Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 424/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 424/2016

Fimmtudaginn 2. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. október 2016, um synjun á umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. júlí 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar þann X 2016. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2016, var kærandi upplýst um að ráða mætti af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, um að hafa verið í minnst 25% starfshlutfalli, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laganna, síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns, þar sem engar tekjur sem greitt hafi verið tryggingagjald af væru skráðar á hana í febrúar 2016. Kæranda var í framhaldinu leiðbeint um hvað teldist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a. laganna og gefinn kostur á að leggja fram gögn því til staðfestingar. Kærandi lagði fram frekari gögn en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. október 2016, var umsókn hennar synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. október 2016. Með bréfi, dags. 31. október 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 3. nóvember 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. nóvember 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 21. nóvember 2016, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið í 100% starfi í fimm mánuði fyrir fæðingardag barns hennar. Að meðaltali hafi hún þar af leiðandi verið í 90% starfshlutfalli fyrir hvern mánuð á viðmiðunartímabilinu en öll launatengd gjöld hafi verið greidd á því tímabili. Frá 1. desember 2015 hafi kærandi verið í atvinnuleit og stimplað sig inn hjá Vinnumálastofnun, bæði fyrir desembermánuð og janúarmánuð 2016.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda hafi fæðst þann X 2016. Ávinnslutímabil kæranda sem starfsmanns sé því frá X 2016 og fram að fæðingu barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra hafi kærandi fengið greiðslur frá B í febrúar og mars 2016 og laun frá C hf. sem starfsmaður á tímabilinu mars til ágúst 2016. Samkvæmt launaseðlum frá B fyrir febrúar og mars 2016 og tölvupósti frá 16. ágúst 2016 hafi sveitarfélagið verið að greiða kæranda fjárhagsaðstoð sem falli ekki undir þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laganna. Á launaseðli frá C hf. fyrir mars 2016 komi fram að kærandi fái greidd laun frá 25. febrúar 2016. D staðfesti það einnig í tölvupósti frá 26. ágúst 2016 sem og kærandi sjálf í tölvupósti frá 31. ágúst sama ár. Þannig liggi fyrir að kærandi sé ekki þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 tímabilið 9. til 24. febrúar 2016, enda hafi hún ekki hafið störf hjá C hf. fyrr en 25. febrúar það ár. Samkvæmt framangreindu verði því ekki séð að kærandi hafi verið samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði tímabilið 9. til 24. febrúar 2016.

Þá komi til skoðunar hvort einhver stafliða 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 geti átt við í tilviki kæranda tímabilið 9. til 24. febrúar 2016. Í b-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna komi fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist jafnframt sá tími sem foreldri fái greiddar atvinnuleysisbætur, sé á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt greiðsluseðli og greiðslusögu Vinnumálastofnunar hafi réttur kæranda til atvinnuleysisbóta verið fullnýttur 31. desember 2015 og það hafi verið staðfest símleiðis af Vinnumálastofnun 21. október 2016. Af því leiði að b-liður 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 geti ekki átt við í tilviki kæranda tímabilið 9. til 24. febrúar 2016. Þá verði ekki séð af fyrirliggjandi gögnum að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a laganna geti átt við í tilviki kæranda á tímabilinu.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 31. ágúst 2016.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna felur í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Þá kemur fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda fæddist X 2016. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2016 og fram að fæðingu barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði, í skilningi 1. mgr. 13. gr. a laganna, á því tímabili. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu 9. til 24. febrúar 2016 en óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Samkvæmt gögnum málsins þáði kærandi fjárhagsaðstoð frá B í febrúar 2016 á grundvelli laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga en hóf störf á innlendum vinnumarkaði 25. febrúar 2016. Að því virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu 9. til 24. febrúar 2016. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, en ekkert hefur komið fram í málinu um að stafliðir 2. mgr. 13. gr. a laganna geti átt við um kæranda á því tímabili sem deilt er um.

Einungis vantar nokkra daga upp á að kærandi uppfylli framangreint skilyrði laga nr. 95/2000. Hins vegar er enga heimild að finna í lögunum sem átt getur við í tilviki kæranda til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. október 2016, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira