Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr.1/2025-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 1/2025

Fimmtudaginn 13. febrúar 2025

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. nóvember 2024, um að synja umsókn hans um sértækan húsnæðisstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. nóvember 2023, sótti kærandi um sértækan húsnæðisstuðning hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. nóvember 2024, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að skilyrði b. liðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ væri ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. janúar 2025. Með bréfi, dags. 7. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst 15. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um sértækan húsnæðisstuðning hafi verið tekin fyrir á fundi lána- og húsnæðisbótanefndar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Umsókninni hafi verið synjað á þeim grundvelli að kærandi væri ekki búsettur í leiguhúsnæðinu að B. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli b. liðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Í ákvæðinu segi að það sé skilyrði að umsækjandi sé búsettur í hinu leigða húsnæði og eigi þar lögheimili eða tímabundið aðsetur samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Kærandi hafi verið með skráð lögheimili og verið búsettur að C frá 9. september 2024. Kærandi hafi notið sértæks húsnæðisstuðning hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á meðan hann hafi búið í öryggisíbúð á D. Húsaleigusamningur hafi verið gerður sem hafi haft skýrt ákvæði um sex mánaða uppsagnarfrest.

Margt hafi verið Grindvíkingum ófyrirsjáanlegt síðasta ár og innan fimm mánaða frá gerð húsaleigusamningsins hafi kærandi ákveðið í samráði við aðstandendur sína að flytja með einstæðum syni sínum í íbúð á vegum Bríetar, leigufélags í E. Það hafi verið báðum aðilum til fjárhagslegs hagræðis og félagslegs stuðnings. Þess beri að geta að kærandi hafi séð sér fært að leigja umrædda öryggisíbúð á grundvelli sértæks húsnæðisstuðnings til íbúa Grindavíkur. Í september hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ákveðið að hætta sértækum húsnæðisstuðningi við kæranda þar sem hann sé fluttur úr öryggisíbúðinni. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir skýrt ákvæði í húsaleigusamningi um sex mánaða uppsagnarfrest sem hafi ekki fengist felldur niður fyrr en 1. desember 2024. Kærandi hafi því greitt mánaðarleigu í þrjá mánuði án þess að hljóta sértækan húsnæðisstuðning.

Án sértæks húsnæðisstuðnings hafi fjárhagsstaða kæranda versnað mjög mikið og farið með hans litla sparifé. Fjölskylda kæranda hafi leitað til þjónustuteymis Grindavíkur sem hafi einnig óskað eftir því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tæki tillit til uppsagnarákvæðis í húsaleigusamningi. Kærandi hafi engar aðrar bætur fengið á þessum tíma þar sem sonur hans hafi verið skráður leigjandi og þiggi húsnæðisbætur fyrir íbúðina sem þeir leigi í E. Jafnframt hafi verið óskað eftir áframhaldandi sértækum húsnæðisstuðningi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þá hafi verið leitað eftir samningum við D um endurgjöf á uppsagnartíma en D hafi ekki orðið við því. Það megi því segja að allar ráðstöfunartekjur kæranda hafi farið í að greiða leigugreiðslur með þeim afleiðingum að skuldir hafi safnast upp og leita hafi þurft til góðgerðarfélaga fyrir fjárstuðning.

Búið sé að bæta kæranda við sem heimilismanni á umsókn um sértækan húsnæðisstuðning vegna C þar sem hann sé með skráð lögheimili og búsettur í leiguhúsnæðinu. Þeir feðgar hafi fengið þennan viðbótarhúsnæðisstuðning frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Óskað sé eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála taki rökstuðning kæranda til greina og að hann fái endurgreiddar leigugreiðslur fyrir september, október og nóvember 2024 vegna sérstakra aðstæðna Grindvíkinga á erfiðum tímum.

III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um sértækan húsnæðisstuðning þann 20. nóvember 2023 vegna leigu á húsnæðinu B. Um sé að ræða húsnæði í eigu D. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 6. febrúar 2024.

Þann 8. október 2024 hafi afgreiðslu umsóknar kæranda verið frestað þar sem hann hafi ekki lengur uppfyllt búsetuskilyrði laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, sbr. 1. mgr. 18. gr. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi lögheimili kæranda verið fært úr B að C þann 9. september 2024 þar sem viðkomandi væri einnig búsettur samkvæmt upplýsingum sem borist hefðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun símleiðis þann 7. október 2024. Í fyrrgreindu símtali við son kæranda hafi komið fram að kærandi væri búsettur hjá syni sínum, F, og sé sá aðili að umsókn um sértækan húsnæðisstuðning á grundvelli leigusamnings um leiguhúsnæðið að C.

Í kjölfar frestunar hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist tölvupóstur frá félagsráðgjafa hjá þjónustuteymi Grindavíkur þar sem óskað hafi verið eftir áframhaldandi sértækum húsnæðisstuðningi frá stofnuninni. Í kjölfar tölvupósts hafi málið verið tekið fyrir á fundi lána- og húsnæðisbótanefndar þann 1. nóvember 2024. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrði laga um sértækan húsnæðisstuðning samkvæmt b. lið 1. mgr. 9. gr. laganna og að ekki væri tilefni til að veita undanþágu. Kærandi hafi verið upplýstur um niðurstöðu nefndarinnar í kjölfarið. Þann 13. nóvember 2024 hafi umsókn kæranda verið synjað af þeirri ástæðu að hann væri ekki búsettur í leiguhúsnæðinu.

Í máli þessu sé óskað eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála taki til greina rökstuðning kæranda og að hann fái greiddan sértækan húsnæðisstuðning fyrir tímabilið september, október og nóvember 2024 en óumdeilt sé að kærandi eigi lögheimili og búsetu að C.

Markmið laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sé að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfi að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna náttúruhamfara í Grindavík.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 9. gr. laganna sé það skilyrði fyrir greiðslum sértæks húsnæðisstuðnings að umsækjandi og aðrir þeir sem umsækjandi tilgreini sem heimilismenn í umsókn séu búsettir í hinu leigða húsnæði og eigi þar lögheimili eða tímabundið aðsetur samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur.

Í 5. mgr. 9. gr. laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sé að finna undanþáguákvæði frá framangreindu skilyrði um búsetu en þar komi fram að hafi heimilismaður, einn eða fleiri, flutt aftur á heimili sitt í Grindavíkurbæ í kjölfar afléttingar fyrirmæla stjórnvalda um rýmingu fyrir lok gildistíma stuðningsúrræðis laganna, sbr. 4. mgr. 15. gr. sé Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilt, þrátt fyrir ákvæði b. liðar 1. mgr. um búsetu, að greiða sértækan húsnæðisstuðning vegna hins leigða húsnæðis allt til loka gildistíma stuðningsúrræðisins að því marki sem leigusamningur sé enn í gildi og skilyrði laganna uppfyllt að öðru leyti. Undanþága þessi eigi ekki við í máli þessu og því sé ekki hægt að veita kæranda undanþágu frá búsetuskilyrðum laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Óumdeilt sé að kærandi eigi lögheimili og búsetu að C.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja umsókn kæranda um sértækan húsnæðisstuðning. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði b. liðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ væri ekki uppfyllt.

Markmið laga nr. 94/2023 um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, sbr. 2. gr. laganna.

Í III. kafla laga nr. 94/2023 er kveðið á um skilyrði sértæks húsnæðisstuðnings. Þar segir í 8. gr. að sértækur húsnæðisstuðningur sé mánaðarleg greiðsla sem greiðist til umsækjanda, sbr. 6. tölul. 3. gr., og skuli ákvarðaður og reiknaður út miðað við fjölda heimilismanna, sbr. 2. tölul. 3. gr. og 13. gr., og hámarkshlutdeild ríkisins í húsnæðiskostnaði, sbr. 14. gr.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 9. gr. laganna er það skilyrði fyrir greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings að umsækjandi og aðrir þeir sem umsækjandi tilgreinir sem heimilismenn í umsókn séu búsettir í hinu leigða húsnæði og eigi þar lögheimili eða tímabundið aðsetur samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur.

Í 5. mgr. 9. gr. laga nr. 94/2023 er að finna undanþáguákvæði frá skilyrði um búsetu þar sem fram kemur að hafi heimilismaður, einn eða fleiri, flutt aftur á heimili sitt í Grindavíkurbæ í kjölfar afléttingar fyrirmæla stjórnvalda um rýmingu fyrir lok gildistíma stuðningsúrræðis laga þessara, sbr. 4. mgr. 15. gr., sé Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilt, þrátt fyrir ákvæði b. liðar 1. mgr. um búsetu, að greiða sértækan húsnæðisstuðning vegna hins leigða húsnæðis allt til loka gildistíma stuðningsúrræðisins að því marki sem leigusamningur sé enn í gildi og skilyrði laganna uppfyllt að öðru leyti.

Óumdeilt er að kærandi er ekki með skráð lögheimili í hinu leigða húsnæði og að undanþáguákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 94/2023 á ekki við um aðstæður hans. Kærandi hefur verið með skráð lögheimili og búsettur að C frá 9. september 2024. Að því virtu uppfyllir hann ekki skilyrði b. liðar 1. mgr. 9. gr. laganna og á því ekki rétt á greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings vegna leigu á húsnæðinu B. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. nóvember 2024, um að synja umsókn A, um sértækan húsnæðisstuðning, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta