Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 616/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 616/2024

Fimmtudaginn 27. febrúar 2025

A

gegn

Grindavíkurbæ

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Grindavíkurbæjar vegna umsóknar hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 2. nóvember 2023, var erindi kæranda sem barst nefndinni 19. september 2023 vegna synjunar Grindavíkurbæjar á greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir júlí, september, október og nóvember 2022, framsent til félagsmálaráðs Grindavíkurbæjar til afgreiðslu á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 28. nóvember 2024 og vísaði til þess að Grindavíkurbær hefði enn ekki tekið mál hans til meðferðar og því kærði hann drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Grindavíkurbæjar ásamt gögnum málsins. Sveitarfélaginu var veittur frestur til 19. desember 2024 til að skila greinargerð en hún barst ekki innan tilskilins frests. Beiðni um greinargerð var ítrekuð 9. og 16. janúar 2025. Með erindi, dags. 28. janúar 2025, var úrskurðarnefndin upplýst um að sveitarfélagið hefði samþykkt að greiða kæranda fjárhagsaðstoð í samræmi við kröfur hans. Þann 3. febrúar 2025 barst úrskurðarnefndinni staðfesting á því að kærandi hefði þann 19. desember 2024 fengið greidda fjárhagsaðstoð frá Grindavíkurbæ fyrir júlí, september, október og nóvember 2022. Óskað var eftir afstöðu kæranda til þeirra upplýsinga með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2025. Svar barst ekki.

II.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna afgreiðslu Grindavíkurbæjar á umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir júlí, september, október og nóvember 2022. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Fyrir liggur að eftir að kærandi lagði fram kæruna afgreiddi Grindavíkurbær mál hans eða þann 19. desember 2024, þ.e. kærandi fékk þann dag greidda fjárhagsaðstoð fyrir þá mánuði sem ágreiningur laut að. Í ljósi þess að kærandi hefur þegar fengið greidda umbeðna fjárhagsaðstoð er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta