Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 553/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 553/2023

Mánudaginn 11. mars 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 1. apríl 2023 til 31. maí 2023.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir apríl og maí mánuði 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir þá mánuði. Henni bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 154.386 kr., að meðtöldu 15% álagi. Með erindi, dags. 29. ágúst 2023, óskaði kærandi eftir niðurfellingu álagsins en þeirri beiðni var synjað með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2023. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 6. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um endurkröfu vegna ofgreidds fæðingarorlofs verði felld úr gildi. Kærandi byggi á því að fæðingarorlof hafi ekki verið greitt nema fyrir þá daga sem hún hafi verið í fæðingarorlofi en hin kærða ákvörðun sé vegna orlofs sem hafi verið greitt á tímabili þegar hún hafi verið að fá fæðingarorlof samhliða skertu starfshlutfalli. Kærandi hafi fengið tvær kjarasamningsbundnar launahækkanir á tímabili fæðingarorlofs og síðar aðra hækkun sem hún hafi beðið eftir frá árinu 2021 og ítrekað nokkrum sinnum. Kærandi líti svo á að fyrri úrskurðir nefndarinnar taki ekki af skarið um málið eftir efnislega breytingu á (nú) ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um foreldra- og fæðingarorlof þar sem sé gert ráð fyrir tímabilum innan hvers almanaksmánaðar þegar orlof sé tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Í þessu samhengi vísi kærandi til meðfylgjandi greinargerðar sem hafi verið send Fæðingarorlofssjóði sem svar við bréfi þeirra vegna gruns um ofgreiðslu.

Hvað sem öðru líði geri kærandi alvarlegar athugasemdir við málsmeðferðina hjá Fæðingarorlofssjóði en kallað hafi verið eftir nokkuð ítarlegum gögnum og skýringum og þeim síðan í engu svarað í bréfi þar sem tilkynnt hafi verið um ákvörðunina, þremur dögum eftir að öll gögn hafi verið send sjóðnum. Þá geri kærandi einnig athugasemd við framsetningu tilkynningar um ákvörðunina en það geti varla talist í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leiðbeina um kæruheimild í neðanmálsgrein og raunar ekki heldur að heiti bréfsins sé bara „svarbréf“. Til vara krefjist kærandi þess að álag á endurkröfuna verði fellt úr gildi með vísan til þess að ákvæði 25. gr. laganna sé ákaflega óljóst um það í hvaða tilvikum greiðslur verði skertar þegar orlof sé tekið samhliða skertu starfshlutfalli. Í því samhengi bendi kærandi jafnframt á að hún hafi haft samband við sjóðinn símleiðis til að spyrja um afleiðingar þess ef hún fengi samþykkta launahækkunina sem hafi komið síðast. Þar hafi henni aldrei verið sagt að hækkun ætti ekki að skipta máli ef greiðsla frá vinnuveitanda og frá Fæðingarorlofssjóði væri ekki hærri en ný heildarlaun. Að lokum bendi kærandi á nauðsyn þess að endurskoða þessi ákvæði með tilliti til fólks sem ef til vill sé að koma úr námi og freisti þess með nýju starfi að vinna samhliða orlofi til að bæta greiðslugetu sína. Það verði að teljast andstyggilegt að stilla fólki í fátækragildru yfir ef til vill langt tímabil með tilliti til stöðunnar í leikskólamálum á höfuðborgarsvæðinu.

Í lögum nr. 144/2020 um foreldra- og fæðingarorlof sé gengið út frá því að hægt sé að skipta fæðingarorlofi, þ.e. bæði þannig að réttur hvors foreldris sé ekki tekin þannig að hann sé tæmdur á einu samfelldu tímabili og einnig þannig að foreldrar geti skipst á og unnið í skertu starfshlutfalli á móti fæðingarorlofi. Í 23. gr. laganna sé fjallað um tekjur og um skerðingu á greiðslum í 25. gr. þeirra. Í 25. gr. laga nr. 140/2020 sé meðal annars kveðið á um fyrirkomulag og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þegar foreldri taki það samhliða skertu starfshlutfalli. Þar segi að greiðslur frá vinnuveitanda skuli aðeins koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ef þær séu ætlaðar fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði. Þar sé þá átt við tímabil sem hefjist frá og með fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og ljúki frá og með þeim degi sem foreldri nýti ekki lengur rétt sinn til fæðingarorlofs innan tiltekins almanaksmánaðar. Þá segi að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. laganna ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs. Kærandi þykir hér ekki önnur skýring tæk en að átt sé við hækkanir sem geti komið til frá lokum viðmiðunartímabils og fram til þess tímabils sem foreldri sé að taka fæðingarorlof hverju sinni, þ.e. ýmist í bútum tímabila eða með skertu starfshlutfalli samhliða orlofi. Í því samhengi bendi kærandi á að fæðingarorlof sem tekið sé samhliða skertu starfshlutfalli sé miðað við upphaf og endi, þ.e. fyrsta dag fæðingarorlofs hvers mánaðar miðað við lögskýringargögn og lok innan almanaksmánaðar.

Kærandi hafi eignast tvíburastúlkur X 2022. Fyrst um sinn hafi kærandi verið í 100% orlofi, eða fyrstu þrjá mánuðina frá fæðingu þeirra. Kærandi hafi snúið til vinnu að nýju um miðjan apríl og hafi verið í vinnu, ásamt sumarleyfi, þar til undir lok ágústmánaðar. Eftir það hafi tekið við fæðingarorlof í bútum, eða 27% í ágúst, 100% í september, 83% í október (hafi verið að vinna á mánudögum) og 20% í nóvember. Kærandi hafi farið aftur að vinna fullt starf 7. nóvember og byrjað aftur í fæðingarorlofi eftir fyrstu vikuna í janúar 2023. Eftir það hafi kærandi tekið fæðingarorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Ástæðan fyrir því sé sú að þegar stúlkurnar hafi nálgast eins árs aldurinn hafi verið töluvert erfiðara að vera einn heima með þær á löngu samfelldu tímabili. Þess vegna hafi þau foreldrarnir ákveðið að breyta tilhögun fæðingarorlofsins þannig að hvort þeirra um sig væri heima með þær tiltekið hlutfall af hverjum mánuði. Þau hafi bæði verið svo heppin að vinnuveitendur þeirra hafi verið meira en til í að fá þau inn í vinnu í hlutastarfi.

Kærandi hafi fengið kjarasamningsbundnar launahækkanir á milli þeirra tímabila sem hún hafi verið að taka fæðingarorlof, sbr. meðfylgjandi launatöflur þar sem launaflokkar séu yfirstrikaðir. Kærandi sé þá með fastlaunasamning sem feli í sér greiðslu fyrir 10 yfirvinnutíma á mánuði miðað við fullt starf. Árið 2021 hafi heildarlaun fyrir skatta verið 932.870 kr. Árið 2022 hafi komið tvær launahækkanir samkvæmt kjarasamningi, önnur þeirra tengd tryggingu kaupmáttar og hin almenn tímaákveðin hækkun. Fyrri hækkunin hafi gilt frá 1. janúar 2022 (fyrir fæðingu barnanna). Þá hafi heildarlaun numið 963.876 kr. Seinni hækkunin hafi gilt frá 1. apríl 2022 og þá hafi heildarlaun numið 974.092 kr. Með framlengingu á gildandi kjarasamningi í apríl 2023 hafi heildarlaun kærandi orðið 1.045.715 kr. fyrir skatta. Í apríl 2023 hafi kærandi jafnframt fengið í gegn hækkun um tvo launaflokka í samræmi við röðun samkvæmt stofnanasamningi frá árinu 2020. Þá hafi kærandi raðast í launaflokk 18 og launaþrep 6 með 1.128.369 kr. í heildarlaun. Kærandi hafi lengi beðið eftir þessari hækkun og meðal annars rætt það við starfsmann hjá Fæðingarorlofssjóði fyrr á árinu. Kærandi hafi ekki getað skilið hann öðruvísi en að það ætti að taka tillit til slíkra hækkana þegar fæðingarorlof sé tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli og að greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði yrðu þar af leiðandi ekki skertar nema ef samtala launa í skertu starfshlutfalli og greiðslna úr sjóðnum yrðu umfram heildarlaun hennar miðað fullt starf að teknu tilliti til hækkunar, enda hafi hún spurt að því nákvæmlega. Heildartekjur fyrir apríl hafi verið 920.229 kr. Þarna hafi kærandi hækkað í launum vegna framlengingar á kjarasamningi, sbr. meðfylgjandi launatöflur. Í apríl hafi kærandi unnið alls 102,56 klukkustundir en fengið greidda frídaga sem hafi verið í þeim mánuði (páskar o.fl.). Kærandi hafi fengið greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði miðað við 20% orlof. Samkvæmt kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga við fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, sé vinnuvika starfsmanna í fullu starfi 40 stundir. Hjá B séu föstudagar hins vegar styttingardagar og vinnutíminn sé þá sex klukkustundir, en aðrir dagar átta klukkustundir. Kærandi hafi verið heima í fjóra daga af þessum 20 dögum sem hafi talist til vinnuskyldu með tilliti til fría. Þar sem þrír af þeim dögum sem kærandi hafi verið heima hafi hitt á föstudaga leiði það til þess í vinnuskilum að hún sé með hærra hlutfall vinnuskila en ella, þ.e. kærandi hafi verið í vinnu þá daga sem telji fleiri klukkustundir í vinnuskilum. Ef kærandi hefði til að mynda verið heima á fimmtudögum í staðinn hefði hlutfall hennar í starfi verið um það bil 78,4%. Vegna verkefna í mánuðinum hafi kærandi þurft að taka upp vinnu á meðan hún hafi verið heima, annars vegar vegna kynningar sem hún hafi verið með fyrir samráðshóp sem hún fari með hópstjórn með og hins vegar vegna fundar sem hún hafi sótt rafrænt vegna Evrópusamstarfs. Eins og tímaskýrslur beri með sér hafi þetta verið alls fjórar klukkustundir og 15 mínútur sem hafi verið unnar á tveimur af þessum fjórum virku vinnudögum sem hún hafi verið heima, þ.e. ein klukkustund og 15 mínútur 14. apríl og alls um þrjár klukkustundir 26. apríl. Hafa megi í huga að þessar klukkustundir nemi alls 2,7% af virkum vinnustundum mánaðarins ef miðað sé við að allir vinnudagar mánaðarins séu jafnir. Að lokum viti kærandi að Fæðingarorlofssjóður miði hvern mánuð orlofs við 30 daga. Miðað við apríl nemi 20% orlofið sem hún hafi fengið alls sex dögum. Ef miðað sé við það þá hafi kærandi verið heima í mun fleiri daga í mánuðinum en það, eða alls 12 daga af 30 eftir að búið sé að taka tilliti til greiddra frídaga. Kærandi hafi því ekki verið að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir fleiri daga en þá sem hún hafi sannanlega verið að sinna börnum sínum heima.

Heildartekjur fyrir maí hafi verið 819.691 kr. Þarna hafi kærandi fengið hækkun um tvo launaflokka sem hún hafi sótt um árið 2021, miðað við stofnanasamning frá árinu 2020. Jafnframt sé inni í þessari fjárhæð orlofsuppbót, 51.613 kr. Í þessum mánuði hafi skipulagið almennt verið þannig að kærandi hafi unnið mánudaga og miðvikudaga en verið heima þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga. Kærandi hafi þá þurft að vinna nokkra tíma umfram það sem hún hafi ætlað sér í mánuðinum þegar hún hafi sent áætlun um orlof inn til Fæðingarorlofssjóðs, meðal annars vegna vinnuferðar erlendis sem hafi tekið yfir heila þrjá daga og ferðatíma bæði snemma morguns og að kvöldi. Kærandi hafi fengið greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði miðað við 50% orlof. Kærandi hafi verið að vinna fullan vinnudag 10 daga af maímánuði en ansi margar klukkustundir hafi tengst vinnuferðinni 9.-11. maí, eða níu klukkustundir umfram vinnuskyldu, helst vegna ferðalaga. Kærandi hafi þá verið heima á föstudögum sem telji eins og áður segi minna inn í vinnuskil vegna styttingar vinnuviku sem þá leiði til þess að starfshlutfall sé hærra en ef kærandi hefði verið í orlofi annan dag í staðinn. Að lokum hafi kærandi fengið greidda tvo af þremur lögbundnum frídögum mánaðarins. Vegna verkefna í mánuðinum, ekki síst áðurnefnds fundar, hafi kærandi þurft að vinna heima í nokkur skipti. Eins og tímaskýrslur beri með sér hafi það verið alls um sjö klukkustundir og 20 mínútur. Hafa megi í huga að þessar klukkustundir nemi alls 4% af virkum vinnustundum mánaðarins ef miðað sé við að allir vinnudagar mánaðarins séu jafnir. Að lokum viti kærandi að Fæðingarorlofssjóður miði hvern mánuð orlofs við 30 daga. Miðað við maí nemi 50% orlofið sem hún hafi fengið alls 15 dögum sem hún hafi þá átt að vera heima. Að teknu tilliti til framangreinds hafi kærandi verið heima í alls 16 daga, eftir að búið sé að taka tillit til þeirra frídaga sem hún hafi fengið greidda og samtölu vinnustunda sem hún hafi unnið þá daga sem hún hafi verið heima (sjö klukkustundir og 20 mínútur). Kærandi hafi því ekki verið að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir fleiri daga en þá sem hún hafi sannanlega verið að sinna börnum sínum heima.

Heildartekjur kæranda í dag miðað við fullt starf nemi 1.128.369 kr. Launasetningin hafi þá tekið breytingu í kjölfar framlengingar frá því í apríl 2023 á kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga og fjármálaráðherra, f.h. Ríkissjóðs, sbr. launatöflu 2023. Þessi fjárhæð miðist við launaflokk 18 og launaþrep 6, að viðbættum 10 klukkustundum af föstum yfirvinnutímum, sem nemi um það bil 10,38% af heildarlaunum miðað við dagvinnu. Að teknu tilliti til tekna eins og þær séu í dag og í samræmi við túlkun sem lýst sé að framan á ákvæði 25. gr. laga nr. 144/2020 fái kærandi ekki betur séð en að hún hafi ekki fengið ofgreitt frá Fæðingarorlofssjóði ef miðað sé við viðmiðunartekjur að viðbættum hækkunum vegna kjarasamninga og annars þar til fyrsti „dagur“ fæðingarorlofs renni upp á hverju tímabili. Með þessu eigi kærandi við að tekjur hennar á hverju tímabili, að viðbættum greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði fari ekki umfram heildartekjur miðað við fullt starf samkvæmt viðmiði að teknu tilliti til hækkana fram til hvers tímabils. Það væri þá í hæsta máta óeðlilegt og í raun brot á jafnræði gagnvart þeim sem séu í fæðingarorlofi í árferði mikillar verðbólgu ef taka ætti allar kjarasamningsbundnar hækkanir af þeim. Í því samhengi bendi kærandi á þann mikla þrýsting sem hafi verið við gerð kjarasamninga undanfarið ár til að tryggja að launþegar séu ekki að verða fyrir raunlækkun launa á því mikla verðbólguskeiði sem hafi ríkt. Kærandi telji jafnframt rétt að benda á hversu óeðlilegt sé að foreldrar fjölbura fái ekki einhverja tilslökun á skerðingarmörkum tekna eða hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, enda sé kostnaður sem fylgi því að eignast fjölbura miklu hærri en að eignast eitt barn. Eftirfarandi sé útreikningur á heildartekjum kæranda fyrir þessa tvo mánuði sem bréf Fæðingarorlofssjóðs snúist um:

Heildartekjur + greiðsla frá Fæðingarorlofssjóði apríl = 920.229 kr. +120.000 kr. = 1.040.229 kr.

Heildartekjur + greiðsla frá Fæðingarorlofssjóði maí = 819.691 kr. + 300.000 kr. = 1.119.691 kr.

Framangreinda tvo mánuði hafi kærandi verið í skertu starfshlutfalli á móti fæðingarorlofi. Ekki sé hægt að miða fæðingarorlof við skemmri tíma en tvær vikur í senn og því sé miðað við hlutfall fæðingarorlofs í almanaksmánuði í staðinn. Af þessu leiði að það sé því ekki heldur hægt að setja inn fyrsta dag orlofs fyrir hvers almanaksmánaðar og síðasta dag orlofs hvers almanaksmánaðar ef farin sé sú leið að skipta á milli sín heimaveru með skertu starfshlutfalli. Samtala greiðslu frá vinnuveitanda og greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði hvorn mánuð fyrir sig sé innan marka þeirra heildarlauna sem kærandi hafi haft í fullu starfi. Heildarlaun að teknu tilliti til kjarasamningsbundinnar hækkunar fyrir apríl hefðu þannig verið 1.045.715 kr. fyrir skatta og heildarlaun fyrir maí hefðu miðað við breytta launasetningu og hækkun samkvæmt kjarasamningi verið 1.128.369 kr. fyrir skatta.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir apríl og maí 2023 þar sem hún hafi fengið of háar greiðslur frá sínum vinnuveitanda á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með börnum fæddum X 2022.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. júlí 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir apríl og maí 2023. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Skýringar kæranda ásamt skýringum vinnuveitanda hafi borist 19. júlí og 15. ágúst 2023. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 18. ágúst 2023, þar sem hún hafi verið krafin um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð, ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og innsendum skýringum og gögnum að kærandi hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna. Þá hafi borist beiðni um niðurfellingu 15% álags 29. ágúst 2023 en ekki hafi þótt tilefni til að fella niður álag, sbr. bréf, dags. 29. september 2023.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. 13. gr. sé starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt ákvæðinu.

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá komi fram í 7. og 8. málsl. sömu greinar að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.

Með umsókn, dags. 15. nóvember 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í átta mánuði vegna barna sem hafi fæðst X 2022. Tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda og hún verið afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun, dags. 21. mars 2023.

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hennar verið 925.939 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi töku fæðingarorlofs hefðu þau hækkað í 948.870 kr. sem hafi verið miðað við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda henni til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020. Þá heimili 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna ekki að eingöngu skuli miðað við launakjör foreldris á því tímamarki er foreldri hefji töku fæðingarorlofs heldur beri að miða við meðaltal heildarlauna á því viðmiðunartímabili samkvæmt 7. málsl. sem liggi til grundvallar hverju sinni. Þá sé heldur ekki heimilt að taka tillit til launabreytinga eftir upphaf fæðingarorlofs foreldis við mat á ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Tímabilið 1. til 30. apríl 2023 hafi kærandi fengið greiddar 120.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði henni því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 948.870 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 828.870 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir apríl 2023 hafi kærandi þegið 920.229 kr. í laun. Í skýringum vinnuveitanda og kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í apríl 2023. Hún hafi því fengið 91.359 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hún hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir apríl 2023 sé því 59.227 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 31. maí 2023 hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði henni því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 948.870 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 648.870 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir maí 2023 hafi kærandi þegið 819.691 kr. í laun. Í skýringum vinnuveitanda og kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í maí 2023, alls 768.078 kr., að frádreginni orlofsuppbót. Hún hafi því fengið 119.208 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hún hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir maí 2023 sé því 75.021 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd, að viðbættu 15% álagi, óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt skýringum kæranda og vinnuveitanda sé um að ræða greiðslu launa fyrir vinnu í apríl og maí 2023. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Í kæru geri kærandi athugasemd við mat Fæðingarorlofssjóðs á launahækkunum fram að upphafi fæðingarlofs. Það sé mat kæranda að miðað við 7. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 ætti að miða við þau launkjör sem kærandi hafi haft við upphaf töku hvers tímabils fæðingarorlofs í hverjum mánuði fyrir sig.

Ákvæði 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 séu afdráttarlaus um það að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris og að taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. Þannig heimili ákvæðin ekki að miðað sé einvörðungu við launakjör foreldris eins og þau séu við upphaf fæðingarorlofs né að tekið sé tillit til launabreytinga eftir fyrsta dag fæðingarorlofs.

Þá vísi kærandi til þess að samkvæmt tímaskýrslum hafi hún verið frá vinnu í fleiri daga en hún hafi fengið greidda frá Fæðingarorlofsjóði í bæði apríl og maí 2023. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að foreldri sé heimilt að taka fæðingarorlof samhliða skertu hlutfalli og að ekki sé heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Foreldri geti því ekki nýtt fæðingarorlof yfir staka daga heldur þurfi hvert tímabil fæðingarorlofs að ná yfir að minnsta kosti hálfan mánuð í senn. Í tilfelli kæranda hafi hún sótt um 20% fæðingarorlof fyrir allan apríl og 50% fæðingarorlof fyrir allan maí en hvorki staka daga né einstaka tímabil innan þessara mánaða. Kærandi hafi eins og áður segi verið afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við tilkynningar hennar þar um. Skýringar kæranda um fjölda vinnudaga sem hún hafi unnið innan þessa mánaða hafi því enga þýðingu við mat á útreikningi ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, enda hafi greiðslur frá vinnuveitanda verið hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs kæranda í þeim almanaksmánuðum sem hafi verið greitt fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr. laga nr. 144/2020, og skuli því koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 134.248 kr. útborgað að viðbættu 15% álagi, 20.137 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 154.385 kr., sbr. greiðsluáskorun til hennar ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 18. ágúst 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið apríl og maí 2023.

Í 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um viðmiðunartímabil og útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi. Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir með Fæðingarorlofssjóði að ákvæði 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 eru afdráttarlaus varðandi tímamark vegna launahækkana að loknu viðmiðunartímabili, þ.e. að það sé fram að allra fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris en ekki að hver almanaksmánuður sé sérstakt fæðingarorlof eins og kærandi hefur vísað til.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna tvíbura sinna sem fæddust X 2022. Kærandi skipti fæðingarorlofi sínu á fleiri en eitt tímabil og tók fæðingarorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli eins og heimilt er samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020, meðal annars 20% orlof í apríl 2023 og 50% í maí 2023 sem ágreiningur málsins lýtur að. Kærandi hafði þá þegar tekið nokkra mánuði í fæðingarorlof á árinu 2022, eða frá janúar á því ári.

Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023 kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili, frá júlí 2020 til og með júní 2021, hafi verið 925.939 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri því 600.000 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi fæðingarorlofs, þ.e. janúar 2022, höfðu viðmiðunarlaun kæranda hækkað í 948.870 kr. Tekið var mið af þeirri fjárhæð við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020, kæranda til hagsbóta

Kærandi fékk greiddar 120.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. til 31. apríl 2023 og var á þeim tíma einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur frá vinnuveitanda til hennar kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, eða 828.870 kr. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir þetta tímabil var kærandi í hlutastarfi og fékk greiddar 920.229 kr., eða 91.359  kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Í maí 2023 fékk kærandi greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og var þá samkvæmt framangreindu heimilt að fá 648.870 kr. frá vinnuveitanda til að þiggja óskertar greiðslur frá sjóðnum. Samhliða fæðingarorlofsgreiðslum fyrir maímánuð 2023 fékk kærandi 768.078 kr. frá vinnuveitanda sínum, eða 119.208 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Ofgreiðsla fyrir apríl og maí 2023 nam því samtals 154.386 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengda gjalda.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi, óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi fékk ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið apríl og maí 2023 þar sem hún fékk of háar greiðslur frá vinnuveitanda samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. það sem að framan er rakið. Fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda nemur 154.385 kr., að meðtöldu 15% álagi, en ákvæði 41. gr. laga nr. 144/2020 er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysis foreldris. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 41. gr. laganna skal fella niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem slík gögn hafa ekki verið lögð fram er ekki fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið apríl og maí 2023 því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið apríl og maí 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum