Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 660/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 660/2024

Fimmtudaginn 27. febrúar 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. desember 2024, um að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. nóvember 2024, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi vegna væntanlegrar fæðingar barns þann X 2025. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. desember 2024, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hefði ekki verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. desember 2024. Með bréfi, dags. 16. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 30. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki getað snúið aftur til náms fyrr en haustið 2024 vegna  veikinda langveiks sonar hennar en hún hafi einnig verið í endurhæfingu hjá Virk sökum þess. Eftir fyrra fæðingarorlof kæranda hafi staðið til að hún myndi snúa aftur til náms haustið 2023 og þar með hefði hún uppfyllt skilyrði fyrir fæðingarstyrk námsmanna. Sökum mikillar umönnunar og veikinda hafi það ekki gengið eftir. Í meðfylgjandi skjölum sé að finna staðfestingu á því að kærandi hafi ekki getað sinnt sínu námi vegna umfangsmikillar umönnunar sonar hennar og kærandi biðji um að tekið verði tillit til þess við endurskoðun á umsókninni. Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof sé ljóst að sjóðnum beri að taka tillit til sérstakra aðstæðna. Kærandi telji að ákvörðun sjóðsins endurspegli ekki það sem nauðsynlegt sé að hafa við mat á umsókn hennar. Kærandi óski því eftir endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun og að tekið verði tillit til hennar aðstæðna.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 12. nóvember 2024, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi vegna væntanlegrar fæðingar barns þann X 2025. Auk umsóknar kæranda hafi borist vottorð um skólavist frá B. Með bréfi til kæranda, dags. 4. desember 2024, hafi henni verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna skilgreiningu á fullu námi. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem vari í að minnsta kosti sex mánuði og geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur sé átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2025 og því sé, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barnsins, horft til tímabilsins frá X 2024 fram að fæðingardegi þess.

Á vottorði um skólavist frá B komi fram að á framangreindu 12 mánaða tímabili hafi kærandi verið skráð í 21 ECTS einingu á haustmisseri 2024 og lokið 15,5 ECTS einingum. Þá sé kærandi skráð í 10 einingar á vormisseri 2025 en hafi ekki lokið neinum einingum á vormisseri 2024.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22 – 30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 144/2020. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi lokið 15,5 ECTS einingum á haustmisseri 2024 og hafi verið skráð í 10 ECTS einingar á vormisseri 2025. Einnig sé ljóst að nám kæranda hafi ekki staðið yfir í sex mánuði samanlagt á tímabilinu X 2024 til X 2025.

Í 28. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna ákvæði sem heimili undanþágur frá skilyrðinu um fullt nám. Ekki verði séð að aðstæður kæranda geti fallið undir þau ákvæði, enda sé það skilyrði til að geta átt rétt samkvæmt þeim ákvæðum að kærandi hafi verið skráð í 75 – 100% nám eða lokið einingum sem samsvari fullu námi að minnsta kosti einhvern hluta þess tímabils sem litið sé til. Kærandi hafi hvorki verið skráð í fullt nám né lokið fullu námi í neinum mánuði innan þess tímabils sem litið sé til, þ.e. frá X 2024 til X 2025.

Með kæru hafi fylgt staðfesting frá Ráðgjafar- og greiningarstöð og Virk – starfsendurhæfingarsjóði. Þar komi fram að kærandi hafi verið í starfsendurhæfingu hjá Virk frá 22. mars 2024 vegna veikinda barns. Í lögum nr. 144/2020 sé ekki að finna undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám vegna starfsendurhæfingar eða veikinda barns.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi hafi réttilega verið synjað. Kæranda hafi þess í stað verið bent á að sækja um fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Í 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um rétt foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks. Þar segir í 1. mgr. að foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 144/2020 er að finna skilgreiningu á fullu námi. Þar segir að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem vari í að minnsta kosti sex mánuði og geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur sé átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X 2025. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 er því frá X 2024 og fram að fæðingu barnsins. Á fyrirliggjandi námsferilsyfirliti B kemur fram að kærandi hafi verið skráð í 21 ECTS einingu á haustönn 2024 og að sögn Fæðingarorlofssjóðs lauk hún 15,5 einingum þá önnina. Kærandi er skráð í 10 ECTS einingar á vorönn 2025 en samkvæmt yfirlitinu var hún ekki skráð í neinar einingar á vorönn 2024.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 28. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um undanþágur frá skilyrðinu um fullt nám en ekkert hefur komið fram í málinu um að þær málsgreinar geti átt við um kæranda. Að öðru leyti er ekki að finna heimild í lögum nr. 144/2020 til að víkja frá skýru ákvæði 27. gr. við mat á því hvort foreldi eigi rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. desember 2024, um að synja umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta