Mál nr. 156/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 156/2025
Fimmtudaginn 8. maí 2025
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 11. mars 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 7. mars 2025, um áframhaldandi áfangasamning vegna félagslegs leiguhúsnæðis.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk úthlutaðu almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði hjá Reykjavíkurborg í ágúst 2024. Kærandi skrifaði undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði fyrir tímabilið 18. ágúst 2024 til 28. febrúar 2025. Á fundi úthlutunarteymis, dags. 12. febrúar 2025, var tekin ákvörðun um að endurnýja ekki leigusamning kæranda vegna vanskila á húsaleigu og húsreglnabrota. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar staðfesti þá ákvörðun á fundi 7. mars 2025.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 11. mars 2025. Með bréfi, dags. 18. mars 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 31. mars 2025, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. apríl 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir kæru en ætla má að kærandi óski eftir að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona sem hafi glímt við langvarandi félagslegan og heilbrigðistengdan vanda. Dóttir kæranda sé í varanlegu fóstri. Kærandi hafi ítrekað leitað til heilbrigðiskerfisins undanfarin ár. Félagsráðgjafi kæranda hafi verið í reglulegum samskiptum við kæranda og reynt að styðja við hana eftir fremsti megni, t.d. með því að mæta með henni í viðtöl hjá þunglyndis- og kvíðateymi göngudeildar geðsviðs Landspítala og í viðtöl til heimilislæknis. Þá hafi kærandi einnig fengið stuðning frá Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar til þess að komast í viðtöl á göngudeild Landspítala. Kærandi hafi ekki sýnt meðferðarheldni og því hafi ekki náðst að greina heilbrigðisvanda hennar.
Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 15. febrúar 2024. Kærandi hafi dvalið í hálft ár í Konukoti þegar henni hafi verið úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði, eða þann 14. ágúst 2024. Hún hafi skrifað undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði fyrir tímabilið 18. ágúst 2024 til 28. febrúar 2025. Í framangreindum samningi komi meðal annars fram að leigutaki skuldbindi sig til þess að standa skil á leigugreiðslum, virða almennar húsreglur í fjölbýli, gæta þess að áfengis- og vímuefnaneysla hamli ekki búsetu og vera í reglulegum samskiptum við félagsráðgjafa sem myndi veita félagslega ráðgjöf og stuðning eftir þörfum. Kærandi hafi kynnst manni á haustmánuðum árið 2024 og þau hafi skráð sig í sambúð í október 2024. Hann hafi flutt inn til kæranda þegar hún hafi fengið úthlutuðu umræddu húsnæði.
Kærandi hafi gert samning um greiðsludreifingu vegna húsaleigugreiðslna fyrir tímabilið 1. september 2024 til 30. september 2024. Þá hafi hún greitt leigu fyrir tímabilið 1. desember 2024 til 31. desember 2024. Fyrir utan framangreind tímabil hafi kærandi ekki greitt húsaleigu og skuldi hún því húsaleigu til Félagsbústaða hf. að upphæð 383.900 kr. sem hafi sent greiðsluáskorun til kæranda. Þá hafi ítrekaðar kvartanir vegna kæranda og sambýlismanns hennar borist til Félagsbústaða hf. vegna slæmrar umgengni í sameign, ósamþykktu dýrahaldi, skemmdum í sameign, óreglu og ónæði sem trufli daglegt líf nágrannanna. Félagsbústaðir hf. hafi sent kæranda tvær aðvaranir, annars vegar þann 10. desember 2024 og hins vegar þann 15. janúar 2025. Á leigutímabilinu hafi verið tvö útköll vegna heimilisofbeldis sem félagsráðgjafar miðstöðva hafi farið í, annars vegar þann 27. október 2024 og hins vegar þann 7. janúar 2025. Málsatvik hafi verið óljós en kærandi hafi fengið fræðslu um ofbeldisþróun í nánum samböndum og hafi verið bent á að leita til Bjarkarhlíðar sem hún hafi ekki gert. Á leigutímabilinu hafi félagsráðgjafi ítrekað mikilvægi þess að greiða húsaleigu og semja um skuldir og farið yfir með kæranda hvaða afleiðingar það hafi að greiða ekki húsaleigu. Þá hafi félagsráðgjafi einnig rætt við kæranda um þær kvartanir sem hafi borist og kærandi hafi reynt að bæta úr því og sé ekki lengur með dýr á heimilinu. Kærandi hafi tekið það nærri sér að hafa valdið ónæði og ekki greitt húsaleigu og sagst ekki hafa gert sér grein fyrir alvarleika þess að greiða ekki húsaleigu.
Mál kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi úthlutunarteymis fyrir almennt félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir og áfangaheimili fyrir einstaklinga sem hætt hafi neyslu og þurfi sérstakan stuðning þann 12. febrúar 2025 og það hafi verið afgreitt með eftirfarandi bókun:
„Vegna vanskila á húsaleigu og húsreglnabrota verður leigusamningur vegna íbúðar X að B, sem úthlutað var sem áfangahúsnæði, ekki endurnýjaður.“
Kæranda hafi verið sent bréf þess efnis, dags. 14. febrúar 2025. Í framangreindu bréfi hafi verið tekið fram að kærandi skyldi rýma umrætt húsnæði eigi síðar en 28. febrúar 2025 en samkvæmt upplýsingum frá félagsráðgjafa Vesturmiðstöðvar hafi hún fengið leyfi frá Félagsbústöðum að vera í íbúðinni til 31. mars 2025. Kærandi hafi skotið framangreindri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 7. mars 2025 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Vesturmiðstöð Reykjavíkurborgar um áframhaldandi áfangasamning vegna vanskila á húsaleigu og húsreglnabrota, skv. 3. mgr. 22. gr. reglna, sbr. 2. og 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.“
Kærandi hafi nú skotið framangreindi synjun til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita og séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.
Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram að félagslegt leiguhúsnæði skiptist í fjóra flokka, þ.e. almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flókar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Um framangreinda flokka húsnæðis sé fjallað í sérköflum reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en mismunandi skilyrði eigi við um hvern flokk húsnæðis.
Frekari skilgreiningu á almennu félagslegu leiguhúsnæði sé að finna í 2. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði sé átt við hverja þá íbúð í eigu Félagsbústaða hf. sem ekki sé sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra, húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt falli undir skilgreininguna húsnæði sem Reykjavíkurborg leigi til einstaklinga þar sem umsýsla sé á vegum Félagsbústaða hf. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis teljist einnig áfangahúsnæði. Sérstaklega sé fjallað um almennt félagslegt leiguhúsnæði í II. kafla reglnanna. en þar komi fram í e. lið 4. gr. að aðstæður einstaklinga skuli metnar til 10 stiga eða meira samkvæmt matsviðmiðum í fylgiskjali eitt með framangreindum reglum. Kærandi hafi verið metin til 11 stiga og þar af fjögur stig í félagslegum vanda sem umsækjandi fái þegar hann/hún glími við fjölþættan vanda sem hafi afgerandi áhrif á húsnæðisstöðu og/eða færni til að leigja á almennum markaði, þrátt fyrir stuðning félagsþjónustu eða annarra viðurkenndra aðila.
Í 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsæði komi eftirfarandi fram:
„Áfangahúsnæði er almennt félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er tímabundið og með skilyrði um samning um eftirfylgd. Almennu félagslegu leiguhúsnæði er úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka eru með þeim hætti að gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi og er úthlutun húsnæðisins tímabundin með tilliti til þess.“
Í framangreindu ákvæði séu settar fram skýringar á því að almennu félagslegu leiguhúsnæði sé úthlutað sem áfangahúsnæði og þá með skilyrði um samning um eftirfylgd. Það sé þegar aðstæður leigutaka séu þess eðlis að hann/hún þurfi á frekari þjónustu að halda frá félagsráðgjöfum Reykjavíkurborgar til að styðja viðkomandi betur í daglegu lífi, sbr. 7. mgr. 19. gr. framangreindra reglna.
Líkt og fram komi í 1. mgr. 22. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði annist Félagsbústaðir hf. eða Reykjavíkurborg frágang leigusamninga og um þá gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994. Um réttarsamband leigutaka og Félagsbústaða hf., eða eftir atvikum Reykjavíkurborgar, gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 og ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Á þeim tíma sem kærandi hafi fengið úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði hafi ákvæði 3. mgr. 22. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði verið svohljóðandi:
„Leigusamningar er varða áfangahúsnæði skulu vera tímabundnir til sex mánaða. Heimilt er að endurnýja leigusamninga vegna áfangahúsnæðis, í kjölfar ákvörðunar á úthlutunarfundi, allt að fimm sinnum. Fullnægi leigutaki þeim kröfum sem gerðar eru í samningi um eftirfylgd að mati úthlutunarfundar og ekki er lengur talin þörf á sérstökum stuðningi ráðgjafa er heimilt að gera leigusamning skv. 2. mgr. 22. gr. reglna þessara.“
Fram komi í greinargerð félagsráðgjafa kæranda að hún hafi glímt við langvarandi félagslegan og heilbrigðistengdan vanda og því væri ráðlagt að hún fengi úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði til að styðja sem best við hana í búsetunni. Líkt og fram hafi komið hafi ítrekaðar kvartanir borist vegna kæranda og sambýlismanns hennar til Félagsbústaða hf. vegna slæmrar umgengni í sameign, ósamþykktu dýrahaldi, skemmdum í sameign, óreglu og ónæði sem trufli daglegt líf nágrannanna. Þá hafi kærandi verið með húsaleiguskuld að upphæð 383.900 kr. þar sem hún hafi einungis greitt húsaleigu í tvo mánuði á umræddum leigutíma.
Með bréfi Félagsbústaða hf., dags. 10. desember 2024, hafi kæranda verið send aðvörun og áminning vegna ætlaðra brota á leigusamningi, húsreglum og húsaleigulögum nr. 36/1994. Fram hafi komið að um væri að ræða óreglu og ónæði sem trufli daglegt líf nágranna. Kæranda hafi því verið send framangreind aðvörun og áminning vegna framangreindra brota með vísan til 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og 12. gr. leigusamnings aðila. Tekið hafi verið fram að ef ekki yrði orðið við áskorun um úrbætur án tafar þá hefði velferðarsvið Reykjavíkurborgar heimild til að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, sbr. 25. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Einnig hafi verið vakin athygli á því að skilyrði og forsenda fyrir leigusamningi væri að ekki hafi verið fallið frá ákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, auk þess sem að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis myndi leiða til þess að Félagsbústaðir hf. myndu rifta leigusamningi í beinu framhaldi án frekari viðvörunar. Með bréfi, dags. 15. janúar 2025, hafi kæranda verið send önnur sambærileg aðvörun frá Félagsbústöðum hf.
Í 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sé að finna almenn ákvæði um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis og í 8. og 9. mgr. 19. gr. reglnanna segi:
„Ákvörðun um úthlutun er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um er að ræða skilyrta stjórnvaldsákvörðun þar sem gert er að skilyrði að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, fari að þeim ákvæðum sem gilda samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.
Heimilt er að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun sé skilyrðum reglna þessara ekki lengur fullnægt. Sama gildir ef eigi er farið að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 eða ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.“
Sérstaklega sé vikið að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun húsnæðis í 25. gr. reglnanna en þar segi að réttur Reykjavíkurborgar til afturköllunar ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé bundinn við þau tilvik þegar leigutaki uppfylli ekki skilyrði reglnanna eða brjóti gegn ákvæðum leigusamnings, þjónustusamnings/dvalarsamnings eða ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 að öðru leyti. Þá komi fram í 2. mgr. 25. gr. reglnanna að afturköllun ákvörðunar um úthlutun félaglegs leiguhúsnæðis sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sú ákvörðun geti eftir atvikum leitt til uppsagnar eða riftunar á húsaleigusamningi. Um uppsögn og riftun gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994.
Með bréfum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 10. desember 2024 og 15. janúar 2025, hafi kæranda verið tilkynnt um fyrirhugaða afturköllun úthlutunar þar sem vísað hafi verið til framangreindrar aðvörunar Félagsbústaða hf. og að borist hefðu tilkynningar um óreglu og ónæði sem trufli daglegt líf nágranna. Kæranda hafi því verið sendar framangreindar aðvaranir og áminningar vegna framangreindra brota með vísan til 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og 12. gr. leigusamnings aðila.
Í 8. tölul. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 komi fram að leigusala sé heimilt að rifta leigusamningi ef leigjandi vanrækir, þrátt fyrir skriflegar áminningar leigusala, skyldur sínar til að sjá um að góð regla og umgengni haldist í hinu leigða húsnæði, sbr. 30. gr. húsaleigulaga, eða gerist sekur um persónulega meingerð gagnvart leigusala eða fjölskyldu hans.
Í 12. gr. húsaleigusamnings kæranda og Félagsbústaða hf. komi meðal annars fram að við vanefndir á leigusamningi vegna ónæðis, vanskila eða annarra samnings- eða lögbrota gagnvart leigusala eða öðrum íbúum og í kjölfar aðvarana og áskorana geti, til viðbótar við úrræði leigusala samkvæmt leigusamningi og lögum, komið til afturköllunar á stjórnvaldsákvörðun um úthlutun af hálfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Einnig komi fram í 8. gr. húsaleigusamnings kæranda og Félagsbústaða hf. að leigjanda sé skylt að ganga vel og snyrtilega um hið leigða húsnæði og gæta settra reglna og góðra venja um hreinlæti, hollustuhætti, dýrahald og heilbrigði. Þá segi einnig í 8. gr. samningsins að leigjanda beri að fara í einu og öllu að settum húsreglum í fjöleignarhúsum og gæta þess að raska ekki ró annarra íbúa að óþörfu. Einnig sé leigjanda skylt að sjá til þess að heimilisfólk hans og gestir virði reglur um umgengni.
Þá sé í bréfum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 10. desember 2024 og 15. janúar 2025, vísað til framangreindra ákvæða 8. og 9. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hvað varði að ákvörðun um úthlutun sé skilyrt stjórnvaldsákvörðun sem sé háð því að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari að þeim ákvæðum sem gildi samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði. Heimilt sé að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun leiguhúsnæðis ef skilyrðum þar að lútandi sé ekki lengur fullnægt. Það sama gildi ef eigi sé farið að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 eða ákvæðum leigusamnings um viðkomandi húsnæði.
Með framangreindum bréfum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 10. desember 2024 og 15. janúar 2025, hafi kæranda verið veittur 10 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma að athugasemdum í samræmi við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar hafi einnig komið fram að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis muni leiða til þess að Félagsbústaðir hf. muni rifta leigusamningi í beinu framhaldi án frekari viðvörunar ásamt því að krefjast rýmingu íbúðar með skömmum fyrirvara. Félagsráðgjafi kæranda hafi verið í reglulegum samskiptum við kæranda og hafi ítrekað mikilvægi þess að greiða leigu og semja um skuldir. Þá hafi félagsráðgjafi hennar rætt við hana um framangreindar kvartanir og kvaðst hún ætla að bæta sitt ráð en hún væri ekki lengur með dýr í íbúðinni.
Eins og að framan sé rakið hafi mál kæranda verið tekið fyrir á fundi úthlutunarteymis fyrir almennt félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir og áfangaheimili fyrir einstaklinga sem hætt hafi neyslu og þurfi sérstakan stuðning þann 12. febrúar 2025. Á framangreindum fundi hafi verið tekin sú ákvörðun að endurnýja ekki leigusamning vegna íbúðar B, sem hafi verið úthlutað sem áfangahúsnæði, vegna vanskila á húsaleigu og húsreglnabrota.
Fyrir liggi að ítrekaðar tilkynningar hafi borist til Félagsbústaða hf. frá nágrönnum vegna kæranda og sambýlismanns hennar á tímabilinu 18. ágúst 2024 til 28. febrúar 2025. Skriflegar tilkynningar til Félagsbústaða hf. liggi fyrir en þær séu ekki afhentar með gögnum málsins þar sem þær innihaldi persónugreinanlegar upplýsingar um tilkynnendur. Tilkynningarnar hafi lotið að óreglu, ónæði og truflun á daglegu lífi nágranna.
Þann 14. febrúar 2025 hafi kæranda verið tilkynnt af hálfu úthlutunarteymis fyrir almennt félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir og áfangaheimili fyrir einstaklinga sem hætt hafi neyslu og þurfi sérstakan stuðning úthlutun að leigusamningur vegna íbúðar B, sem hafi verið úthlutað sem áfangahúsnæði yrði ekki endurnýjaður. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að húsaleigusamningur hennar myndi renna út 28. febrúar 2025 og að skila bæri lyklum til Félagsbústaða hf. Kæranda hafi verið leiðbeint um að unnt væri að skjóta ákvörðuninni til áfrýjunarnefndara velferðarráðs. Samkvæmt upplýsingum frá félagsráðgjafa Vesturmiðstöðvar hafi kærandi fengið leyfi frá Félagsbústöðum að vera áfram í íbúðinni til 31. mars 2025.
Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun starfsmanna á Vesturmiðstöð, dags. 14. febrúar 2025, um áframhaldandi áfangasamning vegna vanskila á húsaleigu og húsreglnabrota samkvæmt 3. mgr. 22. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg, sbr. 2. og 19. gr. framangreindra reglna.
Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ákvæðum annarra laga eða reglna. Þá telji áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að endurnýja ekki leigusamning kæranda vegna félagslegs leiguhúsnæðis.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.
Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 1. mgr. 2. gr. kemur fram að með félagslegu leiguhúsnæði sé átt við almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir aldraðra.
Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði sé átt við hverja þá íbúð í eigu Félagsbústaða hf. sem ekki sé sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra, húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt falli þar undir húsnæði sem Reykjavíkurborg leigi til einstaklinga þar sem umsýsla sé á vegum Félagsbústaða hf. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis teljist einnig áfangahúsnæði. Áfangahúsnæði sé almennt félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað sé tímabundið og með skilyrði um samning um eftirfylgd. Almennu félagslegu leiguhúsnæði sé úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka séu með þeim hætti að gera verði kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur sé í gildi og úthlutun húsnæðisins sé tímabundin með tilliti til þess.
Fyrir liggur að kærandi fékk úthlutuðu húsnæði að B sem áfangahúsnæði. Kærandi skrifaði undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði 19. ágúst 2024 með gildistíma til 28. febrúar 2025. Í 2. mgr. 5. gr. samningsins kemur fram að þjónusta og eftirfylgd við leigutaka felist í eftirfarandi þáttum:
„Leigutaki skal standa skil á leigugreiðslum.
Leigutaki skal virða almennar húsreglur í fjölbýli.
Leigutaki skal gæta þess að áfengis- og vímuefnaneysla hamli ekki búsetu hans í almennu félagslegu leiguhúsnæði.
Vera í reglulegum samskiptum við félagsráðgjafa á tímabilinu sem veitir félagslega ráðgjöf og stuðning í búsetu.“
Í 7. gr. framangreinds samnings er fjallað um lok samnings. Þar kemur meðal annars fram í 1. mgr. að ef leigutaki fari ekki að þeim skilyrði sem fram komi í samningi um eftirfylgd og þiggi ekki þá þjónustu og eftirfylgd sem samningurinn kveði á um geti samningurinn og húsaleigusamningur fallið tafarlaust úr gildi án undanfarandi uppsagnar eða riftunar, sbr. 3. mgr. 2. gr. og a. lið 3. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, sbr. einnig fráviksákvæði í húsaleigusamningi. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. að samningur um eftirfylgd sé hluti af húsaleigusamningi leigutaka um húsnæði og að ákvæði hans gangi framar leigusamningnum sem málefnaleg skilyrði með heimild í 3. mgr. 2. gr. og a. lið 3. gr. húsaleigulaga. Uppsögn á samningnum samsvari uppsögn á húsaleigusamningi.
Í 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er fjallað almennt um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Þar segir í 8. mgr. að ákvörðun um úthlutun sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða skilyrta stjórnvaldsákvörðun þar sem gert sé að skilyrði að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, fari að þeim ákvæðum sem gildi samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði. Þá segir í 9. mgr. 19. gr. að heimilt sé að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun sé skilyrðum reglnanna ekki lengur fullnægt. Sama gildi ef eigi sé farið að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 eða ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.
Í 25. gr. framangreindra reglna er kveðið á um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun húsnæðis. Þar segir í 1. mgr. að réttur Reykjavíkurborgar til afturköllunar ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé bundinn við þau tilvik þegar leigutaki uppfylli ekki skilyrði reglnanna eða brjóti gegn ákvæðum leigusamnings, þjónustusamnings/dvalarsamnings eða ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 að öðru leyti. Þá segir í 2. mgr. að afturköllun ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afturköllun ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis geti eftir atvikum leitt til uppsagnar eða riftunar á húsaleigusamningi. Um uppsögn og riftun gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994.
Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að ítrekaðar kvartanir hafi borist vegna kæranda og sambýlismanns hennar til Félagsbústaða hf. vegna slæmrar umgengni í sameign, ósamþykktu dýrahaldi, skemmdum í sameign, óreglu og ónæði sem trufli daglegt líf nágrannanna. Þá nemi húsaleiguskuld kæranda 383.900 kr. þar sem hún hafi einungis greitt húsaleigu í tvo mánuði á leigutímanum. Fyrir liggur að kæranda var tvívegis send aðvörun og áminning vegna ætlaðra brota á leigusamningi, húsreglum og húsaleigulögum nr. 36/1994, sbr. bréf til hennar frá 10. desember 2024 og 15. janúar 2025.
Að virtum framangreindum upplýsingum er ljóst að kærandi fór ekki að þeim skilyrðum sem sett voru í samning þann sem hún skrifaði undir 19. ágúst 2024. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að synja kæranda um áframhaldandi áfangasamning vegna félagslegs leiguhúsnæðis að B. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 7. mars 2025, um að synja A, um áframhaldandi áfangasamning vegna félagslegs leiguhúsnæðis, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir