Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 211/2024-Beiðni um endurupptöku

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 211/2024

Fimmtudaginn 13. mars 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með erindi, dags. 20. febrúar 2025, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 211/2024 þar sem staðfest var greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. júní 2024.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem fæddist X 2024. Með greiðsluáætlun, dags. 25. júní 2024, var kæranda greint frá því að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 393.294 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. október 2024, var sú ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku lýsir kærandi yfir vonbrigðum sínum með úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá 10. október 2024 og óskar eftir að niðurstaðan verði endurskoðuð. Þá vísar kærandi til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 144/2020 þar sem fram komi að markmið laganna sé að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Það sé nokkuð ljóst að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála frá 10. október 2024 sé í algerri andstöðu við markmið og anda laganna. Ef kærandi hefði ekki einbeittan vilja til þess að vera heima með barni sínu og tengjast því (því hann telji það í samræmi við hagsmuni barnsins), væri fjárhagslega miklu hagkvæmara fyrir hann að vera áfram í vinnu og hafa barnið hjá dagforeldri. Sú upphæð sem sé í boði fyrir kæranda geri honum ekki kleift að taka orlof frá starfi án þess að verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni. Það segi sig sjálft að 170.000 kr. á mánuði geri kæranda ekki kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Óháð lögunum muni það ekki duga til þess að sjá fyrir tveimur börnum.

Líkt og áður hafi verið reifað í kæru til úrskurðarnefndarinnar sé verið að refsa kæranda fyrir að hafa verið í námi fyrir sex árum síðan og fyrir það að hafa ekki haft nægilegt bil á milli barna. Staðreyndin sé sú að kærandi væri að fá fullt orlof ef hann hefði átt barn sitt síðar sama ár. Ef barn kæranda hefði fæðst í X 2024 í stað X 2024 væri þetta mál ekki í gangi. Eins og fram komi í úrskurði nefndarinnar og gögnum frá kæranda hafi hann verið á vinnumarkaði síðustu ár og uppfylli því skilyrði um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi neiti því að vera í þeirri stöðu að þurfa að hringja í Fæðingarorlofssjóð áður en hann eignist sitt þriðja barn því það sé vitað mál að nám hans fyrir sex árum síðan muni aftur hafa áhrif næstu 18 mánuðina eftir að hann ljúki orlofi. Þegar fæðingarorlofi kæranda ljúki í júní 2025, með tekjur upp á 170.000 kr., þurfi hann að bíða þar til janúar 2027 með að eignast sitt þriðja barn ef hann ætli að eiga fullan rétt á því að vera heima með sínu barni. Það sé þrátt fyrir að hafa verið hjá sama vinnuveitanda frá maí 2021 í 100% starfi. Kærandi óski þess að nóvember 2022, janúar 2023, febrúar 2023 og mars 2023 verði ekki teknir með í útreikning vegna fæðingarorlofs hans þar sem tölurnar séu fyrst og fremst byggðar á launum á tímabilinu júní 2020 til maí 2021 en ekki á launum á tímabilinu ágúst 2022 til júlí 2023. Með vísan til 1. mgr. 23. gr. laga nr.144/2020 óski kærandi eftir endurskoðun málsins.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. október 2024. Með úrskurðinum var greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. júní 2024, staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.

Beiðni um endurupptöku er byggð á því að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sé í algjörri andstöðu við markmið og anda laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof. Kærandi óski þess að nóvember 2022, janúar 2023, febrúar 2023 og mars 2023 verði ekki teknir með í útreikning vegna fæðingarorlofs hans þar sem tölurnar séu fyrst og fremst byggðar á launum á tímabilinu júní 2020 til maí 2021 en ekki á launum á tímabilinu ágúst 2022 til júlí 2023.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til framangreindra athugasemda. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, enda lágu þær upplýsingar sem fram koma í endurupptökubeiðni fyrir við uppkvaðningu úrskurðar. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 211/2024 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 211/2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta