Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 382/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 382/2020

Fimmtudaginn 12. nóvember 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. ágúst 2020, kærði A, ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 27. júlí 2020, um að synja umsókn hans um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu janúar til júní 2019. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 22. júní 2020, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2019 þar sem fram kom að hann hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 45.612 kr. Kærandi sótti um niðurfellingu skuldarinnar og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 27. júlí 2020, var þeirri beiðni synjað þar sem skilyrði 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 6. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 24. ágúst 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn og hafi ákveðið að láta reyna á hvort sú ákvörðun að fjárfesta aleigu sinni í eigið húsnæði og þar með hætta að þiggja húsnæðisbætur gæti talist sem „sérstakar aðstæður“ og fá kröfuna fellda niður að fullu eða að hluta til.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi þegið húsnæðisbætur frá janúar til júní 2019, samtals að fjárhæð 153.234 kr. Á því tímabili hafi útreikningur húsnæðisbóta byggt á fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum um tekjur og eignir kæranda og heimilismanna hans, auk þess sem kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við áætlanirnar teldi hann að þær upplýsingar sem aflað hefði verið væru rangar, sbr. endurreikningsbréf frá 22. janúar og 17. apríl 2019. Þann 22. júní 2020 hafi kæranda verið sent bréf vegna lokauppgjörs húsnæðisbóta ársins 2019. Í bréfinu komi fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur á fyrrnefndu ári að fjárhæð 45.612 kr. og að skuldin væri tilkomin vegna vanáætlunar á heildartekjum. Þann 24. júní 2020 hafi kærandi sótt um niðurfellingu á umræddri kröfu. Í framhaldi hafi umsókn kæranda verið tekin til afgreiðslu þar sem lagt hafi verið heildarmat á aðstæður hans og niðurstaðan hafi verið sú að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til niðurfellingar samkvæmt 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Kærandi hafi óskað eftir niðurfellingu á kröfunni vegna fjárhagslegra aðstæðna og vísað til þess að hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

HMS tekur fram að húsnæðisbætur séu greiddar á grundvelli áætlunar um tekjur og eignir á viðkomandi ári eða bótatímabili samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Við gerð slíkrar áætlunar afli HMS upplýsinga frá opinberum aðilum, þar með talið skattyfirvöldum, samkvæmt 1. mgr. 15. gr., auk þess sem umsækjandi beri ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart HMS um að slík áætlun endurspegli raunverulegar upplýsingar um tekjur og eignir heimilismanna hans, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna. Í ákvæðinu komi fram að umsækjandi skuli upplýsa HMS ,,um allar breytingar sem verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta[…]“.

Í 26. gr. laga um húsnæðisbætur og 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 sé kveðið skýrt á um þá meginreglu að HMS skuli innheimta ofgreiddar húsnæðisbætur. Undantekningu frá meginreglu sé að finna í 3. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar varðandi þær kröfur sem myndist vegna ofgreiddra húsnæðisbóta. Samkvæmt því ákvæði skuli fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, að teknu tilliti til greiðslugetu hans, og hins vegar á því hvort viðkomandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi þegið hinar ofgreiddu húsnæðisbætur. Þar sem ákvæðið sé undanþáguheimild beri samkvæmt almennri lögskýringu að skýra það þröngt og eftir orðanna hljóðan.

Eins og áður hafi komið fram sé umrædd krafa tilkomin vegna vanáætlunar á tekjum kæranda sem hafi reynst hærri en tekjuáætlanir á bótatímabilinu hafi gert ráð fyrir. Þegar umsókn kæranda um niðurfellingu á kröfunni hafi verið tekin til umfjöllunar hjá HMS þann 27. júlí 2020 hafi farið fram heildstætt mat á aðstæðum hans og hvort tilefni væri til niðurfellingar á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Við afgreiðslu málsins hafi verið farið yfir fyrirliggjandi gögn, svo sem ástæður ofgreiðslna, upplýsingar frá Skattinum um tekjur og eignir, upplýsingar úr tölvukerfi húsnæðisbóta um kæranda og heimilismenn hans, auk þeirra upplýsinga sem kærandi hafi framvísað samhliða umsókninni.

Niðurstaða matsins hafi verið sú að þegar ráðstöfunartekjur kæranda og heimilismanna hans séu skoðaðar í samanburði við mánaðarleg útgjöld, að teknu tillit til fjárhæðar kröfunnar, hafi kærandi fjárhagslegt svigrúm til þess að greiða umrædda kröfu, sbr. greiðslumat, dags. 27. júlí 2020. Þá verði ekki séð af fyrirliggjandi gögnum að félagslegar aðstæður kæranda séu þess eðlis að tilefni sé til niðurfellingar á þeim grundvelli, enda hafi ekkert komið fram í málinu sem gefi til kynna að kærandi búi við sérstakar félagslegar aðstæður. Hvort kærandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn árétti HMS að stofnunin greiði húsnæðisbætur á grundvelli áætlunar um tekjur og eignir, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur. Við gerð slíkrar áætlunar sé umsækjanda ávallt gefinn kostur á að koma að athugasemdum telji hann að þær upplýsingar sem HMS afli frá opinberum aðilum séu rangar, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna og 17. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Á bótatímabili kæranda vegna ársins 2019 hafi kæranda í tvígang verið birt ný tekjuáætlun og honum gefinn kostur á að andmæla fyrirliggjandi tekjuupplýsingum, sbr. endurreikningsbréf frá 22. janúar og 17. apríl 2019. Samkvæmt samskiptasögu í tölvukerfi húsnæðisbóta hafi kærandi í hvorugt skiptið haft samband við HMS til að andmæla áætluninni og því verði ekki séð að hann hafi sinnt lögbundinni upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu verði ekki séð að skilyrðið um góða trú sé uppfyllt í máli þessu, enda verði að meta slíkt í ljósi ábyrgðar kæranda á því að sinna upplýsingaskyldu sinni og að veita réttar tekjuupplýsingar hverju sinni, enda sé það á hans ábyrgð að vera meðvitaður um ef tekjur taka breytingum. HMS bendir jafnframt á að kærandi hafi áður óskað eftir niðurfellingu á endurgreiðslukröfu sem hafi verið tilkomin vegna ofgreiddra húsnæðisbóta ársins 2018.

Miðað við það hefði kærandi átt að vera vel meðvitaður um mikilvægi þess að upplýsa HMS um þær breytingar sem hafi orðið á tekjum heimilisins á umræddu bótatímabili. Enn fremur hafi kærandi allan tímann haft greiðan aðgang að öllum upplýsingum um húsnæðisbætur sínar inni á ,,mínum síðum“ á hms.is. Þar geti hann séð greiðsluyfirlit yfir mánaðarlegar greiðslur stofnunarinnar og hvaða tekjuforsendur liggi til grundvallar greiðslum húsnæðisbóta hverju sinni. Á síðunni sé einnig hægt að senda inn nýjar upplýsingar ásamt tilheyrandi gögnum.

Í kærunni komi fram að kærandi vilji jafnframt láta reyna á hvort sú ákvörðun að fjárfesta í eigin húsnæði og hætta þar með að þiggja húsnæðisbætur geti talist sem sérstakar aðstæður og fá þar með kröfuna fellda niður að fullu eða að hluta. HMS bendir á að ofgreiddar húsnæðisbætur vegna ársins 2019 séu tilkomnar vegna vanáætlunar á tekjum kæranda og heimilismanna hans á sjálfu bótatímabilinu, þ.e. tímabilinu sem kærandi hafi verið í leiguhúsnæðinu. Það að hann taki ákvörðun um að kaupa fasteign og hætti að þiggja húsnæðisbætur hafi ekkert með tilvist kröfunnar að gera og teljist því ekki sérstakar aðstæður að mati HMS í máli þessu.

Með vísan til alls ofangreinds telji HMS ekki forsendur til að breyta ákvörðun sinni. HMS hafi lagt heildarmat á aðstæður kæranda á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Að teknu tilliti til fjárhæðar kröfunnar hafi það verið mat stofnunarinnar að skilyrði 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 væri ekki uppfyllt í máli þessu. Að lokum bendir HMS á að þegar greinargerðin hafi verið rituð hafi kærandi þegar greitt upp umrædda kröfu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta á árinu 2019.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr. og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er honum skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um meðal annars breyttar tekjur á bótagreiðsluári sem hafa áhrif á bótarétt.

Í 25. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Sú skylda er áréttuð í 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur en í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um undantekningu frá þeirri meginreglu. Þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur húsnæðisbóta skv. 25. gr. laga um húsnæðisbætur leiði í ljós að húsnæðisbætur hafi verið ofgreiddar er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] heimilt að falla frá kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd var að fullu eða að hluta og afskrifa hana ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi sem mæla með því. Í því sambandi skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna. Hið sama gildir um dánarbú umsækjanda, eftir því sem við á.“

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu janúar til júní 2019. Við lokauppgjör ársins 2019 kom í ljós að kærandi hafði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 45.612 kr. vegna vanáætlunar á heildartekjum. Í kjölfar umsóknar kæranda um niðurfellingu skuldarinnar fór fram heildstætt mat á aðstæðum hans og hvort tilefni væri til niðurfellingar á grundvelli framangreindrar 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Niðurstaða matsins var sú að kærandi hefði fjárhagslegt svigrúm til þess að greiða kröfuna og að félagslegar aðstæður hans væru ekki þess eðlis að tilefni væri til niðurfellingar á þeim grundvelli. Þá var það mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að kærandi hefði ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þar sem hann hafi ekki veitt stofnuninni réttar tekjuupplýsingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat stofnunarinnar. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 75/2016 er meginreglan sú að endurgreiða ber ofgreiddar húsnæðisbætur. Undantekningu frá þeirri meginreglu ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 27. júlí 2020, um að hafna umsókn A, um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira