Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 44/2025-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 44/2025

Fimmtudaginn 13. mars 2025

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. desember 2024, um að synja umsókn hennar um húsnæðisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á árinu 2024 á grundvelli umsóknar frá 19. september 2023. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hennar hefði verið frestað þar sem upplýsingar og/eða gögn vantaði. Óskað var eftir tilteknum upplýsingum og gögnum frá kæranda. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. desember 2024, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. janúar 2025. Með bréfi, dags. 23. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 6. febrúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. febrúar 2025. Athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar 2025. Athugasemdir bárust frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 18. febrúar 2025 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. febrúar 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmál er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir kærunni. Í athugasemdum kæranda er tekið fram að hún geti ekki tekið skjáskot úr heimabanka sínum. Þess fyrir utan sé slíkt að mati kæranda brot á friðhelgi einkalífs. Kærandi hafi verið að fá greiðslur frá barnsföður sínum og föður til að borga mismun á leigufjárhæð til þess að enda ekki á götunni með börnin sín. Faðir kæranda hafi síðast borgað mismuninn með peningum og undanfarið hafi kærandi þurft að taka verktakavinnu við þrif eingöngu til þess að komast af. Vegna synjunar um húsnæðisbætur hafi kærandi einnig misst sérstakan húsnæðisstuðning frá félagsþjónustunni.

Kærandi tekur fram að hún hafi verið í mikilli uppgjöf, vonleysi, með endalausa heilsubresti (ofsakvíða) og hræðslu vegna fjárhags eftir synjun um húsnæðisbætur. Kærandi geti ekki misst húsnæði sitt vegna heilsunnar og barna sinna en hún sé að bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði. Kærandi búi ein með börn sín en hún ein geti bannað fólki að koma inn á heimilið. Kærandi hafi rétt á því að fá fjárhagslega aðstoð frá sínu nánasta fólki án þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun refsi henni fyrir að vera tekjulág eða vera til. Kærandi hefði haldið að stofnunin ætti að aðstoða fólk sem hafi ekki mikið á milli handanna. Þá muni kærandi fara fram á greiðslu aftur í tímann, frá og með september 2024.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er vísað til þess að kærð sé ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. desember 2024, um synjun þar sem umbeðin gögn er stofnunin hafi óskað eftir hafi ekki borist. Ekki sé ástæða til að rekja efni kæru nema að því leyti sem gerðar verði athugasemdir við það í greinargerðinni.

Kærandi skilaði inn umsókn um húsnæðisbætur þann 19. september 2023 vegna leigu á húsnæðinu B. Umsókn kæranda hafi verið frestað þann 27. september 2023 vegna ósamræmis á milli tekna og leigufjárhæðar. Í kjölfar frestunar hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist tölvupóstur frá kæranda þar sem ósamræmi hafi verið útskýrt á þann hátt að barnsfaðir kæranda væri að aðstoða hana með það að borga leigu tímabundið. Kærandi var upplýstur um það að upplýsingar væru mótteknar og athygli kæranda hafi verið vakin á því að umsækjendur húsnæðisbóta skyldu veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað væri eftir og nauðsynlegar væru til að staðreyna rétt umsækjenda til húsnæðisbóta. Einnig hafi verið vakin athygli á því að ef kæmi í ljós að umsækjandi hefði vísvitandi veitt rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar eða látið líða hjá að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur skyldi umsækjandi endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd, viðbættu 15% álagi. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 28. september 2023.

Bréf vegna endurreiknings húsnæðisbóta hafi verið send kæranda þann 24. janúar 2024 og þann 22. ágúst 2024. Endurreikningsbréf geymi uppfærða tekju- og eignaáætlun sem sé byggð á nýjustu fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum og taki mið af heildartekjum, þar með talið fjármagnstekjum, heildareignum, ásamt orlofs- og desemberuppbótum. Kæranda hafi verið veitt færi í ofangreindum bréfum að koma að athugasemdum ef hún teldi þær upplýsingar sem notaðar væru við útreikning húsnæðisbóta ekki endurspegla væntanlegar tekjur og eignir ársins 2024. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni frá kæranda í kjölfar áætlana.

Þann 29. nóvember 2024 hafi kæranda verið sent bréf þar sem afgreiðslu umsóknar hafi verið frestað vegna ósamræmis milli tekna og leigufjárhæðar. Þann 29. nóvember 2024 hafi kæranda einnig verið sendur tölvupóstur varðandi frestun þar sem kærandi hafi verið upplýst um það að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefði til skoðunar ósamræmi milli tekna kæranda og leigufjárhæðar og af þeirri ástæðu væri óskað eftir frekari upplýsingum sem skýrt gætu ósamræmið. Óskað hafi verið eftir tekjum sem mögulega kæmu ekki fram á staðgreiðsluskrá, t.d. verktakagreiðslum, tekjum frá eigin atvinnurekstri eða greiðslum sem ekki væru skattskyldar. Jafnframt hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvort aðrir einstaklingar væru búsettir í húsnæðinu og tækju þátt í greiðslu húsaleigu. Kærandi hafi áður greint frá því að barnsfaðir hennar hjálpaði til við að greiða leigu og því hafi einnig verið óskað eftir gögnum sem stutt gætu við þá skýringu. Þann 18. desember 2024 hafi kærandi ekki brugðist við frestun og því hafi verið hringt í kæranda og hún beðin um að skila inn gögnum svo hægt væri að afgreiða umsókn hennar. Í kjölfar símtals hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist tölvupóstur frá kæranda þar sem ósamræmi hafi verið skýrt á þann veg að barnsfaðir kæranda hefði verið að hjálpa henni að greiða leigu á meðan hún biði eftir að fá félagslegt húsnæði. Nú væri staðan breytt og faðir kæranda væri að aðstoða hana við að greiða leigu þar til kærandi fengi úthlutað húsnæði frá félagsþjónustunni. Í kjölfarið hafi kærandi verið upplýst að til að hægt væri að styðjast við þessar skýringar yrði kærandi að skila inn gögnum sem stutt gætu við upplýsingarnar. Að sögn kæranda hafi hún ekki haft nein gögn til þess að útvega. Kærandi hafi verið upplýst um að hægt væri að senda t.d. skjáskot af millifærslum frá barnsföður og föður. Engin svör hafi komið í kjölfar þess tölvupósts. Ákvörðun um synjun hafi verið tekin þann 30. desember 2024 þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist.

Í málinu sé deilt um synjun á umsókn um húsnæðisbætur þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist. Í 24. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur sé framkvæmdaraðila gert heimilt að halda eftir greiðslu húsnæðisbóta sem umsækjanda hafi áður verið ákvörðuð í allt 60 daga frá því að hafi átt að inna greiðsluna af hendi þegar framkvæmdaraðili hafi rökstuddan grun um að umsækjandi eða annar heimilismaður uppfylli ekki lengur skilyrði laganna, hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur eða hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu samkvæmt 14. gr. laga um húsnæðisbætur. Umsókn kæranda hafi verið frestað af þeirri ástæðu að ósamræmi væri á milli tekna og leigufjárhæðar. Fyrirliggjandi tekjuupplýsingar byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi eftirfarandi forsendur verið lagðar til grundvallar til að ákvarða rétt kæranda til húsnæðisbóta:

Leigufjárhæð: 330.000 kr.

Fjöldi heimilismanna: 3.

Heildartekjur allra heimilismanna: 266.731 kr.

Þegar ósamræmi sé á milli leigufjárhæðar og heildartekna allra heimilismanna sé óskað eftir frekari upplýsingum sem skýrt geti ósamræmið. Þetta geti t.d. verið tekjur sem ekki komi fram á staðgreiðsluskrá, t.d. verktakagreiðslur, tekjur frá eigin atvinnurekstri eða greiðslur sem ekki séu skattskyldar. Á opnum samfélagsmiðlum kæranda megi sjá að kærandi sé titluð sem eigandi og forstjóri hjá C sem ætla megi að sé skammstöfun fyrir A. C sé ekki að finna í fyrirtækjaskrá. C hafi síðast auglýst þrifaþjónustu þann 12. janúar 2025 undir símanúmeri X sem sé símanúmer kæranda bæði samkvæmt umsókn um húsnæðisbætur og ja.is. Misræmið gefi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilefni til að ætla að kærandi hafi tekjur sem ekki komi fram og sé því vísvitandi að láta líða hjá að veita nauðsynlegar upplýsingar svo að hægt sé að afgreiða umsókn hennar í samræmi við lög um húsnæðisbætur.

Kærandi hafi verið beðin um staðfestingu á því, í frestunarbréfi frá 29. nóvember 2024, hvort að framangreindar upplýsingar sem hafi verið lagðar til grundvallar væru réttar og athygli kæranda vakin á því að til að unnt væri að meta rétt hennar til húsnæðisbóta þyrftu að liggja fyrir raunhæfar upplýsingar um heildartekjur allra heimilismanna, 18 ára og eldri, leigufjárhæð og fjölda heimilismanna. Kæranda hafi einnig verið tjáð í frestunarbréfi að umbeðin gögn þyrftu að hafa borist Húsnæðis- og mannvirkjastofnun innan 15 daga frá dagsetningu bréfs en að öðrum kosti gæti stofnunin synjað umsókn kæranda.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um húsnæðisbætur komi fram að framkvæmdaraðila sé heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum og gögnum sem hann teldi þörf á til að staðreyna rétt umsækjanda til húsnæðisbóta. Eins og að framan hafi verið rakið hafi margsinnis verið reynt að fá kæranda til að skila inn þeim gögnum sem stofnunin teldi þörf á til að staðreyna rétt hennar til húsnæðisbóta. Umbeðin gögn hafi ekki skilað sér ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir framkvæmdaraðila að fá þau afhent og því hafi umsókn kæranda verið synjað.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. desember 2024, um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur á þeirri forsendu að gögn sem stofnunin hefði óskað eftir með bréfi, dags. 29. nóvember 2024, hefðu ekki borist. Tekið var fram að þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist væri óljóst hvort skilyrði fyrir greiðslum húsnæðisbóta væru uppfyllt samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um meðal annars breytingar á greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði.

Með framangreindu bréfi, dags. 29. nóvember 2024, var kæranda greint frá því að til að unnt væri að ákvarða rétt hennar til húsnæðisbóta þyrftu að liggja fyrir raunhæfar upplýsingar um heildartekjur allra heimilismanna, 18 ára og eldri, leigufjárhæð og fjölda heimilismanna. Óskað var eftir staðfestingu kæranda á því hvort þær forsendur sem stofnunin legði til grundvallar við ákvörðun húsnæðisbóta til hennar væru réttar, þ.e. að leigufjárhæð væri 330.000 kr., fjöldi heimilismanna væru þrír og heildartekjur allra heimilismanna væru 266.731 kr. Þá var óskað eftir að kærandi sendi upplýsingar um skattskyldar mánaðartekjur allra heimilismanna 18 ára og eldri svo unnt væri að meta rétt hennar til húsnæðisbóta.

Fyrir liggur að kærandi greindi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá því að mismun á leigufjárhæð og tekjum mætti rekja til þess að barnsfaðir hennar hefði áður aðstoðað við leigugreiðslu á meðan hún biði eftir félagslegu leiguhúsnæði. Nú væri staðan breytt og faðir kæranda hefði ákveðið að aðstoða hana með leigugreiðslur. Í kjölfarið, eða þann 20. desember 2024, var óskað eftir gögnum frá kæranda sem styddu þær skýringar kæranda vegna tímabilsins janúar til desember 2024. Kærandi upplýsti stofnunina með tölvupósti 30. desember 2024 að hún hefði engin gögn til þess að útvega líkt og hún hefði áður greint frá. Þá tók kærandi fram að barnsfaðir hennar hefði aðstoðað með leigugreiðslur á tímabilinu janúar til nóvember 2024 en frá þeim tíma hefði faðir hennar aðstoðað með bæði húsaleigu og mat. Kærandi vísaði til þess að stofnunin gæti haft samband við föður hennar ef hún hefði fleiri spurningar. Sama dag var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um húsnæðisbætur hefði verið synjað á þeirri forsendu að gögn sem stofnunin hefði óskað eftir með bréfi, dag. 29. nóvember 2024, hefðu ekki borist.

Þar sem kærandi varð ekki við beiðni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um afhendingu gagna til stuðnings framangreindri skýringu sinni lá ekki ljóst fyrir hvort hún uppfyllti skilyrði til greiðslu húsnæðibóta á grundvelli laga nr. 75/2016. Að því virtu og með vísan til upplýsingaskyldu kæranda samkvæmt 14. laganna er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. desember 2024, um að synja umsókn A, um húsnæðisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta