Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 541/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 541/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. nóvember 2023, um að synja umsókn hennar um styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. nóvember 2023, sótti kærandi um styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu vegna fæðingar barns þann X 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. nóvember 2023, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að réttur til styrks falli niður sex mánuðum eftir fæðingardag barns.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 27. nóvember 2023, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. nóvember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hún hafi ekki vitað að hún gæti fengið dvalarstyrk fyrir það að þurfa að eiga barn sitt annars staðar en í sínum heimabæ. Barn kæranda sé ný orðið sex mánaða. Hún hafi bara fengið að vita af þessum dvalarstyrk 8. nóvember 2023 og strax sent inn vottorð. Hún hafi verið vongóð og ánægð með að loksins væri verið að styðja við bakið á henni fyrir það að þurfa að dvelja annars staðar þessar síðustu vikur meðgöngunnar. Fæðingarorlofssjóður hafi sagt kæranda að senda inn umsókn og að hún hlyti að ná í gegn en svo hafi hún fengið neitun. Það hafi verið þvílík vonbrigði að fá neitun eingöngu vegna þess að barn hennar hafi verið nokkrum dögum eldri en sex mánaða. Kærandi skilji ekki hvernig hún hafi átt að sækja um styrkinn á réttum tíma ef enginn hafi sagt henni frá honum. Kærandi finnist ekki sanngjarnt að bara nokkrum konum út á landi sé bent á þennan dvalarstyrk.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 8. nóvember 2023, sótt um greiðslu sérstaks styrks vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu vegna fæðingar barns þann X 2023.

Í 43. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um sérstakan styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu. Í 4. mgr. ákvæðisins komi fram að greiðslur styrksins skuli inntar af hendi eftir fæðingardag barns og að réttur til hans falli niður sex mánuðum eftir fæðingardag barns hafi umsókn ekki borist Vinnumálastofnun fyrir þann tíma.

Með bréfi til kæranda, dags. 10. nóvember 2023, hafi henni verið synjað um greiðslu styrksins, enda hafi umsóknin borist þegar meira en sex mánuðir hafi verið liðnir frá fæðingardegi barnsins. Umsóknin hefði þurft að berast X 2023 eða fyrr en eins og áður segi hafi hún ekki borist fyrr en 8. nóvember sama ár.  

Í kæru gefi kærandi þá skýringu að hún hafi ekki vitað af styrknum og enginn hafi sagt henni frá honum sem hafi orðið þess valdandi að hún hafi ekki sótt um hann á réttum tíma. Af þessu tilefni sé rétt að taka fram að á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs sé að finna ítarlegar upplýsingar um styrkinn þar sem meðal annars komi fram hið afdráttarlausa skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 144/2020 að réttur til styrksins falli niður sex mánuðum eftir fæðingardag barns hafi umsókn ekki borist Vinnumálastofnun fyrir þann tíma. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof sé ekki að finna heimild til að víkja frá framangreindu skilyrði, hvorki vegna atvika eins og þeirra sem lýst sé í kæru kæranda né annarra. 

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslu sérstaks styrks vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. nóvember 2023, um að synja umsókn kæranda um styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu.

Í 43. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um sérstakan styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu. Þar segir í 1. mgr. að ef barnshafandi foreldri sé nauðsynlegt að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barns sé heimilt að greiða foreldrinu sérstakan styrk í allt að 14 daga fyrir áætlaðan fæðingardag barns en allt að 28 daga sé um fjölburameðgöngu að ræða, sem og þá daga sem meðganga vari fram yfir áætlaðan fæðingardag, enda dvelji foreldri fjarri heimili sínu þá daga sem um ræði.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skal umsókn um slíkan styrk vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveði, svo sem rafrænu eða skriflegu, og með umsókninni skuli fylgja vottorð þess sérfræðilæknis sem hafi annast foreldrið þar sem fram komi rökstuðningur viðkomandi sérfræðilæknis fyrir því að viðkomandi foreldri sé að hans mati nauðsynlegt að dvelja fjarri heimili sínu í tiltekinn tíma fyrir áætlaðan fæðingardag barns í tengslum við nauðsynlega fæðingarþjónustu vegna fæðingar barns. Vinnumálastofnun skuli berast frumrit af vottorðinu. Vinnumálastofnun skuli leggja mat á rökstuðning sérfræðilæknis, sbr. 1. málsl., og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum lækni við matið. Þá segir í 4. mgr. 43. gr. að greiðslur styrksins skuli inntar af hendi eftir fæðingardag barns og að réttur til styrks falli niður sex mánuðum eftir fæðingardag barns hafi umsókn, sbr. 3. mgr., ekki borist Vinnumálastofnun fyrir þann tíma. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 144/2020 segir að það þyki hæfilegur tími fyrir foreldri til að sækja um styrkinn.

Barn kæranda fæddist X 2023. Umsókn hennar um styrk barst Fæðingarorlofssjóði 8. nóvember 2023 en þá voru liðnir meira en sex mánuðir frá fæðingardegi barnsins. Skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 144/2020 var því ekki uppfyllt í tilviki kæranda en enga heimild er að finna í lögunum til að víkja frá því.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóð um að synja umsókn kæranda um styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. nóvember 2023, um að synja umsókn A, um styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum