessu húsi“ um leið og hann benti á hús fósturmóður á teikningu. Talsmaður tekur fram í skýrslu að drengurinn hafi verið glaður en hún hafi skynjað óróleika hjá honum varðandi spurningar um umgengni, kæranda og hans líðan.

V. Afstaða fósturforeldris

Með tölvupósti til lögmanns fósturmóður, dags. 4. janúar 2024 var óskað afstöðu hennar til kröfu kæranda um umgengni. Í svari lögmanns hennar, dags. 10. janúar 2024, kemur fram að drengirnir séu vistaðir í varanlegu fóstri hjá F og G og annast þær systur um drengina til jafns. Þar sem formleg vistun drengjanna sé hjá F eigi hún ein aðild að málinu og setji fram fyrir hönd þeirra beggja, þær kröfur og sjónarmið sem hér séu reifaðar.

Vegna kæru kynmóður drengjanna til úrskurðanefndar velferðarmála vísar kærandi til greinargerðar hennar sem send hafi verið B, dags. 12. júní 2023 og jafnframt greinargerðar sem send hafi verið umdæmisráði B, dags. 10. ágúst 2023.

Niðurstaða hins kærða úrskurðar sé að umgengni skuli fara fram fjórum sinnum á ári, undir eftirliti starfsmanna og í húsnæði á vegum B eða öðrum þeim stað sem aðilar koma sér saman um, í allt að tvær klst. í senn. Þá verði umgengni í tvö skipti með hvorum dreng fyrir sig en í tvö skipti með þeim saman.

Í forsendum hins kærða úrskurðar komi fram að niðurstaðan sé byggð á yfirlýstu markmiði barnaverndarlaga með varanlegu fóstri sem sé að börn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigin fjölskyldu sé að ræða. Þá sé byggt á rétti fósturbarna til að búa við stöðugleika og öryggi í fóstrinu og að lokum að það liggi fyrir í gögnum málsins að umgengnin í þeirri mynd sem viðhaft hafði verið skv. fyrri úrskurði raski líðan drengjanna og velferð.

Fósturmóðir krefst þess að hinn kærði úrskurður umdæmisráðs B verði staðfestur og tekur undir forsendur hans.

Fósturmóðir vilji ítreka það sjónarmið sitt, sem eins og að framan greinir sé byggt á í forsendum hins kærða úrskurðar, að vanlíðan drengjanna hafi verið augljós og alvarleg allt síðan að umgengni án eftirlits hafi verið leyfð í kjölfar síðasta úrskurðar þáverandi barnaverndarnefndar B, fyrir um ári síðan. Gögn málsins lýsa þeirri vanlíðan vel og séu þessi neikvæðu og alvarlegu áhrif núverandi umgengnis tilhögunar því vel skjalfest og óumdeild.

Hvað varði afstöðu drengjanna sem þeir lýsa hjá talsmönnum og m.a. í nýlegum talsmannaskýrslum sem lýst sé í hinum kærða úrskurði, þá vilji fósturmóðir jafnframt ítreka það sjónarmið sitt að þrátt fyrir að þeir lýsi vilja til að hitta móður meira þá sé alls ekki hægt að fullyrða að slíkt lýsi í raun eindregnum og upplýstum vilja þeirra. Mun fremur sé um að ræða hollustuklemmu þeirra og vilja til að þóknast kynmóður, sér í lagi hjá eldri drengnum. Með vísan til þeirra gagna sem sýna vanlíðan og erfiðleika drengjanna, sem tengist umgengnis tilhöguninni, þá virðist ljóst að kynmóðir sé ekki í stakk búin að vera með drengina í umgengni án eftirlits með þeirri tíðni sem ákveðið hafi verið á síðasta ári, og enn síður á þann veg sem hún nú krefst. Það sé því ekki unnt við ákvörðun um umgengni að taka tillit til óska drengjanna, svo langt sem þær ná.

Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti niðurstöðu Umdæmisráðs.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er X ára gamall og drengurinn E er X ára gamall. Kærandi var svipt forsjá drengjanna með dómi Héraðsdóms B 12. maí 2021 og var sú niðurstaða staðfest með dómi Landsréttar 1. október 2021. Kærandi er móðir drengjanna. Faðir drengjanna er látinn.

Með hinum kærða úrskurði frá 19. september 2023 var ákveðið að umgengni drengjanna við kæranda yrði fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni yrði einu sinni í sinn hvoru lagi og í tvö skipti saman. Auk þess var ákveðið að umgengni yrði undir eftirliti og færi fram í húsnæði B eða öðrum stað sem aðilar kæmu sér saman um. 

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að málefni drengjanna hafa verið til meðferðar á grundvelli barnaverndarlaga frá fæðingu þeirra. Drengirnir hafa verið í tímabundnu fóstri frá 21. apríl 2020 og í varanlegu fóstri frá 1. október 2021, eftir að Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms B um að kærandi skyldi svipt forsjá þeirra. Með úrskurði barnaverndarnefndar B frá 21. júní 2022 var ákveðið að umgengni kæranda við drengina skyldi vera sex sinnum á ári, annan hvern mánuð, fimm sinnum í sitt hvoru lagi í allt að sex klukkustundir í senn, en í sjöttu umgengni ættu drengirnir að hitta kæranda saman í húsnæði á vegum B. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að sú umgengni sem úrskurðað hafi verið um 21. júní 2022 hafi ekki gefið góða raun. Þannig liggi fyrir gögn frá leikskóla að í kjölfar umgengni hafi líðan og hegðun drengjanna versnað og erfiðleika þeirra stigvaxandi. Þá hafi myndast mikil spenna milli fósturmóður og kæranda sem sé til þess fallin að valda drengjunum hugarangri og vanlíðan. Þá hafi eldri drengurinn upplifað togsteitu sem tengjast samverustundum með kæranda sem hann segir ekki mega segja frá. Að teknu tilliti til þessa og fleiri atriða hafi umdæmisráð talið óhjákvæmilegt að endurskoða yrði fyrirkomulag umgengni kæranda við drengina og fallist hafi verið á tillögu B sem talin var falla vel að hagsmunum drengjanna.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni drengirnir hafa af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna B, sem lögð var fyrir umdæmisráð B, kemur fram að umsjá drengjanna sé krefjandi enda hafi þeir sérstakar þarfir. Þannig glími E við tilfinningavanda, sé á eftir í málþroska, með slaka félagshæfni og bíður hann frekari greiningar og þá hvort um sé að ræða tengsla- eða einhverfurófsröskun. D glímir við erfiða hegðun sem vegna vanrækslu og tengslavanda. Hann þarfnast sérstaks utanumhalds, bæði á fósturheimili og leikskóla. Í skýrslu sálfræðings frá 14. júní 2023 kemur fram versnun á líðan og hegðun í kjölfar umgengni. Hann virði ekki mörk barna og hegðun hans sé óútreiknanleg og geti verið ógnandi. Að mati sálfræðings væri mikilvægt að hlífa drengnum við aðstæðum sem valda honum vanlíðan. Grunur sé um ADHD og sé drengurinn í brýnni þörf fyrir ró og stöðugleika.  

Samkvæmt gögnum málsins er það afstaða D að eiga meiri umgengi við kæranda. Afstaða E til umgengni við kæranda er ekki skýr. Fósturmóðir gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður umdæmisráðs B verði staðfestur og tekur undir forsendur hans.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið B og telur að það þjóni hagsmunum drengjanna best við núverandi aðstæður að umgengni þeirra við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar viðkvæmu stöðu og þess geðræna vanda sem þeir eiga við að stríða samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að ákvarða umgengni með þeim hætti sem gert er í hinum kærða úrskurði er tilgangurinn fyrst og fremst sá að tryggja hagsmuni drengjanna, stöðugleika þeirra og öryggi.

Í ljósi málavaxta telur úrskurðarnefndin að umgengni eigi að fara fram undir eftirliti starfsmanna barnaverndar og í húsnæði á vegum B eða á öðrum stað sem aðilar koma sér saman um. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um umgengni án eftirlits.

Með hliðsjón af atvikum máls verður að mati úrskurðarnefndarinnar talið að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráðs B 19. september 2023.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs B frá 19. september 2023 varðandi umgengni  D og E, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum