Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 584/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 584/2024

Fimmtudaginn 13. febrúar 2025

A

gegn

Garðabæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Garðabæjar, dags. 25. september 2024, um að synja umsókn hans um notendasamning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. september 2024, óskaði kærandi eftir þjónustu frá Garðabæ í formi notendasamnings fyrir 110 klukkustundum á mánuði. Umsókn kæranda var tekin fyrir á afgreiðslufundi stuðnings- og stoðþjónustu, dags. 24. september 2024, þar sem henni var synjað á þeirri forsendu að þjónustuþörf hans næði ekki 40 klukkustundum á mánuði, sbr. d. lið 2. mgr. 8. gr. reglna Garðabæjar um notendasamninga. Kæranda var kynnt sú ákvörðun með bréfi velferðarsviðs Garðabæjar, dags. 25. september 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. nóvember 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. nóvember 2024, var óskað eftir greinargerð Garðabæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 10. desember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 6. og 7. janúar 2025 og voru þær kynntar Garðabæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að eftir að kærandi hafi flutt til Garðabæjar hafi tvisvar sinnum verið skorin niður þjónustu til hans án haldbærra skýringa, eða um 80%. Kærandi hafi verið talinn þurfa óbreytta aðstoð í um áratug í Reykjavík en strax við komu til Garðabæjar hafi aðstoð verið skorin niður um 80%. Því hafi verið snúið við með hjálp réttindagæslunnar en svo hafi það sama gerst þegar kærandi hafi náð fullorðinsaldri. Kærandi hafi ekki fengið notendasamning í yfir tvö ár, en það sé það form sem hafi hentað honum best og sem teymi sérfræðinga hafi metið hentugast fyrir hann.

Í athugasemdum, dags. 6. janúar 2025, vegna greinargerðar Garðabæjar er greint frá því að kærandi hafi að mestu verið án aðstoðar í heilt ár á meðan mál hans hafi verið í athugun. Tekið er fram að kærandi og móðir hans telji forsögu málsins lykilatriði því þar birtist mynstur sem þeim finnist alvarlegt þar sem mikið viðnám sé við að meta fötlun kæranda og veita honum viðunandi þjónustu. Eitt sé að vilja ekki veita mikla þjónustu í sveitafélaginu en þegar starfsfólk sé farið að segja ósannindi um þjónustuna sjálfa og þjónustuþega sé það talsvert alvarlegt.

Mál kæranda sé sett þannig upp að það sé talsmaðurinn sem standi einn að baki því að sækja hans réttindi en svo sé ekki. Kærandi sitji með talsmanni sínum við ritun flestra tölvupósta og taki yfirleitt upp svörin. Kærandi sé í raun afburðagáfaður en þurfi aðstoð við ákveðna hluti í daglegu lífi. Til að mynda eigi kærandi erfitt með að mæta í skóla eða vinnu ef móðir hans sé stödd erlendis og engin þjónusta sé til staðar. Það geti námsráðgjafi hans staðfest. Þau hafi upplifað slíkt. Kærandi þurfi talsverða persónulega aðstoð við daglegt líf. Hann hneigist til vanvirkni og félagslegrar einangrunar ef ekki sé góður rammi utan um hann ásamt hvatningu og dagskrá sem hann fái aðstoð við. Kærandi sjálfur sé alltaf til í að mæta á fundi og ræða þessi mál. Það geti réttindagæslumaður staðfest eftir að hafa unnið í málinu með þeim, að kærandi vilji fá viðunandi aðstoð og sækja réttindi sín.

Ekki sé satt að þau hafi ekki náð kvótanum fyrir tíma til að sækja um notendasamning. Í meðfylgjandi viðhengi sé að finna útlistun á tímum sem hafi verið nýttir á árinu 2024 og nái upp í kvótann. Þau hafi haft undanþágu hjá Garðabæ um samþykki til að kaupa þjónustu frá heimilisþrifafyrirtæki eins og í Reykjavík og þeir tímar hafi átt að teljast með, enda segi kærandi að slík þjónusta gagnist honum langbest því þá eigi hann auðveldara með að hugsa og móðir hans geti einbeitt sé meira að því að aðstoða kæranda með persónuleg mál, skipulag, persónulegt hreinlæti og fleira heimavið.

Varðandi SIS matið þá hafi þau beðið um endurmat á því þar sem þau hafi svarað spurningunum um hvað kærandi gæti gert miðað við að hann væri með 70 klukkutíma notendasamning.  Þeim hafi verið meinað að hafa liðveislu kæranda, sjúkraþjálfara eða sérfræðing í hans þörfum með. Þeim hafi eingöngu verið leyft að hafa námsráðgjafa hans viðstaddan. Að mati kæranda sé hún einn besti námsráðgjafi sem hann hafi haft en hún sé þó enginn sérfræðingur í hans þjónustuþörfum.

Þau hafi engar skýringar fengið á því af hverju kærandi komi inn til Garðabæjar með vinnu frá stóru teymi og endurmat í nær áratug upp á að þurfa 110 tíma í aðstoð í beingreiðslu- eða notendasamningi í það að þjónusta hafi verið skorin niður um 85%. Þá hafi SIS mat kæranda verið hátt og metið síðar í Garðabæ upp á sjö en svo nú upp á þrjá sem þau telji ógilt. Ekki sé vilji til að meta það aftur fyrr en kærandi sé kominn með 60 tíma grunnþjónustu við fatlað fólk sem sé ekki. Eftir aðkomu réttindagæslu hafi kærandi verið metinn í þörf fyrir 110 tíma notendasamning en um tveimur árum síðar hafi hann verið metinn í þörf fyrir 50 tíma notendasamning þar sem reynt hafi verið að koma 20 auka tímum á nafn móður kæranda í stað hans nafns. Það hafi svo endað á 70 tímum en svo hafi aftur verið skorið niður í 24-26 tíma og þrif tvisvar í viku. Iðulega hafi verið reynt að hafa af kæranda notendasamninginn og þeim hafi oft verið sagt ósatt um notendasamninga og NPA samninga hjá Garðabæ. Meðal annars hafi þeim verið sagt að slíkir samningar væru ekki í boði í Garðabæ og logið hafi verið til um tölu virkra samninga, sem þau hafi sannreynt með samtölum við aðra þjónustunotendur og foreldra fatlaðrar stúlku í bænum.

Einnig er tekið fram að kærandi hafi ekki fengið neina aðstoð við vinnuleit þrátt fyrir að þau hafi beðið um slíkt. Þá sé þeim svarað seint og illa.

Í athugasemdum, dags. 7. janúar 2025, er tekið fram að það hafi reynst kæranda og móður hans þungbært og gríðarlega íþyngjandi að þiggja ekki þá litlu þjónustu sem Garðabær hafi boðið þeim á árinu 2024. Líf kæranda hafi meira og minna verið í biðstöðu, þjónustuleysið hafi haft áhrif á nám hans og sumarvinnu. Kærandi lifi engu félagslífi nema samskiptum við fjölskyldu og taki takmarkaðan þátt í samfélaginu, rétt svo mæti í skóla og sumarvinnu en missi aðeins úr. Þarfir kæranda verði alltaf vanræktar án viðunandi aðstoðar.

Kærandi hafi ekki tekið þessa ákvörðun af léttúð. Þegar kæranda hafi verið boðið það sem alls ekki dugi til þess að hann geti lifað mannsæmandi lífi hafi það verið grundvallaratriði fyrir hann að reyna að sækja sín réttindi til sjálfstæðs lífs í eigin íbúð. Kærandi sé algjörlega upp á móður sína kominn og geti ekki skipulagt eigið líf með 15% af þeirri aðstoð sem hann hafi haft áður. Að auki vilji Garðabær iðulega taka sjálfstæðið af kæranda með því að hafa af honum notendasamning en bjóði svo ekki fram aðstoð við að koma á liðveislu og heimilisþrifum. Garðabær vilji ekki aðstoða kæranda á neinn hátt við rekstur þjónustunnar eða koma henni upp nema bara til að greiða laun og kannski hjálpa til við ráðningar starfsmanna. Þegar fólki sé boðið eitthvað sem sé fráleitt og óásættanlegt verði fólk að standa á sínu, það sé allavega þeirra sýn á málið. Þeim finnist þetta algjörlega óásættanlegt. Margt fólk hafi gefist upp og flutt til Reykjavíkur eða á Suðurnesin. Þau vilji ekki að fælingarmáttur Garðabæjar vegna ástandsins varðandi þjónustu við fatlað fólk sé að heppnast hjá sveitarfélaginu. Það hvetji Garðabæ enn frekar til að koma illa fram við fatlað fólk sem hafi ekki efni á því að kaupa eigin þjónustu og fæli það frá búsetu í sveitarfélaginu. Samkvæmt lögum eigi fólk rétt á viðunandi aðstoð til að lifa sjálfstæðu lífi og taka þátt í samfélaginu. Í máli kæranda hafi það ekki heppnast í Garðabæ vegna þess reglulega uppátækis að skera niður þjónustu við hann um 85% og hafa af honum notendasamning og sjálfstæði í þjónusturekstri. Það hafi verið gert á mjög óþægilegan hátt, án samráðs og í berhögg við lög og þjónustuviðmið landsins. Þá er tekið fram að ákveðið samþykki sé fólgið í því að þiggja þjónustu sem ekki dugi og setji ákveðið fordæmi.

III.  Sjónarmið Garðabæjar

Í greinargerð Garðabæjar er tekið fram að þjónusta velferðarsviðs Garðabæjar byggist á mati á stuðningsþörfum kæranda, SIS mati og upplýsingum frá umsækjanda, persónulegum talsmanni hans, réttindagæslumanni og skóla. Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála séu lögð fram fjölmörg gögn er varði sýn persónulegs talsmanns á þjónustu við kæranda í gegnum árin. Velferðarsvið Garðabæjar muni í greinargerðinni eingöngu fjalla um umsókn kæranda um notendasamning, dags. 12. september 2024, vinnslu þeirrar umsóknar og afgreiðslu.

Við afgreiðslu málsins hafi verið stuðst við fyrirliggjandi SIS mat, mat á stuðningsþörf sem hafi verið framkvæmt af ráðgjafa velferðarsviðs 27. september 2023 og upplýsingum frá notanda um stöðu sína. Þar sem kærandi hafi ekki verið metinn í þörf fyrir stuðning umfram 40 klukkustundir á mánuði hafi ekki verið hægt að verða við beiðni um notendasamning, sbr. d. lið 2. mgr. 8. gr. reglna Garðabæjar um notendasamninga. Kæranda hafi verið leiðbeint með stuðningsþjónustu í formi einstaklingsstuðnings.

Á afgreiðslufundi stuðnings- og stoðþjónustu 24. september 2024 hafi eftirfarandi bókun verið gerð vegna umsóknar kæranda:

„Tekið er fyrir mál nr. 2409231, umsókn A, um notendasamning. Óskað er 110 klst. á mánuði í notendasamningi. Til grundvallar afgreiðslu umsóknar liggja eftirtalin fylgigögn: SIS mat dags. 18.10.2023 sem sýnir enga eða litla stuðningsþörf vegna heilsu og/eða hegðunar, mat á stuðningsþörf dags. 27.9.2023 sem sýnir fram á þörf fyrir einstaklingsstuðning, 16 klst í mánuði og upplýsingar frá notanda um stöðu sína. Umsókn uppfyllir ekki skilyrði d-liðar 2. mgr. 8. gr. reglna Garðabæjar um notendasamninga þar sem segir að lágmark þjónustu notendasamnings sé 40 klst. á mánuði. Umsókn um notendasamning er því synjað. Umsækjanda verður leiðbeint um stuðning á öðru formi sem talið er hentugra að mæta þjónustuþörfum umsækjanda.“

Persónulegur talsmaður kæranda hafi óskað eftir endurmati á SIS mati en sérfræðiteymi hafi ekki orðið við því þar sem of skammur tími hafi verið liðinn frá fyrra mati. Ekki sé hægt að áætla fjölda klukkustunda í stuðningsþörf á grundvelli SIS mats en stuðningsflokkur kæranda gefi til kynna enga eða litla stuðningsþörf vegna heilsu eða hegðunar. Samkvæmt upplýsingum sem liggi fyrir hafi stuðningsþarfir kæranda ekki breyst frá því að mat á stuðningsþörf hafi verið framkvæmt í september 2023. Þá hafi kærandi staðið til boða einstaklingsstuðningur, 16-20 klukkustundir á mánuði, auk þrifa tvisvar í mánuði en hann hafi ekki nýtt sér þann stuðning nema að litlu leyti.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Garðabæjar um að synja umsókn kæranda um þjónustu frá sveitarfélaginu í formi notendasamnings fyrir 110 klukkustundum á mánuði.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við stuðningsþjónustu, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í VII. kafla laga nr. 40/1991 er fjallað um stuðningsþjónustu. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Í 4. mgr. 26. gr. laganna kemur fram að ákvörðun um stuðningsþjónustu samkvæmt 1. mgr. feli í sér að aðstoð sé að jafnaði veitt í tiltekinn fjölda klukkustunda í viku hverri á grundvelli mats á stuðningsþörfum, sbr. 27. gr., og þess almenna viðmiðs að aðstoð geti numið allt að 15 stundum á viku. Um aukna þjónustuþörf fari samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.

Í 8. gr. laga nr. 38/2018 er fjallað um stoðþjónustu en þar segir í 1. mgr. að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustu skuli veita í hverju sveitarfélagi með þeim hætti sem best henti á hverjum stað og hún skuli miðast við eftirtaldar þarfir:

  1. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku.
  2. Þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
  3. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
  4. Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.
  5. Þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.

Í 10. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um notendasamninga. Í 2. gr. laganna eru notendasamningar skilgreindir á eftirfarandi hátt:

„Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.“

Samkvæmt  1. mgr. 10. gr. er einstaklingi heimilt að sækja um samning við sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar. Markmið notendasamninga er að auka val einstaklinga um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar, að undangengnu faglegu mati, sbr. 2. mgr. 10. gr. Þá segir í 3. mgr. að einstaklingar eða barnafjölskyldur sem hafi verið metnar í þörf fyrir aðstoð eða stoðþjónustu geti sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað sé um framkvæmd stoðþjónustunnar. Heimilt sé að samþætta þjónustu sem einstaklingur eigi rétt á samkvæmt öðrum lögum í slíkum samningi. Hlutaðeigandi sveitarfélag geri slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setji. Við gerð notendasamninga skulu uppfyllt skilyrði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna, meðal annars hvað varðar aðbúnað þeirra á vinnustað, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag geti rift notendasamningi verði misbrestur þar á.

Í athugasemdum við ákvæði 10. gr. í frumvarpi til laga nr. 38/2018 segir svo:

„Ákvæðið fjallar um heimild sveitarfélags eða sveitarfélaga sem standa saman að þjónustusvæði til að gera notendasamninga um form og fyrirkomulag stuðnings og aðstoðar. Hugtakið er skilgreint í 2. gr. en gert er ráð fyrir að notendasamningar geti verið margs konar. Það sem er sammerkt með þeim öllum er að með þeim er hinum fatlaða fengin meiri stjórn yfir þeirri þjónustu sem hann fær.

Samkvæmt 2. mgr. er nauðsynlegt að notendur þjónustunnar hafi undirgengist faglegt mat áður en gerðir eru við þá notendasamningar. Tilgangur þess er að tryggja að ljóst sé frá upphafi samningsgerðar hverjar stuðningsþarfirnar eru og að þjónustan nái markmiði sínu.“

Í 4. gr. reglna Garðabæjar um notendasamninga er fjallað um mat á stuðningsþörf. Þar segir að mat á stuðningsþörf umsækjanda fari fram á grundvelli reglna Garðabæjar um stuðningsþjónustu, um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, auk reglna um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra, eftir því sem við eigi. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að umfang samnings sé ákvarðað á grundvelli mats á stuðningsþörf.

Í 8. gr. framangreindra reglna Garðabæjar er kveðið á um skilyrði fyrir gerð notendasamnings. Þar segir í 2. mgr. að til að umsækjandi eigi rétt á stuðningi samkvæmt notendasamningi verði hann að uppfylla öll skilyrði 7. gr. reglnanna um grundvöll notendasamnings og forgang til stuðnings í formi notendasamnings, ásamt öllum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Umsækjandi skal eiga lögheimili í Garðabæ á meðan þjónustan er veitt.
  2. Umsækjandi skal hafa náð 18 ára aldri. Foreldrar/forsjáraðilar fatlaðra barna geta jafnframt sótt um stuðning samkvæmt notendasamningi fyrir hönd barna sinna.
  3. Umsækjandi skal búa í sjálfstæðri búsetu en ekki í sértæku húsnæðisúrræði sem velferðarsvið Garðabæjar úthlutar þar sem veittur er samræmdur stuðningur. Búseta einstaklings í foreldrahúsum fellur undir sjálfstæða búsetu. Einstaklingar sem búa á hjúkrunarheimili eða stofnun þar sem greidd eru daggjöld frá ríkinu eiga ekki rétt á stuðningi samkvæmt notendasamningi.
  4. Umsækjandi sem á rétt á stuðningi samkvæmt reglum Garðabæjar um stuðningsþjónustu skal þurfa aðstoð sem nemur að lágmarki 40 klst. og að hámarki 60 klst. á mánuði, sbr. faglegt mat á stuðningsþörf umsækjanda samkvæmt 4. gr. í reglum þessum. Umsækjandi sem á rétt á aukinni þjónustu samkvæmt reglum Garðabæjar um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skal þurfa stuðning að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 248 klst. á mánuði, sbr. faglegt mat á stuðningsþörf umsækjanda samkvæmt 4. gr. í reglum þessum. Ekki er um að ræða næturþjónustu.
  5. Umsækjandi skal vera með viðvarandi og umfangsmikla stuðningsþörf sem metin er samkvæmt reglum Garðabæjar um stuðningsþjónustu, um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.

Umsókn kæranda um notendasamning var synjað með vísan til d. liðar 2. mgr. 8. gr. framangreindra reglna Garðabæjar, þ.e. að lágmarksstuðningsþörf væri ekki náð.

Fyrir liggur mat á stuðningsþörf kæranda, dags. 27. september 2023, sem unnið var af ráðgjafarþroskaþjálfa. Undir liðnum samfélagsþátttaka og virkni kemur meðal annars fram að kærandi sé á almennri braut í B, með stuðningi frá sérkennara sem hann hitti einu sinni í viku til að fara yfir námsefnið. Kærandi hitti liðveitanda tvisvar sinnum í mánuði að jafnaði, um helgar. Kærandi eigi ekki vini sem hann umgangist reglulega en eigi fáa félaga í skólanum sem hann spjalli við þegar hann sé þar. Tekið er fram að kærandi væri til í fleiri liðveitendur eða eyða meiri tíma með þeirri sem hann sé með. Að sögn kæranda þurfi hann hvatningu og jafnvel einhvern sem geti skipulagt frístundir með honum en þurfi ekki aðstoð við annað. Varðandi félagslega færni kæranda er tekið fram að hann þurfi að hafa einhvern sem sé styðjandi og hvetji hann áfram við að hafa samband við félaga. Undir liðnum athafnir dagslegs lífs kemur fram að kærandi sinni daglegri rútínu sjálfur, hann þurfi ekki aðstoð með það. Hann sjái sjálfur um að halda herbergi sínu snyrtilegu. Hvað stuðningsþörf varði telji kærandi sig helst þurfa að láta minna sig á hluti þar sem hann sé gleyminn. Í samantekt, niðurstöðum og tillögu að þjónustu er tekið fram að kærandi sé sjálfstæður ungur maður. Hann hafi skoðanir á því hvaða stuðning hann vilji þiggja. Kærandi sé að vinna í því að vera meira virkur, fá sér vinnu og fara í einhvers konar tómstundastarf. Ráðgjafi telji mikilvægt að kærandi fái þjónustu við hæfi. Hann þurfi ráðgjöf og einstaklingsstuðning í formi liðveislu til að aðstoða hann við að skipuleggja tómstundir og félagsstarf. Ráðgjafi leggi til að kærandi fái 16 tíma á mánuði í einstaklingsstuðning/liðveislu í stað fjóra til sex. Í málinu liggur einnig fyrir SIS mat, dags. 18. október 2023, þar sem kærandi var metinn í stuðningsflokk þrjú eða væga stuðningsþörf; að jafnaði engin eða lítil stuðningsþörf vegna heilsu og/eða hegðunar.

Líkt og að framan greinir gera sveitarfélög notendasamninga við notendur á grundvelli reglna sem þau setja, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2018. Sveitarfélögum er þannig falið að útfæra nánar framkvæmd vegna þess þjónustuforms. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Garðabær hefur ákveðið í sínum reglum að lágmarksstuðningsþörf einstaklings þurfi að ná 40 klukkustundum á mánuði til þess að unnt sé að gera notendasamning við sveitarfélagið. Því verður að líta svo á að sé þjónustuþörf einstaklings minni en sem því nemur standi ekki til boða að gera notendasamning. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá útfærslu en við það mat lítur nefndin til þess að einstaklingar hafa val um annað þjónustuform nái þjónustuþörf ekki því lágmarki sem sveitarfélagið hefur sett fyrir gerð notendasamnings. Einnig að lög nr. 38/2018 gera ráð fyrir því að þjónusta sé veitt á því formi sem umsækjandi óskar, sé þess kostur, sbr. ákvæði 2. mgr. 30. gr. laganna.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að stuðningsþörf kæranda nær ekki 40 klukkustundum á mánuði. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri þá ákvörðun Garðabæjar að synja umsókn kæranda um notendasamning.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Garðabæjar, dags. 25. september 2024, um að synja umsókn A, um notendasamning, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta