Mál nr. 676/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 676/2024
Fimmtudaginn 13. mars 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 20. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. nóvember 2024, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu júní til ágúst 2024. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 67.046 kr., að meðtöldu 15% álagi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. desember 2024. Með bréfi, dags. 2. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 24. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. febrúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála óskar kærandi eftir því að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu verði felld úr gildi. Kærandi telji að búið sé að draga af honum rúmlega það sem honum hafi borið að endurgreiða. Kærandi óski jafnframt eftir því að fá endurgreitt því hann hafi þegar greitt Fæðingarorlofssjóði kröfuna.
Kærandi hafi þann 11. október 2024 fengið bréf frá Fæðingarorlofssjóði vegna hugsanlegrar ofgreiðslu á tímabilinu 25. til 30. júní 2024. Kærandi hafi ekki vitað um hvað það gæti snúist þar sem hann hafi verið í sumarfríi frá 26. maí til 24. júní 2024 og farið beint í fæðingarorlof 25. júní til 31. ágúst 2024. Kærandi hafi því ekkert mætt til vinnu á tímabilinu sem sjáist í tímaskýrslu hans.
Kærandi hafi haft samband við launadeild og beðið um að umbeðin gögn yrðu send til Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi hafi sjálfur sent sjóðnum tölvupóst með skýringum um að hann hefði verið í umræddu fríi. Kærandi hafi talið að málið væri leyst og ekkert spáð meira í því fyrr en hann hafi fengið greiðsluáskorun senda þann 23. október 2024. Kærandi hafi þá skoðað launaseðil sinn fyrir júnímánuð betur og séð að hann hefði fengið eina vakt greidda á tímabilinu 25. til 30. júní 2024.
Í greiðsluáskoruninni sé áætlað að kærandi hafi þegið 180.110 kr. frá vinnuveitanda á tímabilinu þar sem hann hafi mátt þiggja 48.942 kr. og þurfi því að endurgreiða 95.240 kr., að meðtöldu 15% álagi.
Heildarlaunum kæranda í júní 2024, sem hafi verið 900.550 kr., virðist vera deilt með dagafjölda mánaðarins og margfaldað með sex (25. til 30. júní) til þess að fá upphæðina 180.110 kr. sem sé að mati kæranda ekki sanngjarnt þar sem hann vinni vaktavinnu með föstu vaktaplani. Kærandi vinni sex vaktir á fimm sólarhringum og fái svo vaktafrí í fimm sólarhringa og þannig rúlli það allt árið. Kærandi hafi verið í vaktafríi, sem sé ekki launað frí, frá 25. til 29. júní 2024. Þá hafi hann verið skráður á vakt sunnudaginn 30. júní 2024 sem kærandi hafi ekki unnið en óvart fengið greidda. Þarna sé því að miklu leyti verið að reikna laun á kæranda þar sem hann hafi verið í vaktafríi.
Í júní 2024 séu 18 vaktir á vaktaplani og að mati kæranda ætti að fara eftir því hvað hann fái greitt fyrir hverja vakt þar sem það sé eini tíminn sem hann fái laun, sem sé þá 900.550 kr. / 18 = 50.031 kr., heldur en að áætla að kærandi fái laun á hverjum degi. Með þessu sé verið að seilast í laun sem kærandi hafi fengið í sumarfríinu. Annars hefðu heildarlaunin þurft að vera 118.110 kr. x 18 = 3.241.980 kr., sem sé ekki staðan.
Í kjölfar greiðsluáskorunarinnar hafi kærandi haft samband við Fæðingarorlofssjóð þann 24. október 2024 og beðið um að fá að tala við þann sem væri með mál hans til skoðunar en verið tjáð að viðkomandi tæki ekki síma. Kærandi hafi þá spurt þann sem hafi svarað í símann hvort það væri nóg að kærandi myndi láta draga af sér vaktina sem hann hefði fengið greidda. Viðkomandi hafi svarað að það ætti örugglega að vera nóg.
Kærandi hafi þá haft samband við launadeild og beðið um að vaktin yrði dregin af sér í næstu útborgun sem hafi verið gert mánaðamótin október/nóvember og merkt á launaseðli. Finna megi lækkun á öðrum hlutum launaseðilsins vegna vaktarinnar sem hljóti að eiga að telja með þar sem það sé lækkun á launum. Kærandi hafi sent þann launaseðil á Fæðingarorlofssjóð ásamt skýringum á hvar laun hafi verið dregin af honum til viðbótar við það sem tekið sé fram á launaseðlinum, til dæmis lækkun á vaktaálagi.
Þann 12. nóvember 2024 hafi kærandi aftur fengið senda greiðsluáskorun þar sem hafi verið búið að lækka upphæðina um þann hluta sem hafi verið merktur á launaseðlinum. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að heildar launalækkunin hafi verið meiri og enn verið að reikna á hann laun í vaktafríi. Í þeirri greiðsluáskorun komi fram að kærandi hefði þegið 150.765 kr. frá vinnuveitanda en hefði mátt þiggja 56.787 kr. Þarna hafi sú upphæð sem kærandi hafi mátt þiggja verið komin undir það sem hann hafi raunverulega fengið borgað fyrir tímabilið en hann hafi verið búinn að láta draga af sér vaktina. Í bréfinu hafi upphæðin sem Fæðingarorlofssjóður hafi talið sig hafa greitt verið leiðrétt. Í fyrra bréfinu hafi sjóðurinn viljað meina að hann hefði greitt kæranda 127.845 kr. en í því seinna 120.000 kr.
Þannig standi málið nú. Kærandi sé búinn að láta draga af sér laun fyrir vaktina 30. júní 2024 en Fæðingarorlofssjóður hafi ekki tekið launalækkunina gilda í heild. Lækkunin hafi því greinilega verið til einskis og enn sé verið að reikna laun á kæranda í vaktafríi sem sé ekki launað.
Væru vaktafríin launuð yrði vinnuveitandi væntanlega að skrá kæranda í fæðingarorlof í vaktafríum eins og gert sé þegar kærandi eigi að vera á vaktatörnum. Það hafi ekki verið gert þá heilu mánuði sem kærandi hafi verið í fæðingarorlofi og hann hafi ekki fengið nein laun frá vinnuveitanda þá daga. Samkvæmt reikniformúlu Fæðingarorlofssjóðs hljóti það að eiga að vera 30 (dagar í júní) – 15 (sólarhringar með skráða vakt) = 15 (vaktafrísdagar). 900.550 kr. / 30 = 30.018,33 kr. x 15 = 450.275 kr.
Kærandi sé mjög hugsi yfir því að ef reikna megi á hann laun í vaktafríum, hvenær hann megi þá fara í 100% fæðingarorlof án þess að eiga í hættu á að ofgreiðsla eða laun verði reiknuð á hann í vaktafríum. Kærandi sé hvergi skráður í fæðingarorlof þegar hann eigi ekki að vera á vakt og geti ekki tekið sér orlof fimm daga í einu miðað við vaktafyrirkomulag. Fari kærandi í fæðingarorlof í 14 daga sé greinilega hægt að reikna á hann laun upp úr þurru í 9 daga þótt hann fái ekki laun frá vinnuveitanda þessa daga.
Kærandi telji það ekki vera hans sök að hann hafi fengið vaktina 30. júní 2024 greidda þar sem hann hafi ekki beðið um það og hafi svo sannarlega ekki unnið hana. Kærandi hafi talið sig vera í fæðingarorlofi á þessum tíma eins og hafi verið áætlað og því ekkert mætt til vinnu. Hann hafi verið skráður í fæðingarorlof hjá vaktstjóra en það hafi kannski ekki skilað sér til launadeildar að það myndi hefjast beint eftir sumarfrí.
Kærandi hafi beðið um að launin yrðu leiðrétt sem hafi verið gert. Hann hafi greitt kröfu Fæðingarorlofssjóðs þar sem hann hafi ekki viljað að málið hefði áhrif á fjármál sín og vænti þess að fá kröfuna endurgreidda verði niðurstaða nefndarinnar honum í hag.
III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs
Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024 þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá sínum vinnuveitanda á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2022.
Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. október 2024, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir tímabilið 25. til 30. júní 2024. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.
Launaseðlar, tímaskýrslur og skýringar vinnuveitanda hafi borist í tölvupósti, dags. 15. október 2024. Samkvæmt skýringum vinnuveitanda hafi kærandi verið frá vinnu vegna fæðingarorlofs frá 1. júlí til 31. ágúst 2024 og það hafi verið staðfest með tímaskráningu. Þá hafi einnig borist tölvupóstur frá kæranda, dags. 16. október 2024, þar sem fram komi að hann hafi verið í vaktafríi tímabilið 25. til 29. júní 2024. Hann hafi svo verið skráður í fæðingarorlof fyrsta dag vaktatarnar sem hafi átt að hefjast 30. júní 2024. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 23. október 2024, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu ásamt 15% álagi.
Þann 29. október 2024 hafi borist tölvupóstur frá vinnuveitanda þar sem komið hafi fram að kærandi hefði fengið greidd laun fyrir allan júnímánuð. Kæranda og vinnuveitanda hans hafi í kjölfarið verið leiðbeint um að ef mistök hefðu orðið við launagreiðslu og kærandi fengið greidd laun fyrir allan mánuðinn þrátt fyrir að hafa þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 25. til 30. júní 2024 þyrfti að berast staðfesting á því að launin hefðu verið leiðrétt. Staðfesting á því að leiðrétting hefði verið gerð á launum kæranda þannig að hann hafi ekki fengið greidd laun fyrir 30. júní 2024 hafi borist með tölvupósti, dags. 29. október 2024. Kæranda hafi í kjölfarið verið sendur tölvupóstur, dags. 12. nóvember 2024, þar sem bent hafi verið á að ekki væri nóg að gera einungis leiðréttingu vegna 30. júní 2024 heldur hefði kærandi einnig fengið greidd laun þá daga sem hann hafi verið í vaktafríi tímabilið 25. til 29. júní 2024, en á sama tíma hafi kærandi verið skráður í 100% fæðingarorlof og þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Kæranda hafi verið send ný greiðsluáskorun, dags. 12. nóvember 2024, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu að fjárhæð 58.301 kr. ásamt 15% álagi, 8.745 kr., eða samtals 67.046 kr. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og innsendum skýringum og gögnum að kærandi hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna tímabilið 25. til 29. júní 2024. Sú ákvörðun sé nú kærð.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.
Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. 13. gr. sé starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu.
Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þá segi í 4. og 5. málsl. að eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þá sé átt við tímabil sem hefjist frá og með fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og ljúki frá og með þeim degi sem foreldrið nýti ekki lengur rétt sinn til fæðingarorlofs innan tiltekins almanaksmánaðar.
Þá komi fram í 1. mgr. 25. gr. að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.
Með umsókn, dags. 6. desember 2022, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem hafi fæðst X 2022. Tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda og hann hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 14. maí 2024.
Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hans verið 794.101 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi töku fæðingarorlofs hafi þau hækkað í 883.935 kr. sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda honum til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna.
Tímabilið 25. til 29. júní 2024 hafi kærandi fengið greiddar 120.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 176.787 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 56.787 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.
Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir júní 2024 hafi kærandi þegið 150.765 kr. laun. Hann hafi því fengið 93.978 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 25. til [29.] júní 2024 sé því 58.301 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.
Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að foreldri sé heimilt að taka fæðingarorlof samhliða skertu starfshlutfalli og að ekki sé heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Foreldri geti því ekki nýtt fæðingarorlof fyrir staka daga heldur þurfi hvert tímabil fæðingarorlofs að ná yfir að minnsta kosti hálfan mánuð í senn. Í tilfelli kæranda hafi hann sótt um 100% fæðingarorlof fyrir tímabilið frá 25. júní til 31. ágúst 2024. Kærandi hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við tilkynningar þar um. Greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. laganna og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr., í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs kæranda í þeim almanaksmánuði sem greitt hafi verið fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr. laga nr. 144/2020, og skuli því koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laga nr. 144/2020 og athugasemdum við þá grein. Eins og áður hafi verið rakið hafi í greiðsluáskorun til kæranda, dags. 12. nóvember 2024, verið tekið tillit til launabreytinga í samræmi við 7. til 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins sé óumdeilt að kærandi hafi fengið greitt frá vinnuveitanda fyrir sama tímabil og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eigi við. Það hafi því enga sérstaka þýðingu við úrlausn þessa máls hvort kærandi hafi verið í vaktafríi eða ekki á því tímabili.
Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 58.301 kr., að viðbættu 15% álagi, 8.745 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 67.046 kr., sbr. bréf til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 12. nóvember 2024.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024.
Í V. kafla laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. 25. gr. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 144/2020 að gert sé ráð fyrir því að foreldri geti fengið þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta greiddan frá vinnuveitanda samhliða fæðingarorlofi. Samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 25. gr. skulu eingöngu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í athugasemdum við ákvæðið að átt sé við tímabil sem hefjist frá og með fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og ljúki frá og með þeim degi sem foreldrið nýti ekki lengur rétt sinn til fæðingarorlofs innan tiltekins almanaksmánaðar. Hið sama gildi hvort sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs að fullu eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli á fyrrnefndu tímabili.
Í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna kemur fram að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi, sbr. 9. málsl. ákvæðisins.
Um framangreint er ítarlega fjallað í athugasemdum með ákvæði 25. gr. í frumvarpi til laga nr. 144/2020 en þar segir meðal annars svo:
„Ljóst er að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eiga eingöngu að bæta þann tekjumissi sem foreldrar verða fyrir er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri bættan tekjumissinn, sem Fæðingarorlofssjóði er ætlað að bæta, frá vinnuveitanda þykir eðlilegt að þær greiðslur komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Er því eins og áður segir miðað við að greiðslur sem eru hærri en sem nemur mismun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris á mánuði á viðmiðunartímabili komi til frádráttar fæðingarorlofsgreiðslum. Er þar með tekið tillit til þess að vinnuveitandi geti bætt starfsmanni sínum upp þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóður bætir ekki. Er því við það miðað í frumvarpinu að foreldrar geti hagað störfum sínum líkt og þeir kjósa utan þess tíma er þeir eru skráðir í fæðingarorlof án þess að það hafi áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Þannig á það ekki að koma að sök, í tengslum við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabil þar sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs, þótt foreldri hafi unnið fleiri yfirvinnutíma en á viðmiðunartímabili eða tekið að sér aukavaktir rétt fyrir töku fæðingarorlofs enda oftast eðlilegar ástæður sem liggja þar að baki, svo sem vinna við stór verkefni eða breytt vaktafyrirkomulag. Í því sambandi skiptir það jafnframt ekki máli þótt vinnan hafi farið fram innan sama almanaksmánaðar og fæðingarorlof hófst svo lengi sem vinnan fór fram áður en orlofið hófst.“
Þá segir í 10. málsl. 1. mgr. 25. gr. að ef foreldri hafi fengið óvenjuháar greiðslur frá vinnuveitanda fyrir eða eftir fæðingarorlof eða meðan á fæðingarorlofi standi miðað við tekjur á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.–3. mgr. 23. gr. þannig að ætla megi að þær hafi að hluta eða öllu leyti verið ætlaðar fyrir sama tímabil og það tímabil sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs skuli Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur hafi verið ætlaðar. Hið sama gildi um óvenjuháar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris á tímabili þar sem foreldri hafi minnkað starfshlutfall sitt samhliða nýtingu réttar til fæðingarorlofs, sbr. 11. málsl. ákvæðisins. Að endingu segir í 12. málsl. 1. mgr. 25. gr. að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi.
Líkt og að framan greinir gera lög nr. 144/2020 ráð fyrir því að einstaklingar geti skipt fæðingarorlofi sínu niður í nokkur tímabil og þá stundað vinnu á öðrum tímabilum en fæðingarorlof er tekið. Eins að hægt sé að nýta rétt til fæðingarorlofs samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 13. gr. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X 2022. Kærandi skipti fæðingarorlofi sínu á fleiri en eitt tímabil og hóf töku orlofsins 1. janúar 2023. Í júní 2024 var kærandi í 20% fæðingarorlofi, sbr. greiðsluáætlun frá 14. maí 2024.
Í framangreindri greiðsluáætlun frá 14. maí 2024 kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili, frá X 2021 til og með X 2022, hafi verið 799.033 kr. og áætluð greiðslufjárhæð á mánuði miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri því 600.000 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi töku fæðingarorlofs höfðu þau hækkað í 883.935 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Tekið var mið af þeirri fjárhæð við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020, kæranda til hagsbóta.
Kærandi fékk greiddar 120.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024 og var á því tímabili einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun á 176.787 kr. og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, eða 56.787 kr., án þess að kæmi til skerðingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í júní 2024 fékk kærandi 150.765 kr. í laun fyrir þann mánuð, eða 93.978 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024 nam því 58.301 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.
Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi verið í vaktafríi, sem sé ekki launað frí, á tímabilinu 25. til 29. júní 2024. Kærandi sé hvergi skráður í fæðingarorlof þegar hann eigi ekki að vera á vakt. Hann hafi talið sig vera í fæðingarorlofi á umræddu tímabili og því ekkert mætt til vinnu.
Í 41. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi fékk ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024 þar sem hann fékk of háar greiðslur frá vinnuveitanda samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. það sem að framan er rakið. Ákvæði 41. gr. laga nr. 144/2020 er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Enga heimild er að finna í lögum nr. 144/2020 til að fella niður endurkröfu eins og kærandi hefur farið fram á. Þar sem ekki liggja fyrir skrifleg gögn um að kæranda verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar er ekki ástæða til að fella niður álagið sem lagt var á endurkröfuna.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. nóvember 2024, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024 því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. nóvember 2024, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið 25. til 29. júní 2024, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir