Mál nr. 93/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 93/2025
Mánudaginn 7. apríl 2025
A
gegn
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 12. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. janúar 2025, um að innheimta ofgreiddan sértækan húsnæðisstuðning.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 10. nóvember 2023, sótti kærandi um sértækan húsnæðisstuðning hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og var umsóknin samþykkt 12. febrúar 2024. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 31. janúar 2025, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddan sértækan húsnæðisstuðning að fjárhæð 347.242 kr. sem yrði innheimtur samkvæmt lögum nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. febrúar 2025. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst 6. mars 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi verið krafin um að greiða umfram leigu vegna styrkveitingar. Leiguverð fyrir B hafi verið 264.000 kr. á mánuði og kærandi hafi greitt styrkveitingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar beint inn á bankareikning leigusala. Mismunurinn hafi verið greiddur með reiðufé. Kærandi sé búin að gera grein fyrir þeim greiðslum sem hafi farið beint inn á bankareikning leigusala en nú krefjist Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þess að kærandi endurgreiði þann mismun sem hún hafi greitt með reiðufé ásamt vöxtum sem sé eðlilega ekki hægt að sýna fram á. Hún óski því eftir að málið verði endurskoðað.
III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um sértækan húsnæðisstuðning þann 10. nóvember 2023 vegna leigu á húsnæðinu B. Sótt hafi verið um sértækan húsnæðisstuðning á grundvelli leigusamnings, dags. 8. febrúar 2024. Í leigusamningnum séu meðal annars tilgreindir leigusalar, C (dóttir kæranda) og D, upphaf leigu, dags. 10. nóvember 2023, að leigusamningur sé ótímabundinn og að leigufjárhæð sé 264.000 kr. á mánuði. Þá sé tekið fram í samningnum að húsaleiga greiðist með millifærslu. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 12. febrúar 2024.
Við lokauppgjör húsnæðisbóta hafi komið í ljós að kærandi hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur sem hafi numið 347.242 kr. vegna ársins 2024.
Bréf vegna endurreiknings sértæks húsnæðisstuðnings hafi verið sent kæranda þann 21. febrúar 2024. Í endurreikningsbréfi komi meðal annars fram fjöldi heimilismanna og leigufjárhæð. Niðurstaða útreiknings miðað við fjölda heimilismanna og leigufjárhæð hafi verið að sértækur húsnæðisstuðningur á mánuði yrði 237.600 kr.
Í framangreindu bréfi hafi athygli kæranda verið vakin á því að það væri á ábyrgð umsækjandans að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til sértæks húsnæðisstuðnings. Einnig hafi verið vakin athygli á því að ef í ljós kæmi við endurreikning að umsækjandi hefði fengið ofgreiddan sértækan húsnæðisstuðning bæri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hefði verið ofgreidd. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni í kjölfarið.
Þann 4. nóvember 2024 hafi afgreiðslu umsóknar kæranda verið frestað þar sem það hafi vantað upplýsingar um leigulok ásamt því að óskað hafi verið eftir staðfestingu á leigugreiðslum.
Þann 13. desember 2024 hafi kærandi sent staðfestingu á leigugreiðslum sem hafi verið eftirfarandi:
„772.200 kr. þann 4. mars 2024
238.600 kr. þann 27. mars 2024
237.600 kr. þann 30. apríl 2024
237.600 kr. þann 2. júní 2024
237.600 kr. þann 1. júlí 2024
237.600 kr. þann 5 ágúst 2024
237.600 kr. þann 3. september 2024
237.600 kr. þann 2 október 2024
237.600 kr. þann 1. nóvember 2024.“
Með tölvupósti, dags. 19. desember 2024, hafi kærandi verið upplýst um að sértækur húsnæðisstuðningur gæti ekki numið hærri fjárhæð en 90% af leigugreiðslu og að leigufjárhæð sú sem kæmi fram í leigusamningi væri sú fjárhæð sem reiknað væri með að umsækjandi væri að greiða. Réttur umsækjanda til sértæks húsnæðisstuðnings byggi meðal annars á leigufjárhæð. Í leigusamningi sé leigufjárhæð skráð 264.000 kr. og 90% af þeirri fjárhæð sé 237.600 kr. Innsend gögn kæranda hafi því sýnt að leigugreiðsla væri lægri en reiknað hefði verið með. Í framangreindu bréfi hafi einnig verið óskað eftir skýringu á greiðslu, dags 4. mars 2024, að fjárhæð 772.200 kr. og sú beiðni verið ítrekuð þann 6. janúar 2025. Kærandi hafi brugðist við samdægurs og sagt að greiðsla að fjárhæð 772.200 kr. hefði verið fyrir leigutímabilið nóvember 2023 til mars 2024. Kærandi hafi einnig greint frá því í sama tölvupósti að það hefði verið samkomulag á milli kæranda og leigusala að styrkurinn yrði greiddur með millifærslu en mismunurinn með reiðufé. Með tölvupósti, dags. 13. janúar 2025, hafi kærandi verið upplýst um það að án gagna til staðfestingar á því að mismunur hefði sannanlega verið greiddur myndi leigufjárhæð á umræddu tímabili vera skráð samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum/gögnum.
Þann 21. janúar 2025 hafi kærandi hringt inn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og tjáð starfsmanni að mismunur hefði verið greiddur með reiðufé. Kærandi hafi verið upplýst um að gögn þyrftu að berast því til staðfestingar svo hægt væri að staðreyna rétt kæranda. Þann 29. janúar 2025 hafi engin frekari gögn borist síðan óskað hefði verið eftir þeim í frestun, dags. 4. nóvember 2024, og lokauppgjör hafi því byggst á fyrirliggjandi upplýsingum/gögnum. Fyrra lokauppgjör hafi verið sent á kæranda þann 29. janúar 2025. Ofgreiddur sértækur húsnæðisstuðningur í fyrra lokauppgjöri hafi verið 445.698 kr. Kærandi hafi í kjölfarið tjáð starfsmanni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar símleiðis að greiðsla, dags. 4. mars 2024, hefði verið vegna leigu á tímabilinu desember 2023 til mars 2024. Lokauppgjör kæranda hafi því verið endurreiknað í samræmi við þær upplýsingar. Niðurstaða nýs lokauppgjörs hafi því verið 347.242 kr.
Í máli þessu sé deilt um lokauppgjör sértæks húsnæðisstuðnings vegna ársins 2024. Samkvæmt niðurstöðu lokauppgjörs hafi kærandi fengið ofgreiddan sértækan húsnæðisstuðning árið 2024 vegna misræmis á milli leigufjárhæðar samkvæmt leigusamningi og greiddri leigu. Kærandi hafi ekki getað sýnt fram á að hún hefði greitt nema hluta leigufjárhæðar, það er aðeins þá fjárhæð sem hafi numið sértækum húsnæðisstuðningi.
Í 2. gr. laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ komi fram að markmið laganna sé að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfi að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. sé húsnæðiskostnaður skilgreindur sem sá hluti leigufjárhæðar sem greiddur sé fyrir leiguafnot af húsnæði.
Í V. kafla laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sé fjallað um útreikning sértæks húsnæðisstuðnings. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um sértækan húsnæðisstuðning ráðist mánaðarleg fjárhæð sértæks húnsæðisstuðnings af fjölda heimilismanna samkvæmt greininni, sbr. þó 14. gr.
Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ komi fram að sértækur húsnæðisstuðningur geti aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af húsnæðiskostnaði vegna viðkomandi húsnæðis. Í 2. mgr. 14. gr. komi svo fram að með húsnæðiskostnaði í lögunum sé átt við þann hluta leigufjárhæðar sem greiddur sé fyrir leiguafnot af húsnæði. Tekið sé fram í greininni að aðrar greiðslur og kostnaðarþættir sem leigjanda beri að greiða samkvæmt samningi eða lögum, svo sem fyrir hita, vatn, rafmagn, hússjóð, viðhald og fleira teljist ekki til húsnæðiskostnaðar í skilningi laganna.
Sú leigufjárhæð sem komi fram í leigusamningi sé sú fjárhæð sem réttur kæranda til sértæks húsnæðisstuðnings byggi á. Eins og áður segi komi fram í leigusamningi um húsnæðið að B að leigufjárhæð skuli vera 264.000 kr. á mánuði og greiðast með millifærslu. Með frestun, dags. 4. nóvember 2024, hafi afgreiðslu umsóknar kæranda verið frestað og óskað hafi verið eftir staðfestingu á leigugreiðslum. Innsend gögn kæranda sýni fram á að leigugreiðsla hafi verið lægri en sú sem hafi verið reiknað með og af þeim sökum hafi stofnast til ofgreiðslu á sértækum húsnæðisstuðningi. Kærandi beri hallann af því að geta ekki lagt fram upplýsingar sem staðfesti að greidd leigufjárhæð hafi verið í samræmi við leigusamning.
Í 11. gr. laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ komi fram að umsækjandi skuli veita Húsnæðis- og mannvirkjastofnun allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað sé eftir og nauðsynlegar séu til að staðreyna rétt hans til sértæks húsnæðisstuðnings.
Í VII. kafla laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sé fjallað um eftirlit og endurreikning sértæks húsnæðisstuðnings. Í 1. mgr. 17. gr. komi fram að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli reglulega sannreyna þær upplýsingar sem ákvörðun um rétt til sértæks húsnæðisstuðnings byggist á. Í 1. mgr. 19. gr. laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ komi fram að hafi umsækjandi fengið hærri sértækan húsnæðisstuðning en honum hafi borið á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að innheimta ofgreiddan sértækan húsnæðisstuðning til kæranda vegna tímabilsins janúar til október 2024 á grundvelli laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
Markmið laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, sbr. 2. gr. laganna. Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að húsnæðiskostnaður sé sá hluti leigufjárhæðar sem greiddur er fyrir leiguafnot af húsnæði, sbr. 14. gr.
Í V. kafla laga nr. 94/2023 er fjallað um útreikning sértæks húsnæðisstuðning. Þar segir í 1. mgr. 13. gr. að mánaðarleg fjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings ráðist af fjölda heimilismanna samkvæmt greininni, sbr. þó 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. laganna segir að sértækur húsnæðisstuðningur geti aldrei numið hærri fjárhæð en jafngildi 90% af húsnæðiskostnaði vegna viðkomandi húsnæðis. Fram til 1. febrúar 2024 var það hlutfall 75%.
Samkvæmt fyrirliggjandi leigusamningi kæranda, dags. 8. febrúar 2024, var leigufjárhæð vegna B, ákveðin 264.000 kr. sem skyldi greiða með millifærslu til leigusala fyrsta dag hvers mánaðar. Fyrir liggur að greiðslur sértæks húsnæðisstuðnings til kæranda á árinu 2024 voru reiknaðar út frá þeirri leigufjárhæð og námu 237.600 kr. á mánuði fyrir tímabilið febrúar til október og 198.000 kr. fyrir janúarmánuð.
Í VII. kafla laga nr. 94/2023 er kveðið á um eftirlit og endurreikning sértæks húsnæðisstuðnings. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli reglulega sannreyna þær upplýsingar sem ákvörðun um rétt til sértæks húsnæðisstuðnings byggist á. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir að hafi umsækjandi fengið hærri sértækan húsnæðisstuðning en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
Í nóvember 2024 var óskað eftir að kærandi legði fram staðfestingu á leigugreiðslum fyrir tímabilið nóvember 2023 til október 2024. Í kjölfarið lagði kærandi fram gögn sem sýndu fram á millifærslur til leigusala að fjárhæð 193.050 kr. fyrir tímabilið janúar til mars 2024 og 237.600 kr. fyrir tímabilið apríl til október 2024. Kærandi vísaði jafnframt til þess að samkomulag hefði verið á milli hennar og leigusala um að fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings yrði greidd með millifærslu en mismunurinn með reiðufé.
Líkt og að framan greinir voru greiðslur sértæks húsnæðisstuðings frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til kæranda reiknaðar út frá því að hún væri að greiða 264.000 kr. í leigu á mánuði með millifærslu til leigusala. Þar sem kærandi gat ekki lagt fram gögn sem staðfestu að svo há fjárhæð hefði verið greidd til leigusala leiddi endurreikningur stofnunarinnar til þeirrar niðurstöðu að ofgreiddur hefði verið sérstakur húsnæðisstuðningur að fjárhæð 347.242 kr. Kæranda ber í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 94/2023 að endurgreiða þá fjárhæð.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu sértæks húsnæðisstuðnings til handa kæranda staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. janúar 2025, um að innheimta ofgreiddan sértækan húsnæðisstuðning A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir