Mál nr. 22/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 22/2025
Fimmtudaginn 10. apríl 2025
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 10. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2024, um að synja umsókn hennar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 24. september 2024. Umsókn kæranda var synjað og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 4. desember 2024. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 13. desember 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. janúar 2025. Með bréfi, dags. 15. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 30. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2025. Athugasemdir bárust frá kæranda 13. febrúar 2025 og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 2025. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 4. mars 2025 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. mars 2025. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2025. Frekari athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 24. mars 2025 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að málið varði mat á því hvort hún uppfylli öll skilyrðin sem séu talin upp í 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar. Áskilið sé að umsækjandi uppfylli skilyrði allra stafliða greinarinnar, a. til d. liði, svo viðkomandi geti átt rétt á sérmerktu stæði í borgarlandi.
Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði a., b. og d. liðar 1. mgr. 3. gr. reglnanna en aðila greini á um hvort kærandi uppfylli skilyrði c. liðar sömu greinar sem sé svohljóðandi:
„Umsækjandi skal búa við langvarandi hreyfihömlun sem veldur því að hann getur ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.“
Kærandi hafi sótt um sérmerkt stæði einu sinni áður, eða þann 7. júní 2023. Þeirri umsókn hafi verið synjað þann 21. ágúst 2023 þar sem læknisfræðileg skilyrði hafi ekki verið talin uppfyllt fyrir veitingu sérmerkts bílastæðis. Synjunin hafi komið kæranda á óvart fyrir þær sakir að þjónustufulltrúi hafi sent tölvupóst þess efnis að trúnaðarlæknir hefði metið að læknisvottorð væri ekki nógu ítarlegt. Í þeim tölvupósti hafi komið fram að læknirinn sem hefði gefið út vottorðið væri í fríi og það verið fullyrt að trúnaðarlæknir myndi heyra í honum þegar hann myndi snúa aftur til vinnu. Þessi samskipti hafi átt sér stað þann 10. ágúst 2023 en þann 18. ágúst 2023 hafi sami þjónustufulltrúi sagt að borgin legði eingöngu fyrirliggjandi gögn til grundvallar matsins og myndi ekki hafa samband við lækninn, þvert á það sem áður hafi verið fullyrt. Kærandi hafi svarað tölvupóstinum frá 18. ágúst 2023 samdægurs en samskiptunum hafi greinilega verið lokið af hálfu borgarinnar þar sem synjunarbréf hafi borist þann 21. ágúst 2023 án frekari samskipta.
Reykjavíkurborg hafi þar með virt leiðbeiningarskyldu sína að vettugi ásamt því að veita óskýrar og misvísandi upplýsingar. Ekkert staðlað vottorð sé fyrir hendi fyrir þessa tegund umsóknar en áhrif sjúkdóma og samspil við aðstæður hljóti að þurfa að meta heildstætt í hverju tilviki til að gæta að jafnræði borgaranna. Það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli. Því til stuðnings megi meðal annars vísa til ummæla borgarstarfsmanns í tölvupósti frá 10. ágúst 2023:
„Almennt er ekki forsenda til að úthluta sérmerktu stæði þegar um gigt er að ræða.“
Í ljósi krefjandi persónulegra aðstæðna hafi kærandi ekki treyst sér til að fylgja málinu eftir eða sækja um að nýju fyrr en rúmu ári síðar, þann 24. september 2024.
Meðfylgjandi umsókn um sérmerkt stæði hafi verið tvö læknisvottorð, mat sjúkraþjálfara á göngufærni, afrit af stæðiskorti kæranda útgefið af sýslumanni, auk almennra upplýsinga frá kæranda. Þeirri umsókn hafi verið synjað þann 14. október 2024 og hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi í kjölfarið. Þar sem engin boðleið hafi verið tilgreind um hvernig ætti að óska rökstuðnings hafi kærandi fyllt út eyðublað á „Mínum síðum“, ætluðu áfrýjunarnefnd velferðarráðs, sem hafi tekið málið fyrir og staðfest synjun þann 4. desember 2024. Í synjunarbréfinu hafi komið fram að kærandi hafi ekki uppfyllt c. lið 1. mgr. 3. gr. reglnanna, en það hafi verið í fyrsta sinn sem kærandi hafi fengið að vita á hvaða grundvelli umsókninni hefði verið synjað. Hins vegar hafi engin frekari heimfærsla eða rökstuðningur fylgt til skýringar eins og óskað hefði verið eftir og því hafi rökstuðnings verið óskað að nýju.
Þann 13. desember 2024 hafi kæranda borist rökstuðningur borgarinnar samkvæmt 3. mgr. 58. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Heimfærslan hafi verið svohljóðandi:
„Samkvæmt læknisvottorði, dags. 21. ágúst 2023, sem fylgdi með umsókn þinni kemur fram að þú þjáist af fatlandi hrygggigt með stirðleika og skerta hreyfifærni. Þá kemur einnig fram að þú hafir haft P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, útgefið af sýslumanni. Ekki verður litið svo á að skert hreyfifærni teljist til langvarandi hreyfihömlunar eins og c. lið 1. mgr. 3. gr. framangreindra reglna kveður á um.“
Í rökstuðningnum sé fallist á að fyrirliggjandi gögn beri með sér að kærandi sé fötluð, glími meðal annars við hrygggigt auk stirðleika og sé með skerta hreyfifærni. Þess megi geta að hrygggigt sé langvinnur sjúkdómur sem hafi langvarandi áhrif á líf þeirra sem hafi hann. Auk þess séu skert hreyfigeta og hreyfihömlun sömu hugtökin samkvæmt skilgreiningum, það er þau nái yfir það sama (skert geta, hömlun, takmörkuð geta; hreyfiskerðing, hreyfihömlun, takmörkuð hreyfigeta o.s.frv.). Loks hafi verið minnst á P-kort kæranda sem sé gefið út af sýslumanni til handa hreyfihömluðum einstaklingum sem renni frekari stoðum undir umsóknina en um það hafi ekkert verið fjallað frekar.
Þannig feli rökstuðningur borgarinnar í sér mótsögn þar sem fallist sé á að kærandi búi við aðstæður sem c. liður 1. mgr. 3. gr. reglanna áskilji en þó sé fullyrt að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt. Umrædd grein sé tvíþætt. Annars vegar varðandi langvarandi hreyfihömlun og hins vegar að sú hreyfihömlun valdi því að umsækjandi geti ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.
Varðandi seinna atriðið bendi kærandi á að bílastæðafjölda í B sé almennt ábótavant. Fjöldi bílastæða sé langt undir eftirspurn og undantekningarlaust sé lagt á öllum gangstéttum, umferðareyjum og fleiru með tilheyrandi óþægindum. Þannig sé ljóst að ætli einstaklingur til dæmis að fara í heimsókn eftir hefðbundinn vinnudag sé ekki víst að hann nái að leggja nærri heimili sínu að kvöldi. Vonir hafi staðið til að með tilkomu stæða fyrir hreyfihamlaða, sem séu sex talsins, myndu lífsgæði hreyfihamlaðra íbúa aukast, það er að dregið yrði úr innilokun og einangrun frá fjölskyldu og vinum með tryggu aðgengi að heimilum þeirra. Svo sé því miður ekki þar sem að minnsta kosti tíu P-korthafar séu í hópi íbúa og þá sé ekki gert ráð fyrir gestum eða öðrum sem kunni að hafa P-merki og noti þau í stæðum fyrir framan húsið. Loks skuli á það minnst að kærandi búi í innsta húsi blokkarkjarnans sem telji 137 íbúðir. Því sé gönguleiðin frá bílastæði að íbúð kæranda lengri en ella. Kærandi hafi ekki getað valið um staðsetningu íbúðarinnar í ljósi þess að dregið hafi verið úr potti hjá borginni um úthlutun íbúða til fyrstu kaupenda og tekjulágra. Því hafi kæranda verið nauðugur einn sá kostur að taka úthlutaðri íbúð ellegar sitja sem fastast á leigumarkaði. Ef svo heppilega vildi til að kærandi gæti lagt í almennt stæði sé gönguleiðin að íbúð hennar orðin talsvert lengri og óviðráðanleg kæranda sem sé einstæð móðir með lítið barn.
Af öllu framangreindu sé ljóst að rökstuðningi borgarinnar sé ábótavant og atviksbundið mat á stöðu og aðstæðum kæranda hafi ekki farið fram með fullnægjandi hætti. Þess sé óskað að ákvörðun um synjun um sérmerkt bílastæði í borgarlandi verði endurskoðuð með tilliti til aðstæðna og stöðu kæranda og að ný ákvörðun verði rökstudd með viðeigandi hætti.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar bendir kærandi á að ágreiningur aðila snúi að orðalagi læknis í framlögðu vottorði og hvort sú lýsing á ástandi hennar teljist uppfylla ákvæði c. liðar 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar:
„Ekki sé hægt að líta svo á að „skert hreyfifærni“ geti talist langvarandi hreyfihömlun sem veldur því að umsækjandi geti ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.“
Í læknisvottorði hafi komið fram að kærandi hefði „skerta hreyfifærni“ og væri með „fatlandi hrygggigt“. Fátæklegur rökstuðningur borgarinnar gefi ekki tilefni til að draga aðra ályktun en að synjunin byggi á því að læknirinn hafi ekki notað „rétt orð“. Í vottorðinu komi fram ákveðin samheiti sem hafi efnislega sömu þýðingu og það sem komi fram í ákvæðinu. Þar sem meining orðanna sé sú sama hljóti það að teljast óeðlilegt að kærandi þurfi að verða sér úti um nýtt vottorð sem greini efnislega frá því sama en með ákjósanlegri orðum að mati borgarinnar.
Læknirinn hafi notað orð í vottorðinu sem séu samheiti þeirra sem komi fram í skilyrðum c. liðar 1. mgr. 3. gr. reglnanna samkvæmt nútímamálsorðabók:
„Hreyfihömlun/hreyfihamlaður: takmörkuð hreyfigeta, líkamleg fötlun sem lýsir sér í erfiðleikum með hreyfingar, á misháu stigi.
Hreyfigeta: geta einstaklings til að hreyfa sig eðlilega.
Dæmi undir niðurstöðu leitar: barnið er með skerta hreyfigetu.
Geta – hæfni – færni (samheiti).
Skert – skerðing/skertur: ekki heill, takmörkun.
Fatlandi – fötlun: það að einstaklingur þurfi fjölþætta þjónustu og aðstoð til langframa.“
Úr hugtakasafni Gigtarfélags Íslands megi svo finna skýringu á því hvað hryggikt/hrygggigt sé:
„Hryggikt: Langvinnur gigtarsjúkdómur (bólgusjúkdómur) sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum einnig í útlimaliðum.“
Í ljósi eðlis ágreiningsins vilji kærandi taka allan vafa af því að orðin langvarandi og langvinnur séu samheiti samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók og orðasambandið „til langframa“ vísi til þess sama.
Einnig sé hægt að nálgast umfjallanir um sjúkdóminn á heimasíðu Gigtarfélagsins, gigt.is, meðal annars um meðferðarúrræði:
„Meðferð sem leiðir til varanlegrar lækningar er ekki fyrir hendi. [...]. Helstu meðferðarform eru lyfjameðferð, sjúkraþjálfun og almenn líkamsþjálfun.“
Ljóst sé að hryggikt sé langvinnur, ólæknandi sjúkdómur. Kærandi fari í lyfjagjöf á Landspítalanum á sex vikna fresti, taki að auki önnur gigtarlyf, fari í sjúkraþjálfun vikulega og sinni almennum líkamsæfingum daglega. Þrátt fyrir beitingu allra meðferðarúrræða glími kærandi enn við afleiðingar sjúkdómsins á hverjum degi, það er skerta hreyfifærni og verulegan verkjavanda. Langvinnar afleiðingar sjúkdómsins, sérstaklega þær sem hafi komið fram áður en lyfjameðferð hafi hafist, verði ekki teknar til baka þó einhverjum einkennum sé hægt að halda í skefjum.
Þá hafi lyfjameðferðin, sem sé ónæmisbælandi, haft gríðarleg áhrif á almenna heilsu kæranda vegna tíðra veikinda og sýkinga. Nú seinast í lok nóvember 2024 þegar hún hafi verið flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku í andnauð vegna skyndilegrar lungnabólgu. Sýklalyfjagjöf í æð í viku hafi tekið við og svo sjö vikna sýklalyfjameðferð í töfluformi í framhaldinu sem standi enn yfir. Vegna tíðra veikinda og sýkinga sem hafi kallað á sýklalyfjameðferðir hafi kæranda oft verið frestað í lyfjagjöf með þeim afleiðingum að einkenni sjúkdómsins haldist ekki niðri eins vel og ætla mætti af árangursríkri meðferð. Þrátt fyrir þetta hafi það verið metið sem svo að ávinningur lyfjameðferðarinnar sé meiri en minni, enda komist kærandi oftast fram úr á morgnana fyrir tilstilli lyfjanna, þrátt fyrir að það taki mislangan tíma, en það sama gildi ekki alltaf um getu hennar til að komast að bifreið sinni. Sjúkraþjálfun sé mjög mikilvægur þáttur í að halda við þeim ávinningi sem lyfjagjöfin bjóði upp á en falli niður tími í sjúkraþjálfun hafi það umtalsverð áhrif á stöðu kæranda þar sem meðferðin feli meðal annars í sér liðlosun, liðkun, bólgueyðandi lasermeðferð og fleira sem kærandi geti ekki framkvæmt sjálf.
Ljóst sé að aðstæður séu um margt flóknar og margþættar. Kærandi hafi talið framangreint varðandi meðferðir og árangur þeirra ekki hafa þurft að koma fram í upphaflegri umsókn vegna þess að kærandi, læknir og sjúkraþjálfari hafi talið fyrirliggjandi gögn fullnægjandi fyrir umsóknina. Þess skuli getið að um aðrar sjúkdómsgreiningar hafi ekki verið fjallað hér eða áður af sömu ástæðum, þar sem talið hafi verið að uppgefnar upplýsingar væru nægjanlegar til þess að falla undir ákvæði reglnanna fyrir veitingu sérmerkts stæðis. Í ljósi þess að ágreiningur sé uppi um jafn ótrúleg atriði og raun beri vitni muni kærandi þó útvega nefndinni frekari vottorð ef þurfa þyki til rökstuðnings framangreindra viðbótarupplýsinga.
Varðandi vottorð frá sjúkraþjálfara miði það ekki að umsókn um sérmerkt stæði en gönguprófið hafi verið framkvæmt í þeim tilgangi að uppfylla skilyrði umsóknar kæranda hjá Tryggingastofnun um sérstaka uppbót til reksturs bifreiðar. Þar sem sjúkraþjálfarar hafi verið utan samninga og ekkert hafi legið fyrir um kostnaðarþátttöku hins opinbera við framkvæmd prófsins og gerð vottorðsins hafi sjúkraþjálfari kæranda þurft að sinna þeirri vinnu utan vinnutíma og án kaups. Kærandi hafi ekki haft í sér að óska þess að sjúkraþjálfarinn legði meira á sig launalaust og hafi því óskað samþykkis fyrir því að vottorðið sem hafi þá þegar verið gert mætti fylgja með umsókn um sérmerkt stæði til frekari rökstuðnings.
Þá þyki vert að ítreka og leggja áherslu á að þrátt fyrir að göngugeta kæranda sé umtalsvert minni en heilbrigðrar manneskju á sama aldri hafi prófið verið framkvæmt á góðum degi, það er dagsform hennar hafi verið með besta mögulega móti. Ekki hafi komið til greina að gangast undir prófið á slæmum degi þar sem kærandi sé einstæð móðir og það hefði verið of mikil áhætta að taka. Prófið sé framkvæmt þannig að ganga eigi í sex mínútur án þess að stoppa. Þar sem kæranda hafi munað verulega um uppbót vegna reksturs bifreiðar og fengi hana ekki nema gönguprófið yrði framkvæmt hafi hún neyðst til þess að leggja það á sig. Ljóst hafi verið að eftirköst yrðu og til að lágmarka líkurnar á þeim mun verri eftirköstum hafi verið ákveðið að framkvæma matið svona, það er á góðum degi, en við eðlilegar aðstæður hefði kærandi hætt að ganga mun fyrr til að hlífa sér fyrir frekari verkjum, þreytu og ofreynslu. Hefði prófið verið framkvæmt á verri degi hefðu niðurstöðurnar eflaust orðið verri en þó sé ekki hægt að fullyrða að kærandi hefði haldið það út að láta meta sig.
Loks sé það ítrekað að sýslumenn gefi út P-merki eða stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk en að baki slíkum umsókum sé ferli þar sem óska þurfi vottorðs frá lækni. Kæranda hafi verið úrskurðað slíkt kort sem gefi til kynna að læknirinn sem hafi skrifað vottorðið hafi lagt sitt faglega mat á þörfina fyrir það og sýslumannsembættið hafi verið honum sammála um það. Stæðiskort kæranda ætti því að taka allan vafa af um að hún sé hreyfihömluð.
Varðandi aðstæður við heimili kæranda séu þær, og hafi verið, erfiðar frá upphafi. Borginni sé vel kunnugt um þau mál sem hafi verið íbúum til ama en yfirborðsfrágangi í götunni, það er malbikun vega og hellulagningu stæða, hafi ekki verið lokið fyrr en seint síðasta haust, að minnsta kosti að mestu. Borginni hafi verið bent á frá upphafi að gert væri ráð fyrir of fáum bílastæðum miðað við fjölda íbúa á svæðinu en viðbrögðin hafi lengst af verið takmörkuð. Nú hafi nokkrar úrbætur verið gerðar en þar sem vandinn hafi verið viðvarandi og breytingarnar ekki kynntar, það er nýtt svæði þar sem bílastæði hafi verið gerð, þá leggi fólk bílum sínum hvar sem auðan blett sé að finna. Skipti þar engu hvort um sé að ræða gangstétt, aðkomu fyrir neyðarbifreiðar eða P-merkt stæði. Af þessum sökum sé aðgengi oft ábótavant, sérstaklega fyrir hreyfihamlað fólk.
Eins og komið hafi fram í upphaflegu erindi til nefndarinnar séu P-stæðin í götunni færri en fjöldi handhafa P-merkis í hópi íbúa. Kæranda sé ekki kunnugt um heildarfjölda íbúa í götunni sem hafi P-merki en í C séu að minnsta kosti 11 einstaklingar sem séu handhafar slíks merkis en stæðin fyrir framan blokkirnar séu sex. Það gefi því augaleið að aðgengi hreyfihamlaðra íbúa að heimilum sínum sé ekki tryggt. Varðandi aðstæður á umræddum stað vilji kærandi vekja sérstaka athygli á umsögn í greinargerð rafrænnar miðstöðvar borgarinnar þar sem segi:
„Umhverfis og skipulagssvið hefur veitt staðfestingu þess efnis að það sé heimilt að það sé hægt að setja upp sérmerkt stæði á bílastæði C.“
Kærandi óski þess að úrskurðarnefndin skoði málið heildstætt, það er út frá gögnum og þýðingu þeirra orða sem læknirinn hafi notað í vottorði sínu til að lýsa ástandi hennar en festist ekki í orðhengilshætti líkt og borgin hafi gert. Við ritun vottorðsins hafi læknirinn ekki flett upp reglum borgarinnar til þess að gæta að nákvæmlega sama orðalagi og sé í ákvæðinu enda væri slík krafa óeðlileg. Verði svo að málið strandi á orðavali læknisins muni það koma til með að viðhalda ástandi sem hafi neikvæð áhrif á heilsu kæranda þar til hún komist aftur að hjá sama lækni til þess eins að fá annað vottorð sama efnis nema með ákjósanlegri orðum samkvæmt mati starfsfólks borgarinnar. Kærandi telji það óásættanlegt að kerfið fari svo illa með tíma heilbrigðisstarfsfólks og viðhafi slíkar aðgengistakmarkanir að úrræðum fyrir fatlað fólk til að njóta réttinda sinna.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X árs gömul kona sem hafi glímt við fjölþættan líkamlegan og félagslegan vanda síðastliðin ár. Árið 2012 hafi hún verið greind með vefjagigt og farið í endurhæfingu sem hafi gengið vel að sögn lækna. Þremur árum síðar hafi hún verið greind með hrygggigt og sé í líftæknimeðferð vegna þess. Samkvæmt bréfi sjúkraþjálfara búi kærandi við stanslausa verki, röskun á svefni og sé sjaldan úthvíld.
Kærandi hafi sótt um sérmerkt bílastæði samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar með umsókn, dags. 24. september 2024. Framangreindri umsókn hafi verið synjað með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 14. október 2024. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 4. desember 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Rafrænni miðstöð Reykjavíkurborgar á úthlutun á sérmerktu bílastæði skv. c lið 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar.“
Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi vegna framangreindrar ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs með beiðni, dags. 5. desember 2024, og hafi beiðni hennar um rökstuðning verið send með bréfi, dags. 13. desember 2024. Þann 10. janúar 2025 hafi kærandi kært ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2024, til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar hafi tekið gildi 1. september 2023 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 7. júní 2023 og á fundi borgarráðs þann 15. júní 2023. Í reglunum sé að finna ákvæði er lúti að úthlutun bílastæða á lóðum í eigu Reykjavíkurborgar fyrir hreyfihamlaða einstaklinga nálægt heimili sínu. Markmið reglnanna sé að auðvelda hreyfihömluðum einstaklingum, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, aðgengi að heimilum sínum.
Í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar sé að finna skilyrði fyrir veitingu bílastæðis og ákvæðið sé svohljóðandi:
„Umsækjandi skal uppfylla öll eftirtalin skilyrði til að fá úthlutað sérmerktu bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar:
a) Umsækjandi skal eiga lögheimili í Reykjavík.
b) Bílastæðið sem sótt er um skal vera á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
c) Umsækjandi skal búa við langvarandi hreyfihömlun sem veldur því að hann getur ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.
d) Umsækjandi skal vera handhafi P-merkis, stæðiskorts fyrir hreyfihamlað fólk.
Sérmerktu bílastæði skal aðeins úthlutað við lögheimili umsækjanda. Sérmerktu bílastæði er ekki úthlutað ef íbúð fylgir réttur til notkunar á bílastæði innan lóðar. Ekki er úthlutað fleiri en einu sérmerktu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir hvern einstakling.“
Samkvæmt læknisvottorði, dags. 21. ágúst 2023, þjáist kærandi af fatlandi hrygggigt með stirðleika og skerta hreyfifærni. Þá komi einnig fram að kærandi sé með P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, útgefið af sýslumanni. Það hafi verið mat áfrýjunarnefndar að ekki sé hægt að líta svo á að „skert hreyfifærni“ uppfylli skilyrði c. liðar 1. mgr. 3. gr. umræddra reglna þar sem kveðið sé á um að umsækjandi skuli búa við langvarandi hreyfihömlun sem valdi því að hann geti ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.
Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta synjun rafrænnar miðstöðvar Reykjavíkurborgar um úthlutun sérmerkts bílastæðis fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar samkvæmt c. lið 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar, dags. 4. mars 2024, kemur fram að það hafi verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að göngugeta kæranda kæmi ekki í veg fyrir að hún gæti nýtt sér almennt bílastæði við heimili sitt auk þess sem þar séu einnig sérmerkt bílastæði, svokölluð P-stæði, sem kærandi geti notað þar sem hún hafi fengið stæðiskort, P-merki. Viðbótarathugasemdir kæranda breyti þar engu um.
Varðandi athugasemdir kæranda vegna aðkomu félagsráðgjafa að greinargerð hennar og upplýsingum um félagslegar aðstæður í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs sé rétt að taka fram að ekki sé unnið með meiri upplýsingar en þörf sé á í tengslum við umsókn um sérmerkt bílastæði. Þá sé bent á að þær félagslegu upplýsingar sem komi fram í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar séu afar takmarkaðar og tengist umsókn kæranda. Samkvæmt 15. gr. reglna um sérmerkt bílastæði hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs heimild til að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir og umsækjandi fari fram á það með sérstakri beiðni til áfrýjunarnefndar innan fjögurra vikna frá því honum hafi borist vitneskja um ákvörðun. Þegar áfrýjunarnefnd velferðarráðs leggi mat á mál umsækjenda séu aðstæður þeirra skoðaðar heildstætt og því nauðsynlegt að fram komi stutt lýsing á félagslegum aðstæðum umsækjanda.
Í umræddri greinargerð sé tekið fram að kærandi fái félagslega ráðgjöf í tengslum við uppeldi og að hún búi ásamt syni sínum í D. Umfjöllun um líkamlegan vanda kæranda tengist umsókn hennar þar sem verið sé að leggja mat á það hvort hún uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar. Það sé því mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að gætt hafi verið meðalhófs við vinnslu persónuupplýsinga við gerð greinargerðar fyrir áfrýjunarnefndinni.
Þá sé rétt að taka fram að um sé að ræða starfsmann rafrænnar miðstöðvar Reykjavíkurborgar sem taki við og leggi mat á umsóknir um sérmerkt stæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar. Hann beri ábyrgð á því að skoða fyrirliggjandi gögn og kanna hvort umsækjendur uppfylli skilyrði reglna fyrir veitingu sérmerkts stæðis. Vegna starfsins hafi starfsmaðurinn aðgang að þeim upplýsingum sem geymdar séu í málaskrá velferðarsviðs en þar skrái starfsfólk upplýsingar sem nauðsynlegar séu vegna ráðgjafar og þjónustu sem veitt sé af hálfu velferðarsviðs. Það sé þó alveg skýrt að starfsmönnum sé óheimilt að skoða meiri upplýsingar en þeir þurfi vegna starfs síns og allar uppflettingar starfsfólks í málaskrá séu rekjanlegar til þess að tryggja persónuvernd einstaklinga. Þá sé starfsfólk Reykjavíkurborgar sem komi að vinnslu persónuupplýsinga um umsækjanda bundið þagnarskyldu. Vegna athugasemda kæranda við umræddan starfsmann hafi kæranda verið bent á persónuverndarstefnu Reykjavíkurborgar og að hægt væri að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar eða senda erindi til Persónuverndar.
Að lokum sé beðist velvirðingar á þeim mistökum sem hafi orðið við ritun greinargerðar fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs hvað varði dagsetningar á umsókn og greinargerð en þær athugasemdir sem kærandi geri standist ekki. Umsókn kæranda um sérmerkt bílastæði hafi verið móttekin 24. september 2024. Henni hafi verið svarað með bréfi, dags. 14. október 2024, og kærandi hafi óskað eftir að áfrýja niðurstöðu rafrænnar miðstöðvar með bréfi, dags. 14. október 2024. Niðurstaða áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi verið kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. desember 2024. Ráðgjafi rafrænnar miðstöðvar hafi haft samband við kæranda símleiðis í október 2024 til þess að leggja mat á málið og afla upplýsinga í tengslum við ritun greinargerðar fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Með vísan til alls framangreinds sem og fyrri greinargerðar áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða öðrum lögum.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
Núgildandi reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar tóku gildi 1. september 2023. Markmið með veitingu sérmerktra bílastæða fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar er að auðvelda hreyfihömluðu fólki aðgang að heimili sínu, sbr. 1. gr. reglnanna.
Í 3. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir úthlutun sérmerkts bílastæðis. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Umsækjandi skal uppfylla öll eftirtalin skilyrði til að fá úthlutað sérmerktu bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar:
a) Umsækjandi skal eiga lögheimili í Reykjavík.
b) Bílastæðið sem sótt er um skal vera á landi í eigu Reykjavíkurborgar.
c) Umsækjandi skal búa við langvarandi hreyfihömlun sem veldur því að hann getur ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.
d) Umsækjandi skal vera handhafi P-merkis, stæðiskorts fyrir hreyfihamlað fólk.
Sérmerktu bílastæði skal aðeins úthlutað við lögheimili umsækjanda. Sérmerktu bílastæði er ekki úthlutað ef íbúð fylgir réttur til notkunar á bílastæði innan lóðar. Ekki er úthlutað fleiri en einu sérmerktu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir hvern einstakling.“
Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að skilyrði c. liðar 1. mgr. 3. gr. reglnanna væru ekki uppfyllt fyrir veitingu sérmerkts bílastæðis. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dags. 21. ágúst 2023, þar sem fram kemur að kærandi þjáist af fatlandi hrygggigt með stirðleika og skertri hreyfifærni. Þá kemur einnig fram að kærandi sé með P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, enda eigi hún mjög erfitt með að komast lengri vegalengdir. Í greinargerð Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar kemur fram að ekki sé hægt að líta svo á að „skert hreyfifærni“ uppfylli skilyrði c. liðar 1. mgr. 3. gr. reglnanna þar sem kveðið sé á um að umsækjandi skuli búa við langvarandi hreyfihömlun sem valdi því að hann geti ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt.
Miðað við skoðun á vettvangi með vefmyndum er ljóst að kærandi gæti þurft að leggja fjarri inngangi að heimili sínu án sérmerkts bílastæðis. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, sem er meðal annars skipuð lækni, liggur fyrir að kærandi er með langvinnan gigtarsjúkdóm sem er til þess fallinn að ágerast til lengri tíma litið og valda viðvarandi skertri hreyfigetu. Þá telur úrskurðarnefndin ljóst að göngugeta kæranda er verulega skert sem veldur því að hún getur ekki notað almennt bílastæði við heimili sitt. Er því brýnt í ljósi takmarkaðra stæða við heimili kæranda að tryggja henni öruggt stæði nærri inngangi heimilisins. Að því virtu og með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að skilyrði c. liðar 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk sé uppfyllt. Ekki virðist ágreiningur um að skilyrði annarra stafliða 1. mgr. 3. gr. reglnanna séu uppfyllt í tilviki kæranda.
Synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sérmerkt bílastæði er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2024, um að synja umsókn A, um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir