Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 10. desember 2015 var tekið fyrir mál nr. 17/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 28. september 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 18. september 2015, þar sem umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna var synjað.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi stundaði nám við B deild Háskóla Íslands veturinn 2014 til 2015. Hún lauk 5 einingum á haustönn 2014 og 15 einingum á vorönn 2015. Með umsókn, dags. 2. júní 2015, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar þann 21. september 2015. Með bréfum Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. og 10. ágúst 2015, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda í tengslum við umsókn hennar. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. ágúst 2015, var kæranda tilkynnt að hún ætti rétt á fæðingarstyrk námsmanna að því gefnu að barn hennar myndi ekki fæðast fyrir 1. október 2015. Kærandi sendi Fæðingarorlofssjóði frekari gögn en með bréfi sjóðsins, dags. 9. september 2015, var kæranda tilkynnt að innsend gögn breyttu ekki fyrri afgreiðslu.

Barn kæranda fæddist Y. september 2015 og var umsókn hennar synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. september 2015, á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 28. september 2015. Með bréfi, dags. 1. október 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 6. október 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sent Fæðingarorlofssjóði gögn um veikindi sín sem hafi heft hana mjög í námi og vinnu á undanförnum árum. Fæðingarorlofssjóður hafi ekki tekið tillit til þess að hún hafi ekki getað stundað 75-100% nám á haustönn 2014 vegna veikinda. Uppbygging náms hennar hafi ekki boðið upp á 75% nám þar sem einungis þrír áfangar hafi verið í boði þá önnina en einn hafi verið undanfari áfanga á vorönn 2015. Það að sleppa einum áfanga hafi því leitt til þess að hún hafi ekki náð að stunda 75-100% nám á haustönn 2014.

Kærandi bendir á að af bréfi Fæðingarorlofssjóðs frá 10. ágúst 2015 megi ráða að það hefði verið nægilegt að vera með fullnægjandi námsframvindu á haustönn 2014 eða vera skráð í fullt nám á haustönn 2015 í a.m.k. einn mánuð fyrir fæðingu barns hennar til að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Kærandi telur sig uppfylla það skilyrði þar sem hún hafi verið skráð í fullt nám á haustönn 2015. Þrátt fyrir það hafi Fæðingarorlofssjóður tilkynnt henni með bréfi 17. ágúst 2015 að hún ætti rétt á fæðingarstyrk námsmanna að því gefnu að barn hennar myndi ekki fæðast fyrir 1. október 2015. Þarna hafi verið um breytt skilyrði að ræða án frekari útskýringar. Vegna þessa hafi barnsfaðir hennar haft samband við Fæðingarorlofssjóð og fengið þær upplýsingar í símtali að umsóknin hefði verið samþykkt. Kærandi hafi þá sjálf hringt í sjóðinn og beðið um skriflega staðfestingu en fengið þær upplýsingar að umsóknin hefði ekki verið samþykkt.  

Kærandi tekur fram að hún hafi sent Fæðingarorlofssjóði læknabréf þar sem fram komi að hún væri sett 21. september 2015 en af læknisfræðilegum ástæðum væri fyrirhugaður keisaraskurður þann Y. september 2015. Ekki væri unnt að bíða með keisaraskurðinn til 1. október 2015. Fæðingarorlofssjóður hafi þá tilkynnt henni að læknabréfið breytti ekki fyrri afgreiðslu, án frekari útskýringar á þeirri afstöðu.

Kærandi bendir á að hún hafi lagt stund á nám á haustönn 2015 í einn mánuð fyrir fæðingu barns hennar, sbr. bréf frá námsráðgjafa Háskóla Íslands, en hún hafi byrjað lestur sumarið 2015. Í bréfi námsráðgjafans komi fram hvað felist í ástundum náms hennar en svar Fæðingarorlofssjóð við því bréfi varpi engu ljósi á gildi þess.

Kærandi greinir frá því að hún hafi stundað skóla og vinnu alla sína tíð en síðastliðin ár hafi hún átt við veikindi að stríða sem hamli henni í leik og starfi. Hún hafi glímt við mikil veikindi frá fyrri meðgöngu og meðal annars verið í endurhæfingarmeðferð hjá VIRK. Kærandi fær ekki séð að gagnálykta eigi frá ívilnandi reglu 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 þannig að ekki skuli tekið tillit til neinna veikinda sem komi í veg fyrir að móðir geti stundað fullt nám á meðgöngu, án þess að sérstakt mat fari fram á aðstæðum hverju sinni. Einnig virðist sem svo að hún hefði fengið fæðingarstyrk námsmanna ef hún hefði orðið ófrísk um það bil mánuði fyrr, þá hefðu veikindi hennar á haustönn 2014 verið á meðgöngu, eða ef hún hefði orðið ófrísk 15 dögum seinna, þá teldist hún án efa hafa verið í námi a.m.k. mánuð fyrir fæðingu barnsins. Að mati kæranda er það ekki málefnaleg mismunun.  

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. september 2015 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. september 2014 fram að fæðingardegi þess. Á námsferilsyfirliti Háskóla Íslands, dags. 6. ágúst 2015, komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 5 ECTS-einingum á haustmisseri 2014 og 15 ECTS-einingum á vormisseri 2015. Hún hafi svo verið skráð í 24 ECTS-einingar á haustmisseri 2015 eða á því misseri sem barnið hafi fæðst. Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um er að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn almennt vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti sjóðurinn svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í ffl. sé að finna undanþágu fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna. Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fyrir liggi læknisvottorð C, dags. 15. júlí 2015. Fallist hafi verið á að veikindi kæranda féllu undir skilgreiningu á heilsufarsástæðum skv. 13. mgr. 19. gr. ffl. vegna vormisseris 2015. Vormisseri standi frá 4. janúar til 10. maí, sbr. 52. gr. reglna nr. 569/2009 um Háskóla Íslands. Bæði í læknisvottorðinu og á vottorðum um áætlaðan fæðingardag komi fram að væntanlegur fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 21. september 2015 og hafi kærandi því miðað við fulla níu mánaða meðgöngu orðið ófrísk 21. desember 2014 eða eftir að prófatímabili hafi lokið, sbr. 56. gr. reglna nr. 569/2009. Því verði ekki séð að undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. verði beitt um haustmisseri 2014.

Kærandi hafi verið skráð í fullt nám eða 24 ECTS-einingar á haustmisseri 2015 sem sé það misseri sem barnið hafi fæðst á. Samkvæmt 52. gr. reglna nr. 569/2009 standi haustmisseri frá 20. ágúst til 18. desember og því hafi kærandi verið í fullu námi á því misseri frá 20. ágúst og fram að fæðingardegi barnsins þann Y. september 2015, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 19. gr. ffl. Á framangreindu 12 mánaða tímabili fyrir fæðingardag barnsins hafi kærandi því einungis verið í fullu námi í skilningi 19. gr. ffl. og 4. mgr. 7. gr. ffl. tímabilin 4. janúar til 10. maí og 20 ágúst til Y. september 2015 eða í um fimm mánuði.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr. ffl.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 30 ECTS-einingar á önn almennt vera 100% nám og fullt nám í skilningi ffl. því 22–30 ECTS-einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.

Barn kæranda fæddist þann Y. september 2015. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá Y. september 2014 fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við B deild Háskóla Íslands en um er að ræða 180 ECTS-eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS-eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands, dags. 6. ágúst 2015, lauk kærandi 5 ECTS-einingum á haustönn 2014 og 15 ECTS-einingum á vorönn 2015 sem telst ekki vera fullt nám. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Fæðingarorlofssjóður hefur vísað til þess að fallist hafi verið á að veikindi kæranda féllu undir skilgreiningu á heilsufarsástæðum skv. 13. mgr. 19. gr. ffl. vegna vorannar 2015, sbr. læknisvottorð C, dags. 15. júlí 2015. Vorönn standi frá 4. janúar til 10. maí, sbr. 52. gr. reglna nr. 469/2009 um Háskóla Íslands. Undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. verði ekki beitt um haustönn 2014 þar sem kærandi hafi orðið ófrísk eftir að próftímabili hafi lokið, sbr. 56. gr. reglna nr. 569/2009.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi gat ekki stundað fullt nám veturinn 2014 til 2015 vegna veikinda. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. er bundið við þau tilvik að móðir hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, þ.e. að meðganga þurfi að vera hafin. Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var þann 21. september 2015 og var meðgangan því ekki hafin á haustönn 2014.  Ekki er fyrir að fara heimild, hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, til að taka tillit til tilvika sem gerast fyrir það tímamark. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 13. mgr. 19. gr. ffl. á haustönn 2014.

Kærandi var skráð í fullt nám eða 24 ECTS-einingar á haustönn 2015 en samkvæmt 52. gr. reglna nr. 569/2009 stendur haustönn frá 20. ágúst til 18. desember. Á framangreindu tólf mánaða tímabili fyrir fæðingardag barnsins var kærandi því einungis í fullu námi í skilningi 19. gr. ffl. og 4. mgr. 7. gr. ffl. tímabilin 4. janúar til 10. maí 2015 og 20. ágúst til Y. september 2015, eða í um fimm mánuði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur nefndin óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. september 2015, um synjun á umsókn A um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira