Mál nr. 96/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 96/2025
Mánudaginn 7. apríl 2025
A
gegn
Hveragerðisbæ
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Hveragerðisbæjar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 29. ágúst 2023, sótti kærandi um að endurnýja umsókn sína um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hveragerðisbæ. Umsókn kæranda var samþykkt á biðlista.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 14. febrúar 2025 og vísaði til þess að hann væri búinn að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði frá árinu 2010 og fengi enga aðstoð frá sveitarfélaginu. Með bréfi til fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðisbæjar, dags. 18. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir af þeim málsgögnum sem tilheyrðu umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Gögn bárust frá Hveragerðisbæ 10. mars 2025 og voru þau kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hafa átt að vera á biðlista eftir félagslegu húsnæði síðan 2010 en nýlega komist að því að Hveragerðisbær hafi logið til um það að hann væri á skrá eftir húsnæði. Kærandi fái enga þá aðstoð sem eigi að vera í boði fyrir öryrkja eins og hann. Í staðinn sé honum bara skipað að leggjast inn á geðdeild eða að fara í meðferð. Kærandi hafi ekki drukkið dropa af áfengi í fjögur ár en hann standi í barningi við bæjarstjórn Hveragerðis vegna eineltis og ærumeiðinga. Sveitarfélagið vilji ekki einu sinni aðstoða kæranda við að finna félagslegt húsnæði í öðru sveitarfélagi, hvað þá að aðstoða með sálfræðiaðstoð eða endurhæfingu þannig að hann komist út úr þeirri einangrun sem hann sé í.
III. Sjónarmið Hveragerðisbæjar
Í greinargerð Hveragerðisbæjar til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi sé X ára einhleypur karlmaður sem hafi búið í sveitarfélaginu síðastliðin X ár. Greint er frá barnæsku kæranda og veikindum hans. Kærandi hafi flutt í Hveragerði árið X til þess að vera nær móður sinni og vegna húsnæðiserfiðleika. Kærandi hafi leigt íbúð hjá B í C frá árinu 2016 en hafi þurft að flytja úr þeirri íbúð í febrúar 2019 vegna sölu íbúðarinnar. Þá hafi kærandi flutt í bílskúr hjá móðir sinni og hafi verið búsettur þar síðastliðin sex ár. Móðir kæranda búi í einbýlishúsi í Hveragerði ásamt ömmu kæranda. Kærandi búi í hluta af bílskúrnum þar sem búið sé að setja upp einn vask. Í bílskúrnum sé ekki baðherbergi, sturta né eldhús og kærandi þurfi að labba út og yfir til móður sinnar til þess að nota baðherbergi og eldhús. Enginn hiti sé í bílskúrnum og að sögn kæranda sé mjög kalt þar yfir veturinn.
Greint er frá því að kærandi sé á örorkubótum og sé með skuldir sem hafi reynst honum erfitt að greiða. Kærandi sé eignalaus. Í bílskúrnum sé músagangur og mikið af dóti þar í geymslu. Móðir kæranda hafi nokkrum sinnum haft samband við núverandi félagsráðgjafa sveitarfélagsins á árunum 2021 til 2023 til þess að leita aðstoðar fyrir hann. Á þeim tíma hafi kærandi hins vegar hvorki viljað þiggja aðkomu félagsráðgjafa né hitta hana. Í ágúst 2023 hafi kærandi haft samband af sjálfsdáðum og beðið um viðtal. Síðan þá hafi félagsráðgjafi hitt kæranda reglulega til þess að ræða úrræði sem tengist andlegri og líkamlegri heilsu og húsnæðismálum ásamt því að rjúfa félagslega einangrun. Kærandi hafi sjálfur lýst veikindum sínum sem hamlandi en hann vilji fá aðstoð, öðlast tilgang í lífinu og rjúfa félagslega einangrun. Kærandi hafi myndað gott samband við félagsráðgjafa sveitarfélagsins en það hafi reynst erfitt að ná árangri í vinnslu máls þar sem hann hafi ekki fengið viðeigandi aðstoð frá geðlækni í mörg ár og húsnæðisaðstæður hvíli þungt á honum. Kærandi noti vímuefni en segist ekki hafa efni á því að vera í virkri neyslu og því neyti hann einungis nokkrum sinnum í byrjun mánaðar. Félagsráðgjafi hafi ekki orðið þess vör að kærandi sé undir áhrifum þegar hann komi í viðtöl. Kærandi sé félagslega einangraður og eigi ekki í samskiptum við marga aðra en móður sína og ömmu.
Tekið er fram að kæranda hafi verið bent á að skrá sig á biðlista hjá Brynju hússjóði sem hann hafi gert. Hann hafi hins vegar afskráð sig af þeim lista nokkrum mánuðum síðast. Veikindi kæranda séu verulega hamlandi og hafi áhrif á ákvarðanir eins og það að skrá sig af listanum hjá Brynju hússjóði. Það sé mat félagsráðgjafa að húsnæðisaðstæður kæranda séu óviðunandi. Samkvæmt stigum uppfylli kærandi skilyrði fyrir félagslegri íbúð og mikilvægt sé að hann komist í viðunandi húsnæði sem fyrst svo hægt sé að vinna áfram að bættri andlegri og líkamlegri heilsu. Árið 2023 hafi verið stofnað nýtt velferðarsvið hjá Hveragerðisbæ eftir slit byggðarsamlags. Við hafi tekið miklar breytingar og aðlögunartími. Nýtt skráningarkerfi hafi verið tekið upp í byrjun árs 2024 og umsóknareyðublöð og sniðmál hafi þarfnast uppfærslu. Kærandi hafi ekki verið látinn skrifa formlega undir endurnýjun á húsnæðisumsókn sinni árið 2024 en í ljósi þess að hann hafi verið í reglubundnum viðtölum og samskiptum við félagsráðgjafa hafi hann verið áfram á biðlista. Í byrjun árs 2025 hafi Hveragerðisbær átt sjö félagslegar íbúðir en sú nýjasta hafi verið keypt í lok árs 2024. Nú standi til að kaupa aðra íbúð og deildarstjóri velferðarþjónustu Hvergerðis hafi ítrekað við bæjarstjórn að sú íbúð verði að vera fyrir einstakling. Kærandi sé efstur á biðlista eftir félagslegu húsnæði og því séu miklar líkur á að hann verði sá næsti sem fái úthlutað. Hins vegar sé ekki hægt að segja til um hvernær það verði.
IV. Niðurstaða
Kærð er afgreiðsla Hveragerðisbæjar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði en að sögn kæranda hefur hann beðið úthlutunar í mörg ár og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Samkvæmt gögnum málsins er nýjasta umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði frá 29. ágúst 2023.
Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.
Í reglum fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðis um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að sækja skuli um félagslegt leiguhúsnæði á heimasíðu lögheimili sveitarfélags viðkomandi umsækjanda. Umsókn skuli undirrituð á sérstakt umsóknareyðublað af hálfu umsækjanda eða eftir atvikum lögráðamanni, umboðsmanni eða persónulegum talsmanni hans.
Í V. kafla reglnanna er kveðið á um forgangsröðun og úthlutun. Þar segir í 1. mgr. 14. gr. að umsóknum sé raðað í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og fagteymis fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Í 3. mgr. 14. gr. kemur fram að við lok mats samkvæmt viðeigandi matsviðmiði séu reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Niðurstaða mats sé höfð til hliðsjónar við forgangsröðun til úthlutunar í húsnæði.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglnanna fer úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum fagteymis starfsmanna fræðslu- og velferðarsviðs Hveragerðis sem skipað sé með sérstöku erindisbréfi. Fræðslu- og velferðarsvið Hveragerðis leggi faglegt mat á þær umsóknir sem hafi verið metnar samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 16. gr. kemur fram að fagteymið forgangsraði umsóknum vegna almenns félagslegs leiguhúsnæðis og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og hlutaðeigandi fagteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 27. gr. reglnanna að ráðgjafi hjá fræðslu- og velferðarsviði Hveragerðis skuli endurmeta aðstæður umsækjanda á meðan beðið sé úthlutunar á leiguhúsnæði og veita félagslega ráðgjöf ef þurfa þyki.
Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Hveragerðisbæjar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.
Líkt og að framan greinir er nýjasta umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði frá 29. ágúst 2023 og er óumdeilt að kærandi hefur verið á biðlista eftir húsnæði síðan þá eða í 19 mánuði. Hveragerðisbær hefur vísað til þess að sveitarfélagið eigi sjö félagslegar íbúðir en til standi að kaupa aðra íbúð. Deildarstjóri velferðarþjónustu sveitarfélagsins hafi ítekað við bæjarstjórn að sú íbúð verði að vera fyrir einstakling. Kærandi sé efstur á biðlista og því séu miklar líkur á að kærandi verði sá næsti sem fái úthlutað húsnæði. Hins vegar sé ekki hægt að segja til um hvenær það verði.
Að virtum framangreindum upplýsingum er það mat úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ekki er fallist á að afgreiðsla Hveragerðisbæjar í máliA, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir