Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 634/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 634/2021

Fimmtudaginn 27. janúar 2022

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 24. ágúst 2021, um að synja umsóknum hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Kópavogsbæ fyrir mars og apríl 2021 með umsókn, dags. 30 apríl 2021. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun teymisfundar 5. maí 2021 með vísan til 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Með umsókn, dags. 18. maí 2021, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð fyrir maímánuð 2021. Þeirri umsókn var synjað með ákvörðun teymisfundar 26. maí 2021, einnig með vísan til 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Sama dag áfrýjaði kærandi niðurstöðu teymisfundar frá 5. maí 2021 til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem staðfesti synjunina með ákvörðun, dags. 1. júní 2021. Þann 9. júní 2021 áfrýjaði kærandi niðurstöðu teymisfundar frá 26. maí 2021 til velferðarráðs Kópavogsbæjar. Með bréfi, dags. 15. júní 2021, var kæranda tilkynnt að velferðarráð hefði daginn áður tekið fyrir áfrýjarnir hans vegna fjárhagsaðstoðar fyrir mars, apríl og maí 2021. Velferðarráð hefði ákveðið að fresta afgreiðslu málsins og óska eftir nánari upplýsingum frá kæranda. Því erindi svaraði kærandi með bréfi, dags. 23. júní 2021. Með bréfi, dags. 30. júní 2021, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir á ný á fundi 28. júní 2021 og ákvörðun tekin um að fresta afgreiðslu þess þar sem fullnægjandi upplýsingar og gögn hefðu ekki borist. Því erindi svaraði kærandi með bréfi, dags. 19. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt um synjun á umsóknum hans um fjárhagsaðstoð fyrir mars, apríl og maí 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 24. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 1. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst 13. desember 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. desember 2021. Athugasemdir bárust 17. desember 2021 og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir mars, apríl og maí 2021 í samræmi við „Reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð“ með rafrænum umsóknum. Með bréfum frá velferðarsviði hafi þeim umsóknum verið synjað með vísan til 18. gr. framangreindra reglna á grundvelli umframeigna, þrátt fyrir að kærandi hafi ýtarlega gert grein fyrir því að bankareikningur og innistæða sem skráð sé á hans nafn sé rekstrarreikningur stórfjölskyldu þar sem hann sé gjaldkeri fyrir sameiginlega landareign stórfjölskyldunnar og innistæðan ekki nýtanleg honum til framfærslu. Vottorð valinkunnra einstaklinga sem hafi aðgang að gögnum í þessu samhengi beri vott um heiðarleika umsækjanda og jafnframt sé rökstuðningur staðfestur með áritun frá löggiltum endurskoðanda.

Synjunum hafi verið áfrýjað til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem í fyrstu hafi staðfest synjun fyrir mars og apríl en svo tekið þá synjun til nánari skoðunar og í tvígang óskað eftir ýtarlegri upplýsingum sem kærandi hafi svarað af kostgæfni. Velferðarráð hafi svo endanlega hafnað umsóknum fyrir mars, apríl og maí í bréfi sem hafi borist kæranda 30. ágúst 2021 með óljósum rökstuðningi sem standist ekki skoðun miðað við ýtarleg innsend gögn frá kæranda. Kærandi kæri þá ákvörðun Kópavogsbæjar, enda sé hún í andstöðu við reglur Kópavogsbæjar og samrýmist engan veginn ásættanlegri stjórnsýslu sveitarfélags. Þá geri kærandi alvarlegar athugasemdir við lögbundið þjónustuhlutverk Kópavogsbæjar og leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu við erfiðar félagslegar aðstæður kæranda þegar samskiptin hafi átt sér stað vor og sumar 2021. Kærandi telji einnig að framkoma velferðarsviðs hafi verið það svívirðileg að hún feli í sér alvarlegt brot á stjórnsýslulögum og eftir atvikum almennum hegningarlögum.

Kærandi hafi frá upphaflegri umsókn um fjárhagsaðstoð ávallt greint nákvæmlega og heiðarlega frá sínum fjárhagslegu aðstæðum. Í öllum synjunum velferðarsviðs og staðfestingum velferðarráðs á þeim byggi rökstuðningur á að kærandi uppfylli ekki skilyrði um fjárhagsaðstoð vegna umframeignar á bankareikningi og þar sé vísað í 18. gr. í reglum bæjarins. Því líti kærandi svo á að hann uppfylli öll skilyrði um fjárhagsaðstoð ef frá sé talið ákvæði í 18. gr. er lúti að nefndum innistæðum. Þrátt fyrir að kærandi hafi greint ýtarlega frá tilurð, tilgangi og ráðstöfun á innistæðum bankareiknings nr. X og rökstutt það með ýtarlegum gögnum hafi Kópavogsbær endurtekið virt þær skýringar að vettugi, án rökstuðnings. Bankareikningur nr. X sé rekstrarreikningur fjölskyldu og ekki eign kæranda. Fyrir nokkrum árum hafi kærandi fengið smávægilegan eignarhlut í tveimur landareignum í B í arf eftir móður. Enginn búskapur sé á landareignunum en eignirnar skili tekjum vegna laxveiði og stórfjölskyldan nýti þær sem frístundaland. Eigendur séu sjö talsins og þeir séu með þinglýst eigendasamkomulag um að ekki sé heimilt að selja einstaka hluta landsins til þriðja aðila. Kærandi hafi undanfarin ár verið gjaldkeri fjölskyldunnar fyrir umsýslu eignanna og séð um að innheimta tekjur og greiða kostnað sem af þeim hljótist ásamt viðhaldi á gömlum húsum. Til þess að standa undir því hlutverki sé óhjákvæmilegt að vera með bankareikning og sá reikningur sé nr. X í C. Þessi reikningur sé því sameiginlegur sjóðsreikningur vegna landareignanna og sé ekki til ráðstöfunar í eigin þágu kæranda. Þar sem landareign hafi ekki sjálfstæða kennitölu í Þjóðskrá og ekki sé félag um eignirnar sé þessi reikningur óhjákvæmilega skráður á nafn kæranda sem sé gjaldkeri fyrir fjölskylduna, sambærilegt og gjaldkeri í húsfélagi eða íþróttafélagi.

Kærandi hafi haft nokkrar tekjur vegna framangreindra eigna og réttilega gert grein fyrir tekjum upp á 155.556 kr. í febrúar í rafrænum umsóknum til Kópavogsbæjar. Þá geri kærandi grein fyrir skattskyldum tekjum af sínum eignarhluta á skattframtali í samræmi við lög um tekju- og eignarskatt. Að öðru leyti sé innistæðan ekki til ráðstöfunar fyrir kæranda til persónulegra útgjalda. Talsverð fjármunavelta sé á reikningi X og innistæða á einstökum tímapunktum eftir því. Skýrt sé að kærandi hafi ekki heimild til að ráðstafa innistæðu á reikningi nr. X í þágu persónulegra útgjalda, enda væri hann með því að fremja fjársvik gagnvart sameigendum sínum. Út frá framangreindum rökstuðningi sé það krafa kæranda að við mat á rétti hans til fjárhagsaðstoðar með hliðsjón af 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð verði bankainnistæða á reikningi nr. X ekki talin með í samtölu nettó innistæðna. 

Í synjunum velferðarsviðs á rétti til fjárhagsaðstoðar sé vísað í peningaeign samkvæmt innsendum bankayfirlitum frá C. Bankayfirlitin sýni skýrlega að nettó innistæður kæranda hafi að mestu verið tilkomnar vegna sjóðsreiknings fjölskyldunnar á margnefndum reikningi nr. X. Af neðangreindu yfirliti megi sjá peningalega stöðu kæranda miðað við þrenn mánaðamót þegar hann hafi staðið frammi fyrir ströngu umsóknarferli vorið 2021 og því uppfylli hann skilyrði til fjárhagsaðstoðar. Kópavogsbær virðist þó ítrekað hafa farið „auðveldu leiðina“ við mat á kæranda og ekki rýnt í tölur og skýringar sem liggi þeim að baki.

1.mar.21

1.apr.21

1.maí.21

Nettó samtala bankainnistæðna skv. yfirlitum

801.335

583.799

7.008

Leiðrétt fyrir reikning nr. X

-724.829

-705.700

330

Sannarleg staða umsækjanda í innistæðu nettó

76.506

-121.901

7.338

 

Þrátt fyrir að kærandi hafi í umsóknum til velferðarsviðs, áfrýjunum til velferðarráðs og með frekari upplýsingum til velferðarráðs samkvæmt beiðnum þar um lagt fram skjalfestar sannanir fyrir sínum rökstuðningi hafi Kópavogsbær á engu stigi tekist að hrekja þær röksemdir og sönnunargögn. Sönnunargögnin sem kærandi hafi látið Kópavogsbæ í té hlaupi á tugum blaðsíðna og verði hér tæpt á þeim helstu.

Kæranda teljist til að hann hafi samtals sent velferðarráði 26 fylgiskjöl til að sanna rökstuðning sinn um að innistæða á nefndum reikningi nr. X sé rekstrarreikningur fjölskyldunnar en ekki honum til ráðstöfunar til daglegrar framfærslu. Þá séu ótalin fjölmörg fylgigögn kæranda með rafrænum umsóknum til velferðarsviðs. Hér séu talin upp nokkur lykilgögn sem ætti að sannfæra óvilhallan og grandvaran greinanda um að allar staðhæfingar kæranda um nefndan reikning nr. X séu sannleikanum samkvæmar. Í fyrsta lagi sé um að ræða yfirlýsingu frá öllum sameigendum um hlutverk kæranda sem gjaldkeri. Undirrituð yfirlýsing sjö vammlausra einstaklinga þar sem staðfest sé að fjármunavelta á reikningi X, og innistæða á hverjum tímapunkti eftir því, skýrist af því að kærandi sjái um að innheimta leigutekjur og útgreiðslu tekna fyrir sameigendur sína ásamt því að greiða allan kostnað sem af landareigninni hljótist. Þessir valinkunnu einstaklingar beri með áritun sinni vitni um heiðarleika umsækjanda. Einnig sé staðfest að kærandi þurfi óhjákvæmilega að vera með bankareikning í sínu nafni til að sinna hlutverki sínu sem gjaldkeri í þágu stórfjölskyldunnar og að sá reikningur sé sérgreindur sem  „D reikningur“ nr. X í kerfum bankans. Eigendur D staðfesti jafnframt að umsækjandi hafi ekki heimild til að ráðstafa innistæðu á reikningi nr. X í þágu persónulegra útgjalda, enda væri hann með því að fremja umboðssvik. Í öðru lagi sé um að ræða áritaða staðfestingu löggilts endurskoðanda á yfirlýsingu landeigenda D. Þar sé staðfest að það sem fram komi í framangreindri yfirlýsingu sé sannleikanum samkvæmt. Jafnframt staðfesti endurskoðandinn að kærandi sé með innistæðu á nefndum reikning nr. X í sinni vörslu og noti ekki þá innistæðu í þágu persónulegra útgjalda, ólíkt því sem velferðarráð fullyrði í lokaákvörðun sinni með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, sem hafi verið algjör forsenda fyrir synjun á fjárhagsaðstoð. Í þriðja lagi sé um að ræða greiddan reikning til E upp á 703.531 kr. þann 20. apríl 2021. Kærandi hafi í þrígang sent Kópavogsbæ gögn sem sýni svart á hvítu að af reikningi nr. X hafi verið greitt árgjald til E upp á um 703.531 kr. Þarna sé um að ræða samningsbundið gjald sem allir landeigendur sem stundi útleigu á stangveiði í B þurfi að greiða. Með þeirri greiðslu þurrkist nánast út innistæða á reikningi nr. X miðað við stöðuna í mars og apríl. Það eigi að vera augljóst að umrædd greiðsla til E sé ekki í þágu persónulegra útgjalda kæranda heldur landareigna stórfjölskyldunnar. Kærandi hafi útskýrt þetta á fyrri stigum málsins en allar útskýringar hafi verið hunsaðar jafnóðum. Í fjórða lagi sé um að ræða leigugreiðslur til landeigenda frá F og útdeiling þeirra til landeigenda. Kærandi hafi sent velferðarráði frekari upplýsingar með bréfi frá 23. júní, meðal annars skilagreinar og millifærslukvittanir frá C sem staðfesti að kæranda sé falið að innheimta leigutekjur vegna landareigna D og útdeila þeim jafnóðum til sameigenda sinna. Þetta komi skýrt fram í fjölmörgum fylgiskjölum með umræddu bréfi. Kærandi hafi vakið sérstaka athygli á því að hluti hans í leigutekjunum hafi verið 155.556 kr. og komið til greiðslu í febrúar 2021 eins og kærandi hafi greint frá allt frá því að hann hafi upphaflega sótt um fjárhagsaðstoð, enda hafi kærandi ekki sótt um fjárhagsaðstoð fyrir febrúar þar sem hann hafi verið með tekjur þann mánuðinn. Í síðasta lagi sé um að ræða kvittanir fyrir margvíslegum rekstrarútgjöldum landareigna fjölskyldunnar. Kærandi hafi jafnframt sent inn margvísleg önnur fylgiskjöl og upplýsingar með bréfinu til velferðarráðs 23. júní. Kvittanir fyrir helstu rekstrarútgjöldum sem falli til út af landareigninni, svo sem fasteignagjöld, tryggingar og fleira. Þá hafi kærandi lagt fram skjal sem sýni hvernig allir sameigendur hans telji fram til skatts leigutekjur af landareign D árið 2020, en allar framtaldar tekjur sameigenda renni einmitt í gegnum nefndan reikning nr. X. 

Kærandi tekur fram að rökstuðningur í lokaákvörðun velferðarráðs standist ekki skoðun. Út frá öllu framangreindu sé ljóst að þær forsendur sem velferðarráð bóki í bréfi sínu til kæranda, dags. 24. ágúst 2021, fá ekki staðist út frá gögnum málsins. Orðrétt segi í því bréfi: „....Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum málsins að umsækjandi hefur nýtt peninga af öðrum bankareikningum í eigin þágu...“. Það sé með öllu óskiljanlegt hvað velferðarráð sé að fara með þessari bókun. Þarna sé fullyrðingu slegið fram án tilvísunar í upphæðir eða hvaða bankareikning velferðarráð eigi við. Það sé óumdeilt að kærandi hafi nýtt sinn persónulega útgjaldareikning nr. X í eigin þágu, enda hafi ekki verið neinn ágreiningur um það. Aftur á móti hafi kærandi ekki nýtt tíðnefndan reikning nr. X til persónulegra útgjalda, enda sé það óheimilt eins og margsinnis sé staðfest, meðal annars af löggiltum endurskoðanda. Þá slái velferðarráð fram í bókun sinni hátt í sjö milljón króna veltu á bankareikningum fyrstu fjóra mánuði ársins eins og það sé rökstuðningur synjunar. Kærandi hafi í fjölmörgum samskiptum við Kópavogsbæ á fyrri stigum málsins komið því á framfæri að hann sé gjaldkeri fyrir fjölskyldu og innheimti tekjur vegna þessa. Veltan á bankareikningum þurfi því ekki að koma velferðarráði á óvart eða vera tilefni til að hafna fjárhagsaðstoð eins og velferðarráð virðist reyna að rökstyðja í bókun sinni. Þá sé rétt að nefna að hvergi í reglum Kópavogsbæjar sé að finna ákvæði um að velta á bankareikningi sé áhrifaþáttur við mat á umsóknum, það sem skipti máli séu skattskyldar tekjur og peningalegar eignir. Þá hafni kærandi þeirri fullyrðingu að þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu málsins megi rekja til þess að hann hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um peningaeignir sínar. Sú fullyrðing sé eins fjarri sannleikanum og hugsast getur. Kærandi hafi undir rekstri málsins gagnvart Kópavogsbæ lagt fram tugi skjala umsókn sinni til stuðnings og án efa ýtarlegri gögn en nokkur annar umsækjandi. Það sé augljóst að þeir sem beri ábyrgð á bréfaskriftum til kæranda með bókunum og ákvörðunum virðist skorta fjármálalæsi til að greina gögnin og komast að réttri niðurstöðu og reyndar þoku sveipað hvort þeir hafi kynnt sér gögnin yfirhöfuð. Einnig bendi kærandi á að í bréfum velferðarráðs, dags. 15. og 30. júní, þar sem óskað sé frekari upplýsinga sé mjög óljóst hvaða upplýsinga velferðarráð óski eftir. Í bréfinu frá 15. júní hafi velferðarráð reyndar bókað að: „....starfsmanni sviðsins er auk þess falið að afla frekari upplýsinga um öll þau uppgjör sem kunna að skipta máli við afgreiðslu málsins“. Starfsmenn velferðarsviðs hafi á engan hátt sinnt þessum fyrirmælum velferðarráðs. Þeir hafi ekki haft neitt frumkvæði að því að afla frekari upplýsinga. Kærandi hafi að eigin frumkvæði reynt að fá skýrleika í þessa gagnabeiðni með rafpósti til starfsmanns velferðarsviðs en ekki hafi verið brugðist við með leiðbeiningum um hvers konar upplýsingar kæranda hafi verið gert að senda. Starfsmenn velferðarsviðs hafi því brugðist leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda í ferli málsins. Kópavogsbær hafi ekki á neinu stigi, hvorki með synjun velferðarsviðs né staðfestingu velferðarráðs, sett fram málefnalegan rökstuðning. 

Samkvæmt því sem að framan greini sé ljóst að ferill málsins gagnvart kæranda hafi verið langur og strangur og sé ekki enn lokið. Kærandi telji að á margvíslegum stigum málsins hafi gróflega verið brotið á rétti hans, bæði í samhengi við reglur bæjarins og stjórnsýslulög sem Kópavogsbæ beri að fara eftir sem og er varði framkomu starfsmanna. Velferðarsvið hafi vegið gróflega að heiðarleika og æru kæranda með eftirfarandi orðalagi í bréfi, dags. 26. maí 2021: “...Þá var velta á bankareikningum umsækjanda 1.1.2021 til 1.4.2021 kr. 5.533.829,- en umsækjandi er án skattskyldra tekna skv. staðgreiðsluskrá 2021 frá Ríkisskattstjóra. Dagslokastaða 1.5.2021 á sömu reikningum eru kr. 7.008,- og var velta á árinu komin upp í kr. 6.779.580...“ Orðalag svarbréfsins hafi misboðið kæranda verulega því að ekki verði annað séð en að heiðarleiki hans sé dreginn í efa með þeim hætti að hann sé vændur um að telja ekki fram tekjur til skatts með lögmætum hætti. Með öðrum orðum, sá sem beri ábyrgð á þessu orðalagi kjósi frekar en að óska frekari gagna fyrir rökstuðningi að slengja fram gildishlöðnu orðalagi undir rós um að kærandi sé að stunda skattaundanskot í stórum stíl og sé þar með að fremja lögbrot. Skemmst sé frá því að segja að kæranda hafi verið verulega brugðið þegar hann hafi lesið umrædda bókun velferðarsviðs þar sem vegið sé með svo gróflegum hætti að heiðarleika hans, sem ekki megi vamm sitt vita, svo mjög að hann hafi fengið áfall við lesturinn og hafi verið lengi að ná sér. Viðbrögð kæranda hafi verið þau að senda rafpóst á tengilið sinn hjá velferðarsviði til að gefa honum tækifæri til að útskýra þessar aðdróttanir og draga þær til baka. Skemmst sé frá því að segja að í svari tengiliðsins hafi ekkert verið dregið til baka af þessum grófu ávirðingum heldur ef eitthvað er snúið út úr. Kærandi telji einsýnt að svo óvönduð framsetning í formlegu bréfi frá Kópavogsbæ kalli á viðbrögð á öðrum stigum og eftir atvikum dómstólum svo fremi að ekki verði úr bætt, enda segi í 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940: „....Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári...“ Þá þyki kæranda það sérstaklega aðfinnsluvert að þegar þessu orðalagi hafi verið slengt fram hafði hann margsinnis komið því á framfæri við velferðarsvið að hann væri gjaldkeri fjölskyldunnar fyrir sameiginlegar landareignir og sé með tíðræddan reikning nr. X í sinni vörslu. Velta á þeim reikningi ætti því ekki að koma þeim sem hafi kynnt sér málið á óvart. Kærandi spyrji hvort það sé í verkahring starfsmanna á velferðarsviði að níða umsækjendur.

Kærandi telji einsýnt að Kópavogsbær hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, enda sé rökstuðningur í bréfum frá 5. maí, 26. maí og 1. júní 2021 takmarkaður við staðlaðan texta úr reglum bæjarins um fjárhagsaðstoð. Í bréfunum sé ekki á nokkurn hátt vikið að skjallegum gögnum og rökstuðningi sem kærandi hafi sent með tveimur umsóknum til velferðarsviðs og frekari skýringum sem hann hafi sent á starfsmenn velferðarsviðs í rafpóstum. Á þessu stigi hafi Kópavogsbær verið með upplýsingar um hreyfingar á reikningi nr. X, sjóðsreikningi fjölskyldunnar en kærandi hafi rökstutt ýtarlega tilurð hans og tilgang. Þá virðist vera sem Kópavogsbær hafi ekki tekið tillit til þess að greiddur hafi verið reikningur upp á 703.531 kr. þann 20. apríl til E af reikningi nr. X, sem hafi augljóslega ekki verið í þágu persónulegra útgjalda kæranda. Kæranda hafi verið brugðið og misboðið þegar honum hafi borist bréf velferðarráðs, dags. 26. maí 2021, þar sem staðfest hafi verið bókun velferðarsviðs, án raunverulegs rökstuðnings. Kærandi hafi talið sér skylt að senda rafpóst á formann velferðarráðs um hvort ráðið hefði kynnt sér efni greinargerðar hans. Formaðurinn hafi staðfest í rafpósti að ráðið hefði fengið greinargerðina og rætt hana.

Kærandi telji einnig að velferðarsvið hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu. Velferðarráð hafi í tveimur bréfum óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Það hafi fyrst verið gert með bréfi 15. júní og aftur 30 júní. Af lestri þessara tveggja bréfa sé ljóst að það sé illskiljanlegt fyrir kæranda að átta sig á hvaða gagna og upplýsinga sé óskað, enda orðalagið óskýrt. Kærandi hafi þó lagt sig fram um að svara þessum bréfum eins ýtarlega og vel og honum væri unnt eins og sjá megi í tveimur svarbréfum hans. Í bréfi velferðarráðs frá 15. júní sé meðal annars eftirfarandi bókað: „...Starfsmanni sviðsins var auk þess falið að afla nánari upplýsinga um öll þau uppgjör sem skipta máli við afgreiðslu málsins....“ Skemmst sé frá því að segja að ekkert frumkvæði né  leiðbeiningar hafi komið fram af hálfu velferðarsviðs til aðstoðar kæranda í þessu samhengi. Reyndar geti úrskurðanefndin séð af öllu ferli málsins að þegar kærandi hafi reynt að fá leiðbeiningar frá starfsmönnum velferðarsviðs þá hafi svörin iðulega verið stutt, hranaleg og ópersónuleg. Það hljóti að vera umhugsunarefni að starfsmenn velferðarsviðs hafi ekki sinnt formlegum fyrirmælum frá velferðarráði. Væntanlega hefði verið nær af velferðarsviði að boða kæranda á stuttan fund og gefa honum færi á að leggja fram þau gögn sem skiptu máli við afgreiðsluna. Kærandi hafi áður átt frumkvæði að slíku en engin viðbrögð fengið. Kærandi telji að velferðarsvið hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni í ferli málsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Þá telji kærandi að Kópavogsbær hafi farið langt umfram meðalhóf gagnvart honum í öllu ferlinu. Kærandi leyfi sér að fullyrða að sú gagnaúrvinnsla og umstang sem á hann hafi verið lagt sé ekki á færi leikmanna að standa í og langt umfram tilgang og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga í samhengi við velferðarmál sveitarfélaga. Kærandi hafi sent inn ýtarleg gögn og skjöl sem varði ekki aðeins kæranda heldur sex einstaklinga sem ekki séu aðilar málsins. Ferlið hjá Kópavogsbæ hafi verið langt og strangt og dragi dám af því að starfsmenn velferðarsviðs hafi í upphafi ekki sinnt ígrundað rannsóknarskyldu sinni við úrlausn málsins. Í bókunum velferðarráðs sé óskað eftir ýtarlegum gögnum, meðal annars um persónuleg útgjöld kæranda, sem skipti ekki máli við afgreiðslu málsins, enda hefðu nauðsynlega gögn sem máli skipta verið löngu komin fram í samræmi við 8. gr. reglna Kópavogsbæjar um upplýsingaskyldu. Öll gagnavinnslan ásamt töfum á afgreiðslu málsins hafi valdið kæranda ómældu hugarangri, kvíða, erfiðleikum og óþarfa kostnaði. Þá hafi starfsmönnum velferðarsviðs verið vel ljóst að kærandi hafi nýlega átt við alvarleg andleg veikindi að stríða sem hann hafi verið að rísa upp úr. Framganga Kópavogsbæjar hafi lagst mjög þungt á kæranda og valdið honum miklum kvíða, þunglyndi og áhyggjum, svo mjög að segja megi að hann hafi verið sleginn út af laginu vorið 2021. Kærandi óski eftir því að úrskurðarnefndin leggi mat á allt sem á kæranda hafi verið lagt í þessu langa og stranga ferli með vísan til 9. og 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá læðist óneitanlega sá grunur að kæranda að starfsmenn velferðarsviðs hafi á frumstigum málsins gert hroðvirknisleg mistök með því að slá fram staðlausum stöfum um meint skattaundanskot. Í stað þess að sýna auðmýkt, draga meiðandi ummæli til baka og koma málatilbúnaði í eðlilegt horf, hafi vitleysan haldið áfram gagnvart kæranda, mögulega í þeirri von að þreyta hann til uppgjafar.

Aðalkrafa kæranda sé því sú að veitt verði óskert afturvirk fjárhagsaðstoð fyrir mars 2021 og fjárhagsaðstoð fyrir apríl og maí 2021. Varakrafa sé sú að veitt verði skert afturvirk fjárhagsaðstoð fyrir mars 2021 og full fjárhagsaðstoð fyrir apríl og maí 2021. Kærandi fari einnig fram á að Kópavogsbær gangi til samninga við hann um greiðslu skaða- og miskabóta vegna þeirra meiðyrða sem hann hafi orðið fyrir af hálfu starfsmanna velferðarsviðs og þess tíma, kostnaðar og tjóns sem dráttur málsins hafi haft í för með sér fyrir kæranda. Það sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir áframhald málsins á öðrum stjórnsýslustigum og eftir atvikum dómstólum. Þá fari kærandi fram á að úrskurðarnefndin beini þeim tilmælum til yfirstjórnar Kópavogsbæjar að taka málsmeðferðir á velferðarsviði til athugunar með það fyrir augum að bæta úr þar sem þörf sé á. Sú meðferð og vinnubrögð sem kærandi hafi fengið þegar hann nauðbeygður hafi sótt um fjárhagsaðstoð eigi ekki að líðast og úrbóta sé þörf til að bæta lögbundna þjónustu við íbúa.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Kópavogsbæjar kemur fram að orð bæjarlögmanns um að ekki sé hægt að horfa til einhliða skýringa á tilkomu eigna á bankareikningi sem velferðarráð hafi ekki forsendur eða tækifæri til að kanna hvort eigi við rök að styðjast veki furðu. Kærandi mótmæli þeim harðlega sem röngum, enda feli þau í sér kúvendingu á rekstri málsins af hálfu Kópavogsbæjar og þversögn á því hvernig velferðarráð hafi í raun nálgast kæranda í öllu ferlinu. Velferðarráð hafi margsinnis við afgreiðslu málsins óskað eftir ýtarlegum gögnum, meðal annars um persónuleg útgjöld kæranda. Því fáist það einfaldlega ekki staðist að ekki hafi verið forsendur eða tækifæri til að kanna málið til hlítar. Velferðarráð hafi verið með öll gögn í höndum til að kanna málið og komast að þeirri réttu niðurstöðu að kærandi hafi sannarlega uppfyllt skilyrði til fjárhagsaðstoðar fyrir mars til maí 2021, eins og ýtarlega sé rakið í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá beri Kópavogsbæ sem stjórnvaldi að beita ríkri rannsóknarskyldu við könnun á gögnum til að komast að réttri niðurstöðu í samræmi við stjórnsýslulög. Þá hafni kærandi því alfarið að skýringar hans hafi verið „einhliða“. Skýringar kæranda hafi verið studdar tugum skjallegra gagna, meðal annars formlegum skjölum frá fjármálastofnunum. Fullyrðing bæjarlögmanns um „einhliða skýringar“ fáist því engan veginn staðist í samhengi við innsend gögn málsins og að kærandi hafi tiltekið í öllum samskiptum við Kópavogsbæ að hann væri reiðubúinn að senda frekari gögn eftir óskum þar um. Vottorð valinkunnra einstaklinga sem hafi aðgang að gögnum í þessu samhengi beri vott um áreiðanleika kæranda og einnig sé rökstuðningur staðfestur með áritun frá löggiltum endurskoðanda sem hafi kynnt sér innsend gögn með áritun sinni. Kærandi árétti röksemdir sínar og aðfinnslur sem fram komi í kæru til úrskurðarnefndar.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð hafi verið synjað á teymisfundi 5. maí 2021 með þeim rökstuðningi að skilyrði 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð væri ekki uppfyllt en þar komi fram að eigi umsækjandi peningaeignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi búi í og eina fjölskyldubifreið skal umsækjanda vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur séu undir viðmiðunarmörkum. Vísað hafi verið til þess að peningaeign kæranda á bankareikningum þann 1. mars hafi verið 801.335 kr. og 587.799 kr. þann 1. apríl.

Málið hafi verið tekið fyrir á teymisfundi þann 26. maí 2021 vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð fyrir maí 2021. Umsókninni hafi verið synjað með vísan til 18. gr. reglna bæjarins um fjárhagsaðstoð. Til rökstuðnings ákvörðuninni hafi verið tiltekið að umsækjandi hafi átt innistæðu á bankareikningi þann 1. apríl að upphæð 583.799 kr. sem honum bæri að nýta sér til framfærslu í apríl og maí. Þá hafi velta á bankareikningi umsækjanda 1. janúar til 1. apríl verið 5.533.829 kr. en umsækjandi sé án skattskyldra tekna samkvæmt staðgreiðsluskrá. Velta 1. maí sé komin upp í 6.779.580 kr.

Kærandi hafi gefið þær skýringar að hluti bankainnistæðna sé að rekja til landareignar og veiðiréttar sem hann eigi í félagi við fjölskyldu sína og hann haldi utan um þann rekstur á sinni kennitölu þar sem ekki sé félag um eignina. Kærandi hafi líkt þessu við rekstur húsfélags en húsfélög séu þó yfirleitt rekin á sér kennitölu. Velferðarráð horfi til þeirra eigna sem umsækjandi sé skráður fyrir í opinberum gögnum, á skattframtölum og bankayfirlitum og afli þeirra gagna sem tilgreind séu í 6. gr. reglna og við eigi hverju sinni. Ekki sé hægt að horfa til einhliða skýringa á tilkomu eigna á bankareikningi sem velferðarráð hafi ekki forsendur eða tækifæri til að kanna hvort eigi við rök að styðjast.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar á umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir mars, apríl og maí 2021.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í III. kafla reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. dragast skattskyldar tekjur, sbr. 17. gr., og peningaeignir, sbr. 18. gr., frá upphæð fjárhagsaðstoðar. Í 1. mgr. 18. gr. kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili, peningaeignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í og eina fjölskyldubifreið eða bifhjól, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu undir viðmiðunarmörkum.

Reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að aðrar eignir en íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Umsóknum kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann ætti fjármuni inn á bankareikningi sem honum bæri að nýta sér til framfærslu áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi frá sveitarfélaginu. Nánar tiltekið var um að ræða innstæðu á bankareikningi nr. X sem er í eigu kæranda. Kærandi hefur vísað til þess að innstæða bankareikningsins sé ekki í hans eigu heldur sé um að ræða rekstrarreikning fyrir sameiginlegar landareignir stórfjölskyldu hans. Kærandi sé gjaldkeri fyrir fjölskylduna og sjái um reksturinn. Innstæðan sé því ekki nýtanleg honum til framfærslu. Því til staðfestingar hefur kærandi meðal annars lagt fram yfirlýsingu frá öllum landeigendum þar sem fram kemur að honum sé óheimilt að ráðstafa innstæðu reiknings nr. X í þágu persónulegra útgjalda sem og staðfestingu löggilts endurskoðanda á staðreyndum í yfirlýsingunni. 

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi lagt fram óyggjandi gögn þess efnis að innstæða framangreinds bankareikningsins sé ekki í hans eigu og þar af leiðandi geti hún ekki talist sem eign í skilningi 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Í því samhengi lítur úrskurðarnefndin einnig til þess að kærandi hefði að öllum líkindum ekki getað nýtt sér þá innstæðu til framfærslu eða sem tryggingu fyrir lánafyrirgreiðslu hjá banka eða sparisjóði.

Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi borið að leggja heildstætt mat á umsóknir kæranda um fjárhagsaðstoð, meðal annars með tilliti til þeirra upplýsinga og gagna sem hann lagði fram um bankareikning nr. X. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Kópavogsbæ að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Í kæru er farið fram á að Kópavogsbær gangi til samninga við kæranda um greiðslu skaða- og miskabóta og að úrskurðarnefndin beini þeim tilmælum til yfirstjórnar Kópavogsbæjar að taka málsmeðferðir á velferðarsviði til athugunar. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framangreinds er það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að áminna stjórnvöld eða að fjalla um greiðslu skaða- og miskabóta. Framangreindar kröfur kæranda eru því ekki tækar til efnismeðferðar. Að því virtu er þeim þætti kærunnar vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 24. ágúst 2021, um synjun á umsóknum A, um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir mars, apríl og maí 2021, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

Þeim hluta kærunnar er varðar kröfu um greiðslu skaða- og miskabóta og að úrskurðarnefndin beini tilmælum til sveitarfélagsins er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira