Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 573/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 573/2023

Fimmtudaginn 22. febrúar 2024

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. nóvember 2023, um að synja umsókn hennar um húsnæðisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. nóvember 2023, sótti kærandi um húsnæðisbætur. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. nóvember 2023, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að heimilismaður væri eigandi leiguhúsnæðis.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 7. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. desember 2023. Frekari gögn bárust frá kæranda 15. desember 2023 og voru þau kynnt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um húsnæðisbætur hafi verið synjað á þeim grundvelli að eigendur fasteignarinnar sem hún leigi séu einnig búsettir þar. Eigendur fasteignarinnar séu börnin hennar tvö sem hafi erft fasteignina eftir föður sinn. Kærandi sé með löglegan húsaleigusamning og börnin hafi fjárhaldsmann sem sjái um þeirra fjármál. Kærandi hafi sjálf óskað eftir því að börnin hefðu hlutlausan fjárhaldsmann sem hafi verið skipaður af Sýslumanninum á Suðurnesjum.

Kærandi sé einstæð móðir með tvö börn á framfæri og greiði 200.000 kr. í húsaleigu á mánuði, auk rafmagns- og hitakostnaðar. Kærandi óski eftir því að fá greiddar húsnæðisbætur.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 1. nóvember 2023 vegna leigu á húsnæðinu að B. Þann 3. nóvember 2023 hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hefði verið móttekin en að ákveðin gögn/upplýsingar vantaði í umsóknina til að hægt væri að afgreiða hana. Í því bréfi hafi komið fram að það atriði sem þarfnaðist athugunnar væri að leigusali væri með lögheimili í hinu leigða húsnæði. Sama dag eða þann 3. nóvember 2023 hafi einnig verið sent frestunarbréf þar sem greint hafi verið frá því að húsnæðisbætur væru ekki veittar þegar einhver heimilismanna sé eigandi íbúðarhúsnæðis. Óskað hafi verið eftir skriflegri afstöðu frá kæranda ásamt gögnum því til stuðnings samkvæmt 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. 15 daga frestur hafi verið veittur til að skila inn gögnum.

Þann 14. nóvember 2023 hafi kærandi haft samband við stofnunina með tölvupósti og útskýrt ástæður þess að eigendur leiguhúsnæðisins væru einnig heimilismenn. Kærandi hafi verið upplýst um það í tölvupósti að miðað við núverandi aðstæður, sem sagt að eigandi húsnæðisins væri heimilismaður væru engin frekari gögn sem vantaði og kæranda hafi því verið boðið upp á það að staðfesta að ekkert væri að fara að breytast í þeim efnum til að hægt væri að flýta fyrir ferlinu. Kærandi hafi staðfest það með tölvupósti þann 24. nóvember 2023 að ekkert væri að fara að breytast. Í kjölfarið, eða þann 24. nóvember 2023, hafi kæranda verið sent synjunarbréf þar sem fram hafi komið að umsókn væri hafnað þar sem heimilismaður væri einnig eigandi leiguhúsnæðis.

Í máli þessu sé deilt um synjun húsnæðisbóta vegna þess að heimilismaður sé einnig eigandi að leiguhúsnæði. Samkvæmt e. lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur verða húsnæðisbætur ekki veittar þegar einhver heimilismanna er eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis. Engar undanþágur séu gefnar frá þessu ákvæði og því sé ekki hægt að verða við því að veita húsnæðisbætur þegar einhver heimilismanna sé eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. nóvember 2023, um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að heimilismaður væri eigandi leiguhúsnæðis.

Í 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta. Samkvæmt e. lið 3. mgr. 9. gr. verða húsnæðisbætur ekki veittar þegar einhver heimilismanna er eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis. Heimilismenn eru allir þeir sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði, sbr. 3. tölul. 3. gr. laganna.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 75/2016 segir svo um hugtakið heimilismenn:

„Með heimilismönnum er átt við alla þá einstaklinga sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði í skilningi 2. tölul., sbr. einnig 10. gr. frumvarpsins, án tillits til innbyrðis tengsla þeirra á milli eða aldurs þeirra. Er því ekki gert að skilyrði að sérstök fjölskyldu- eða hjúskapartengsl séu á milli heimilismanna heldur miðað við að þeir séu sannanlega búsettir í umræddu íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili eða, eftir atvikum, hafi þar tímabundið aðsetur í skilningi 10. gr. frumvarpsins. Vísast í því sambandi til athugasemda við 2. tölul. þessarar greinar þar sem nánar er fjallað um inntak búsetu í skilningi frumvarpsins.“

Fyrir liggur að kærandi er með húsaleigusamning við ólögráða syni sína sem erfðu fasteignina sem um ræðir eftir föður sinn. Synir kæranda eru bæði eigendur leiguhúsnæðisins og búsettir þar. Af ákvæði e. liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 er ljóst að húsnæðisbætur verða ekki veittar þegar einhver heimilismanna er eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis en enga undanþágu frá þeirri reglu er að finna í lögunum. Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. nóvember 2023, um að synja umsókn A, um húsnæðisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum