Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 34/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 34/2024

Mánudaginn 11. mars 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. janúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. janúar 2024, um að synja umsókn hans um sérstakan húsnæðisstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. nóvember 2023, sótti kærandi um sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg. Með bréfi Suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 1. desember 2023, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 17. janúar 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. janúar 2024. Með bréfi, dags. 23. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 6. febrúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargögn bárust frá kæranda 7. febrúar 2024 og voru þau kynnt Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi vilji kæra þá ákvörðun að vera ekki hækkaður um stig vegna félagslegra aðstæðna sem myndi veita honum sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi byggi kæru sína á meðfylgjandi nýlegri greinargerð frá lækni og sálfræðingi Þrautar. Vegna aðstæðna sem þar sé lýst hafi kærandi þurft að hætta allri félagslegri virkni sem hann hafi komið sér upp, svo sem námi, allri hreyfingu, hljómsveitaræfingum með vinum og fleiru. Þar fyrir utan geti kærandi ekki unnið hlutavinnu til að afla aukatekna. Vegna þessa hafi kærandi einangrast sem reynist honum mjög erfitt. Kærandi óski því eftir að stig vegna félagslegra aðstæðna verði hækkuð svo að hann eigi rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi leigi félagslegt leiguhúsnæði ásamt eiginkonu sinni og þiggi örorkulífeyri sér til framfærslu. Kærandi hafi glímt við félagslega erfiðleika frá því hann hafi verið barn. Hann hafi glímt við áfengisvanda en hann hafi byrjað ungur að neyta áfengis. Kærandi hafi að mestu verið án áfengis frá árinu 2017 en eigi nokkrar áfengismeðferðir að baki. Hann glími við drep í brisi og brisbólgu vegna áfengisneyslu. Þá hafi hann farið í nokkrar aðgerðir vegna veikinda í lifur og gallvegi. Kærandi hafi lent í bílslysi þegar hann hafi verið 18 ára og glími enn við afleiðingar þess slyss. Kærandi sé með vefjagigt og hafi verið hjá Þraut, miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma, þar sem hann hafi farið í gegnum greiningu og endurhæfingarmat. Kærandi hafi ekki þegið þjónustu frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar síðan árið 2017 fyrir utan greiðslur vegna sérstaks húsnæðisstuðnings en hann hafi síðast fengið greiddan sérstakan húsnæðisstuðning fyrir tímabilið 1. febrúar 2021 til 28. febrúar 2021.

Kærandi hafi sótt um sérstakan húsnæðisstuðning með umsókn, dags. 12. nóvember 2023, sem hafi verið synjað með bréfi Suðurmiðstöðvar, dags. 1. desember 2023. Niðurstaðan hafi verið rökstudd á þann veg að samkvæmt matsviðmiðum reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væri umsókn hans metin til fjögurra stiga, þar af tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna. Til þess að fá sérstakan húsnæðisstuðning skuli umsókn metin til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varði félagslegar aðstæður, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Með hliðsjón af framangreindu hafi umsókn kæranda því verið synjað.

Um sérstakan húsnæðisstuðning gildi reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 3. nóvember 2016 og á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2016, með síðari breytingum. Umræddar reglur séu settar á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, auk 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sé að finna skilyrði fyrir því að umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning verði samþykkt en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt. Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna segi:

„Staða umsækjanda verður að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðsmið í fylgiskjali með reglum þessum.“

Samkvæmt matsviðmiðum fyrir sérstakan húsnæðisstuðning, með reglum um sérstakan húsnæðisstuðning Reykjavíkurborgar, hafi umsókn kæranda verið metin til fjögurra stiga og þar af tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna. Fyrrgreind matsviðmið séu þríþætt, þ.e. staða umsækjanda, húsnæðisstaða og félagslegar aðstæður umsækjanda.

Staða kæranda hafi verið metin til tveggja stiga þar sem kærandi sé örorkulífeyrisþegi. Húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta sé minni en 20% af tekjum heimilisins. Húsnæðisstaða kæranda hafi því ekki verið metin til neinna stiga. Um félagslega stöðu segi um kæranda að hann glími við félagslegan vanda og að hann hafi fengið umfangmikinn stuðning miðstöðva Reykjavíkurborgar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum, og því hafi staða hans verið metin til tveggja stiga. Til þess að vera metinn til fleiri stiga vegna félagslegrar stöðu þurfi eftirfarandi að eiga við samkvæmt matsviðmiðum fyrir sérstakan húsnæðisstuðning:

„Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu miðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum: fjögur stig.

Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning miðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði: fjögur stig.

Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa: fjögur stig.“

Til þess að geta fengið fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna þurfi nokkuð meira að koma til, umfram þær upplýsingar sem kærandi hafi veitt. Kæranda sé barnlaus og því geti ekki átt við að veita stig fyrir það að málefni barns hafi verið í umfangsmikilli vinnslu miðstöðva á undanförnum 24 mánuðum. Kærandi eigi ekki við fjölþættan félagslegan vanda að stríða. Þá glími kærandi ekki við alvarleg langvinn veikindi sem hafi áhrif á fjárhags og húsnæðisstöðu hans. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi því komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta synjun Suðurmiðstöðvar um hærri stigagjöf vegna umsóknar um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun Suðurmiðstöðvar um sérstakan húsnæðisstuðning þar sem skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning hafi ekki verið uppfyllt.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laganna eða stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væru ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laganna skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Reykjavíkurborg hefur sett reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita samkvæmt 45. gr. laganna. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.

Í 3. gr. framangreindra reglna er kveðið á um skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1. til 6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Þá þurfa skilyrðin að vera uppfyllt á meðan umsækjandi fær greiddan sérstakan húsnæðisstuðning. Samkvæmt 4. tölul. þarf staða umsækjanda að vera metin til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum.

Í fyrsta lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna stöðu umsækjanda; þar segir:

0 stig          Staða umsækjanda er önnur en getið er hér að neðan                                 

2 stig          Örorkulífeyrisþegi með 75% örorkumat                                                      

2 stig          Ellilífeyrisþegi                                                                                              

2 stig          Framfærsla hjá þjónustumiðstöð vegna langvarandi atvinnuleysis eða óvinnufærni

Í öðrum lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna húsnæðisstöðu umsækjanda; þar segir:

0 stig          Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er minni en 20% af tekjum heimilisins                 

1 stig          Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 20% af tekjum heimilisins           

2 stig          Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er verulega íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 30% af tekjum heimilisins                     

2 stig          Óöruggt húsnæði, þ.e. gistir hjá vinum og/eða ættingjum               

4 stig          Gistir í neyðarathvarfi eða á gistiheimili                              

4 stig          Heilsuspillandi húsnæði samkvæmt mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða húsnæði er sannanlega óíbúðarhæft af öðrum ástæðum og veruleg vandkvæði eru bundin við að finna nýtt húsnæði                     

Í þriðja lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna félagslegra aðstæðna umsækjanda; þar segir:

0 stig          Aðstæður umsækjanda eru betri en getið er hér að neðan

2 stig          Umsækjandi glímir við félagslegan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum

4 stig          Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu þjónustumiðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum.

4 stig          Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði

4 stig          Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa

Í gögnum málsins liggur fyrir mat á aðstæðum kæranda. Samkvæmt því var staða kæranda metin til tveggja stiga þar sem hann er örorkulífeyrisþegi. Kærandi fékk ekkert stig vegna húsnæðisstöðu þar sem húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta væri minni en 20% af tekjum heimilisins. Þá voru félagslegar aðstæður kæranda metnar til tveggja stiga sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við. Sú stigagjöf fellur undir matsviðmið: „Umsækjandi glímir við félagslegan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum.“ Til þess að hljóta fleiri stig vegna félagslegra aðstæðna þarf umsækjandi annað hvort að glíma við fjölþættan vanda og að hafa fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði eða alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slíkt eigi við í tilviki kæranda.

Samkvæmt framangreindu var umsókn kæranda metin til fjögurra stiga og uppfyllti hann því ekki skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja  umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. janúar 2024, um að synja umsókn A, um sérstakan húsnæðisstuðning, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum