Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 465/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 465/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 22. september 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á árinu 2022. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. júní 2023, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2022 þar sem fram kom að hún hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 635.935 kr., auk upplýsinga um með hvaða hætti hinar ofgreiddu bætur yrðu innheimtar. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. júní 2023, var kærandi minnt á að skuldin væri komin í vanskil. Þá var kæranda send lokaviðvörun 27. júlí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2023. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að þau skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst 27. október 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. nóvember 2023, var óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna kærunnar. Umbeðin gögn og upplýsingar bárust 15. nóvember 2023 og voru kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. nóvember 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. nóvember 2023.

Með bréfi, dags. 12. desember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Tekið var fram að nefndin hefði ákveðið að taka málið til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur væri liðinn með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefði veitt villandi kæruleiðbeiningar í bréfi frá 27. júlí 2023. Greinargerð barst 28. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. janúar 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 12. janúar 2024 og voru kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er vísað til bréfs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. júní 2023, um endurgreiðslu 635.935 kr. vegna meintra ofgreiddra húsnæðisbóta, sem kærandi kveðst hafa móttekið 28. júní 2023, en sama dag hafi þau hjónin farið til stofnunarinnar eins og nánar er líst í kæru. Kærður sé sá hluti ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í tilvísuðu bréfi, dags. 24. júní 2023, er varðar innheimtu meintra ofgreiddra húsnæðisbóta fyrir hjúskaparstofnun, þ.e. 361.879 kr., vegna tímabilsins 1. janúar 2022 til 31. júlí 2022 (eða 24. júlí 2022 ef unnt sé að skipta upp mánuði), eins og nánar er rakið í kæru. Kærandi kveðst án árangurs hafa boðið fram hlutagreiðslu að fjárhæð 274.056 kr. fyrir tímabilið 1. ágúst 2022 til 31. desember 2022, eins og gögn málsins beri með sér.

Tekið er fram að eiginmaður kæranda hafi sökum fjárhagsvanda flutt lögheimili sitt á árinu 2019 frá íbúð sinni í Kópavogi í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Reykjavík þar sem foreldrar hans búi. Um leið hafi eiginmaður kæranda alfarið flutt búferlum um vorið eða sumarið 2019 í sumarbústað sinn að C, sbr. tilkynning Morgunblaðsins um fimmtugsafmæli hans hinn X 2019 þar sem fram komi að hann sé „nýfluttur að C.” Óheimilt sé að hafa lögheimili í frístundabyggð, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Þar hafi eiginmaðurinn hins vegar alfarið búið næstu þrjú ár þar til hann hafi kvænst kæranda, sem hafi oft dvalið þar hjá honum frá og með haustinu 2020.

Haustið 2020 hafi eiginmaður kæranda flutt lögheimili sitt til hennar, sem hann hafi þá kynnst, þar sem skilyrði hafi verið við pöntun Costco-korta þeirra vegna fyrirtækis eiginmannsins að þau hefðu sama lögheimili. Sú skráning hafi aðeins verið formsins vegna og einnig hafi verið óhentugt að hafa lögheimili í öldrunaríbúð foreldra eiginmanns kæranda samkvæmt framangreindu. Búseta hans hafi þó alfarið verið að C og kærandi hafi mun oftar og lengur dvalið hjá honum en hann hjá henni og þau hafi ekki verið skráð í sambúð samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur (lögheimilislaga). Hinn 24. júlí 2022 hafi þau gengið í hjúskap. Frá og með þeim tíma hafi þeim að jafnaði verið skylt að hafa sama lögheimili, að D, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. lögheimilislaga. Það hafi ýmis réttaráhrif.

Fyrir nefnt bréf, dags. 24. júní 2023, hafi ekki borist bréf frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en kærufrestur teljist frá veitingu rökstuðnings og leiðbeininga. Við móttöku bréfsins hinn 28. júní 2023 hafi kærandi og eiginmaður hennar samdægurs, án árangurs, leitað skýringa hjá stofnuninni í Borgartúni og þaðan símleiðis hjá stofnuninni á Sauðárkróki en ekki fengið skýringar fyrr en með tölvuskeytum sem fylgi með kæru.

Í tilvísuðu bréfi, dags. 24. júní 2023 sé ekki vísað til neinna röksemda fyrir endurgreiðslukröfunni en þau rök hafi fyrst fengist í svarskeytum starfsmanns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 7. og 13. júlí 2023, þ.e. að sameiginlegt lögheimili þeirra væri eina ástæða og, að því er virðist, nægilegur grundvöllur kröfunnar. Því sé kærandi ósammála. Þess skuli getið að lögheimili eiginmanns kæranda hafi um tveggja ára skeið verið dulið vegna hótana í tengslum við starf.

Þess sé aðallega krafist að úrskurðarnefndin felli úr gildi þann hluta ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurgreiðslu sem nemi 361.879 kr. vegna tímabilsins 1. janúar 2022 til 31. júlí 2022 (eða 24. júlí 2022 ef unnt sé að skipta upp mánuði og þá sem því nemi lægra).

Til vara sé þess krafist að innheimtukostnaður og dráttarvextir falli ekki til fyrr en við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þannig að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan hún sé til meðferðar á málskotsstigi, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum. Þess sé vænst að sú frestun taki aðallega til allrar fjárhæðarinnar, 635.935 kr., en til vara að minnsta kosti til fjárhæðarinnar 274.056 kr. fyrir tímabilið 1. ágúst 2022 til 31. desember 2022, sbr. meðfylgjandi tölvupóstsamskipti þar sem stofnunin hafi neitað að taka við þeirri hlutagreiðslu.

Til þrautavara sé þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að taka nýja ákvörðun á grundvelli neðangreindra sjónarmiða.

Kærandi telji lögheimilisskráningu eiginmanns hennar að D fyrri hluta árs 2022 vera proforma og ekki gilda í þessu samhengi, enda ekki í samræmi við atvik máls eins og að framan sé rakið.

Hvorki í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. júní 2023, né í svarskeytum stofnunarinnar frá 7. og 13. júlí 2023 sé vísað til lagaröksemda fyrir grundvelli endurgreiðslukröfunnar. Í hinu fyrra sé aðeins vísað til 26. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur varðandi leiðréttingu og endurheimtur vegna ofgreiðslu en ekkert um lagaröksemdir fyrir því að um ofgreiðslu sé að ræða. Í hinu síðarnefnda sé aðeins vísað til eftirfarandi ákvæða laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Í fyrsta lagi 3. tölul. 3. gr. laganna um skilgreiningu á heimilismönnum. Í öðru lagi 14. gr. laganna um upplýsingaskyldu umsækjenda, sem kærandi telur sig ekki hafa vanrækt. Kærandi hafi jú réttilega þóst vita að við hjúskap fengi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sjálfkrafa upplýsingar um samstöðu þeirra hjóna, auk þess sem þau hafi látið leigusala vita af áformum þeirra og þar með breytta réttarstöðu að þessu leyti og fleira frá og með 1. ágúst 2022, eins og raunin hafi orðið. Í þriðja lagi 27. gr. laganna með ærumeiðandi flöggun í hótunarskyni, að því er virðist, um 15% álag vegna sviksemi.

Hvergi virðist, að minnsta kosti miðað við framangreindar tilvísanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í formlegum bréfum eða svörum við ósk um skýringar, í lögum byggt á því að formleg lögheimilisskráning unnusta, sem hafi þó sannarlega búið að C, geti svipt unnustu húsnæðisbótum sem hún hafi þó sem margfaldur öryrki og móðir tveggja táningsdrengja með margháttaðar greiningar fulla þörf á. Slík íþyngjandi réttaráhrif yrðu að koma skýrt fram, sbr. meðal annars 27. gr. stjórnarskrárinnar (stjskr.) um birtingu laga og lagaáskilnað og eftir atvikum 76. gr. stjskr. um að tryggja skuli í lögum rétt „til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.”

Kærandi telji því hina kærðu ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hvorki hafa næga lagastoð né vera í samræmi við lög, hvorki hvað varði form né efni, sbr. lögmætisreglu ríkisréttar og meginreglur ríkisréttar um andmælarétt, málefnalegar forsendur og lögbundna starfsemi handhafa ríkisvalds, sbr. og meðalhófsreglu. Þá verði að telja að hugsanleg reglugerðarákvæði stoði ekki sem grundvöllur slíkrar endurgreiðslukröfu.

Þá sé til hliðsjónar um að réttaráhrif hjúskapar séu ekki afturvirk, sbr. nú afturvirknisbann 2. mgr. 77. gr. stjskr., vísað til fordæmis Hæstaréttar Íslands frá 5. nóvember 1945 í máli nr. 23/1944. Dómsforsendur Hæstaréttar styðji einnig við framangreindar röksemdir kæranda um skýran áskilnað um að skýr lög frá Alþingi þurfi til slíkrar íþyngjandi ákvörðunar.

Sjálfsagt sé að gera frekari grein fyrir málsástæðum og lagarökum, verði þess óskað, með þeim hætti sem farið verði fram á, en ella í andsvörum við málsvörn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þegar þar að komi.

Kæruheimild sé í 6. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, sbr. og svarskeyti starfsmanns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 1. ágúst 2023 er hafi verið leiðbeint þar um. Kærufrestur hefjist frá þeim degi, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, ellegar frá 7. eða 13. júlí 2023 er rökstuðningur hafi fengist, sbr. 3. mgr., og eftir atvikum 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Til öryggis hafi málskotið þó verið sent með tölvupósti 22. september 2023, innan þriggja mánaða frá bréflegri tilkynningu um endurgreiðslukröfuna þar sem þó hafi ekki verið leiðbeint um málskotsheimild eins og að framan hafi verið rakið.

Kærandi hafi sem unnusta verið réttlaus með tilliti til erfðaréttar, lífeyris, búshluta og fleira ef eiginmaðurinn hefði andast fyrir 24. júlí 2022 og hún eigi ekki að gjalda þess fjárhagslega fyrr en við hjúskaparstofnun að vera gift honum. Þau hafi ákveðið að hafa þeirra á hreinu strax frá og með þeim degi gagnvart Guði og mönnum en engin lagaheimild sé til íþyngjandi ákvarðana eða álaga fyrir þann dag.

Í svari kæranda vegna bréfs úrskurðarnefndar um kærufrest kemur fram að hún telji augljóst að málskotið teljist innan kærufrests. Í fyrsta lagi hafi skýrt verið tekið fram í kæru að kærufrestur hæfist frá 1. ágúst 2023 er leiðbeint hafi verið um kæruheimild, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. Í öðru lagi hafi í kæru verið til vara talið að kærufrestur hæfist 7. eða 13. júlí 2023 er umbeðinn rökstuðningur kröfunnar hafi loks fengist, sbr. 3. og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga þar sem segi: „Þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum.“ Í þriðja lagi hafi í kærunni verið sagt að til þrautavara væri kærufrestur innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar, dags. 24. júní 2023, sem hafi, eins og skýrt sé tekið fram í kæru, ekki borist fyrr en 28. júní 2023 en sama dag hafi þau farið til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og spurt út í kröfuna, án árangurs. Engin fyrri tilkynning hafi borist en sendingin hafi væntanlega í báðum tilvikum verið í almennum bréfpósti. Þá telji kærandi að taka eigi málið fyrir þar sem afsakanlegar ástæður séu fyrir drætti á málskoti ef úrskurðarnefndin telji engu að síður sannað að krafan og bréfið hafi borist kæranda fyrr í almennum bréfpósti en hún sé krónískt langveik og láti eiginmann sinn vita ef formlegur bréfpóstur berist.

Í athugasemdum kæranda vegna upplýsinga og gagna frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er vísað til fyrri svars vegna kærufrestsins. Kærandi telji að of mikill tími og orka hafi farið í þessi formsatriði en nokkrum klukkustundum hafi verið varið í þau þó að ítarlega hafi verið rökstutt í bréfi 27. október 2023 að kærufrestur hafi hafist löngu síðar en bréf hafi borist í lok júní, þ.e. fyrri hluta júlí er rökstuðningur hafi borist ef ekki í byrjun ágúst er leiðbeint hafi verið um kæruheimild. Þetta sé fyrir utan lungann úr einum degi sem hafi verið varið í efnisatriði í málskotinu sem enn eigi eftir að leysa úr. Til frekari rökstuðnings um tímanlegt málskot og andmæla gagnvart fylgiskjölum með bréfi nefndarinnar, dags. [20.] nóvember 2023, sé eftirfarandi tekið fram.

Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki fengið nein smáskilaboð frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í öðru lagi þrátt fyrir að kærandi hafi ekki brugðist við tilgreindum tölvuskeytum vegna veikinda láti hún eiginmann sinn vita ef bréfpóstur berist, þar með talið ábyrgðarpóstur. Fyrsta slíka bréfið hafi verið það sem sé dagsett 24. júní 2023 og hafi borist 28. júní 2023 en samdægurs hafi þau farið til stofnunarinnar. Í þriðja lagi komi fram í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. apríl 2023, sem hafi fylgt bréfi nefndarinnar, að eiginmaður kæranda hefði verið skráður „með lögheimili að D síðan 24.7.2022.“ Þessi bréflega staðhæfing stofnunarinnar ætti að teljast bindandi og ætti að vera nægileg til úrlausnar málsins í samræmi við kröfur þeirra hjóna, enda hafi af þeirra hálfu ekki verið vefengd endurgreiðsla eftir þann dag er þau hafi gengið í hjúskap. Í fjórða lagi skipti bréf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 27. júlí 2023 um lokaviðvörun ekki máli þar sem þá hafi þegar fengist rökstuðningur og fram hafi verið komin ósk um endurgreiðslu þess sem greitt hafi verið eftir hjúskapardag 24. júlí 2022. Í fimmta lagi hafi ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í bréfi, dags. 11. maí 2023, lotið að frekari bótum til framtíðar og samskipti í síma 19. maí hafi lotið að því en ekki endurgreiðslu bóta aftur í tímann, m.a.s. fyrir hjúskapardag 24. júlí 2022. Hugsanlega upptöku þess samtals hafi kærandi ekki. Í sjötta lagi taki kærandi fram að áminning frá 24. júní 2023 sé sögð send 26. júní 2023 sem sé í samræmi við að hún hafi borist 28. júní 2023 og þá strax hafi verið brugðist við með tilgreindri heimsókn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Engin smáskilaboð hafi borist. Þegar bréf séu einnig send í bréfpósti telji kærandi ekki standast að nota hugsanleg fyrri tölvuskeyti send í E gegn henni eða þeim í máli sem þessu, enda eigi borgararnir að geta treyst því að íþyngjandi frestir hefjist ekki fyrr en með formlegum póstsendum bréfum. Þetta skipti þó ekki máli þar sem ítarlega hafi verið rökstutt að kærufrestur hafi allt að einu ekki hafist fyrr en í júlí eða ágústbyrjun. Það sem sé haft eftir eignmanni kæranda í síma 28. júní 2023 með óbeinni og svo beinni tilvitnun hafi hugsanlega verið tekið upp af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Kærandi telji að beina tilvitnunin innan gæsalappa sé ekki skýring eða fyrirvari við óbeinu tilvitnunina heldur árétting á því að þau hjónin hafi fyrst flutt saman við hjúskap hinn 24. júlí 2022, enda tilheyri þau bæði hvítasunnusöfnuðinum og hafi sem sagt búið hvort í sínu lagi fram að því. Varðandi síðari athugasemdina hinn 28. júní 2023 hefur áður, í málskoti frá 22. september 2023, komið fram skýring á formlegri lögheimilisskráningu 15. október 2020. Rangt sé það sem svo komi fram að lögheimili hafi síðan verið fært í ótilgreint. Hið rétta sé að lögheimili sé óbreytt en hafi verið með heimild lögreglu falið af Þjóðskrá eftir umsókn þar um í kjölfar hótana frá fyrrum skjólstæðingi eiginmanns kæranda.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er vísað til þess sem fram komi í greinargerðinni að heimilismenn samkvæmt 3. tölul. 3. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur séu allir þeir sem séu búsettir í hinu leigða íbúðarhúsnæði. Þá taki stofnunin fram að með búsetu samkvæmt 2. tölul. 3. gr. sömu laga sé átt við að einstaklingur búi í hinu leigða íbúðarhúsnæði (skilyrði a) og eigi þar skráð lögheimili (skilyrði b) samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Eins og ítarlega sé gert grein fyrir í kæru hafi lögheimilisskráning eiginmanns kæranda að D verið til málamynda af tilgreindum ástæðum og ekki bindandi í þessu efni (skilyrði b), auk þess sem fyrrnefnda skilyrðið (skilyrði a) sé augljóslega ekki uppfyllt þar sem hann hafi ekki búið þar eins og rökstutt sé í kærunni. Því til frekari stuðnings vísi kærandi til svohljóðandi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Að öðru leyti vísi kærandi til kærunnar, lagaröksemda og fordæma sem þar séu tilgreind og árétti þær kröfur sem þar komi fram.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við beiðni úrskurðarnefndar velferðarmála um upplýsingar vegna kærumálsins kemur fram að lokauppgjör hafi verið sent rafrænt á mínar síður kæranda 8. júní 2023, auk þess hafi verið sendur tölvupóstur varðandi þetta á E og textaskilaboð (sms). Þann 9. júní 2023 hafi lokauppgjör verið sent með bréfpósti. Áminning vegna ofgreiddra húsnæðisbóta hafi verið send rafrænt á mínar síður kæranda 24. júní 2023, auk þess hafi verið sendur tölvupóstur varðandi þetta á E og textaskilaboð. Þann 26. júní 2023 hafi áminning verið send með bréfpósti. Lokaviðvörun hafi verið send rafrænt á mínar síður kæranda 27. júlí 2023, auk þess hafi verið sendur tölvupóstur varðandi þetta á E og textaskilaboð. Þann sama dag hafi lokaviðvörun verið send með bréfpósti.

Þær athugasemdir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi skráð á umsókn séu eftirfarandi:

24. apríl 2023: Umsækjandi skráð í sambúð með B síðan 24. júlí 2022 sem sé ekki heimilismaður á umsókninni, þau séu samsköttuð og eignir skerði að fullu (fasteign). Frestað vegna eigna og heimilismanns.

19. maí 2023: Sérfræðingur hafi heyrt í B. Hann hafi viljað senda bréf þar sem hann segist vera heimilismaður á umsókn. Hann segist hafa haldið að hann væri á umsókninni og að þau hefðu ekki verið búin að lesa frestunarbréfin.

28. júní 2023: Sérfræðingur á húsnæðisbótasviði (staðsett á Sauðárkróki) hafi rætt við B í síma en þá hafi hann og kærandi verið stödd í Borgartúni 21 (starfstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar) í Reykjavík. Þá hafi þau verið að pæla í lokauppgjöri. Sérfræðingur hafi útskýrt lokauppgjör. Á þessum tíma hafi þau aðallega verið að velta fyrir sér hvort að eignir hefðu áhrif á allt árið þar sem þau hefðu ekki gift sig fyrr en í júlí. Sérfræðingur hafi spurt hvort þau hefðu samt ekki búið saman á síðasta ári og hann hafi svarað játandi en svo bætt við „eða sko þegar við giftum okkur flutti ég inn“.

28. júní 2023: B hafi verið með lögheimili skráð í D árið 2020 en hafi svo fært það í ótilgreint.

10. júlí 2023: Sérfræðingur hafi rætt við B í síma þar sem hann hafi viljað fá að greiða inn á skuldina það sem hann teldi að þau skuldi vegna síðasta árs eða um það bil 270.000 kr. Sérfræðingur hafi tjáð B að hægt væri að skipta greiðslunni á 12 mánuði en honum hafi ekki hugnast það. Sérfræðingur hafi einnig minnt á kæruleið.

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 31. janúar 2017 vegna leigu á húsnæði að D. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 1. febrúar 2017.

Við lokauppgjör húsnæðisbóta hafi komið í ljós að kærandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 635.935 kr. vegna ársins 2022. Bréf vegna endurreiknings húsnæðisbóta hafi verið send kæranda alls fjórum sinnum árið 2022, dags. 25. janúar, 21. apríl, 27. júní 2022 og 26. október. Endurreikningsbréfin geymi uppfærða tekjuáætlun sem sé byggð á nýjustu fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum og taki mið af heildartekjum, þar með talið fjármagnstekjum, heildareignum, ásamt orlofs- og desemberuppbótum.

Kæranda hafi verið veitt færi á því í öllum framangreindum bréfum að koma að athugasemdum ef hún teldi þær upplýsingar sem notaðar væru við útreikning húsnæðisbóta ekki endurspegla tekjur og eignir ársins 2022. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni í kjölfar áætlana.

Þann 21. apríl 2023 hafi afgreiðslu umsóknar kæranda verið frestað þar sem fleiri heimilismenn hafi verið með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu en fram kæmi í umsókn um húsnæðisbætur. Sama dag hafi kæranda einnig verið sent frestunarbréf þar sem fram komi að tekjur og/eða eignir væru farnar að skerða bætur að fullu. Kæranda hafi verið synjað af þeirri ástæðu að eignir væru farnar að skerða bætur að fullu. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni í kjölfar þessara ákvarðana.

Í máli þessu sé deilt um lokauppgjör húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Samkvæmt niðurstöðu lokauppgjörs hafi kærandi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur árið 2022 vegna eignastöðu.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur megi endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð þeirra þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi skýrt fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. laga um húsnæðisbætur liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga.

Í 3. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi einnig skýrt fram að leiði endurreikningur til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbætur, sbr. 26. gr., en þar komi fram að ef umsækjandi hafi fengið hærri húsnæðisbætur en honum hafi borið á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Í endurreikningsbréfum sé athygli vakin á því að það sé á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Í endurreikningsbréfum sé einnig vakin athygli á því að ef í ljós komi að umsækjandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Í 18. gr. laga um húsnæðisbætur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sé fjallað um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í 1. mgr. komi fram að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 8.000.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% af þeirri fjárhæð. Í 2. mgr. komi svo fram að miða skuli við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir. Með eignum samkvæmt 3. mgr. 18. gr. í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að frádregnum skuldum.

Samanlagðar eignir allra heimilismanna byrji að skerða bótarétt við 8.000.000 kr. og skerði að fullu við 12.8000.000 kr. Það liggi fyrir að eignir í lok árs 2022 hafi verið vel umfram 12.800.000 kr. samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Kærður sé sá hluti ákvörðunar er snúi að tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. júlí 2022. Fyrir utan það að eignir í lok árs 2022 hafi verið umfram 12.800.000 kr. liggi það einnig fyrir í búsetutímavottorði frá Þjóðskrá að B hafi verið með lögheimili í leiguhúsnæðinu frá 15. október 2020 til þess dags er það hafi verið ritað eða þann 22. september 2023. Það sé því óumdeilt að hann hafi átt lögheimili í leiguhúsnæði á því tímabili er kærandi hafi þegið umræddar húsnæðisbætur og hafi ekki verið skráður sem heimilismaður á umsókn. Af þessu leiði að ekki hafi verið til staðar bótaréttur árið 2022 þar sem eignir hafi skert bætur að fullu. Samkvæmt 3. tölul. 3. gr. laga um húsnæðisbætur séu heimilismenn allir þeir sem búsettir séu í hinu leigða íbúðarhúsnæði. Með búsetu sé átt við þegar einstaklingur búi í hinu leigða íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest. 

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022 vegna eignastöðu heimilismanna.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr., nú 8.000.000 kr., sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir.

Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Kærandi þáði húsnæðisbætur á árinu 2022 miðað við tvo heimilismenn, en um er að ræða syni hennar undir 18 ára aldri. Kærandi gekk í hjónaband 24. júlí 2022 en engar breytingar voru gerðar á fjölda heimilismanna. Við lokauppgjör ársins 2022 voru tekjur og eignir eiginmanns kæranda teknar með í endurreikninginn sem leiddi til fullrar bótaskerðingar og ofgreiðslu að fjárhæð 635.935 kr.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að eiginmaðurinn hafi ekki verið búsettur í leiguhúsnæðinu fyrir hjúskaparstofnun þrátt fyrir að vera þar með skráð lögheimili. Lögheimilisskráningin hafi verið til málamynda af tilgreindum ástæðum. Því beri henni ekki að endurgreiða þær húsnæðisbætur sem hún fékk frá 1. janúar 2022 og fram að hjúskaparstofnun.

Samkvæmt 3. tölul. 3. gr. laga nr. 75/2016 eru heimilismenn allir þeir sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði og samkvæmt 2. tölul. 3. gr. er með búsetu átt við þegar einstaklingur býr í hinu leigða íbúðarhúsnæði og á þar skráð lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 75/2016 segir svo um hugtakið búsetu:

„Með búsetu er átt við að einstaklingur búi sannanlega í viðkomandi íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum nr. 21/1990, um lögheimili, með síðari breytingum. Þurfa þannig tvö skilyrði að vera uppfyllt til að um búsetu sé að ræða í skilningi frumvarpsins. Um síðarnefnda skilyrðið vísast til ákvæða laga um lögheimili en í fyrrnefnda skilyrðinu um að einstaklingur búi sannanlega í viðkomandi íbúðarhúsnæði felst að um sé að ræða heimili hans, þ.e. þann stað þar sem hann geymir eigur sínar, á sér svefnstað og hefst við þegar hann er ekki fjarverandi til skamms tíma vegna atvinnu, tómstunda, ferðalaga, veikinda eða annarra sambærilegra ástæðna. Miðað skal við að hver einstaklingur búi í einu og sama íbúðarhúsnæðinu á hverjum tíma í þessum skilningi enda er almennt litið svo á að hver einstaklingur haldi heimili á einum stað. Samkvæmt framangreindu verður einstaklingur ekki talinn búsettur í íbúðarhúsnæði í skilningi frumvarpsins á þeim grundvelli einum að hann eigi þar lögheimili, heldur verður hann jafnframt sannanlega að búa í íbúðarhúsnæðinu í framangreindum skilningi. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem á lögheimili á Íslandi en býr tímabundið erlendis verður samkvæmt framangreindu ekki talinn búsettur í skilningi frumvarpsins þar sem hann á lögheimili.“

Þá segir svo um hugtakið heimilismenn:

„Með heimilismönnum er átt við alla þá einstaklinga sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði í skilningi 2. tölul., sbr. einnig 10. gr. frumvarpsins, án tillits til innbyrðis tengsla þeirra á milli eða aldurs þeirra. Er því ekki gert að skilyrði að sérstök fjölskyldu- eða hjúskapartengsl séu á milli heimilismanna heldur miðað við að þeir séu sannanlega búsettir í umræddu íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili eða, eftir atvikum, hafi þar tímabundið aðsetur í skilningi 10. gr. frumvarpsins. Vísast í því sambandi til athugasemda við 2. tölul. þessarar greinar þar sem nánar er fjallað um inntak búsetu í skilningi frumvarpsins.“

Af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber að sjá til þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir í máli þannig að hægt sé að taka rétta ákvörðun. Fyrir liggur að eiginmaður kæranda hefur verið með lögheimili í leiguhúsnæðinu frá 15. október 2020. Úrskurðarnefndin fellst á að þær upplýsingar hafi gefið stofnuninni tilefni til að gera ráð fyrir að eiginmaðurinn væri í raun búsettur á heimili kæranda, sbr. 3. gr. laga nr. 75/2026, enda eiga einstaklingar að vera með skráð lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins verður þó ekki séð að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi lagt mat á hvort að eiginmaður kæranda hafi sannanlega verið búsettur í hinu leigða húsnæði, enda hefur stofnunin í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar aðeins vísað til lögheimilisskráningar til stuðnings ákvörðun sinni. Í ljósi skýringa kæranda telur úrskurðarnefndin að stofnuninni hafi borið að kalla eftir frekari gögnum og eða upplýsingum frá kæranda til sönnunar á því að eiginmaður hennar hafi ekki búið á skráðu lögheimili þeirra á því tímabili sem ágreiningur málsins lýtur að.

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum